Færsla á hásingu
Í seinni tíð hefur færst í vöxt að færa afturhásingar á þeim bílum
sem breytt hefur verið mikið, 10 til 20 cm aftar, til að bæta
þyngdardreifingu milli fram- og afturhjóla.
Reynslan hefur sýnt að auðveldara er að aka í snjó sé bíllinn þyngri að framan en aftan. Ástæðan er sú að framhjólin eiga að búa til sporið en afturhjólin aðeins að fylgja í kjölfarið en ekki rista dýpra. Ef afturhjólin rista dýpra en framhjólin getur mótstaða aukist og drifgeta þar af leiðandi minnkað verulega. Þetta fer þó dálítið eftir gerð snjóalaga.
Þessu mætti einna helst líkja við göngu tveggja manna í snjó; annar 100 kg að þyngd en hinn aðeins 50 kg. Gengi léttari maðurinn á undan og sá þyngri í spor hans myndu báðir þurfa að erfiða vegna þess að spor létta mannsins næðu ekki að halda hinum þyngri. Ef sá þungi gengi aftur á móti á undan þyrfti aðeins hann að erfiða því spor hans myndu halda létta manninum.
Færsla afturhásingar er einnig kostur með tilliti til hleðslu því
þótt jeppar séu vanalega þyngri að framan heldur en aftan getur það
breyst þegar farangri og eldsneyti er hlaðið á afturhluta bílsins.
Þetta jafnvægi getur verið afar viðkvæmt. Sem dæmi um það má nefna að
með því að færa matarkistu úr aftasta rými jeppans og setja hana upp
að baki framsætanna getur aksturshraðinn á jökli farið úr 5 km/klst í
50 km/klst. Þetta gerist þó aðeins ef aðstæður eru mjög erfiðar og
snjór gljúpur.
Færsla á afturhásingu hefur áhrif á hreyfingar bílsins þannig að
svokallað stamp minnkar, hreyfingar verða jafnari og jeppinn
láréttari þegar hann fjaðrar. Það er kallað stamp þegar jeppi steypir
á stömpum við akstur í snjó.
Færsla afturhásingar hefur einnig áhrif til batnaðar þegar ekið er
upp brekkur því þegar þyngd jeppans færist á afturhásingu við akstur
upp brekku hjálpar færslan við að halda gripi á framhjólunum.
Ef nefna ætti galla við færslu afturhásingar væri það einna helst
lítillega aukinn beygjuradíus. Þá finnst sumum sem útlit jeppanna
versni við færsluna en það er að sjálfsögðu smekksatriði og tengist
einnig hönnun brettakanta sem eiga að hylja það rými sem myndast
fyrir framan hjólin.
Rétt er að benda á að færsla afturhásingar er yfirleitt kostnaðarsöm
aðgerð en þeir sem vilja ná því besta út úr jeppanum fara út í þessa
aðgerð.
Flipaskurður
Flipaskurður er hárfínn skurður á mynstri dekkjanna. Aukinn áróður gegn notkun nagla hefur leitt til nýrra leiða í því markmiði að viðhalda veggripi. Flestar nýjar gerðir vetrardekkja fyrir fólksbíla hafa flipaskurði og eru hluti af hönnun framleiðenda. Á flestum öðrum dekkjum er skurðurinn gerður eftir á í sérstökum vélum. Er jafnvel hægt að flipaskera hluta dekksins og negla hluta þess. Flipaskurður hefur þau áhrif að fleiri brúnir grípa í snjóinn. Við það eykst veggrip verulega, sérstaklega í þjöppuðum snjó eins og algengt er á vegum. Sumum finnst flipaskurður reynast betur en naglar. Flipaskornum dekkjum hættir síður við að svella undir sig, en það er þegar dekk spólar og svell myndast undir. Flipaskorin dekk plana síður í vatni, en það er þegar dekk bíls missir veggrip og flýtur vegna hraða. Við flipaskurð verða dekk yfirleitt mýkri. Hætta er á meira sliti ef mikið er ekið á hrauni og grjóti. Framleiðendur dekkja taka venjulega enga ábyrgð á dekkjum sem hafa verið flipaskorin.
Rafmagnsnotkun
Rétt er að hafa í huga að rafalar í jeppunum eru ekki það öflugir að
þeir geti haft við öllum hugsanlegum aukaljósum í einu. Reynslan
hefur sýnt að öruggast er að vera ekki með fleiri en tvö ljósapör í
gangi í einu með tilliti til rafmagnsnotkunar.
Dæmi: Jeppi með tölvustýrða dísilvél í gangi og miðstöð stillta á
hraða 2, útvarp lágt stillt, kveikt á NMT síma, rúðuþurrkur stilltar
á minni hraða og einungis stöðuljós kveikt, notar 21,7 amper.
Þegar er kveikt á háuljósunum, sem eru tvisvar 60 W, bætast við 10
amper. Ef síðan er kveikt á kösturum, sem eru tvisvar 135 W bætast
22,5 amper. Þetta gera samtals 53,7 amper.Rafallinn er að hámarki 70
amper og ef ekið er með mismunandi snúning á vél og stundum látið
ganga lausagang afkastar hann einungis ca 80% af hámarki, sem eru 56
amper. Við þessar aðstæður ætti straumnotkunin að vera í lagi en ef
miðstöðin er sett á fullan hraða bætast við 8 amper og er þá
straumnotkunin orðin meiri en rafallinn býr til og því verður jeppinn
rafmagnslaus eftir nokkurn tíma.
Meira afl
Mikið vill meira! Það virðist sama hversu mikið afl bílar hafa, menn
geta alltaf hugsað sér meira. Breytingar og viðbætur á vélar í því
skyni snúast yfirleitt um að koma meira lofti inn í vélarnar þannig
að hægt sé að láta þær brenna meira eldsneyti. Það er því ekki
óalgengt að vélar eyði meira eftir breytingar sem þessar. Yfirleitt
má þó rekja umframeyðsluna til þess að ökumaðurinn finnur að hægt er
að aka hraðar og notar þá allt það afl sem bíllinn á til. Ef bílnum
er á hinn bóginn ekið á sama hraða við svipaðar aðstæður og fyrir
breytingu vélarinnar eyðir hann í mörgum tilfellum minna eldsneyti
eftir breytinguna. Stærri og öflugri vél getur við ákveðnar aðstæður
eytt minna eldsneyti vegna þess að hún vinnur léttar og nýtir aðeins
fá prósent af hámarksafli sínu.
Áður fyrr var vinsælt að breyta vélum fjallabíla mikið. Nú eru mikið
“tjúnnaðir" jeppar fáir á fjöllum vegna tíðra bilana í þeim sem
orsakast af miklu álagi á vél og drifbúnað. Það er heldur ekki á færi
annarra en færustu viðgerðamanna og dellukalla að halda slíkum
tryllitækjum gangandi, ekki síst á fjöllum þar sem aðstæður eru hvað
erfiðastar.
Gormar henta jeppum mjög vel að því leyti að með þeim er hægt að ná tiltölulega langri og mjúkri fjöðrun. Gallinn er hins vegar lítið burðarþol við mikla hleðslu. Prógressífir gormar eru að vissu leyti lausn á þeim hleðsluvanda því uppbygging þeirra er önnur en hefðbundinna gorma. Ástæðan er sú að vafningarnir í þeim eru venjulega hafðir þéttari í öðrum endanum og þá stífna þeir meira eftir því sem hleðslan eykst. Það er mikill kostur við gorma að þeir hafa ekkert innra viðnám. Prógressífir gormar eru almennt ekki staðalbúnaður í jeppum heldur seldir sem aukabúnaður. Við val á gormum í jeppa er mikilvægt að huga að því hvaða eiginleikum verið er að sækjast eftir. Þarfir ökumanna eru mismunandi og eiginleikar gormanna einnig.