Eins og við mátti búast þurfti ég að skella mér í smá viðgerðir á dögunum en það var alltaf á áætlun eftir að ég keypti bílinn. Málið var það að trúbínan í Patrolnum var orðin óþarflega blaut af smurolíu og því vert að líta á það mál. Fyrst lét ég mér detta í hug að það væru einhverjir stíflaðir ventlar og að túrbúnan væri að sjúga að sér smurolíu og þeyta henni svo einhversstaðar út. Eftir smá rifrildi kom það í ljós að það var vandamálið. Þegar ég byrjaði á að skoða þetta þá var ég alltaf á því að túrbínan þyrfti að fara í viðgerð, allavega fara og láta tjekka hana þannig að ég ákvað bara að rífa hana úr og senda í viðgerð. Þá væri maður bara búinn að því. En þegar ég var að taka hosur og annað frá túrbínunni sá ég hvernig rörið úr intercoolernum var laust á túrbínunni og eftir nánari skoðun kom það í ljós að intercoolerinn var ekki að gera sitt gagn, hann var í rauninni bara að blása út í loftið og trúbínan að sjúga inn á sig ryk. Þetta var auðvitað ekki gott mál en þegar túrbínan var komin úr sá ég að þetta var ekkert stórvægilegt. Það var enginn rykdrulla inn í henni eða neitt svoleiðis.
En að rífa túrbínu úr bíl getur verið helvítis vesen. Þegar maður lítur ofan í húdd á Patrol liggur beinast við að taka frá 4 bolta og nokkur rör og þá er hún kominn úr en nei. Á túrbínunni eru tveir boltar sem er ekki hægt að losa án þess að taka soggreinina og eldgreinina af. Þá var maður alveg kominn með tveggja tíma verkefni í viðbót. En þetta hafðist allt að lokum sem betur fer og túrbínan náðist úr á þremur tímum. Ég tók svo eftir því að eldgreinapakkningin var brotin og þar hafði pústað örlítið út, túrbínupakkningin var líka ónýt þannig að ég á von á örlítið betri vinnslu eftir allt þetta.
Næst á áætluninni er að fara og setja undir hann 3" púst og skipta um fóðringar í spyrnunum að aftan. Það er búið að kaupa allt til verksins þannig að maður kemst ekkert upp með það að bíða eitthvað með þetta.
Með von um að vera klár fyrir veturinn.
Otti S.
“He's not the Messiah! He's a very naughty boy” - Terry Jones, Life Of Brian