Chevrolet Blazer K5, 1969-1991

Hér ætla ég að fjalla um einn af mínum uppáhaldsjeppum, Blazer K5 eða stóra Blazer eins og hann er yfirleitt kallaður hér á klakanum.

Seinna kom önnur gerð af Blazer sem fékk auðkennið S10 og var yfirleitt kallaður litli Blazer. Um litla Blazer verður ekki fjallað hér. Flestar þær upplýsingar sem hér koma fram eiga líka við tvíburabróðir Blazer K5 sem er GMC Jimmy (á ekkert skilt við Jimny) en þeir komu meira að segja oft af sömu færiböndunum. Eini munur sem ég hef fengið upplýsingar um er grillið, nafnið og að það var hægt að fá Jimmy með Banks forþjöppu við 6,2 lítra díselvélina.

*********

Chevrolet Blazer K5 má rekja ættir sínar til enn stærri jeppa sem General Motors framleiðir. Það er hinn stóri og mikli Suburban. Tilveru Suburbans er hægt að rekja til ársins 1935 þegar Chevy Carryall kom á markaðinn. Ein tegund þessa truks var Carryall Suburban. Seinna var Carryall nafninu sleppt.

Um miðjan sjöunda áratuginn fóru amerískir bílaframleiðendur að átta sig á markaðsmöguleikum jeppabifreiða, eða þeirra sem nú kallast Sport Utility vehicles (SUV). Jeep hafði verið lengi á markaðnum, Internatioanl Harvester var að gera góða hluti með Scout og Travelall og Ford var kominn fram með fyrstu kynslóð af Bronco. GM bauð uppá öfluga pikkuppa og ýmsar tegundir af vinnubílum og herbílum að ógleymdum Suburbaninum. Þeir höfðu því alla burði til að taka þátt á þessum markaði. Árið 1969 stormuðu þeir svo inná markaðinn með Blazer K5.

*********

Fyrsta kynslóð, 1969-1972
Árið 1967 kom Chevrolet með nýja línu af trukkum og tveimur árum síðar kom Blazer á markað. Fyrsta kynslóð af Blazer notaðist við mikið af hlutum upphaflega gerðum fyrir hina ýmsu tegundir trukka. Blazer var allan sinn líftíma með plasthús sem auðvellt er að taka af. Á fyrstu kynslóð náði það fram að framrúðu þannig að þegar það var fjarlægt þá var bíllinn í raun opinn. Vélin í grunngerðinni var 250 kúbiktommu (4,1 líter) sex strokka bensínvél en í boði voru 292 (4,8 lítra) 307 (5,0 lítra) og 350 (5,7 lítra) kúbika vélar.

*********

Önnur kynslóð 1973 - 1991:
Árið 1973 kom ný og stærri útgáfa af bílnum. Sú útgáfa varð strax gríðarlega vinsæl og komu margir af þeirri kynslóð hingað. Eins og fyrr byggði hönnun bílsins á trukkalínu fyrirtækisins sem sló í gegn á öllum vígstöðvum. Þrátt fyrir að þetta útlit héldi sé í megindráttum í fjölda ára þá voru samt gerðar nokkrar breytingar. Sú stærsta var þegar húsi bílsins var breytt. Þeir sem voru í framsætum fengu þá alvöru þak og plasthúsið tók ekki við fyrir en fyrir aftan framsætið. Margir voru ósáttir við þessa breytingu þar sem að þá var ekki hægt að hafa bílinn alveg opinn en GM hélt sig samt við þessa ákvörðun. Það má vera að öryggismál hafi spilað þar einhverja rullu en það þarf nokkuð mikið að járni til að varna því að þungur jeppi leggist saman ef hann veltur.

Vélar í boði voru þær sömu og áður en 1975 bættist 400 kúbiktommu (6,6 lítra) vél í flóruna en 307 hafði dottið út árið áður. Árið 1976 bættist sú vél við sem General Motors ætlaði stóra hluti. Það var 305 kúbika (5,0 lítra) vél sem GM var að vona að þeir gætu fengið til að skila svipuðu afli og 350 kúbiktommu vélin en eyða minnu. Niðurstaðan varð önnur og skilaði hún töluvert minna afli og eyðslan fór frekar í hina áttina. Ekki það að 305 sé slæm vél, 350 er einfaldlega betri, og eyðsla getur aukist ef of lítil vél er látin sjá um verk sem er of erfitt fyrir hana. Allar átta strokka vélarnar eru af small block chevy gerð en hún er mest framleidda vél í heimi.

400 kúbiktommu vélin (sem ekki má rugla við aðrar 400 kíbitommu vélar frá GM) fékk slæmt orð á sig vegna hitavandamála (var meira að segja til bíll hér á landi sem var kallaður hraðsuðuketillinn). Vandinn fólst í því að vegna þess hve strokkarnir voru stórir þá var lítið pláss fyrir vatnsganga. Til að bjarga því vandamáli voru gerð ákveðin göng sem áttu að hleypa gufu á milli blokkar og hedds. Ef menn voru með heddin sem voru af vélinni þá var allt í lagi. Margir settu hinsvegar hedd af öðrum small block vélum (m.a. til að hækka þjöppu eða fá hedd með stærri ventlum) en pössuðu sig ekki á að þá varð að bora þessi göt á þau hedd (heddin af 400 vélini eru þau einu sem eru með þessi göt). Svo skildu menn ekkert í því að það sauð á vélinni. Vélin hefur hinsvegar þótt góð í hitunum í Kaliforníu og Texas, og var hugsuð fyrir bíla sem þurftu að draga miklar þyngdir, svo ég get ekki séð af hverju hún ætti ekki að virka eins vel á kalda Íslandi. 1981 var síðasta árið sem þessi vél var boðin í Blazer.

Árið 1982 urðu nokkrar breytingar á krami en þær helstu voru:

* 6,2 lítra (379 cid) díselvél sem hefur reynst vera mjög áreiðanleg og eyðslugrönn.
* Í staðinn fyrir 12 bolta hásinguna sem hafði verið að aftan kom 10 bolta hásing (hægt að sjá hvor er með að telja boltana á lokinu) sem er töluvert veikari en dugir samt ágætlega ef bíllinn er ekki mikið breyttur.
* Ný fjögurra þrepa sjálfskipting sem kallast TH700R4 (síðar 4L60). Í fyrstu þótti hún ekki nógu sterk fyrir það hlutverk sem henni var ætlað en fljótlega ávann hún sér hylli flestra (GM hefur einnig styrkt hana töluvert). Seinni varð hún rafstýrð og fékk nafnið 4L60E og er hún notuð ennþá í dag í trukkum sem sportbílum. Aðal kostir hennar er mjög lágur fyrsti gír og 0,7 yfirgír.

Um miðjan níunda áratuginn fóru þessir bílar að koma með TBI (throttle body injection) innspítingu.

Önnur kynslóð var framleidd lítið breytt í grunninn (þó ýmsu smálegu hafi verið bætt við) frá 1973 til 1991 sem þykir langur tími í þessum bransa. Eftir 1991 komu fram bílar sem mættu kallast arftakar Blazer K5 en báru ekki nafn hans. Litli bróðir var einn um það.

*********

Jeppamenn vestanhafs höfðu í fyrstu ekki mikla trú á að þessi stóri bíll ætti nokkurt erindi út fyrir veg. Willys hafði mjög sterka stöðu meðal þeirra og Blazer virkaði of stór til að hægt væri að nota hann á þeim slóðum sem menn voru að fara. Annað kom á daginn því fljótlega fór bíllinn að geta sér gott orð sem ferðabíll.

Það sem hann hafði framyfir gamla og góða Willys var að þú gast tekið allann þann ferðaútbúnað sem þig langaði til og hafðir samt gott pláss fyrir farþega. Aðrir kostir eru t.d.hve sterkir þeir eru, auðvelt að gera við þá, auðvellt að fá varahluti og aukahluti þar sem að þeir voru framleiddir lengi og flestir hlutir voru einnig notaðir í aðra bíla.

Það er einn þekktur galli á Blazer K5. Þegar menn eru komnir með stór dekk og eru ekki með stýristjakk þá getur grindin brotnað við stýrismaskínuna. Menn þurfa samt ekki að örvænta því það er hægt að laga þetta, mæli samt með fyrirbyggjandi aðgerðum (svo sem stýristjakk). Annars er stærsti galli þess að eiga svona bíl að finna stæði handa honum ;). Einnig getur verið gaman að keyra um í Þingholtunum þegar lagt er báðum megin við þrönga götuna. Besta ráðið er þá að loka augunum og gefa í ;)

*********

Ég hef átt 1981 módel af Blazer K5 Silverado í nokkuð mörg ár. Þessi bíll hefur reynst framar vonum. Það var alltaf sagt við mig að með svona bíl þá væri maður einn dag á fjöllum og tvo daga inní skúr. Mín reynsla er allt önnur, í fyrsta lagi þá kemst hann inn í mjög fáa skúra ;) og í öðru lagi þá hefur hann bilað mjög lítið.

Þar sem að maður vill njóta smá lúxus þá keypti ég Silverado útgáfuna. Silverado er dýrasta útgáfan en hún er með rafmagni í rúðum, sentrarlæsingar, tímarofa á rúðuþurku og ýmsu öðru góðgæti. Það kom mér á óvart að það væri hægt að fá svona gamlan bíl (pabbi átti 1992 módel af Bens 250 sem var með öllu handvirku) með öllu þessu þangað til að ég fór að lesa mér til en þá komst ég að því að þessi búnaður var kominn í notkun miklu fyrr.

Minn bíll er með 350 kúbiktommu V8 vél (5,7 lítra), TH350 sjálfskiptingu (þriggja þrepa án yfirgírs), NP208 millikassi, Dana 44 að framan og GM12 bolti að aftan (báðar með driflæsingu). Hlutföllin eru 4,88 og dekkin 38” Dick Cepec en ég breytti bílnum fyrir 44” dekk. Þetta (og það að vinstuðullinn er svipaður og á hlöðuhurð ;) hjálpast að við að gleðja olíufélögin og fjármálaráðherra, en bíllinn er að eyða svona 20-25 lítrum á hundraði á góðum degi. Hinsvegar þarf maður ekki að hafa áhyggjur af afskriftum eða vaxtagreiðslum svo kostnaður af þessari útgerð er aðeins brot af því sem jeppamenn á nýlegum bílum eru að bera.

*********

Ég vona að einhver hafi haft gagn eða gaman af þessari lesningu og ekki væri verra ef einhverjir vilja bæta einhverju við sem ég hef gleymt.

JHG

Heimildir:
CHEVY/GMC PICK-UPS AND SUBURBANS 1970-87; CHILTON BOOK COMPANY
Aðrar heimildir eru úr ýmsum áttum (svo langt síðan að ég byrjaði á greininni að ég man ekki nema hluta), sumt af erlendum vefsíðum og annað sem ég hef lært í gegnum tíðina.