Í framhaldi af umræðu um jeppabreytingar ákvað ég að senda inn grein sem ég byrjaði á fyrir löngu síðan.
Hverju á að byrja á að breyta?
Við sem höfum ekki ótakmörkuð fjárráð þurfum oft að forgangsraða. Það á líka við það sem að setjum í jeppann. Auðvitað væri lang skemmtilegast að geta klárað allt í einu en því miður gengur það ekki alltaf upp. Sumir hafa líka farið flatt á því að byrja á að breita öllu og gefast svo upp áður en þeir ná að klára. Því ráðlegg ég mönnum að taka lítið fyrir í einu.
*****
Ef við ímyndum okkur að við værum með óbreyttann jeppa og værum ekki alveg nógu ánægðir með hann (en vildum samt halda í hann) hvað myndum við velja fyrst?
Dekk – Ætli þau væru ekki ofarlega á listanum, bæði vegna aukinnar drifgetu og kostnaðar. Dekkin auka flotið verulega og ekki skemmir fyrir að jeppinn verður miklu vígalegri. Ekki er nóg að setja stærri dekk undir, það þarf að breyta bílnum með boddýhækkun, skera úr brettum, hækka á fjöðrun (ýmsar blöndur eða allt saman) og svo verður að hugsa um drifsköft, fá annað hrútshorn á stýrismaskínuna, lengja bremsuslöngur að ógleymdum köntum (að ég tali nú ekki um sterkari drifbúnað) og margt fleira. Vandinn er að þegar þú ert kominn með stór dekk og ert ennþá á orginal hlutföllum þá virkar bíllinn aflvana (ef það er ekki þeim mun stærri rokkur í honum) og hreint og beint hundleiðinlegur. Sem leiðir til:
Hlutföll – Til að koma til móts við dekkjastærðina er gott að nota lægri hlutföll. Ég mæli með að menn reikni út hvaða snúning bíllinn verður á þegar ekið er á hundrað kílómetra hraða því ekki er skemmtilegt að vera með bíl sem er of lágt gíraður. Lægri hlutföll eru líka yfirleitt aðeins veikari. Ekki er vitlaust að fá að prófa samskonar bíla sem eru með þeim hlutföllum sem þú hafði hugsað þér. En fyrst menn eru farnir að opna hásingarnar þá er ekkert vit í öðru en að snúa sér strax að:
Læsingar – Læsingar geta verið það sem skilur á milli þess að drífa eða sitja fastur. Það munar töluvert miklu hvort þú sért með drif á tveimur hjólum (og spólir í kross) eða að hann taki á með öllum fjórum. Það eru ýmsar tegundir læsinga til. Ef þú vilt fá 100% læsingu þá er upplagt að vera með Detroit locker (og sumir sjóða mismunadrifið að ég tali nú ekki um gömlu góðu kaðalslæsinguna ;) en bíllinn vill oft vera hundleiðinlegur á malbiki (en þessir bílar eiga hvort sem ekkert erindi þangað ;). Margir eru með tregðulæsingar sem eru þægilegar eins og um mismunadrif sé að ræða en læsa ekki 100%. Það eru margar tegundir til að tregðulæsingum, að framan er ég með læsingu sem krefst þess að bíllinn spóli aðeins áður en hún tekur meðan afturlæsingin (Torsen) virðist taka á allann tímann (án þess að vera leiðinleg á malbiki). Svo eru valkvæðar læsingar með barka en ég hef ekki nóg vit á þeim til að fjalla um þær. Þær dýrustu eru yfirleitt valkvæðar með lofti eða rafmagni. Þú ýtir bara á takka og þá er hann 100% læstur, síðan ýtir þú aftur á takkann og hann er ólæstur. Kosturinn er auðvitað þægindin en gallinn er sá að þær geta bilað og þá situr þú fastur með ólæstan bíl (been there, done that).
Lagfæring hraðamælis – Nú eru hraða- og kílómetramælir farnir að sína einhverja bölvaða vitleysu. Það ekki flókið að reikna út skekkjuna en ennþá betra er að láta stilla þetta af.
Afl – Nú má vera að við séum ekki alveg ánægðir með aflið. Á nýjum bílum kaupa menn oft tölvukubba til að auka aflið en á gömlu bílunum getur þú endurkvarðað kveikjuna, átt við blöndunginn eða skipt um knastás. Ef menn vilja gerast rótækir þá má alltaf skella forþjöppu við vélina eða fá sér stærri rellu.
Stýristjakkur – Nú er jeppinn kominn á stór dekk, rétt hlutföll og með læsingu. Er þá ekki allt eins og það á að vera? Ekki alveg, nú er jeppinn orðinn klettþungur í stýrinu. Þá er ekkert annað að gera en láta setja tjakk í bílinn. Það er sem betur fer ekki dýrt og bílinn verður allur annar.
Spil – Ef maður lendir í að festa sig (og er það vitlaus að vera einbíla) þá er ómetanlegt að hafa spil. Best er að hafa spilið þannig að þú getir sett það hvort sem er að framan eða aftan (því oftast ertu að draga sjálfann þig til baka úr festunni). Kostur við að hafa spilið laust er m.a. annars að þú getur geymt það inní bíl í ferðum og stungið því inní geymslu að ferð lokinni (gæti forðað frá þjófnaði).
Aukaljós - Þó aðalljós jeppabifreiða séu oft ágæt þá duga þau ekki alltaf til. Því getur verið gott að kaupa sér aukaljós sem lýsa fram- og jafnvel afturfyrir bílinn.
Nú er jeppinn orðinn nokkuð gott fjallatæki. Er þá ekki allt komið? Alls ekki. Það er lítið vit í að fara til fjalla án þess að geta haft samskipti á milli bíla og til byggða. Því er það næsta á dagskrá:
CB talstöð – Þær eru ódýrar og ómissandi í hverja jeppaferð. Það má vera að VHF stöðvar taki yfir með tíð og tíma en eins og er eru flestir jeppamenn með CB svo að metingurinn og upplýsingaflæði fer þar í gegn.
NMT sími – Nauðsynlegt tæki til að ná heim. NMT kerfið virkar á flestum stöðum ólíkt GSM kerfinu. NMT er á góðri leið að yfirtaka hlutverk Gufustöðvanna eftir að hlustun á þær var hætt. Landsíminn hefur gefið það út að hann muni halda NMT kerfinu úti í allavegana nokkur ár enn.
Nú getum við haft samband á allar áttir. Þá er eins gott að vita hvert við erum að fara.
Áttaviti – Í raun þarf maður ekkert annað en áttavita og kort. Þú þarft að vita stefnuna sem þú ferð í og ef þú sérð tvö kennileiti sem þú þekkir á korti þá getur þú staðsett þig með nokkuð mikilli nákvæmni. Þetta er samt svolítið maus og því er miklu þægilegra að vera með:
GPS staðsetningartæki – Þegar þú ert búinn að læra á það þá eru þér allar leiðir færar. Þú getur staðsett þig með mikilli nákvæmni og fært inn punkta til að ákvarða leiðir. Ef það væri nú hægt að tengja þennan búnað við nákvæm kort af þeirri leið sem þú ætlar….
Ferðatölva – Hægt er að tengja ferðatölvu við GPS og kort. Mikið betri getur staðsetningarbúnaðurinn varla verið.
*****
Eins og menn sjá af þessari upptalningu þá leiðir ein breyting oft aðra af sér. Þú sættir þig við einhverja ókosti einhvern tíma en stefnir alltaf að því að lagfæra þegar fjármagn er til. Því er oft gott að kaupa bíla sem búið er að leggja í þessar breytingar því að breytingarnar skila sér aldrei í verði notaðs bíls. Menn verða samt að hafa varann á sér að vera ekki að kaupa vandamál annars (illa breyttann bíl með hluti úr sinn hvorri áttinni). En mikilvægast atriðið er eftir en það fæst ekki í búð. Það er:
FERÐAFÉLAGAR – Fyrir utan að það er miklu skemmtilegra að ferðast í hóp þá er það mikið öryggisatriði. Ef þú lendir í vanda þá er gott að hafa einhvern sem getur dregið þig upp eða kallað eftir hjálp.
Nú er ég búinn að telja upp þau atriði sem mér finnst í fljótu bragði mestu skipta (fyrir utan kaðal og skóflu). Eflaust hef ég gleymt einhverju eða ekki gert einhverju nógu góð skil og einnig eru atriði á þessum lista sem eru nú ekki lífsnauðsynleg. Nú er bara að láta í sér heyra því þessi grein er ekki til að segja einhvern sannleika heldur til að skapa umræðu. Hvernig mynduð þið raða mikilvægi búnaðar?
JHG