Blúskvöld verður haldið í Gamla bókasafninu í Hafnarfirði fimmtudaginn 13. mars næstkomandi. Blúsböndin Johnny and the Rest, Grasrætur og Spooky Jetson spila lifandi blústónlist af bestu gerð fyrir áhorfendur. Húsið opnar klukkan 19:30 en tónleikarnir byrja um 20:00. Frítt inn.
Johnny and the Rest hafa verið að gera góða hluti í að kynna blústónlist fyrir unglingum Íslands og hafa þeir fengið góðar viðtökur hvar sem þeir hafa stigið á stokk. Grasrætur hafa alist upp hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem þeir hafa fengið frið til að þróa sitt hágæða blúsrokk sem svíkur engan. Spooky Jetson snúa aftur til Gamla bókasafnsins og hita upp mannskapinn með sitt fönkskotna blúsrokk.
Blúskvöld þetta er partur af tónleikaröð Gamla bókasafnsins þar sem reynt er að bjóða upp á fjölbreytna flóru af tónlist fyrir alla sem vilja. Ætlunin er að unglingar með áhuga á tónleikum geti gengið að því sem vísu að fimmtudagar eru tónleikadagar í Gamla bókasafninu og geta þeir verið vissir um að upplifa frábæra lifandi tónlist. Aðgangur er því ávallt ókeypis á þessi kvöld til að koma til móts við unglinga sem geta oft ekki borgað sig inn á slíka viðburði.