Allt sem Miles Davis gaf út fyrir sýrutrippið er hágæða jazz að mínu mati. Ég mæli með plötum eins og Walkin', Steamin', Cookin', Relaxin', Workin', Bags Groove, Round About Midnight og Seven Steps to Heaven. Ekki má gleyma einni frægustu plötu allra tíma, Kind of Blue með Davis sem er skyldueign fyrir alla, hvort sem þeir hlusta á Jazz eða ekki. Lagið So What á þeirri plötu er oft notað til að kynna Jazz fyrir fólki, enda er lagið stórkostlegt.
Svo er það John Coltrane, sem var saxófón leikari hjá Miles Davis og er reyndar á flestum plötunum sem ég nefndi hér að ofan. Ég mæli með plötum eins og Giant Steps, Bags And Trane, Blue Train og A Love Supreme fyrir lengra komna. Aðrir góðir saxófónleikarar: Cannonball Adderley, Sonny Rollins, Stan Getz.
Næst eru það píanistarnir. Bestu píanistarnir að mínu mati eru þeir sem einhvern tíman hafa spilað með Miles Davis. Þeir eru Herbie Hancock, Keith Jarrett, Red Garland, Bill Evans, Thelonious Monk og Chick Corea. Oscar Peterson er líka góður, hann spilaði þó aldrei með Miles en hann spilar ótrúlega hratt á píanó.
Þeir eru allir góðir þótt að Keith Jarrett sé í uppáhaldi hjá mér. Reyndar er hann uppáhalds tónlistarmaðurinn minn. Ég veit ekki hvar ætti að byrja með Keith, hann er svo fjölbreyttur, það er eitthvað sem þú ættir fikra þig áfram með sjálfur.
Herbie Hancock var lengi vel uppáhalds píanistinn minn þar til ég heyrði í Keith Jarrett. Mæli með fönk meistarverkunum Head Hunters, Man-Child, Thrust og svo jazz plötum eins og Maiden Voyage, Hancock Trio 1977, Takin' Off og fleiri.
Ég ætlaði nú ekki að hafa þetta svona langt, en meginmálið er: Byrja á Miles Davis og byrja svo að hlusta á samstarfsmenn hans. Allavega held ég að það sé ágæt leið. Athugaðu að stundum þarf að hlusta oft á lög til að skilja þau, ekki hlusta einu sinni á lag og segja síðan að það sé ömurlegt. Þetta held ég að gildi um alla tónlist.