Þetta áhugamál virðist ekki mjög virkt, alla vega miðað við það hversu margir ætla að vera aktívir. En hvað um það, hér fyrir neðan er saga Thelonious Monk, einn af mínum uppáhalds píanistum.
Þrátt fyrir að hafa lengi verið lítið þekktur og oft gagnrýndur, þá hafa lögin hans og píanóleikur haft mikil áhrif á djass um allan heim. Hann flutti til New York fjögurra ára gamall, og bjó þar næstum alla sína ævi. Í kringum 1940 spilaði Monk með ýmsum hljómsveitum og var nokkuð vinsæll í Harlem. Þar hjálpaði hann píanistanum fræga Bud Powell af stað.
Árið 1944 spilaði Monk fyrst á plötu, með Coleman Hawkins og kvartettinum hans. Á þessum tíma spilaði hann aðallega með hljómsveit Dizzy Gillespie. Þrem árum síðar gaf hann fyrst út sína eigin plötu fyrir Blue Note, og fleiri komu á eftir, og í kringum 1950 lék hann á plötum með Charlie Parker. Á árunum 1952-1955 spilaði hann m.a. með Miles Davis og Sonny Rollins, og gaf út plötu í Frakklandi fyrir Swing Records. Árið 1957 gaf hann út plötu með Art Blakey, og svo þrjár í viðbót sem heita Brilliant Corners, Thelonious Himself og Thelonious with John Coltrane. Þessar plötur urðu mjög vinsælar og Monk varð einn vinsælasti djass píanistinn um tíma.
Tímabilið 1957-1959 var mikið blómaskeið hjá Monk. Hann spilaði reglulega með John Coltrane í New York, lék um öll Bandaríkin og stundum í Evrópu. Vinsældir Monk urðu svo miklar að árið 1962 fékk hann samning hjá Columbia. Árið 1964 var skrifuð stór grein, svokölluð ‘cover story’ um hann í Time, og hefur svoleiðis grein aðeins verið skrifuð um þrjá djassara held ég. Á árunum 1971-1972 spilaði hann með Dizzy Gillespie, Kai Winding, Art Blakey og fleirum, og gaf út plötu í Lundúnum fyrir Black Lion Records. Skömmu seinna hvarf hann úr sjónarsviðinu.
Hann spilaði síðast í Carnegie Hall og á Newport djasshátíðinni í New York árin 1975 og 1976, og lifði sín síðustu ár í New Jersey.
Það er frekar erfitt að lýsa hvernig hann spilar, þannig að ég hvet ykkur að hlusta bara. Flottasta lagið sem hann hefur samið, finnst mér, er Well You Needn't. Miles Davis spilaði það líka rosalega flott. Svo samdi Monk líka frábær lög eins og Ruby My Dear og 'Round Midnight.
Þar hafið þið það.