Arkímedes heilsar.
Á sjöunda áratug síðustu aldar þurfti djassinn að víkja fyrir annarri tónlist, dansvænni og vinsælli, og seldist þar af leiðandi ekki eins vel og áður. Það átti hins vegar ekki við um plötuna Jazz Samba, með þeim Stan Getz á saxófón, Charlie Byrd á gítar og fleirum. Hún naut gríðarlegra vinsælda um gjörvöll Bandaríkin og víðar! Ástæðan var sú að þeir gerðu það sem fáum hafði áður dottið í hug: Þeir blönduðu brasilísku tónlistarstefnunni bossa nova saman við bandarískan djass. Útkoman var platan Jazz Samba og fylgdu margar álíkar í kjölfarið. Má þar helst nefna Getz/Gilberto, en gítarleikarinn João Gilberto var einn upphafsmanna bossa nova stefnunnar í Ríó. Landi hans og einnig gítarleikari, Laurindo Almeida, var reyndar fyrri til að uppgötva kokteilinn með djassi og bossa nova, sem hann síðan tók upp á plötuna Brazilliance, en hún fékk af einhverjum ástæðum litla athygli.
Fáir meistarar djassins komust undan þegar bossa nova risabylgjan skall á strendur (þessi myndlíking er vissulega mjög andstyggileg í ljósi þess að hörmungarnar við Indlandshaf árið 2004 eru enn í fersku minni, og biðst ég afsökunar á þessu). Til að mynda gaf saxófónistinn Coleman Hawkins út plötuna Desafinado: Bossa Nova & Jazz Samba, og Miles Davis spilaði nokkur lög með hljómsveit Gil Evans sem voru gefin út á plötu undir nafninu Quiet Nights. Þykir hún nokkuð misheppnuð og ætti engum sem hlusta á hana að koma óvart að Miles var sjálfur andvígur útgáfu hennar.
En hér er ég, Arkímedes, kominn út á hálan ís, því það var aldrei ætlun mín að útlista sögu bossa nova tónlistar og hvað þá tala um Miles Davis! Ég hóf skrif með það í huga að skrifa stuttan inngang að öðru en svolítið skyldu efni, en hugurinn leiddi mig annað. Ég kem mér nú beint að efninu: Tico Tico!
Tico Tico er lag sem margir djassunnendur ættu að kannast við. Kannski hljómar nafnið ekki kunnuglega, en það hlýtur laglínan að gera. Lagið var samið árið 1917 af tónskáldinu fræga, Zequinha de Abreu (ég læt lesendur um að giska á hverrar þjóðar hann var!), og er það í stíl sem kallast alla jafna choro. Í upphafi hét það Tico Tico no Farelo sem einhverjum áratugum síðar breyttist í Tico Tico no Fubá. Á íslensku útleggst það líklega sem Tico Tico fuglinn í maísmjölinu, en hér verður engum tíma eytt í að finna betri og fallegri þýðingu. Kaninn komst í kynni við lagið í flutningi söng- og leikkonunnar Carmen Miröndu, sem var óformlega krýnd Brasilíska bomban; dæmi hver fyrir sig!
Fyrstu línur textans sem Miranda söng eru
O Tico Tico tá,
Tá outra vez aqui,
O Tico Tico tá comendo meu fubá.
O Tico Tico tem, tem que se alimentar,
Que vá comer umas minhocas no pomar.
Tico Tico varð hins vegar ekki heimsfrægt fyrr en árið 1942, þegar teiknimyndin Saludos Amigos eða Sælir félagar kom úr smiðju Walt Disney. Myndin varð geysilega vinsæl og vakti mikla athygli, sér í lagi í Suður-Ameríku, því fólkið þar horfði á Guffa lifa með indjánum og Andrés Önd kynnast samba! En teiknimyndin var jafn skemmtileg og hún var hápólitísk. Bandaríska utanríkisráðuneytið fjármagnaði gerð hennar og var hugmyndin sú að bæta ímynd Bandaríkjanna í löndum Suður-Ameríku og samskipti við þau, því mörg voru undir stjórn manna sem litu Adolf Hitler og aðra nasista hýru auga. Svo segir fólk að bandarískir pólitíkusar hugsi ekki um annað en stríð!
Á meðan Dizzy Gillespie og Machito gerðu það gott í afró-kúbanskri sveiflu, hvor með sinni stórsveitinni, var Xavier Cugat, kollegi þeirra af eldri kynslóðinni, enn í fullu fjöri. Hann fæddist í Katalóníu á Spáni og ólst upp á Kúbu og í Bandaríkjunum, og er talinn hafa verið mesti frumkvöðull í suðrænni stórsveitarsveiflu. Tico Tico fór að sjálfsögðu ekki framhjá Xavier Cugat, eins og heyrist á þessari upptöku.
Charlie Parker, konungur saxófónsins, einn höfunda bebopsins og snillingur á flesta máta, gegndi litlu en mjög athyglisverðu hlutverki í suðrænu sveiflunni. Með áhrifum sunnan landamæranna þar sem umferðin er aðeins í eina átt, norður, og ólögleg, var uppskeran góð eins og heyra má á plötunni South of the Border. Parker hélt sig þó að mestu við hreint bebop og lést því miður nokkrum árum eftir að hafa gefið út fyrrnefnda plötu.
Þeir voru miklu, miklu fleiri sem spiluðu Tico Tico, og ekki einvörðungu djassleikarar. Hljómsveitir Rubén Calzado og Pérez Prado, gítarleikarinn Paco de Lucia, og Andrews systurnar, svo dæmi séu nefnd, tóku það öll upp. Smellið hér, hér, hér, og hér til að hlusta á þau flytja lagið margumtalaða. Textinn sem Andrews systurnar syngja hefst á
Oh, Tico Tico, Tick!
Oh, Tico Tico, Tock!
This Tico Tico, he‘s the cuckoo in my clock.
And when he says: cuckoo, he means it‘s time to woo,
It‘s Tico time for all the lovers on the block.
Án efa mjög djúpur og innihaldsríkur texti. Íslendingar hafa lagt lóð sín á vogarskálarnar til að breiða þennan boðskað Tico Tico um heiminn, en þó aðallega hér á landi. Einhver besta og eftirminnilegasta upptakan er á plötunni Ekki þessi leiðindi með Milljónamæringunum og Bogomil Font, þar sem tenorsaxófónleikari þeirra flytur lagið ágætlega en lætur píanistann alfarið um að spila sóló. Síðastliðinn þriðjudag flutti tríóið Guitar Islandico lagið í Kastljósi í allnýjum búningi. Verið fljót að sjá myndbandið, því það mun hverfa af vefsetri RÚV eftir viku eða tvær. Mér, Arkímedesi, fannst Björn Thoroddsen ekki spila lagið vel, og þó margir haldi því fram að villur séu ekki til í djasstónlist, ættu allir að sjá og heyra að margt kom út öðruvísi og verr en Björn gamli vildi.
En fólk heldur áfram að syngja og spila Tico Tico eins og sjá má á vefsetrinu YouTube, en með misgóðum árangri; það gerir enginn betur en Charlie Parker!
Góðar stundir.
Arkímedes kveður.