Arkímedes heilsar.
Síðustu vikur og mánuði hefur mikið verið rætt um breytingar á þessu áhugamáli. Menn og konur hafa kvartað sáran yfir lítilli virkni miðað við önnur áhugamál, og einhver sagði áhugamálið vera nær því að lepja dauðann úr skel. Ég get ekki tekið undir það, því af og til gerist hér eitthvað; nýjar kannanir og myndir birtast reglulega, og þegar Ægishjálmur hóf störf kom hann upp spurningakeppni, sem hefur fengið allsæmilegar viðtökur.
Höfuðmissirinn er greinasafn, og það er einfaldlega vegna þess að við erum fá sem stundum Huga og hlustum á djass- og/eða blústónlist, og fækkar frekar ef aðeins eru taldir þeir sem hafa fyrir því að skrifa grein(ar). Sjálfur hef ég, Arkímedes, ekki enn skrifað grein, en úr því verður bætt!
En hvernig bætum við ástandið? Ýmsar hugmyndar hafa borist hingað og á fleiri áhugamál. Sumir vilja halda áhugamálinu óbreyttu, og aðrir vilja leggja það niður. Það má færa góð og gild rök fyrir þessum tillögum, en ljóst er að þær gjöra engum manni gott.
Ein hugmynd hefur þó vakið mun meiri athygli. Hún snýst um það, að bæta fleiri tónlistarstefnum við áhugamálið. Tónlistarstefnur á borð við soul, funk, country og reggae eiga ekki í hús að venda á Huga, ef svo má að orði komast. Söguleg og tónlistarleg vensl þeirra og djass- og blústónlistar rökstyðja þessa stækkun, eða útvíkkun, á áhugamálinu. Ég minni einnig á, að sú tónlist á betur heima hér en á öðrum áhugamálum.
Aðrir, og þar með talinn ég, Arkímedes, vilja (einnig) fá heimstónlist og sveiflu Suður-Ameríku hingað. Tillagan er máski ögn langsótt, en þó rökrétt.
Heimstónlist afskaplega vítt hugtak og felur í sér tónlist frá Austurlöndum nær og fjær, Indlandi, Afríku, og þannig heldur upptalningin áfram. Það er nauðsynlegt að Hugi skilgreini áhugamál fyrir alla þessa flóru, þó ekki væri nema í virðingarskyni við þær; og hvar frekar en hér?
Tónlist Rómönsku Ameríku - chachacha, mambó, rúmba, merengue, samba, tangó, mariachi, calypso, o.s.frv. - er einnig sér á báti. Ég legg sérstaka áherslu á kúbversku stefnurnar, en þær hafa orðið fyrir miklum áhrifum frá stórsveitarstíl og spuna Bandaríkjamanna, og öfugt, þar sem Kanarnir hófu að nota framandi hrynjanda í miklum mæli. Tónlistarmenn kalla þessa blöndu oft suður-amerískan djass (e. latin jazz). Calypso má sjálfsagt ekki flokka undir rómansk-ameríska tónlist, en ég leyfi mér að gera þá villu.
Nú hef ég, Arkímedes, nefnt allar þær tónlistarstefnur sem fólk hefur beðið um, og fært rök fyrir því hvers vegna þær ættu allar að vera hér frekar en annars staðar. Jafnframt ættu glöggir lesendur að sjá, að hér er á ferðinni öll tónlist fyrir utan þá sem gróflega kalla má „hina dæmigerðu, vestrænu tónlist“ (að klassískri tónlist undanskilinni).
Ef þessi tillaga yrði að veruleika, er óhætt að fullyrða að fleiri myndu líta við, uppgötva nýja tónlist, skiptast á skoðunum, og vonandi skrifa greinar. Þegar öllu er á botninn hvolft, er markmiðið, jú, að fá fleiri til að stunda áhugamálið.
Að lokum spyr ég: Hvernig líst ykkur á þessa hugmynd? Ég bið ykkur, sem hafið eitthvað frekar til málanna að leggja, að svara þessari grein og könnuninni. Aðrir skulu láta nægja að svara könnuninni.
Góðar stundir.
Arkímedes kveður.