Ég hef alltaf haft annan tónlistarsmekk en flestir jafnaldrar mínir. Fyrst þegar ég fór að hafa áhuga á tónlist þá heillaðist ég af techno/trance tónlist. Ég hlustaði á tónlistarmenn eins og Sash, ATB og Antiloop sem mér finnst í dag hlægileg og hallærisleg tónlist. Ég vil ekki móðga neinn en þetta er mín skoðun. Ég hlusta samt ennþá reglulega á eðal raftónlist eins og snillingana í Kraftwerk.
Seinna hlustaði ég mikið á reggae. Platan sem vakti áhuga minn á reggae var sænsk safnplata sem nefndist The Return of Absolute Reggae. Þá auðvitað fór ég að hlusta á Bob Marley. Svo er Desmond Dekker ennþá í miklu uppáhaldi hjá mér. Lagið Israelites með honum er örugglega besta reggaelag sem ég hef heyrt.
En hvernig fékk ég áhugann á jazz-tónlist?
Pabbi hlustaði stundum á jazz og reyndi t.d. að sýna mér Take Five með Dave Brubeck ofl. En það gekk ekki. Ég þurfti greinilega að uppgötva jazzinn sjálfur.
Ég var farinn að þreytast á technoinu og sóttist alltaf í eldri techno tónlist eins og Giorgio Moroder (eitthvað diskó frík), Yellow Magic Orchesra og Kraftwerk.
Einhvern tíma heyrði ég bassalínu sem ég kannaðist við. Þetta var einmitt eitthvað sem ég var að fíla. Ég komst seinna að því að þetta var lagið Chameleon með Herbie Hancock. Ég hafði þá ekki hugmynd um tilvist funk tónlistar. Chameleon vakti áhuga minn á funk tónlist og ég held að ég hafi aldrei hlustað eins oft á eitt lag. Ég hlustaði örugglega á Chameleon (15 mín) 2-3 á dag. Svo fór ég að grafa dýpra og fór að hlusta á jazzinn hans, lög eins og Cantaloupe Island og Fat Mama voru í miklu uppáhaldi.
Þegar ég uppgötvaði Oscar Peterson hélt ég að ég væri búinn að finna besta píanóleikara veraldar. En svo benti einhver mér á Keith Jarrett. Ég hafði heyrt eitthvað brot úr lagi með honum og fannst hann hálf súr. En forvitnin sigraði að lokum. Keith Jarrett er bestur.
Kind of Blue með Miles Davis. Fórnarlömb þeirrar plötu eru mörg því margir heillast af jazzinum í gegnum þá plötu. Ég var ekkert að fíla hana fyrst en svo seinna þá datt ég alveg inn í hana.
Núna var ég kominn inn í jazz og funk heimana og ég held að ég eigi aldrei eftir að komast úr þeim. Þetta er bara of töff tónlist. Ég fór óvenjulega leið að því að uppgötva jazzin. En kannski er hún venjuleg, ég veit það ekki.
Það er tilgangslaust að neyða einhvern sem hefur ekki áhuga á jazzi til þess að hlusta á jazz. Ég hef reynt það, það virkar ekki. (Nema í einu tilviki þar sem vinur minn heyrði lagið “Sweet Nasty” af plötunni Momentum með Joshua Redman Electric Band.)
Ég held að þetta gildi líka um alla tónlist. Þú sjálfur verður að hafa áhuga eða vera forvitinn varðandi tónlistina. Þeir sem skilja og kunna að meta jazz eru að mínu mati heppnir einstaklingar.
Ég spila sjálfur á píanó og er núna að læra á jazz-píanó í FÍH. Það hefur auðvitað líka áhrif á tónlistarsmekkinn minn.
Að lokum vil ég benda á plötuna Day is Done með Brad Mehldau tríóinu. Frábær plata með jazz-coverum eftir popp tónlistarmenn eins og Bítlana, Radiohead, Paul Simon, Burt Bacharach og Nick Drake. Knives Out með Radiohead er uppáhaldið mitt á plötunni.
Segið mér, hvernig fenguð þið áhugann á jazz tónlist?