(Ætlunin var eiginlega bara að leiðrétta misskilninginn hér að neðan, en síðan bara vall þetta upp út mér og úr varð svona smá “history lesson”…)
“Ég hélt að Blús væri bara ein tegund af Jazz.”
Merkilegt að einhver geti haldið það…
Blues á rætur til tónlistarhefða Vestur-Afríku (þrælarnir, þú veist). Í gegnum aldirnar komu til áhrif úr ýmsum áttum, frá þjóðlagasöngvum evrópskra innflytjenda, trúarsöngvum o.fl…þetta gat einnig af sér t.d. country, oft talið vera “pure white” tónlist…guess again!
Þetta gat auðvitað hvergi gerst nema í Bandaríkjunum, hinum mikla suðupotti, þar sem tónlist úr öllum áttum hafði tækifæri til að renna saman og búa þar með til eitthvað alveg nýtt. Samruni tónlistar hvítra og svartra Bandaríkjamanna er reyndar það sem lék langstærst hlutverk í mótun þess tónlistarheims sem við þekkjum í dag.
Jazz (dixieland til að byrja með) þróaðist út úr samruna á blues svartra og mars(skrúðgöngu?)tónlist hvítra í Louisiana, nálægt aldamótunum 1900. Jazzinn klofnaði svo á næstu áratugum. Sumir vildu fara yfir í flóknari hluti og þróuðu þar með jazzinn áfram, þar til hann hætti að vera þessi dansvæna tónlist sem hann var upphaflega, þetta varð meira og meira “arty” á árunum og áratugunum eftir seinni heimsstyrjöldina.
Hinir vildu halda áfram að dansa og hafa þetta á léttu nótunum, úr varð svokallaður “jump blues” sem var vinsæll um 1950-53 (Louis Jordan hvað frægastur, með lög eins og Caldonia). Einnig tóku á þessum tíma blues-menn rafmagníð upp á arma sína og úr varð harður raf-blues.
Um þetta leiti fóru hlutirnir að gerast rosalega hratt. Svartir tónlistarmenn á þessum tíma hristu nýja tónlistarstefnu fram úr erminni á nokkurra ára fresti: Úr jump blues varð rhythm & blues sem varð síðan hraðari og hrárri og úr varð það sem átti eftir að vera kallað “rock & roll”. Brautryðjendur voru Little Richard með lög eins og Lucille (1955), og kannski enn meira Chuck Berry. Chuck Berry gaf út sitt fyrsta lag Maybellene árið 1955, en þar var kominn smá touch af country inn í blönduna aftur. Þennan samruna rhythm & blues og country áttu svo aðrir menn eftir að taka lengra…frægastur þeirra mundi vera Elvis Presley. Þá var hvítur maður kominn í spilið og þá fyrst gat rock & roll náð vinsældum hjá meirihlutanum.
En á sama tíma, meðan hvíta fólkið og restin af heiminum voru að gera í buxurnar yfir þessari “tónlistarbyltingu” (sem var í raun ekki mikil bylting nema fyrir einmitt hvíta fólkið), voru aðrir hlutir að gerast annars staðar. Kirkjutónlist blökkumanna, gospeltónlist, náði miklum blóma á 6. áratugnum. Kirkjurækna, trúaða fólkið vildi ekki heyra þessa veraldlegu “sora”tónlist og söng bara sínar lofgjörðir í sínum kirkjum. Þar til manni að nafni Ray Charles datt í hug að blanda saman gospel og rhythm & blues. Þetta gerði hann með laginu I've Got A Woman (1954), sem var ekki annað en gospellag með “dónalegum” texta.
Um þessar mundir komst líka annað í tísku í samfélagi blökkumanna, sem kallaðist doo-wop. Það var upphaflega söngur án undirleiks, oft sunginn á götuhornum, þar sem bakraddirnar líktu hálfpartinn eftir hljóðfærum eins og bassa og trompeti (“dum dum dum, doo-wop doo-wop…”). Þetta öpuðu hvítir unglingar auðvitað eftir eins og annað… Úr samruna gospel, rhythm & blues og doo-wop varð upp úr 1960 til soul-tónlist, sem (með breytingum) átti eftir að vera aðal popptónlist blökkumanna allt þar til hip hop náði verulegum vinsældum á 9. áratugnum.
Á 7. áratugnum héldu hvítingjar áfram að þróa rokkið, fóru að taka sýru og fleira og fríkuðu út… Síðan fóru menn gjarnan að grípa aftur í raf-blues 6. áratugsins og byggja á honum (t.d. Eric Clapton og Jimmy Page), útkoman var sú að “roll-ið” datt út og eftir stóð Rock, sem varð þyngra og harðara og varð að heavy metal o.s.frv. o.s.frv….
Svo kom hip hop og tröllreið öllu, og “surprise surprise” - hvítir og svartir leiða saman hesta sína og blanda saman rappi og rokki…
The End? (I hope not!)