Ég ætla að taka það fram að ég hef ekki heyrt nándar nærri allar plötur Miles, þannig að ég stikla á stóru. Ég reyni að hafa allt nokkurnveginn í tímaröð, en þessi grein er meira ætluð til gamans og fyrir skemmtilegar pælingar, heldur en eitthvað heilagt sem nær yfir alla sem spiluðu með honum. Svo hefur mér alltaf fundist nokkuð vanta í grinum um tónlistarmenn, það er að þær eru of almennar, t.d. kannski mikið um hvað John Coltrane gerði margar plötur og hvað þær hétu, en minna um tónlistina sjálfa, einkenni hennar og einkenni tónlistarmannanna. Hver veit nema ég geri samskonar greinar um þá sem spila á annað en píanó með Miles ef viðbrögð verða góð. Hafiði gaman að, og hlustið á jóladjass um jólin :)

Píanistar

Thelonius Monk: Monk er náttúrulega kapítuli útaf fyrir sig, vanmetinn snillingur (á sínum tíma), sem hafði einhvert sérstakt ,,touch" á píanóið og það leit út fyrir að hann væri að spila á ásláttarhljóðfæri. Það mætti seint segja um Monk að hann væri teknískur, en einn hamrandi lækkaður fimmundarhljómur frá honum og maður er kominn í himnaríki. Að mér vitandi gerði Hann eina plötu með Miles, en það var platan Bags groove sem var tekin upp um jólin 1954, en þar spilaði snillingurinn Sonny Rollins á saxófón. Þess má geta til gamans að honum og Miles kom mjög illa saman og Miles hataði þegar hann spilaði þegar Miles tók sóló.

Red Garland: Spilaði með Miles í fyrri klassíska kvintettinum (Cookin, Workin, Round about Midnight, Milestones o.s.frv. Djasspíanisti af klassíska skólanum með einfaldan, en mjög flottan stíl sem passar fullkomlega við það sem Miles var að gera þessa stundina.

Winton Kelly: Frekar lítið þekktur píanisti sem spilaði með Miles eftir að Bill Evans hætti í bandinu rétt fyrir Kind of Blue. Ég hefði líklega ekki minnst á hann nema fyrir afskaplega skemmtilegan, blúsaðan píanóleik á Freddie Freeloader en sólóið þar er svona nett blúsað og afskaplega grípandi. Hann og Bill Evans eru eins og dagur og nótt, þeir eru það ólíkir.

Bill Evans: Evans er einn af höfuðpíanistum jazzins og eins og flestir af yfirburðardjössurum síðustu ára… Spilaði hann með vini okkar, honum Miles. Hann er með mjög sérstakan, blæbrigða (impressíónískann) stíl, sem á í raun jafn mikið skylt við klassík (Debussy) og hefðbundin djass. Hlustið bara á introið í So What og þá vitið þið svo sannarlega hvað ég er að tala um. Honum tókst að gæða tónlistina einhverri einkennilegri drungalegri, en samt fallegri blústilfinngu og tveir yndislegir hljómar frá honum gátu haft meiri áhrif á mann en 10 mínútna sóló frá einhverjum virtúósó. Það veit alþjóð að hann gerði fullt af frábæru stuffi fyrir utan Miles, en það er efni í aðra grein.

Hearbie Hancock:
Þessi maður er nánast guð í mínum augum. Taktu klassískt menntaðan dreng, kenndu honum að djassa, kenndu honum blæbrigðadjass a lá Bill Evans, og segðu honum að bæta feitu FUNKI ofan á allt þetta og þá ertu kominn með Hearbie Hancock jammandi í húsinu með félögum sínum sem eru líka guðir… þá ertu kominn í píanó himnaríki a lá Hearbie. Hlustiði bara á sólóið á Orbits af Miles Smiles og snilldarverk eins og Watermelon man, og segjið mér að ég hafi rangt fyrir mér. Allavega, Hearbie Hancock var ráðinn sem píanisti þegar Miles stofnaði annan mikilfenglega kvintett sinn og hvílíkt band! Frjáls stíll Hearbie passaði vel við frjálslegt form laganna og taktinn (leysið) hjá Tony Williams. Hann hætti síðan í kvintettinum um nokkra stund og Chick Corea tók við af honum, en kom svo aftur inn á In a Silent way. Er Miles byrjaði að færa sig í rafmagnið, þá skipti Hebbi, eins og kýs að kalla hann, frá venjulegu píanói yfir á Fender Rhodes rafmagnspíanó, en bjölluhljómur þess hentaði honum mjög vel til að auka á mátt leiks síns. Hann hjálpaði að gera In a silent way að því meistaraverki sem það er og hann lagði sitt til Bitches brew. Hann var hættur að túra með bandinu um þetta leyti, en hélt áfram að spila inn á stúdíóplötur. Þess þarf varla að geta að Hebbi var orðið mjög stórt nafn í jazzsenunni þegar hann spilað með Miles, en varð enn stærri þegar hann byrjaði með sólóferil. Á honum gerði hann t.d jazzmeistaraverkið Maiden Voyage og eina mest seldu jazz plötu allra tíma, Head hunters. Hann færði sig síðan inn í raftónlist og byrjaði að gera elektró. Þetta ber einnig vitni um það hversu það gerði ungum tónlistarmönnum gott að spila með Miles og önnur dæmi um það er t.d. Coltrane og Tony Williams.

Chick Corea: Þegar Hebbi hætti í bandinu eftir Miles in the Sky tók Chick, eða gellan, við af honum. Hann er allt öðruvísi píanisti, mun grófari, rytmískari og ekki eins fíngerður eins og hálfguðinn Hebbi. Hann hélt áfram að spila þegar Hebbi kom aftur og oft voru tvö og jafnvel þrjú hljómborð notuð í stúdíóinnu. Þess má geta að grúppurnar hjá Miles á þessum tíma(eftir rafmagnsvæðinguna) voru mjög margbreytilegar og engin leið er að segja til um hvenær þessi var nákvæmlega og hver ekki.

Joe Zawinul: Zawinul er enn einn frægi píanó/hljómborðsleikarinn sem spilaði með Miles Davis, en hann kom inn á In a Sient Way. Mér hefur alltaf fundist hann merkilegri sem lagahöfundur en hljóðfæraleikari, í þa minnsta á Miles plötunum, en aðalhlutverk hans var að doubla (spila sömu) bassalínurnar, til að það kæmi feitara og þéttara sánd.

En nóg um það vona að þið hafið notið þessarrar greinar og gleðileg jól!!!
Því meira sem maður lærir, því minna veit maður