ó jæja kallinn.
Önundur hét maður. Hann var Ófeigsson burlufóts Ívarssonar beytils. Önundur var bróðir Guðbjargar, móður Guðbrands kúlu, föður Ástu, móður Ólafs konungs hins helga. Önundur var upplenskur að móðurætt en föðurkyn hans var mest um Rogaland og Hörðaland.
Önundur var víkingur mikill og herjaði vestur um haf. Með honum var í hernaði Bálki Blængsson af Sótanesi og Ormur hinn auðgi. Hallvarður hét hinn þriðji félagi þeirra. Þeir höfðu fimm skip og öll vel skipuð. Þeir herjuðu um Suðureyjar og er þeir komu í Barreyjar var þar fyrir konungur sá er Kjarvalur hét. Hann hafði og fimm skip. Þeir lögðu til bardaga við hann og varð þar hörð hríð. Voru Önundar menn hinir áköfustu. Féll margt af hvorumtveggjum en svo lauk að konungur flýði einskipa. Tóku menn Önundar þar bæði skip og fé mikið og sátu þar veturinn. Þrjú sumur herjuðu þeir um Írland og Skotland. Síðan fóru þeir til Noregs.
2. kafli
Í þenna tíma var ófriður mikill í Noregi. Braust þar til ríkis Haraldur lúfa son Hálfdanar svarta. Hann var áður konungur á Upplöndum. Síðan fór hann norður í land og átti hann margar orustur. Herjaði hann svo suður eftir landinu og lagði undir sig hvar sem hann fór. En er hann kom upp á Hörðaland kom í móti honum múgur og margmenni. Voru þar formenn Kjötvi hinn auðgi og Þórir haklangur og þeir Suður-Rygirnir og Súlki konungur.
Geirmundur heljarskinn var þá fyrir vestan haf og var hann ekki við þenna bardaga og þó átti hann ríki á Hörðalandi.
Þetta haust komu þeir vestan um haf, Önundur og hans félagar. En er þeir fréttu það, Þórir haklangur og Kjötvi konungur, þá sendu þeir menn til móts við þá og báðu þá liðs og hétu þeim sæmdum. Réðust þeir þá í lið með Þóri því að þeim var mikil forvitni á að reyna sig og sögðust þeir vildu þar vera sem ströngust væri orustan.
Fundur þeirra Haralds konungs varð á Rogalandi, í firði þeim er heitir í Hafursfirði. Höfðu þeir hvorirtveggju mikið lið. Þessi orusta hefir einhver verið mest í Noregi. Koma hér og flestar sögur við, því að frá þeim er flest sagt er þá segir helst frá. Kom þar og lið um allt landið og margt úr öðrum löndum og fjöldi víkinga.
Önundur lagði skip sitt á annað borð skipi Þóris haklangs. Var það mjög í miðjum hernum. Haraldur konungur lagði að skipi Þóris haklangs því að Þórir var hinn mesti berserkur og fullhugi. Var þar hin harðasta orusta af hvorumtveggjum. Þá hét konungur á berserki sína til framgöngu. Þeir voru kallaðir úlfhéðnar en á þá bitu engi járn. En er þeir geystust fram þá hélst ekki við. Þórir barðist alldjarflega og féll á skipi sínu með mikilli hreysti. Var þá hroðið með stöfnum skipið og höggvið úr tengslum skipið. Seig það þá aftur milli skipanna. Lögðu konungsmenn þá að skipi Önundar. Hann var fram á skipið og barðist djarflega.
Þá mæltu konungsmenn: “Þessi gengur fast fram í söxin. Látum hann hafa nokkurar vorar minjar að hann hafi komið í nokkurn háska.”
Önundur stóð út á borðið öðrum fæti og hjó til manns og í því var lagið til hans. Og er hann bar af sér lagið kiknaði hann við. Þá hjó einn af stafnbúum konungs á fót Önundar fyrir neðan kné og tók af fótinn. Önundur varð þegar óvígur. Féll þá mestur hluti liðs hans.
Önundi varð komið á skip til þess manns er Þrándur hét. Hann var Bjarnarson, bróðir Eyvindar austmanns. Hann var á móti Haraldi konungi og lá á annað borð skipi Önundar.
Þessu næst brast sjálfur meginflóttinn. Þeir Þrándur og aðrir víkingar höfðu sig þá í burt hver sem mátti, sigldu síðan vestur um haf. Önundur fór með honum og Bálki og Hallvarður súgandi.
Önundur varð græddur og gekk við tréfót síðan alla ævi. Var hann af því kallaður Önundur tréfótur meðan hann lifði.
3. kafli
Þá voru fyrir vestan haf margir ágætir menn þeir sem flúið höfðu óðul sín úr Noregi fyrir Haraldi konungi því að hann gerði alla útlæga, þá sem í móti honum höfðu barist, og tók undir sig eignir þeirra.
Þá er Önundur var gróinn sára sinna fóru þeir frændur tíu í móts við Geirmund heljarskinn, því að hann var þá frægastur af víkingum fyrir vestan haf, og spurðu hvort hann vildi ekki leita aftur til ríkis þess er hann átti á Hörðalandi og buðu honum fylgd sína. Þóttust þeir eiga eftir eignum sínum að sjá því að Önundur var stórættaður og ríkur. Geirmundur kvað þá orðinn svo mikinn styrk Haralds konungs að honum þótti það lítil von að þeir fengju þar sæmdir með hernaði að menn fengu þá ósigur er að var dreginn allur landslýður, og kveðst eigi nenna að gerast konungsþræll og biðja þess er hann átti áður sjálfur, kveðst heldur mundu leita sér annarra forráða. Var hann þá og af æskuskeiði. Fóru þeir Önundur aftur til Suðureyja og hittu þar marga vini sína.
Ófeigur hét maður og var kallaður grettir. Hann var son Einars Ölvissonar barnakarls. Hann var bróðir Óleifs breiðs, föður Þormóðar skafta. Steinólfur var og sonur Ölvis barnakarls, faðir Unu er átti Þorbjörn laxakarl. Steinmóður var enn son Ölvis barnakarls, faðir Konals, föður Álfdísar hinnar barreysku. Son Konals var Steinmóður, faðir Halldóru er átti Eilífur son Ketils hins einhenda. Ófeigur grettir átti Ásnýju Vestarsdóttur Hængssonar. Ásmundur skegglaus og Ásbjörn voru synir Ófeigs grettis en dætur hans voru þær Aldís, Æsa og Ásvör.
Ófeigur hafði stokkið um haf vestur fyrir ófriði Haralds konungs svo og Þormóður skafti frændi hans og höfðu með sér skuldalið sitt. Þeir herjuðu víða fyrir vestan haf.
Þrándur og Önundur tréfótur ætluðu til Írlands vestur á fund Eyvindar austmanns, bróður Þrándar. Hann hafði landvörn fyrir Írlandi. Móðir Eyvindar var Hlíf, dóttir Hrólfs Ingjaldssonar Fróðasonar konungs, en móðir Þrándar var Helga dóttir Öndótts kráku.
Björn var faðir Þrándar og Eyvindar, son Hrólfs frá Ám. Hann stökk úr Gautlandi fyrir það að hann brenndi inni Sigfast, mág Sölva konungs. Síðan hafði hann farið til Noregs um sumarið og var með Grími hersi um veturinn, syni Kolbjarnar sneypis. Hann vildi myrða Björn til fjár. Þaðan fór Björn til Öndótts kráku er bjó í Hvinisfirði á Ögðum. Hann tók vel við Birni og var hann með honum á vetrum en herjaði á sumrum þar til er Hlíf kona hans lést. Eftir það gifti Öndóttur Helgu dóttur sína Birni og lét Björn þá enn af herförum.
Eyvindur hafði þá tekið við herskipum föður síns og var nú orðinn höfðingi mikill fyrir vestan haf. Hann átti Raförtu dóttur Kjarvals Írakonungs.
En er þeir Þrándur og Önundur komu í Suðureyjar fundu þeir þá Ófeig gretti og Þormóð skafta og gerðist með þeim vinátta mikil því að hver þóttist annan úr helju heimtan hafa, þann er eftir hafði verið í Noregi meðan ófriður var sem mestur.
Önundur var hljóður mjög. Og er Þrándur fann það spurði hann eftir hvað honum bjó í skapi.
Önundur svaraði og kvað vísu:
Glatt erat mér síð mættum,
mart hremmir til snemma,
oss stóð geigr af gýgi
galdrs, élþrumu, skjaldar.
Hykk að þegnum þykki,
það er mest, koma flestum,
oss til yndis missu
einhlítt, til mín lítið.
Þrándur kvað hann þar mundu þykja röskvan mann sem hann væri “er þér sá til að staðfesta ráð þitt og kvænast. Skal eg og leggja orð mín til og liðsinni ef eg veit hvar þú hefir hug á.”
Önundur kvað honum drengilega fara en kvað kvonföngin horft hafa vænna þau er slægur sé til.
Þrándur svarar: “Ófeigur á dóttur er Æsa heitir. Megum við þar til leita ef þú vilt.”
Önundur lést það og vilja.
Síðan töluðu þeir þetta við Ófeig. Hann svarar vel og kveðst vita að maður var stórættaður og ríkur að lausafé “en jarðir hans legg eg ódýrt. Þykir mér hann og eigi heill til ganga en dóttir mín er barn að aldri.”
Þrándur kvað Önund röskvara en marga þá er heilfættir væru. Og með liðveislu Þrándar var þessu keypt og skyldi Ófeigur gefa dóttur sinni heiman lausafé því að jarðir þær sem í Noregi voru vildu hvorigir fé kaupa.
Litlu síðar fékk Þrándur dóttur Þormóðar skafta. Skyldu þær sitja í festum þrjá vetur. Síðan fóru þeir í hernað á sumrum en voru í Barreyjum á vetrum.
4. kafli
Vígbjóður og Vestmar hétu víkingar. Þeir voru suðureyskir og lágu úti bæði vetur og sumar. Þeir höfðu átta skip og herjuðu um Írland og gerðu mörg illvirki þar til að Eyvindur austmaður tók landvörn þar. Síðan stukku þeir í Suðureyjar og herjuðu þar og allt inn í Skotlandsfjörðu.
Þeir Þrándur og Önundur fóru í móts við þá og spurðu að þeir höfðu siglt inn til eyjar þeirrar er Bót hét.
Nú koma þeir Önundur þar með sjö skipum. Og er víkingar sjá skip þeirra og vita hversu mörg eru þykjast þeir hafa nógan liðsafla og taka til vopna sinna og leggja skipunum í móti. Önundur bað þá leggja skip sín milli hamra tveggja. Þar var mjótt sund og djúpt. Þar mátti einum megin að leggja og eigi fleirum en fimm senn. Önundur var maður vitur og lét leggja fimm skip fram í sundið svo að þeir máttu þegar láta síga á hömlu er þeir vildu því að rúmsævi var mikið að baki þeim. Var og hólmur nokkur á annað borð. Lét hann þar liggja undir eitt skipið og færðu þeir grjót mikið fram á hamarinn þar er eigi mátti sjá af skipunum.
Víkingar lögðu að alldjarflega og þóttu hinir komnir í stilli. Vígbjóður spurði hverjir þessir væru er þar voru svo kvíaðir.
Þrándur segir að hann var bróðir Eyvindar austmanns “og síðan er hér félagi minn Önundur tréfótur.”
Þá hlógu víkingar og mæltu þetta:
Tröll hafi Tréfót allan,
tröllin steypi þeim öllum.
“Og er oss það fáséð að þeir menn fari til orustu er ekki mega sér.”
Önundur kvað það eigi vita mega fyrr en reynt væri.
Eftir það lögðu þeir saman skipin. Tókst þar mikill bardagi og gengu hvorirtveggju vel fram. Og er festist bardaginn lét Önundur sígast að hamrinum. Og þá er víkingar sáu það hugðu þeir að hann mundi flýja vilja og lögðu að skipi hans og undir hamarinn sem þeir máttu við komast. Í því bili komu þeir á bjargið er til þess voru settir. Færðu þeir á víkingana svo stórt grjót að ekki hélst við. Féll þá fjöldi liðs af víkingum en sumir meiddust svo að ekki voru vopnfærir. Þá vildu víkingar frá leggja og máttu eigi því að skip þeirra voru þá komin þar mjóst var sundið. Þröngdi þeim þá bæði skipin og straumur en þeir Önundur sóttu að með kappi þar er Vígbjóður var fyrir en Þrándur lagði að Vestmari og vannst þar lítið að.
Þá er fækkaðist fólkið á skipi Vígbjóðs réðu menn Önundar til uppgöngu og hann sjálfur. Það sá Vígbjóður og eggjaði með ákafa lið sitt. Sneri hann þá í móti Önundi og stukku flestir frá. Önundur bað sína menn sjá hversu færi með þeim því að Önundur var rammur að afli. Þeir skutu stubb nokkurum undir kné Önundi og stóð hann heldur fast. Víkingurinn sótti aftan eftir skipinu allt þar til er hann kom að Önundi og hjó að Önundi með sverði og kom í skjöldinn og tók af það er nam. Síðan hljóp sverðið í stubbann þann er Önundur hafði undir knénu og varð fast sverðið. Vígbjóður laut er hann kippti að sér sverðinu. Í því hjó Önundur á öxlina svo að af tók höndina. Þá varð víkingurinn óvígur. Þá er Vestmar vissi að félagi hans var fallinn hljóp hann á það skip er yst lá og flýði og allir þeir er því náðu. Eftir það rannsökuðu þeir valinn.
Vígbjóður var þá kominn að bana.
Önundur gekk að honum og kvað:
Sjáðu hvort sár þín blæða,
sástu nökkuð mig hrökkva?
Auðslöngvir fékk öngva
einfættr af þér skeinu.
Meir er mörgum, snerru,
málskalp lagið, Gjalpar
brjótr erat þegn í þrautir
þrekvandr, en hyggjandi.
Þeir tóku þar herfang mikið og fóru aftur í Barreyjar um haustið.
5. kafli
Annað sumar bjuggust þeir að fara vestur til Írlands. Þá réðust þeir Bálki og Hallvarður vestan um haf og fóru út til Íslands því að þaðan voru sagðir landskostir góðir. Bálki nam land í Hrútafirði. Hann bjó á Bálkastöðum hvorumtveggjum. Hallvarður nam Súgandafjörð og Skálavík til Stiga og bjó þar.
Þeir Þrándur og Önundur komu á fund Eyvindar austmanns og tók hann vel við bróður sínum. En er hann vissi að Önundur var þar kominn þá varð hann reiður og vildi veita honum atgöngu. Þrándur bað hann eigi það gera, kvað það eigi standa að gera ófrið norrænum mönnum, allra síst þeim er með öngri óspekt fara. Eyvindur kvað hann farið hafa fyrr og gert ófrið Kjarval konungi, sagði hann nú þess skyldu gjalda. Áttu þeir bræður lengi um þetta að tala allt þar til er Þrándur kvað eitt skyldu ganga yfir þá Önund báða. Lét þá Eyvindur sefast. Dvöldust þeir þar lengi um sumarið og fóru þeir með Eyvindi í herfarir. Þótti honum Önundur hinn mesti hreystimaður. Fóru þeir til Suðureyja um haustið. Gaf Eyvindur Þrándi arf allan eftir föður þeirra ef Björn andaðist fyrr en Þrándur. Voru þeir nú í Suðureyjum þar til er þeir kvæntust og nokkura vetur síðan.
6. kafli
Það bar næst til tíðinda að Björn andaðist, faðir Þrándar. Og er það frétti Grímur hersir fór hann til móts við Öndótt kráku og kallaði til fjárins eftir Björn en Öndóttur kvað Þránd eiga arf eftir föður sinn. Grímur kvað Þránd fyrir vestan haf en Björn gauskan að ætt og kvað konung eiga að erfa alla útlenda menn. Öndóttur kvaðst halda mundu fénu til handa Þrándi dóttursyni sínum. Fór Grímur við það á brott og fékk ekki af fjárheimtum.
Þrándur spurði nú lát föður síns og bjóst þegar af Suðureyjum og Önundur tréfótur með honum en þeir Ófeigur grettir og Þormóður skafti fóru út til Íslands með skuldalið sitt og komu út á Eyrum fyrir sunnan landið og voru hinn fyrsta vetur með Þorbirni laxakarli. Síðan námu þeir Gnúpverjahrepp. Ófeigur nam hinn ytra hlut, á milli Þverár og Kálfár. Hann bjó á Ófeigsstöðum hjá Steinsholti. En Þormóður nam hinn eystra hlut og bjó hann í Skaftaholti. Dætur Þormóðar voru þær Þórvör, móðir Þórodds goða á Hjalla, og Þórvé, móðir Þorsteins goða, föður Bjarna hins spaka.
Nú er að segja frá þeim Þrándi og Önundi að þeir sigldu vestan um haf til Noregs og fengu svo mikið hraðbyri að engi njósn fór um ferð þeirra fyrr en þeir komu til Öndótts kráku.
Hann tók vel við Þrándi og sagði honum frá tilkalli því er Grímur hersir hafði haft um arf Bjarnar “líst mér betur komið frændi að þú erfir föður þinn en konungsþrælar. Hefir þér og gæfusamlega til tekist er engi maður veit um ferðir þínar. En grunar mig að Grímur stefni að öðrum hvorum okkrum ef hann má. Vil eg að þú takir arfinn undir þig og hafir þig til annarra landa.”
Þrándur kveðst svo gera mundu. Tók hann þá við fénu og bjóst sem skyndilegast í brott úr Noregi.
Áður Þrándur sigldi á haf þá spurði hann Önund tréfót hvort hann vildi ekki leita til Íslands. Önundur kveðst áður vilja finna frændur sína og vini suður í landi.
Þrándur mælti: “Þá munum við nú skilja. Vildi eg að þú sinnaðir frændum mínum því að þangað mun hefndum snúið ef eg kemst undan. Mun eg fara út til Íslands og svo vildi eg að þú færir.”
Önundur hét því. Skildu þeir með kærleikum. Fór Þrándur út til Íslands. Tóku þeir Ófeigur og Þormóður skafti vel við honum. Þrándur bjó í Þrándarholti. Það er fyrir vestan Þjórsá.
7. kafli
Önundur fór suður á Rogaland og hitti þar marga frændur sína og vini. Dvaldist hann þar á laun með þeim manni er Kolbeinn hét. Hann spurði að Haraldur konungur hafði tekið undir sig eignir hans og skipað þeim manni er Hárekur hét. Hann var ármaður konungs. Önundur fór til hans um nótt og tók hús á honum. Var Hárekur til höggs leiddur. Önundur tók þar allt lausafé það er þeir náðu en brenndu bæinn. Hafðist hann þá við í ýmsum stöðum um veturinn.
Þetta haust drap Grímur hersir Öndótt kráku fyrir það er hann náði eigi fénu til handa konungi en Signý kona Öndótts bar á skip allt lausafé þeirra þegar hina sömu nótt og fór með sonu sína, Ásmund og Ásgrím, til Sighvats föður síns. Litlu síðar sendi hún sonu sína í Sóknadal til Héðins fóstra síns og undu þeir þar litla hríð og vildu fara aftur til móður sinnar. Fóru þeir síðan og komu til Ingjalds tryggja í Hvini að jólum. Hann tók við þeim fyrir áeggjan Gyðu konu sinnar. Voru þeir þar um veturinn.
Um vorið kom Önundur á Agðir norður því að hann hafði spurt fráfall Öndótts og að hann var drepinn. En er hann fann Signýju spurði hann hana hverja liðveislu þau vildu af honum þiggja. Hún sagði að þau vildu gjarna hefna Grími hersi fyrir víg Öndótts. Var þá sent eftir Öndóttssonum og er þeir fundu Önund tréfót lögðu þeir saman lag sitt og héldu fréttum um athafnir Gríms.
Um sumarið var ölhita mikil að Gríms því að hann hafði boðið heim Auðuni jarli. Og er það fréttu þeir Önundur og Öndóttssynir fóru þeir til bæjar Gríms og báru þar eld að húsum, því að þeir komu á óvart, og brenndu Grím hersi inni og nær þrjá tigu manna. Þeir tóku þar marga góða gripi. Önundur fór til skógar en þeir bræður tóku bát Ingjalds fóstra síns og reru í brott og lágu í leyni skammt frá bænum.
Auðunn jarl kom til veislu sem ætlað var og saknaði þar vinar í stað. Safnaði hann að sér mönnum og dvaldist þar nokkurar nætur og fréttist ekki til Önundar og þeirra félaga. Jarl svaf í lofti einu við þrjá menn.
Önundur vissi öll tíðindi af bænum og sendi eftir þeim bræðrum. Og er þeir fundust spurði Önundur hvort þeir vildu heldur geyma bæinn eða ganga að jarli. Þeir kjöru að ganga að jarli. Þeir skutu stokki á loftsdyrnar svo að hurðin brotnaði. Síðan greip Ásmundur þá tvo er voru með jarli og rak niður svo hart að þeim hélt við bana. Ásgrímur hljóp að jarli og bað hann greiða sér föðurgjöld því að hann hafði verið í atför og ráðum með Grími hersi þá er Öndóttur var drepinn. Jarl kveðst ekki fé hafa hjá sér og bað fresta um gjaldið. Ásgrímur setti þá spjótsoddinn fyrir brjóst jarli og bað hann greiða í stað. Jarl tók þá men af hálsi sér og þrjá gullhringa og guðvefjarskikkju. Ásgrímur tók við fénu og gaf jarli nafn og kallaði hann Auðun geit.
Þá er bændur og héraðsmenn urðu varir við að ófriður mundi að kominn gengu þeir út og vildu veita lið jarli. Varð þar hörð hríð því að Önundur hafði margt manna. Þar féllu margir góðir bændur og hirðir menn jarls. Nú komu þeir bræður og sögðu hversu farið hafði með þeim jarli.
Önundur kvað það illa er jarl var eigi drepinn “væri það Haraldi konungi hefnd nokkur fyrir það er vér höfum misst fyrir honum.”
Þeir kváðu jarli þetta meiri smán og fóru síðan á brott og inn í Súrnadal til Eiríks ölfúss, lends manns. Hann tók við þeim öllum um veturinn.
Þá höfðu þeir samdrykkju um jólin við þann mann er Hallsteinn hét og kallaður hestur og veitti Eiríkur fyrr vel og trúlega. Síðan veitti Hallsteinn og varð þeim þá að áskilnaði. Hann laust Eirík með dýrshorni. Eiríkur gat eigi hefnt sín og fór heim við það.
Þetta líkaði stórilla Öndóttssonum og nokkuru síðar fór Ásgrímur til bæjar Hallsteins og gekk inn einn og veitti Hallsteini mikinn áverka. Þeir hlupu upp sem inni voru og sóttu að Ásgrími. Ásgrímur varðist vel og komst úr höndum þeim í myrkrinu en þeir þóttust drepa hann.
Það fréttu þeir Önundur og Ásmundur og hugðu að Ásgrímur væri dauður og þóttust ekki mega að gera. Réð Eiríkur þeim að þeir leituðu til Íslands, kvað þeim ekki mundu duga að vera þar í landi þegar konungur mætti sér svo við koma. Þeir gerðu svo, bjuggust nú til Íslands og hafði sitt skip hvor þeirra. Hallsteinn lá í sárum og lést áður þeir Önundur sigldu. Kolbeinn réðst í skip með Önundi, sá er fyrr er getið.
8. kafli
Þeir Önundur og Ásmundur létu í haf er þeir voru búnir og höfðu samflota.
Þá kvað Önundur þetta:
Þótti eg hæfr að Hrotta
hreggvindi fyrr seggjum,
þá er geirhríðar gnúði
grand hvasst, Og Súgandi.
Nú verðr á skæ skorðu,
skáldi sígr, að stíga
út með einum fæti
Íslands á vit, þvísa.
Þeir höfðu útivist harða og veður þver mjög af suðri. Bar þá norður í haf. Þeir fundu Ísland og voru þá komnir fyrir norðan Langanes er þeir kenndust við. Þá var svo skammt í milli þeirra að þeir töluðust við. Sagði Ásmundur að þeir mundu sigla til Eyjafjarðar og því játuðu hvorirtveggju. Beittu þeir þá undir landið. Þá tók veðrið að styrma af landsuðri. En er þeir Önundur lögðu í nauðbeitu þá lestist ráin. Felldu þeir þá seglið og í því rak þá til hafs undan. Ásmundur komst undir Hrísey og beið til þess er honum byrjaði inn á Eyjafjörð. Honum gaf Helgi hinn magri Kræklingahlíð alla. Hann bjó að Glerá hinni syðri.
Ásgrímur bróðir hans kom út nokkurum vetrum síðar. Hann bjó að Glerá hinni nyrðri. Hann var faðir Elliða-Gríms, föður Ásgríms.
9. kafli
Nú er að segja frá Önundi tréfót að þá rak nokkur dægur. Síðan gekk veðrið á haf. Sigldu þeir þá að landinu. Kenndust þá við þeir er áður höfðu farið að þeir voru komnir vestur um Skaga. Sigldu þeir inn á Strandaflóa og nær Suður-Ströndunum. Þá reru að þeim sex menn á teinæringi og kölluðu út á hafskipið hver fyrir réði. Önundur nefndi sig og spurði hvaðan þeir væru. Þeir kváðust vera húskarlar Þorvalds frá Dröngum.
Önundur spurði hvort numin væru öll lönd um Strandirnar. Þeir kváðu lítið ónumið á Inn-Ströndum en ekki norður þangað. Önundur spurði skipverja sína hvort þeir vildu leita fyrir vestan landið eða hafa slíkt er þeim var til vísað. Þeir kjöru að hafa landið fyrst, sigldu inn eftir flóanum og lögðu fyrst á víkina fyrir Árnesi, skutu þar báti og reru til lands.
Þá bjó þar ríkur maður, Eiríkur snara, er land hafði numið milli Ingólfsfjarðar og Ófæru í Veiðileysu. En er Eiríkur vissi að Önundur var þar kominn bauð hann honum af sér að þiggja slíka hluti sem hann vildi en kvað lítið það er eigi væri numið áður. Önundur kveðst sjá vilja hvað það væri fyrst.
Fóru þeir þá inn yfir fjörðu og er þeir komu inn til Ófæru mælti Eiríkur: “Hér er á að líta. Héðan frá er ónumið og inn til landnáms Bjarnar.”
Þá gekk fjall mikið fram þeim megin fjarðanna og var fallinn á snjór.
Önundur leit á fjallið og kvað vísu þessa:
Réttum gengr, en ranga
rennr sæfarinn, ævi,
fákr, um fold og ríki
fleinhvessanda þessum.
Hefi eg lönd og fjöld frænda
flýið en hitt er nýjast.
Kröpp eru kaup ef hreppig
Kaldbak en læt akra.
Eiríkur svarar: “Margur hefir svo mikils misst í Noregi að menn fá þess ekki bætur. Hygg eg og að numin séu flest öll lönd í meginhéruðum. Kann eg því eigi að fýsa þig héðan í brott. Mun eg það halda að þú hafir af mínum jörðum það er þér hentar.”
Önundur kveðst það þiggja mundu og nam síðan land frá Ófæru og þær þrjár víkur, Byrgisvík og Kolbeinsvík og Kaldbaksvík til Kaldbakskleifar. Síðan gaf Eiríkur honum Veiðilausu alla og Reykjarfjörð og Reykjanes allt út þeim megin. En um rekann var ekki skilið því að þeir voru svo nógir þá að hver hafði það er vildi.
Önundur gerði bú í Kaldbak og hafði mannmart. En er fé hans tók að vaxa átti hann annað bú í Reykjarfirði.
Kolbeinn bjó í Kolbeinsvík og sat Önundur um kyrrt nokkura vetur.
10. kafli
Önundur var svo frækinn maður að fáir stóðust honum þótt heilir væru. Hann var og nafnkunnigur um allt land af foreldrum sínum.
Þessu næst hófust deilur þeirra Ófeigs grettis og Þorbjarnar laxakappa og lauk svo að Ófeigur féll fyrir Þorbirni í Grettisgeil hjá Hæli. Þar varð mikill liðdráttur að eftirmáli með sonum Ófeigs. Var sent eftir Önundi tréfót og reið hann suður um vorið og gisti í Hvammi að Auðar hinnar djúpauðgu. Hún tók allvel við honum því að hann hafði verið með henni fyrir vestan haf.
Þá var Ólafur feilan sonarson hennar fullroskinn. Mjög var Auður þá elligömul. Hún veik á við Önund að hún vildi kvæna Ólaf frænda sinn og vildi að hann bæði Álfdísar hinnar barreysku. Hún var bræðrunga Æsu er Önundur átti. Önundi þótti það vænlegt og reið Ólafur suður með honum.
Og er Önundur hitti vini sína og mága þá buðu þeir honum til sín. Var þá talað um málin og voru lögð til Kjalarnessþings því að þá var enn eigi sett alþingi. Síðan voru málin lagin í gerð og komu miklar bætur fyrir vígin en Þorbjörn jarlakappi var sekur ger. Hans son var Sölmundur, faðir Sviðu-Kára. Voru þeir frændur lengi utanlands síðan.
Þrándur bauð heim Önundi og þeim Ólafi og svo Þormóður skafti. Fluttu þeir þá bónorðið Ólafs. Var það auðsótt því að menn vissu hver rausnarkona Auður var. Var þessu keypt. Riðu þeir Önundur heim við svo búið. Auður þakkaði Önundi liðveislu við Ólaf.
Þetta haust fékk Ólafur feilan Álfdísar hinnar barreysku. Þá andaðist Auður hin djúpauðga sem segir í sögu Laxdæla.
11. kafli
Þau Önundur og Æsa áttu tvo syni. Hét hinn eldri Þorgeir en hinn yngri Ófeigur grettir. Litlu síðar andaðist Æsa. Eftir það fékk Önundur þeirrar konu er Þórdís hét. Hún var dóttir Þorgríms frá Gnúpi í Miðfirði, skyld Miðfjarðar-Skeggja. Við henni átti Önundur þann son er Þorgrímur hét. Hann var snemma mikill maður og sterkur, búsýslumaður mikill og vitur maður.
Önundur bjó í Kaldbak til elli. Hann varð sóttdauður og liggur í Tréfótshaugi. Hann hefir fræknastur verið og fimastur einfættur maður á Íslandi.
Þorgrímur var fyrir sonum Önundar þótt aðrir væru eldri. En er hann var hálfþrítugur að aldri þá hafði hann hærur í höfði. Því var hann kallaður hærukollur. Þórdís móðir hans giftist síðan norður í Víðidal Auðuni skökli. Þeirra son var Ásgeir að Ásgeirsá. Þeir Þorgrímur hærukollur og bræður hans áttu eignir miklar allir saman og skiptu engu með sér.
Eiríkur bjó í Árnesi sem fyrri var getið. Hann átti Ólöfu, dóttur Ingólfs úr Ingólfsfirði. Flosi hét sonur þeirra. Hann var efnilegur maður og átti marga frændur. Þeir komu út hingað þrír bræður, Ingólfur og Ófeigur og Eyvindur, og námu þeir þá þrjá fjörðu er við þá eru kenndir og byggðu þar síðan. Ólafur hét son Eyvindar. Hann bjó fyrst í Eyvindarfirði en síðan að Dröngum og var mikill maður fyrir sér.
Engi varð áskilnaður með mönnum þar meðan hinir eldri menn lifðu. En þá er Eiríkur var látinn þótti Flosa Kaldbeklingar eigi hafa löglegar heimildar á jörðum þeim er Eiríkur hafði gefið Önundi. Af því gerðist sundurþykki mikið meðal þeirra en þó héldu þeir Þorgrímur sem áður. Ekki máttu þeir þá leika saman eiga.
Þorgeir var fyrir búi þeirra bræðra í Reykjarfirði og reri jafnan til fiska því að þá voru firðirnir fullir af fiskum.
Nú gera þeir ráð sitt í Víkinni. Maður hét Þorfinnur. Hann var húskarl Flosa í Árnesi.
Þenna mann sendi Flosi til höfuðs Þorgeiri. Hann leyndist í naustinu. Þenna morgun bjóst Þorgeir á sjá að róa og tveir menn með honum og hét annar Brandur. Þorgeir gekk fyrst. Hann hafði á baki sér leðurflösku og í drykk. Myrkt var mjög. Og er hann gekk ofan frá naustinu þá hljóp Þorfinnur að honum og hjó með öxi á milli herða honum og sökk öxin og skvakkaði við. Hann lét lausa öxina því að hann ætlaði að eigi mundi þurfa um að binda og vildi forða sér sem skjótast.
Er það af Þorfinni að segja að hann hljóp norður í Árnes og kom þar áður en alljóst var og sagði víg Þorgeirs og kveðst mundu þurfa ásjá Flosa, kvað það og eitt til að bjóða sættir “og bætir það helst vort mál svo mikið sem að er orðið.”
Flosi kveðst fyrst mundu hafa fréttir “og ætla eg að þú sért allhræddur eftir stórvirkin.”
Nú er að segja frá Þorgeiri að hann snaraðist við höggið og kom öxin í flöskuna en hann varð ekki sár. Þeir leituðu ekki mannsins því að myrkt var að. Reru þeir út eftir fjörðum og komu í Kaldbak og sögðu atburð þenna.
Þeir gerðu að þessu kalls mikið og kölluðu hann Þorgeir flöskubak og svo hét hann síðan. Þá var þetta kveðið:
Fyrr lauguðu frægir
fránhvítinga rítar
rausnarmenn í ranni
ræfrhvössu bensævar.
Nú rauð, sá er var víða,
vómr, frá tekinn sóma,
benja skóðs af bleyði
bæði hlýr í sýru.
12. kafli
Í þann tíma kom hallæri svo mikið á Ísland að ekki hefir jafnmikið komið. Þá tók af nálega allan sjávarafla og reka. Það stóð yfir mörg ár.
Á einu hausti urðu þangað sæhafa kaupmenn á hafskipi og brutu þar í Víkinni. Flosi tók við þeim fjórum eða fimm. Steinn hét sá er fyrir þeim var. Víða vistuðust þeir þar um Víkina og ætluðu að gera sér skip úr skipbrotunum og varð þeim það óhægt. Skipið varð lítið til skutanna en breitt um miðbyrðið.
Um vorið kom veður mikið af norðri. Það hélst nær viku. Eftir veðrið könnuðu menn reka sína.
Þorsteinn hét maður er bjó á Reykjanesi. Hann fann hval rekinn innan fram á nesinu þar sem hét að Rifskerjum. Það var reyður mikil. Hann sendi þegar mann til Flosa í Vík og svo til næstu bæja.
Einar hét sá maður er bjó að Gjögri. Hann var landseti Kaldbeklinga og skyldi geyma reka þeirra þeim megin fjarða. Hann varð var við að hvalurinn var rekinn. Hann tók þegar skip sitt og reri yfir um fjörðuna til Byrgisvíkur. Þaðan sendi hann mann í Kaldbak. Og er þetta spurði Þorgrímur og þeir bræður bjuggust þeir sem hvatast og voru tólf á teinæringi. Þeir Kolbeinssynir fóru og með þeim, Ívar og Leifur, og voru sex saman. Allir bændur þeir er við komust fóru til hvalsins.
Nú er að segja frá Flosa að hann sendi eftir frændum sínum norður í Ingólfsfjörð og Ófeigsfjörð og eftir Ólafi Eyvindarsyni er þá bjó að Dröngum. Flosi kom fyrst og þeir Víkurmenn. Þeir tóku þegar til skurðar og var dreginn á land sá er skorinn var. Þeir voru nær tuttugu menn í fyrstu en skjótt fjölgaðist fólkið.
Í því komu Kaldbeklingar með fjögur skip. Þorgrímur veitti tilkall til hvalsins og fyrirbauð Víkurmönnum skurð og skipti og brautflutning á hvalnum. Flosi bað hann sýna ef Eiríkur hefði gefið Önundi tréfót með ákveðnum orðum rekann ella kveðst hann mundu vígi verja. Þorgrímur þóttist liðfár og réð því eigi til atgöngu.
Þá reri skip innan yfir fjörðu og sóttu knálega. Þeir komu að brátt. Þar var Svanur af Hóli úr Bjarnarfirði og húskarlar hans. Og þegar hann kom bað hann Þorgrím eigi láta ræna sig. En þeir voru áður vinir miklir og bauð Svanur honum lið sitt. Þeir bræður kváðust það þiggja mundu. Lögðu þeir þá að rösklega. Þorgeir flöskubakur réð fyrst upp á hvalinn að húskörlum Flosa. Þorfinnur, er fyrr var getið, skar hvalinn. Hann var fram við höfuðið og stóð í spori er hann hafði gert sér.
Þorgeir mælti: “Þar færi eg þér öxi þína.”
Síðan hjó hann á hálsinn svo að af tók höfuðið.
Flosi var uppi á mölinni er hann sá þetta. Hann eggjaði þá sína menn til móttöku. Nú berjast þeir lengi og veitti Kaldbeklingum betur. Fáir menn höfðu þar vopn nema öxar þær er þeir skáru með hvalinn og skálmir. Hrukku Víkurmenn af hvalnum í fjöruna. Austmenn höfðu vopn og urðu skeinuhættir. Steinn stýrimaður hjó fót undan Ívari Kolbeinssyni en Leifur bróðir Ívars laust félaga Steins í hel með hvalrifi. Þá var með öllu barið því er til fékkst og féllu þar menn af hvorumtveggjum.
Þessu næst komu þeir Ólafur frá Dröngum með mörgum skipum. Þeir veittu Flosa. Urðu Kaldbeklingar þá bornir ofurliði. Þeir höfðu áður hlaðið skip sín. Svanur bað þá ganga á skip sín. Létu þeir þá berast fram að skipunum. Víkurmenn sóttu þá eftir. Og er Svanur var kominn að sjánum hjó hann til Steins stýrimanns og veitti honum mikinn áverka. Síðan hljóp hann á skip sitt. Þorgrímur særði Flosa miklu sári og komst við það undan. Ólafur hjó til Ófeigs grettis og særði hann til ólífis. Þorgeir þreif Ófeig í fang sér og hljóp með hann á skip. Reru þeir Kaldbeklingar inn yfir fjörðu. Skildi þá með þeim.
Þetta var kveðið um fundinn:
Hörð frá eg heldr að yrðu
hervopn að Rifskerjum
mest því að marglr lustu
menn slyppir hvalklyppum.
En málm-Gautar móti
mjög fast hafa kastað,
oss líst ímun þessi
óknyttin, þvestslyttum.
Síðan varð komið á með þeim griðum og lögðu þeir málin til alþingis. Veittu þeir Kaldbeklingum Þóroddur goði og Miðfjarðar-Skeggi og margir Sunnlendingar. Varð Flosi sekur og margir þeir er að höfðu verið með honum. Varð honum þá féskylft mjög því að hann vildi einn halda upp fébótum. Þeir Þorgrímur gátu eigi sýnt að þeir hefðu fé lagið fyrir jarðirnar og rekann er Flosi kærði eftir.
Þorkell máni hafði þá lögsögu. Var hann þá beiddur úrskurðar. Honum kveðst það lög sýnast að nokkuð hefði fyrir komið þótt eigi væri fullt verð “því að svo gerði Steinunn hin gamla við Ingólf afa minn að hún þá af honum Rosmhvalanes allt og gaf fyrir heklu flekkótta og hefir það ekki rift orðið. Munu þar stærri rið í vera. En hér legg eg til ráð,” segir hann, “að skipað sé brotgeiranum og hafi hvorirtveggju að jafnaði. Síðan sé það lögtekið að hver eigi reka fyrir sinni jörðu.”
Þetta var gert. Var þá svo skipt til að þeir Þorgrímur létu Reykjarfjörð og allt út þeim megin en þeir skyldu eiga Kamb. Ófeigur var bættur miklu fé. Þorfinnur var ógildur. Þorgeiri var bætt fyrir fjörráð. Síðan sættust þeir.
Flosi réðst til Noregsferðar með Steini stýrimanni en seldi jarðir sínar í Víkinni Geirmundi hvikatimbur. Bjó hann þar síðan. Skip það er kaupmenn höfðu gert var mjög breiðvaxið. Það kölluðu menn Trékylli og þar er víkin við kennd. Á því fór Flosi utan og varð afturreka í Öxarfjörð. Þaðan af gerðist saga Böðmóðs og Grímólfs og Gerpis.
13. kafli
Eftir þetta skiptu þeir Þorgrímur bræður fé með sér. Tók Þorgrímur lausafé en Þorgeir löndin. Réðst Þorgrímur þá inn til Miðfjarðar og keypti land að Bjargi með ráði Skeggja. Þorgrímur átti Þórdísi dóttur Ásmundar undan Ásmundargnúpi er numið hafði Þingeyrasveit.
Þau Þorgrímur og Þórdís áttu son er Ásmundur hét. Hann var mikill maður og sterkur og vitur og hærður manna best. Hann hafði snemma hærur í höfði. Því var hann kallaður hærulangur eða hærulagður.
Þorgrímur gerðist þá búsýslumaður mikill og hafði alla menn mjög í starfa þá er með honum voru. Ásmundur vildi lítt vinna og var fátt um með þeim feðgum. Fór svo þar til Ásmundur var roskinn að aldri. Þá beiddi Ásmundur fararefna af föður sínum. Þorgrímur kvað þau lítil verða mundu og fékk honum þó nokkuð af flytjanda eyri. Fór Ásmundur þá utan og græddist honum brátt fé. Hann sigldi til ýmissa landa og gerðist hinn mesti kaupmaður og vellauðigur. Hann var vinsæll maður og skilríkur og átti marga frændur í Noregi þá er göfgir voru.
Á einu hausti vistaðist Ásmundur austur í Vík með göfgum manni þeim er Þorsteinn hét. Hann var upplenskur maður að ætt og átti systur er Rannveig hét. Hún var hinn besti kvenkostur. Þeirrar konu bað Ásmundur og fékk með ráði Þorsteins frænda hennar. Staðfestist Ásmundur þar um hríð og var vel virður.
Þau Rannveig áttu þann son er Þorsteinn hét, manna fríðastur og sterkur maður, raddmaður mikill og hár maður á vöxt og nokkuð seinlegur í viðbragði. Því var hann drómundur kallaður.
En er Þorsteinn var lítt á legg kominn tók móðir hans sótt og andaðist. Eftir það festi Ásmundur ekki yndi í Noregi. Tóku þá móðurfrændur Þorsteins við honum og fé hans en Ásmundur ræður þá enn í sigling og varð nafnfrægur maður.
Ásmundur kom skipi sínu í Húnavatni. Þá var Þorkell krafla höfðingi yfir Vatnsdælum. Hann frétti útkomu Ásmundar. Reið Þorkell þá til skips og bauð Ásmundi til sín. Þorkell bjó á Mársstöðum í Vatnsdal. Fór Ásmundur þangað til vistar. Þorkell var son Þorgríms Kornsárgoða. Hann var stórvitur maður.
Þetta var eftir útkomu Friðreks biskups og þeirra Þorvalds Koðránssonar. Þeir bjuggu þá að Lækjamóti er þetta var. Þeir boðuðu kristni fyrst fyrir norðan land. Lét Þorkell prímsignast og margir menn með honum. Mart bar til tíðinda um sameign þeirra biskups og Norðlendinga, það er ekki kemur við þessa sögu.
Með Þorkeli fæddist upp kona sú er Ásdís hét. Hún var dóttir Bárðar Jökulssonar, Ingimundarsonar hins gamla, Þorsteinssonar, Ketilssonar raums. Móðir Ásdísar var Aldís, dóttir Ófeigs grettis sem fyrr er sagt. Ásdís var ógefin og þótti vera hinn besti kvenkostur bæði sakir ættar og fjár.
Ásmundi leiddist nú í siglingum. Vildi hann nú staðfestast á Íslandi. Hefir hann þá uppi orð sín og biður þessar konu. Þorkell vissi gjörla skil á honum að hann var ríkur maður og ráðinn til fjárhalds og fór það fram að Ásmundur fékk Ásdísar. Gerðist hann þá aldavinur Þorkels og búsýslumaður mikill, lögvitur og framgjarn.
Litlu síðar andaðist Þorgrímur hærukollur að Bjargi. Tók Ásmundur arf eftir hann og bjó þar síðan.
14. kafli
Ásmundur hærulangur setti bú að Bjargi, mikið og reisulegt, og hafði mannmargt með sér. Hann var vinsæll maður.
Þessi voru börn þeirra Ásdísar. Atli var elstur. Hann var gegn maður og gæfur, hægur og hógvær. Við hann líkaði hverjum manni vel. Annan son áttu þau er Grettir var kallaður. Hann var mjög ódæll í uppvexti sínum, fátalaður og óþýður, bellinn bæði í orðum og tiltektum. Ekki hafði hann ástríki mikið af Ásmundi föður sínum en móðir hans unni honum mikið. Grettir Ásmundarson var fríður maður sýnum, breiðleitur og skammleitur, rauðhærður og næsta freknóttur, ekki bráðger meðan hann var á barnsaldri. Þórdís hét dóttir Ásmundar er síðan átti Glúmur son Óspaks Kjallakssonar af Skriðinsenni. Rannveig hét önnur dóttir Ásmundar. Hana átti Gamli Þórhallsson Vínlendings. Þau bjuggu á Melum í Hrútafirði. Þeirra son var Grímur. Sonur Glúms og Þórdísar Ásmundardóttur var Óspakur, er deildi við Odd Ófeigsson sem segir í Bandamanna sögu.
Grettir óx upp að Bjargi þar til er hann var tíu vetra gamall. Hann tók þá heldur við að gangast. Ásmundur bað hann starfa nokkuð. Grettir sagði sér það eigi mundu vera vel hent og spurði þó að hvað hann skyldi gera.
Ásmundur svarar: “Þú skalt gæta heimgása minna.”
Grettir svarar og mælti: “Lítið verk og löðurmannlegt.”
Ásmundur svarar: “Leys þú þetta vel af hendi og mun þá batna með okkur.”
Síðan tók Grettir við heimgásunum. Þær voru fimm tigir og með kjúklingar margir. Eigi leið langt áður honum þóttu þær heldur bágrækar en kjúklingar seinfærir. Honum gerði mjög hermt við þessu því að hann var lítill skapdeildarmaður. Nokkuru síðar fundu förumenn kjúklinga dauða úti og heimgæs vængbrotnar. Þetta var um haustið. Ásmundi líkaði stórilla og spurði hvort Grettir hefði drepið fuglana.
Hann glotti að og svarar:
Það geri eg víst, er vetrar,
vind eg háls á kjúklingum.
Enn þótt eldri finnist
einn ber eg af sérhverri.
“Og skaltu eigi lengur af þeim bera,” sagði Ásmundur.
“Vinur er sá annars er ills varnar, sagði Grettir.
”Fást mun þér verk annað,“ sagði Ásmundur.
”Fleira veit sá er fleira reynir,“ sagði Grettir, ”en hvað skal eg nú gera?“
Ásmundur svarar: ”Þú skalt strjúka bak mitt við elda sem eg læt jafnan gera.“
”Heitt mun það um hönd,“ sagði Grettir, ”en þó er verkið löðurmannlegt.“
Fór nú svo fram um hríð að Grettir heldur þessum starfa. Tekur nú að hausta. Gerðist Ásmundur heitfengur mjög og eggjar Gretti að strjúka fast bak sitt.
Það var háttur í þann tíma að eldaskálar voru stórir á bæjum. Sátu menn þar við langelda á öftnum. Þar voru borð sett fyrir menn og síðan sváfu menn upp frá eldunum. Konur unnu þar tó á daginn.
Það var eitt kveld að Grettir skyldi hrífa bak Ásmundar að karl mælti: ”Nú muntu verða af þér að draga slenið, mannskræfan,“ segir hann.
Grettir segir: ”Illt er að eggja óbilgjarnan.“
Ásmundur mælti: ”Aldrei er dugur í þér.“
Grettir sér nú hvar stóðu ullkambar í setinu, tekur upp kambinn og lætur ganga ofan eftir baki Ásmundar. Hann hljóp upp og varð óður við og vildi ljósta Gretti með staf sínum en hann skaust undan. Þá kom húsfreyja að og spurði hvað þeir áttust við.
Grettir kvað þá vísu þessa:
Mik vill menja stökkvir,
mjög kenni eg þess, brenna,
hodda grund, á höndum,
höfugt ráð er það báðum.
Læt eg á hringa hreyti,
hör-Gerðr, tekið verða
görr, sé eg gildra sára
gögl, óskornum nöglum.
Illa þótti húsfreyju er Grettir hafði þetta til tekið og kvað hann ekki fyrirleitinn verða mundu. Ekki batnaði frændsemi þeirra Ásmundar við þetta.
Nokkuru stundu síðar talaði Ásmundur til að Grettir skyldi geyma hrossa hans. Grettir kvað sér það betra þykja en bakeldagerðin.
”Þá skaltu svo að fara,“ sagði Ásmundur, ”sem eg býð þér. Hryssu á eg bleikálótta er eg kalla Kengálu. Hún er svo vís að um veðráttu og vatnagang að það mun aldrei bresta að þá mun hríð eftir koma ef hún vill eigi á jörð ganga. Þá skaltu byrgja í húsi hrossin en halda þeim norður á hálsinn þegar er vetur leggur á. Þætti mér þurfa að þú leystir þetta verk betur af hendi en þau tvö sem áður hefi eg skipað þér.“
Grettir svarar: ”Þetta er kalt verk og karlmannlegt. En illt þykir mér að treysta merinni því að það veit eg öngvan fyrr gert hafa.“
Nú tekur Grettir við hrossageymslunni og leið svo fram yfir jól. Þá gerði á kulda mikla með snjóvum og illt til jarða. Grettir var lítt settur að klæðum en maður lítt harðnaður. Tók hann nú að kala en Kengála stóð á þar sem mest var svæðið í hverju illviðri. Aldrei kom hún svo snemma í haga að hún mundi heim ganga fyrir dagsetur. Grettir hugsar þá að hann skal gera eitthvert það bellibragð að Kengálu yrði goldið fyrir útiganginn.
Það var einn morgun snemma að Grettir kom til hrossahúss, lýkur upp og stóð Kengála fyrir stalli því að þótt hrossum væri fóður gefið, þeim er með henni voru, þá hafði hún það ein. Nú fór Grettir upp á bak henni. Hann hafði hvassan hníf í hendi og rekur á um þverar herðar Kengálu og lætur svo ganga aftur tveim megin hryggjar. Hrossið bregður nú hart við því að það var feitt og fælið, eys svo að hófarnir brustu í veggjunum. Grettir féll af baki og er hann komst á fætur leitar hann til bakferðar. Er þeirra viðureign hin snarpasta og svo lýkur að hann flær af henni alla baklengjuna aftur á lend, rekur síðan út hrossin og til haga. Ekki vildi Kengála bíta nema til baksins. En er skammt var af hádegi bregður hún við og hleypur heim til húss.
Grettir byrgir nú húsið og gengur heim. Ásmundur spyr hvar hrossin væru. Grettir kveðst geymt hafa í húsi eftir vanda. Ásmundur segir að þá mundi skammt til hríðar er hrossin vildu eigi á standa í þvílíku veðri.
Grettir segir: ”Skýst þeim mörgum vísdómurinn er betri von er að.“
Líður nú af nóttin og kom eigi hríðin. Rekur Grettir hrossin og þolir Kengála ekki í haga. Undarlegt þótti Ásmundi það en veðráttu brá eigi úr því sem áður hafði verið.
Hinn þriðja morgun fór Ásmundur til hrossanna og að Kengálu og mælti: ”Illa þykir mér hrossin við hafa orðið að jafngóðum vetri en þú munt síst bregðast að bakinu Bleikála.“
”Verður það er varir,“ sagði Grettir, ”og svo hitt er eigi varir.“
Ásmundur strauk bakið á hrossinu og fylgdi þar húðin. Honum þótti undarlegt því svo var orðið og kvað Grettir þessu valda mundu. Grettir glotti að og svaraði öngu.
Bóndi fór heim og var málóði mjög. Hann gekk til eldaskála og heyrði að húsfreyja mælti: ”Vel skyldi nú reynst hafa hrossageymslan frænda míns.“
Ásmundur kvað vísu:
Fyrst hefir flegna trausta,
fær prettað mig, Grettir,
fljóð eru flest hin prúðu
fullmálug, Kengálu.
Víst mun venja flestar
vitr drengr af sér lengi,
hróðr nemi hrings hin fríða
Hlín, kvaðningar mínar.
Húsfreyja svarar: ”Eigi veit eg hvort mér þykir meir frá móti að þú skipar honum jafnan starfa eða hitt að hann leysir alla einn veg af hendi.“
”Nú skal og um enda gert fyrir það,“ sagði Ásmundur, ”en hafa skal hann viðurgerning því verra.“
”Telji þá hvorigir á aðra,“ sagði Grettir og svo fór fram um stund. Ásmundur lét drepa Kengálu.
Mörg bernskubrögð gerði Grettir, þau sem eigi eru í sögu sett. Hann gerðist nú mikill vexti. Ekki vissu menn gjörla afl Grettis því að hann var óglíminn. Orti hann jafnan vísur og kviðlinga og þótti heldur níðskár. Ekki lagðist hann í eldaskála og var fátalaður lengstum.
15. kafli
Þá voru margir uppvaxandi menn í Miðfirði. Skáld-Torfa bjó þá á Torfustöðum. Bersi hét son hennar. Hann var manna gervilegastur og skáld gott. Þeir bjuggu á Mel bræður, Kormákur og Þorgils. Með þeim óx upp sá maður er Oddur hét. Hann var framfærslumaður þeirra og var kallaður Oddur ómagaskáld. Auðunn hét maður. Hann óx upp á Auðunarstöðum í Víðidal. Hann var gegn maður og góðfengur og sterkastur norður þar sinna jafnaldra. Kálfur Ásgeirsson bjó á Ásgeirsá og Þorvaldur bróðir hans. Atli bróðir Grettis gerðist og þroskamaður og allra manna gæfastur. Við hann líkaði hverjum manni vel.
Þessir lögðu knattleika saman á Miðfjarðarvatni. Komu þar til Miðfirðingar og Víðdælar. Þar komu og margir inn úr Vesturhópi og Vatnsnesi svo og úr Hrútafirði. Sátu þeir þar við er lengra fóru til. Var þar skipað saman þeim sem jafnsterkastir voru og varð að því hin mesta gleði lengstum á haustum.
Grettir fór til leika fyrir bæn Atla bróður síns þá er hann var fjórtán vetra gamall. Síðan var skipað mönnum til leiks. Var Gretti ætlað að leika við Auðun er fyrr var nefndur. Hann var þeirra nokkurum vetrum eldri. Auðunn sló knöttinn yfir höfuð Gretti og gat hann eigi náð. Stökk hann langt eftir ísinum. Grettir varð reiður við þetta og þótti Auðunn vilja leika á sig, sækir þó knöttinn, kemur aftur og þegar hann náði til Auðunar setur hann knöttinn rétt framan í enni honum svo að sprakk fyrir. Auðunn sló Gretti með knattgildrunni er hann hélt á og kom lítt á því að Grettir hljóp undir höggið. Tókust þeir þá á fangbrögðum og glímdu. Þóttust menn þá sjá að Grettir var sterkari en menn ætluðu því að Auðunn var rammur að afli. Áttust þeir lengi við en svo lauk að Grettir féll. Lét Auðunn þá fylgja kné kviði og fór illa með hann. Hlupu þeir þá til Atli og Bersi og margir aðrir og skildu þá.
Grettir kvað ekki þurfa að halda á sér sem ólmum hundi og mælti þetta: ”Þræll einn þegar hefnist en argur aldrei.“
Eigi létu menn þetta sér að sundurþykki verða því að þeir Kálfur og Þorvaldur bræður vildu að þeir væru sáttir. Voru þeir og skyldir nokkuð, Auðun og Grettir. Hélst leikurinn sem áður og varð ekki til sundurþykki fleira.
16. kafli
Þorkell krafla gerðist nú gamall mjög. Hann hafði Vatnsdælagoðorð og var höfðingi mikill. Hann var aldavin Ásmundar hærulangs sem tengdum þeirra hæfði. Hann var því vanur að ríða til Bjargs hvert vor að sækja þangað til kynnis. Og enn gerði hann svo næsta vor eftir það er áður var sagt að hann fór til Bjargs.
Tóku þeir Ásmundur og Ásdís við honum tveim höndum. Var hann þar þrjár nætur og töluðu þeir mágar marga hluti milli sín. Þorkell spurði hversu Ásmundi segði hugur um sonu sína, hverjir iðnarmenn þeir mundu verða. Ásmundur kveðst ætla að Atli yrði búmaður mikill, forsjáll og fémaður.
Þorkell segir: ”Þarfur maður og þér líkur. En hvað segir þú af Gretti?“
Ásmundur mælti: ”Af honum er það að segja að hann mun verða sterkur maður og óstýrilátur, þykkjumikill og þungur hefir hann mér orðið.“
Þorkell svarar: ”Eigi er það heillavænlegt mágur,“ sagði hann, ”en hversu skulum við skipa þingferð okkra í sumar?“
Ásmundur svarar: ”Eg gerist þungfær og vildi eg sitja heima.“
”Viltu að Atli fari fyrir þig?“ sagði Þorkell.
”Hann þykist eg eigi missa mega,“ sagði Ásmundur, ”fyrir sakir starfa og aðdráttar en Grettir vill ekki starfa. Er hann svo viti borinn að eg get að hann kunni halda upp lögskilum fyrir mig með þinni umsjá.“
”Þú skalt ráða mágur,“ segir Þorkell.
Reið hann nú heim þá er hann var búinn og leysti Ásmundur hann burt með góðum gjöfum.
Nokkru síðar bjóst Þorkell heiman til þings. Hann reið með sex tigu manna. Fóru þeir allir með honum er í hans goðorði voru. Kemur hann til Bjargs og reið Grettir þaðan með honum. Þeir riðu suður heiði þá er Tvídægra heitir. Áifangar voru litlir á fjallinu og riðu þeir mikinn ofan í byggðina. Og er þeir komu ofan í Fljótstungu þótti þeim mál að sofa og hleyptu beislum af hestum sínum og létu ganga með söðlum. Lágu þeir áfram langt og sváfu. En er þeir vöknuðu svipuðust menn að hestum sínum. Höfðu hestarnir sinn veg farið hver þeirra en sumir höfðu velst. Grettir fann seinast sinn hest.
Það var þá háttur að menn vistuðu sig sjálfir til þings og reiddu flestir mali um söðla sína. Söðull var undir kviði niðri á hesti Grettis en í burt malurinn. Fer hann nú til leitar og fann eigi. Sér hann nú hvar maður gengur. Sá fór hart. Grettir spyr hver þar færi. Hann svarar og kvaðst Skeggi heita og vera húskarl norðan úr Ási úr Vatnsdal.
”Er eg í ferð með Þorkatli,“ sagði hann, ”en mér hefir tekist til gálauslega. Eg hefi týnt vistamal mínum.“
Grettir svarar: ”Eindæmin eru verst. Eg hefi og týnt mal þeim er eg átti og leitum nú báðir samt.“
Það líkaði Skeggja vel. Ganga þeir nú um hríð. En er minnst varði tekur Skeggi á rás upp eftir móunum, grípur þar upp malinn. Grettir sá er hann laut og spyr hvað hann tók upp.
”Mal minn,“ segir Skeggi.
”Hverjir bera það fleiri en þú?“ sagði Grettir, ”og lát mig sjá því að mart er öðru líkt.“
Skeggi kvað öngvan mann taka af sér það er hann ætti. Grettir þreif til malsins og toguðust þeir um hann og vildi sitt mál hvortveggi hafa.
”Undarlega ætlið þér,“ segir húskarlinn, ”þó að menn séu eigi jafnstórauðgir allir sem þér Vatnsdælar að menn muni eigi þora að halda á sínu fyrir yður.“
Grettir kvað þetta ekki eftir mannvirðingu ganga þótt hver hefði það er ætti.
Skeggi mælti: ”Of fjarri er nú Auðunn að kyrkja þig sem við knattleikinn.“
”Vel er það,“ sagði Grettir, ”en eigi muntu mig kyrkja hvern veg sem hitt hefir verið.“
Skeggi greip þá öxi og hjó til Grettis. En er Grettir sá þetta þreif hann vinstri hendi öxarskaftið fyrir framan hendur Skeggja svo að þegar varð laus. Grettir setti þá sömu öxi í höfuð honum svo að þegar stóð í heila. Féll húskarl þá dauður til jarðar.
Grettir tók malinn og kastar um söðul sinn. Hann reið síðan eftir förunautum sínum. Þorkell reið undan því að hann vissi eigi að þetta mundi til hafa borið. Menn söknuðu nú Skeggja úr flokkinum. En er Grettir fann þá spyrja þeir hann hvað hann vissi til Skeggja.
Grettir kvað þá vísu:
Hygg eg at hljóp til Skeggja
hamartröll með för rammri.
Blóð var á gunnar Gríði
gráðr, fyr stundu áðan.
Sú gein of haus honum
harðmynnt og lítt sparði,
var eg hjá viðreign þeira,
vígtenn og klauf enni.
Þá hlupu fylgdarmenn Þorkels upp og sögðu ekki mundu tröll hafa tekið manninn um ljósan dag.
Þorkell þagnaði og mælti síðan: ”Önnur efni munu í vera og mun Grettir hafa drepið hann eða hvað bar til?“
Grettir segir þá allan áskilnað þeirra.
Þorkell mælti: ”Allilla hefir þetta til tekist. Skeggi var fenginn til fylgdar við mig en maður góðættaður og mun eg taka ámælið á þann hátt að eg mun bæta slíku sem dæmt verður en sektum má eg eigi ráða. Eru tveir kostir fyrir hendi fyrir þig Grettir, hvort þú vilt heldur fara til þings og hætta á hvern veg til tekst eða hverfa hér aftur.“
Grettir kjöri að fara til þings og svo var að hann fór. Var þetta mál kært af erfingjum hins vegna. Gekk Þorkell til handsala og hélt upp fébótum en Grettir skyldi vera sekur og vera utan þrjá vetur.
En er þeir riðu af þingi höfðingjarnir áðu þeir uppi undir Sleðaási áður en þeir skildu. Þá hóf Grettir stein þann er þar liggur í grasinu og nú heitir Grettishaf. Þá gengu til margir menn að sjá steininn og þótti þeim mikil furða að svo ungur maður skyldi hefja svo mikið bjarg.
Reið Grettir heim til Bjargs og sagði frá föður sínum. Ásmundur tók lítt á og kvað hann óeirðarmann verða mundu.
17. kafli
Hafliði hét maður er bjó á Reyðarfelli á Hvítársíðu. Hann var siglingamaður og átti skip í förum. Það stóð uppi í Hvítá. Sá maður var á skipi með honum er Bárður hét. Hann átti konu unga og fríða.
Ásmundur sendi mann til Hafliða að hann skyldi taka við Gretti og sjá um með honum. Hafliði kvað sér sagt að maðurinn væri vanstilltur en fyrir sakir vináttu þeirra Ásmundar tók hann við Gretti. Bjóst hann þá til utanferðar. Engin vildi Ásmundur fararefni fá honum utan hafnest og lítið af vaðmálum. Grettir bað hann fá sér vopn nokkuð.
Ásmundur segir: ”Ekki hefir þú mér hlýðinn verið. Veit eg og eigi hvað þú munir það með vopnum vinna er þarft er. Mun eg og þau ekki til láta.“
Grettir mælti: ”Þá er eigi það að launa sem eigi er gert.“
Síðan skildu þeir feðgar með litlum kærleikum. Margir báðu hann vel fara en fáir aftur koma.
Móðir hans fylgdi honum á leið. Og áður þau skildu mælti hún svo: ”Eigi ertu svo af garði ger frændi sem eg vildi svo vel borinn maður sem þú ert. Þykir mér það mest á skorta að þú hefir ekki vopn það er neytt sé en mér segir svo hugur um að þú munir þeirra við þurfa.“
Hún tók þá undan skikkju sinni sverð búið. Það var allgóður gripur.
Hún mælti þá: ”Sverð þetta átti Jökull föðurfaðir minn og hinir fyrri Vatnsdælir og var þeim sigursælt. Vil eg nú gefa þér sverðið og njót vel.“
Grettir þakkaði henni vel gjöfina og kvað sér þetta betra þykja en aðrir fémunir þótt meiri væru. Síðan fór hann veg sinn en Ásdís bað honum margra hluta.
Grettir reið suður um heiði og létti eigi fyrr en hann kom suður yfir heiði. Hafliði tók vel við honum. Fann hann Gretti og spurði að fararefnum hans.
Grettir kvað vísu:
Hygg eg að heiman byggi
heldr auðigir snauðan,
blakkþollr byrjar skikkju,
beiðendr móins leiðar.
Enn réð orðskvið sanna
auðnorn við mig fornan
ern, að best er barni,
benskóðs fyr gjöf, móðir.
Hafliði kvað það sýnt að henni var mest um hann hugað.
Létu þeir í haf þegar þeir voru búnir og byr gaf. Og er þeir komu út yfir grunn öll undu þeir segl. Grettir gerði sér gróf undir bátinum og vildi þaðan hvergi hræra sig, hvorki til austra né að segli að vinna, og ekki starfa það sem hann átti að skipi að gera til jafnaðar við aðra menn. Eigi vildi hann og kaupa af sér.
Þeir sigldu suður um Reykjarnes og svo suður fyrir land. Og er landið var horfið fengu þeir rétt mikinn. Skipið var heldur lekt og þoldi illa réttinn. Fengu þeir vos mikið. Grettir lét þá fjúka í kviðlinga. Það líkaði mönnum stórilla.
Einn dag var það að veður var bæði hvasst og kalt. Þá kölluðu sveinar, báðu Gretti nú duga ”því að oss kólnar á klónum.“
Grettir leit upp og mælti:
Happ er það ef hér skal kroppna
hver fingr á kyrpingum.
Ekki fengu þeir af honum starfann en líkaði nú verr en áður og kváðu hann skyldu taka gjöld á sjálfum sér fyrir níð sitt og lögleysu þá er hann gerði.
”Þykir þér betra,“ sögðu þeir, ”að klappa um kviðinn á konu Bárðar stýrimanns en að gera skyldu þína á skipi og slíkt er óþolanda.“
Veðrið gekk upp að eins. Stóðu þeir þá í austri svo að dægrum skipti. Þeir heituðust þá við Gretti.
Og er Hafliði heyrði þetta gekk hann þar að er Grettir lá og mælti: ”Eigi þykir mér samkeypi yðvart kaupmanna gott. Þú gerir þeim ólög en níðir þá á svo gert ofan en þeir heitast að steypa þér fyrir borð. Nú er slíkt ótiltækilegt.“
”Því munu þeir eigi ráða tiltektum sínum?“ kvað Grettir, ”en það vildi eg að eftir dveldist einn eða tveir hjá mér áður en eg gangi fyrir borð.“
”Slíkt er ógeranda,“ sagði Hafliði. ”Mun oss aldrei vel gefa ef þér berist þetta fyrir. Mun eg leggja ráð til með þér.“
”Hvert er það?“ sagði Grettir.
”Þeir finna að við þig að þú níðir þá. Nú vil eg,“ sagði Hafliði, ”að þú kveðir til mín nokkra níðvísu og má vera að þeir umberi betur við þig.“
”Aldrei kveð eg til þín,“ sagði Grettir, ”utan gott. Geri eg þig ekki líkan kyrpingum.“
Hafliði mælti: ”Kveða má svo að fegri sé vísan ef grafin er þótt fyrst sé eigi allfögur.“
”Þetta hefi eg og nægst til,“ sagði Grettir.
Hafliði fór til þeirra skipverja og mælti: ”Mikið er erfiði yðvart og von að yður líki illa við Gretti.“
”Verri þykja oss kviðlingar hans en hvetvetna annað,“ segja þeir.
Hafliði mælti þá hátt: ”Hann mun og illa af því fara um síðir.“
En er Grettir heyrir Hafliða ámæla sér kvað Grettir vísu:
Annað var þá er inni
át Hafliði drafla,
hann þóttist þá heima,
hvellr að Reyðarfelli.
Nú dagverðar darra
dóms skreytandi neytir
tvisvar Tveggja nesja
takhreins degi einum.
Kaupmönnum þótti allilla og sögðu að hann skyldi eigi til einskis gera að níða Hafliða bónda.
Hafliði mælti þá: ”Nóga hefir Grettir verðleika til þess þótt þér gerðuð honum nokkra smán en eigi vil eg hafa sæmd mína í veði til móts við illgirni hans og forsjáleysi. Nú munum vér þessa ekki að sinni hefna meðan vér erum í svo miklum háska staddir en minnist þessa þá er þér komið á land ef yður líkar.“
Þeir segja: ”Mun oss eigi mega sem þér? Hvað mun oss heldur bíta níð en þig?“
Hafliði bað þá svo gera. Þaðan frá vönduðu skipmenn miklu miður um kviðlinga en áður. Þeir höfðu harða útivist og langa. Komu þá lekar að skipinu. Tóku menn þá að lýjast mjög á erfiði.
Stýrimannskona sú hin unga var því jafnan vön að sauma að höndum Gretti og höfðu skipverjar það mjög í fleymingi við hann.
Hafliði gekk þar til er Grettir lá og kvað vísu:
Stattu upp úr gróf, Grettir,
grefr knörr hola vörru.
Minnstu á mál við svanna
meginkátr hinn glaðláta.
Fast hefir hrund að höndum,
hör-Nauma, þér saumað.
Skorð vill að vel verðir
viðr meðan land er niðri.
Grettir stóð skjótt upp og kvað:
Stöndum upp þó að undir
alltíðum skip ríði.
Veit eg að víf mun láta
verr ef eg ligg á knerri.
Því mun öllungis illa
aldygg kona hyggja
hvít ef hér skal láta
hvert sinn fyr mig vinna.
Síðan hljóp hann aftur til þar er þeir voru að austrinum og spurði hvað þeir vildu að hann gerði. Þeir sögðu hann lítið gott gera mundu.
Hann segir: ”Munur er að mannsliði.“
Hafliði bað þá eigi neita liði hans ”má vera að hann þykist leysa sínar hendur ef hann býður lið sitt.“
Þá var ekki dæluaustur á hafskipum. Kölluðu menn það byttuaustur eða stampaustur. Hann var bæði vossamur og erfiður. Skyldi þar hafa byttur tvær. Fór þá önnur niður er önnur fór upp. Sveinar báðu að Grettir skyldi sökkva byttunum, kváðu nú reyna skyldu hvað hann mætti. Hann segir að lítil raun mundi best um það. Fer hann þá niður og sökkti byttunum og voru þá fengnir til tveir að ausa móts við hann. Héldust þeir eigi lengi við áður þeir voru yfirkomnir af mæði. Þá gengu til fjórir og allt á sömu leið. Svo segja sumir menn að átta jusu þeir við hann áður en lauk. Var þá og upp ausið skipið. Þaðan af skiptist mjög um orðalag kaupmanna við Gretti því að þeir sáu hvað hann átti undir sér fyrir afls sakir. Var hann og þaðan frá hinn fræknasti til liðs, hvers sem við þurfti.
Ber þá nú austur í haf. Lágu á myrkur mikil. Fundu þeir eigi fyrr eina nótt en þeir sigldu upp á sker skipinu svo að undan gekk undirhluturinn. Var þá hrundið bátnum og fluttar af konur og allt það er laust var. Þar var hólmur lítil skammt frá þeim og færðu þangað föng sín sem þeir komust við um nóttina.
En er lýsa tók áttu þeir um að tala hvar þeir voru komnir. Kenndust þeir þá við sem áður höfðu farið milli landa að þeir voru komnir að Sunnmæri í Noregi. Þar var ein ey skammt frá þeim til meginlands er heitir Háramarsey. Þar var byggð mikil í eyjunni. Þar var og lends manns ból.
18. kafli
Þorfinnur hét lendur maður sá er þar átti bú í eyjunni. Hann var son Kárs hins gamla er þar hafði lengi búið. Þorfinnur var höfðingi mikill.
Og er alljóst var orðið sáu menn til úr eyjunni að kaupmenn voru nauðuglega staddir. Var þá sagt til Þorfinni. Hann brá við skjótt og lét setja fram karfa stóran er hann átti. Reru sextán menn á borð. Þeir voru á karfanum nærri þrír tigir manna, fóru til sem hvatast og burgu fé kaupmanna en hafskipið sökk niður. Týndist þar mikið góss. Þorfinnur flutti alla menn heim af skipinu til sín. Voru þeir þar viku og þurrkuðu varning sinn. Síðan fóru kaupmenn suður í land og fóru þeir úr sögunni.
Grettir var eftir hjá Þorfinni og lét lítið um sig. Hann var fátalaður lengstum. Þorfinnur lét gefa honum mat og gaf sér ekki mikið að honum. Grettir var honum ófylgjusamur og vildi eigi ganga með honum úti á daginn. Það líkaði illa Þorfinni en nennti þó eigi að kviðja honum mat. Þorfinnur var híbýlaprúður og gleðimaður mikill. Vildi hann og að aðrir menn væru glaðir.
Grettir var húsgöngull og fór á aðra bæi þar í eynni. Auðunn hét maður er bjó þar sem heitir á Vindheimi. Þangað fór Grettir daglega og gerði sér kært við hann. Sat Grettir þar jafnan á dag fram.
Það var eitt kveld harðla síð er Grettir bjóst heim að ganga að hann sá eld mikinn gjósa upp á nesi því er niður var frá bæ Auðunar. Grettir spurði eftir hvað nýjungu það væri. Auðunn kvað honum ekki á liggja það að vita.
”Það mundi mælt, sagði Grettir, “ef slíkt sæist á voru landi að þar brynni af fé.”
Bóndi svarar: “Sá einn mun fyrir þeim eldi ráða að eigi mun gagn í um að forvitnast.”
“Þó vil eg vita,” segir Grettir.
“Þar á nesinu stendur haugur,” segir Auðunn, “en þar var í lagður Kár hinn gamli, faðir Þorfinns. Áttu þeir feðgar fyrst eitt bóndaból í eynni en síðan Kár dó hefir hann svo aftur gengið að hann hefir eytt á burt öllum bændum þeim er hér áttu jarðir svo að nú á Þorfinnur einn alla eyna og öngum verður þeim mein að þessu er Þorfinnur heldur hendi yfir.”
Grettir kvað hann vel hafa sagt “mun eg hér koma á morgun og lát til reiðu graftól.”
“Let eg þig,” segir Auðunn, “að fást þar við því að eg veit að Þorfinnur mun fjandskap á þig leggja.”
Grettir kvaðst mundu hætta á það.
Nú leið af nóttin. Kemur Grettir þar snemma. Voru þá til reiðu graftólin. Fer bóndi með honum til haugsins.
Grettir braut nú hauginn og var að mikilvirkur, léttir eigi fyrr en hann kemur að viðum. Var þá mjög áliðinn dagurinn. Síðan reif hann upp viðuna. Auðunn latti hann þá mjög að ganga í hauginn.
Grettir bað hann geyma festar “en eg mun forvitnast hvað hér býr fyrir.”
Gekk Grettir þá í hauginn. Var þar myrkt og þeygi þefgott. Leitast hann nú fyrir hversu háttað var. Hann fann hestbein og síðan drap hann sér við stólbrúðar og fann að þar sat maður á stóli. Þar var fé mikið í gulli og silfri borið saman og einn kistill settur undir fætur honum, fullur af silfri. Grettir tók þetta fé allt og bar til festar. Og er hann gekk utar eftir haugnum var gripið til hans fast. Lét hann þá laust féð en réðst í mót þeim og tókust þeir þá til heldur óþyrmilega. Gekk nú upp allt það er fyrir varð. Sótti haugbúinn með kappi. Grettir fór undan lengi og þar kemur að hann sér að eigi mun duga að hlífast við. Sparir nú hvorgi annan. Færast þeir þangað er hestbeinin voru. Kipptust þeir þar um lengi og fóru ýmsir á kné en svo lauk að haugbúinn féll á bak aftur og varð af því dykur mikill. Þá hljóp Auðunn frá festarhaldinu og ætlaði að Grettir mundi dauður. Grettir brá nú sverðinu Jökulsnaut og hjó á hálsinn haugbúanum svo að af tók höfuðið. Setti hann það við þjó honum. Grettir gekk síðan til festar með féið og var Auðunn allur í brottu. Varð hann þá að handstyrkja upp festina. Hann hafði hnýtt fénu í snæri og dró það upp síðar.
Grettir var orðinn stirður mjög af sameign þeirra Kárs, snýr nú heim til bæjar Þorfinns með féð. Þá var fólk allt undir borð komið. Þorfinnur hvessti á Gretti augun er hann kom í drykkjustofuna og spurði hvað hann ætti svo nauðsynlegt að starfa að hann geymdi eigi hátta með öðrum mönnum.
Grettir mælti: “Mart er smátt það er til ber á síðkveldum.”
Lagði hann þá fram á borðið fé það allt er hann hafði tekið úr hauginum. Einn gripur var sá er Gretti stóðu mest augu til. Það var eitt sax, svo gott vopn að aldrei kveðst hann séð hafa betra. Það lét hann síðast fram. Þorfinnur varð léttbrúnn við er hann sá féið og saxið því að það var menjagripur þeirra og hafði aldrei úr ætt gengið.
“Hvaðan kom þér fé þetta?” sagði Þorfinnur.
Grettir kvað þá vísu:
Mér hefir brugðist, báru
blikrýrandi, að skýru,
brátt spyrji bragnar þetta,
bauga von í haugi.
Þó sé eg hitt að Hrotta
hríð-Ullr muni síðan
fár að Fáfnis mýri
fullteitr þannig leita.
Þorfinnur svarar: “Ekki mun þér allt í augu blæða og öngvan hefir þessa fýst fyrr að brjóta hauginn. En fyrir því að eg veit að það fé er illa komið er fólgið er í jörðu eða í hauga borið þá mun eg ekki gefa þér hér skuld fyrir með því að þú færðir mér. Eða hvar náðir þú saxinu góða?”
Grettir segir og kvað:
Fékk í firna dökkum,
féll draugr, tekið haugi
sax það er seggja vexir
sár, hyrlestir báru.
Og skyldi mér aldrei
jálms dýrlogi hjálma
ýtum hættr, ef ættag,
angrs hendi firr ganga.
Þorfinnur svarar: “Vel er til mælt en sýna skaltu nokkuð áður það er frægð þyki í vera en eg gefi þér saxið því að það fékk eg aldrei af föður mínum meðan hann lifði.”
Grettir svarar: “Eigi má vita hverjum að mestu gagni kemur um það er lýkur.”
Þorfinnur tók við fénu og geymdi saxið hjá sæng sinni. Leið svo veturinn framan til jóla að ekki bar fleira til frásagna.
19. kafli
Þetta sumar hið næsta bjóst Eiríkur jarl Hákonarson úr landi vestur til Englands á fund Knúts konungs hins ríka mágs síns en hann setti eftir til ríkis í Noregi Hákon jarl son sinn og fékk hann í hendur Sveini jarli bróður sínum til forsjá og ríkisstjórnar því að Hákon var barn að aldri.
En áður Eiríkur jarl fór úr landi stefndi hann til sín lendum mönnum og ríkum bóndum. Töluðu þeir mart um lög og landsskipun því að Eiríkur jarl var stjórnsamur. Þótti mönnum það mikill ósiður í landinu að úthlaupsmenn eða berserkir skoruðu á hólm göfgum mönnum til fjár eða kvenna. Skyldu hvorir ógildir falla sem féllu fyrir öðrum. Fengu margir af þessu smán og fjármissu en sumir líftjón með öllu og því tók Eiríkur jarl af allar hólmgöngur í Noregi. Hann gerði og útlaga alla ránsmenn og berserki þá sem með óspektir fóru. Var í þessari skipan og ráðagerð með jarli Þorfinnur Kársson úr Háramarsey því að hann var vitur maður og kær vinur jarla.
Tveir bræður eru nefndir til að verstir voru. Hét annar Þórir þömb en annar Ögmundur illi. Þeir voru háleyskir að ætt, meiri og sterkari en aðrir menn. Þeir gengu berserksgang og eirðu öngu þegar þeir reiddust. Þeir tóku á burt konur manna og höfðu við hönd sér viku eða hálfan mánuð og færðu síðan aftur þeim sem áttu. Þeir rændu hvar sem þeir koma eða gerðu aðrar óspektir. Eiríkur jarl gerði þá útlæga fyrir endilangan Noreg. Gekk Þorfinnur mest manna fyrir sekt þeirra. Þóttust þeir honum eiga fullan fjandskap að gjalda. Síðan fór jarl úr landi sem segir í sögu hans en Sveinn jarl hafði yfirvald í Noregi og ríki.
Þorfinnur fór heim til bús síns og sat heima mjög til jóla sem fyrr er sagt. Í móti jólum býst Þorfinnur að fara til bús síns þangað sem hét í Slysfirði. Það er á meginlandi. Hafði hann boðað þangað mörgum vinum sínum. Húsfreyja Þorfinns mátti eigi fara með bónda því að dóttir þeirra frumvaxta lá sjúk og voru þær báðar heima. Grettir var heima og húskarlar átta. Þorfinnur fór nú við þrjá tigu frelsingja til jólaveislunnar. Var þar hinn mesti mannfagnaður og gleði.
Nú kemur aðfangadagur jóla. Þá var veður bjart og kyrrt. Grettir var lengstum úti um daginn og sá að skip fór suður og norður með landi því að hver sótti til annars þangað sem samdrykkjan var sett. Bóndadóttur var þá batnað svo að hún gekk með móður sinni. Leið nú á daginn.
Þá sá Grettir að skip reri að eynni. Það var ekki mikið og skarað skjöldum milli stafna. Skipið var steint fyrir ofan sjá. Þeir reru knálega og stefndu að naustum Þorfinns. Og er skipið kenndi niður hljópu þeir fyrir borð sem á voru. Grettir hafði tölu á mönnum þessum að þeir voru tólf saman. Ekki þótti honum þeir friðlega láta. Þeir tóku upp skip sitt og báru af sjó. Eftir það hlupu þeir að naustinu. Þar stóð inni karfinn Þorfinns sá hinn stóri. Hann settu aldrei færri menn á sjó en þrír tigir en þeir tólf rykktu honum þegar fram á fjörugrjótið. Síðan tóku þeir upp sitt skip og báru inn í naustið.
Þá þóttist Grettir sjá að þeir mundu ætla að bjóða sér sjálfir beina. Hann gekk þá til móts við þá og fagnaði þeim vel og spyr hverjir þeir væru eða hversu formaður þeirra hét.
Sá svarar skjótt er til var mælt og kvaðst heita Þórir og kallaður þömb, og bróðir hans Ögmundur og aðrir kompánar þeirra.
“Vænti eg,” segir Þórir, “að Þorfinnur húsbóndi yðvar hafi heyrt vor getið eða hvort er hann heima?”
Grettir svarar: “Gæfumenn miklir munuð þér vera því að þér hafið hér góða aðkomu ef þeir eru mennirnir sem eg ætla. Bóndi er heiman farinn með alla heimamenn þá sem frjálsir eru og ætlar eigi heim fyrr en að bak jólunum. Húsfreyja er heima og bóndadóttir. Og ef eg þættist nokkurn mótgang eiga að gjalda þá vildi eg þann veg að koma því að hér er hvetvetna það er hafa þarf, bæði öl og annar fagnaður.”
Þórir þagði meðan Grettir lét ganga töluna. Síðan mælti hann til Ögmundar: “Fór nokkuð fjarri því sem eg gat til?” sagði hann, “og væri mér það í hug að hefna Þorfinni er hann hefir gert oss útlaga. Er þessi maður og góður af tíðindum. Þurfum vér eigi að togast eftir orðum við hann.”
“Orða sinna á hver ráð,” sagði Grettir, “og gera skal eg yður slíkan forbeina sem eg má og gangið heim með mér.”
Þeir báðu hann hafa þökk fyrir, kváðust hans boði hlíta mundu. En er þeir komu heim að bænum tók Grettir í hönd Þóri og leidd hann til stofu. Grettir var þá málreifur mjög. Húsfreyja var í stofunni og lét tjalda hana og búast um vel. En er hún heyrði til Grettis nam hún staðar á gólfinu og spurði hverjum Grettir fagnaði svo alvarlega.
Grettir svarar: “Það er ráð húsfreyja að taka vel við gestum. Hér er kominn Þórir bóndi þömb og þeir tólf saman og ætla hér að sitja um jólin. Er það allgott því að vér áttum heldur fámennt áður.”
Hún svarar: “Eigi tel eg þá með bóndum eða góðum mönnum því að þeir eru hinir verstu ránsmenn og illvirkjar. Vildi eg gjarna hafa gefið til mikinn hlut eigu minnar að þeir hefðu hér eigi komið í þetta sinn. Launar þú og illa Þorfinni fyrir það er hann tók þig af skipbroti félausan og hefir haldið þig í vetur sem frjálsan mann.”
Grettir svarar: “Réttar er nú fyrst að taka vosklæði af gestunum en að ámæla mér. Þess mun lengi kostur.”
Þórir mælti þá: “Ver eigi stygg húsfreyja. Enginn missir skal þér í verða þó að bóndi sé eigi heima því að fá skal mann í stað hans og svo dóttur þinni og öllum heimakonum.”
“Slíkt er karlmannlega talað,” segir Grettir, “mega þær þá eigi yfir sinn hlut sjá.”
Nú stukku fram konur allar og sló á þær óhug miklum og gráti.
Grettir mælti til berserkja: “Seljið mér það í hendur sem þér viljið af leggja, vopn og vosklæði, því að eigi mun oss fólkið stýrilátt meðan það er óhrætt.”
Þórir kvaðst eigi hirða hvað konur nögguðu “en mikinn mun eigum vér að gera þín eða annarra heimamanna. Líst mér sem vér munum þig hafa að trúnaðarmanni.”
“Sjáið þér fyrir því,” sagði Grettir, “en eigi geri eg mér alla menn jafna.”
Síðan lögðu þeir af flest öll vopn.
Eftir það mælti Grettir: “Ráðlegt þykir mér að þér farið til borðs og drekkið nokkuð því að yður mun þyrsta af róðri.”
Þeir kváðust þess albúnir en sögðu sér ókunnigt til kjallara. Grettir spurði hvort þeir vildu hlíta hans forsjá og umgangi. Berserkir létust það gjarna vilja. Grettir fer til og sækir öl og gefur þeim að drekka. Þeir voru mjög móðir og sulgu stórum. Lætur hann óspart ölið, það er áfengast var til, og gekk því lengi. Hann segir þeim og margar kátlegar sögur. Varð af þessu öllu saman háreysti til þeirra að heyra. Eigi fýsti heimamenn til þeirra að koma.
Þá mælti Þórir: “Eigi hefi eg þann mann fundið ókunnan er svo vel vildi við oss gera sem þessi maður eða hver laun viltu af oss félögum þiggja fyrir þína þjónustu?”
Grettir svarar: “Eigi ætla eg hér til launa fyrir að svo gervu en ef vér erum þvílíkir vinir þá er þér farið á burt sem nú horfist þá mun eg ráðast til lags með yður. En þó að eg megi minna en einnhver yðvar þá mun eg eigi letja stórræðanna.”
Þeir urðu mjög glaðir við og vildu þegar binda félag sitt með fastmælum.
Grettir kvað það eigi skyldu “því að það er satt sem mælt er að öl er annar maður og skal eigi bráðabug að þessu gera framar en áður hef eg sagt. Erum vér litlir skapdeildarmenn hvorirtveggju.”
Þeir sögðust eigi ætla þessu að bregða. Leið nú á kveldið svo að mjög tók að myrkva. Þá sér Grettir að þeir gerast mæddir nokkuð af drykknum.
Hann mælti þá: “Þykir yður eigi mál að fara til svefns?”
Þórir kvað svo vera skyldu “og skal efna það er eg hét húsfreyju.”
Grettir gekk fram og mælti hátt: “Gangið til sængur, konur,” segir hann, “svo vill Þórir bóndi skipa.”
Þær báðu honum ills á móti. Var hinn mesti úlfaþytur til þeirra að heyra. Berserkir komu fram í þessu.
Grettir mælti: “Göngum vér út og mun eg sýna yður fatabúr Þorfinns.”
Þeir létu það leiðast. Komu þeir að útibúri ákaflega stóru. Þar voru á útidyr og sterkur lás fyrir. Það var allsterkt hús. Þar var hjá salerni mikið og sterkt og eitt skjaldþili milli húsanna. Húsin stóðu hátt og var nokkurt rið upp að ganga. Berserkir gerðust nú umfangsmiklir og stokuðu Gretti. Hann fór undan í flæmingi og er þeim var minnst von hljóp hann út úr húsinu og greip í hespuna og rekur aftur húsið og setur lás fyrir. Þórir og hans félagar ætluðu fyrst að svarfast mundi aftur hafa hurðin og gáfu sér ekki að. Þeir höfðu ljós hjá sér því að Grettir hafði sýnt þeim marga gripi þá er Þorfinnur átti. Litu þeir þar á um stund. Grettir flýtir ferðinni heim að bænum og þegar hann kemur í dyrnar kallar hann hátt og spyr hvar húsfreyja væri. Hún þagði því að hún þorði eigi að svara.
Hann mælti: “Hér er næsta veiðarefni eða eru nokkur vopn þau sem neyt eru?”
Hún svarar: “Eru vopnin en eigi veit eg til hvers þér koma.”
“Tölum síðar um það,” segir hann. “Dugi nú hver sem má. Eigi mun síðar vænna.”
Húsfreyja mælti: “Nú væri guð í garði ef nokkuð mætti um bætast vorn hag. Yfir sæng Þorfinns hangir krókaspjótið stóra er átt hefir Kár hinn gamli. Þar er og hjálmur og brynja og saxið góða og munu eigi bila vopnin ef þér dugir hugurinn.”
Grettir þrífur hjálminn og spjótið en gyrðir sig með saxinu og gengur út skjótt. Húsfreyja kallar á húskarla og bað þá fylgja svo góðum dreng. Þeir hlupu til vopna fjórir en aðrir fjórir þorðu hvergi nær að koma.
Nú er að segja frá berserkjunum að þeim þótti Gretti dveljast afturkoman. Grunar þá nú hvort eigi munu vera svik í. Hlaupa þeir á hurðina og finna að hún var læst, treysta nú á timburveggina svo brakar í hverju tré. Hér kemur um síðir að þeir fá brotið skjaldþilið og komust svo fram í gangrúmið og þar út á riðið. Kemur á þá berserksgangur og grenja sem hundar.
Í því bili kom Grettir að. Hann tvíhenti spjótið á Þóri miðjum er hann ætlaði ofan fyrir riðið svo þegar gekk í gegnum hann. Fjöðurin var bæði löng og breið á spjótinu. Ögmundur illi gekk næst Þóri og hratt honum á lagið svo allt gekk upp að krókunum. Stóð þá spjótið út um herðarnar á Þóri og svo framan í brjóstið að Ögmundi. Steyptust þeir báðir dauðir af spjótinu.
Þá hljóp þar hver út af riðinu sem komið var. Grettir sótti að sérhverjum, gerði ýmist að hann hjó með saxinu eða lagði með spjótinu en þeir vörðust með trjám er lágu á vellinum og öllu því er þeir fengu til. Var það hin mesta mannhætta að fást við þá fyrir afls sakir þó að þeir hefðu eigi vopn. Grettir drap þá tvo af Háleygjum þar í túninu. Húskarlar fjórir komu þá út. Höfðu þeir ekki ásáttir á orðið hver vopn að hvergi skyldi hafa, sóttu þá að þegar berserkirnir hörfuðu undan en er þeir snerust á mót hrukku húskarlar upp undir húsin.
Sex féllu þar víkingar og varð Grettir banamaður allra. Síðan leituðu aðrir sex undan. Bárust þeir þá ofan að naustinu og inn í naustið. Vörðust þeir þá með árum. Fékk Grettir þá stór högg af þeim svo að við meiðingum var búið.
Húskarlar fóru þá heim og sögðu mikið af framgöngu sinni. Húsfreyja bað þá vita hvað af Gretti yrði en það fékkst ekki af þeim.
Tvo drap Grettir í naustinu en fjórir komust út hjá honum. Fóru þá sinn veg hvorir tveir. Hann eltir þá sem nær honum voru. Gerði nú myrkt af nótt. Þeir hlupu í kornhlöðu nokkura á þeim bæ sem fyrr var nefndur er á Vindheimi hét. Þar áttust þeir lengi við en um síðir drap Grettir báða. Var þá ákaflega móður og stirður en mikið var af nótt. Veður gerði kalt mjög með fjúki. Nennti hann þá ekki að leita víkinganna, þeirra tveggja er þá voru eftir. Gekk hann nú heim til bæjar.
Húsfreyja lét kveikja ljós í hinum efstum loftum við gluggana að hann hefði það til leiðarvísis. Var og svo að hann fat af því heim er hann sá ljósið.
En er hann kom í dyrnar gekk húsfreyja að honum og bað hann vera velkominn “og hefir þú,” segir hún, “mikla frægð unnið og leyst mig og hjú mín frá þeirri skemmd er vér hefðum aldrei bót fengið nema þú hefðir borgið oss.”
Grettir segir: “Eg þykist nú mjög hinn sami og í kveld er þér töluðuð hraklegar við mig.”
Húsfreyja mælti svo: “Vér vissum eigi að þú værir slíkur afreksmaður sem nú höfum vér reynt. Skal þér allt sjálfboðið innan bæjar það sem hæfir að veita en þér sæmd í að þiggja. En mig varir að Þorfinnur launi þér þó betur er hann kemur heim.”
Grettir svarar: “Lítils mun nú við þurfa fyrst um launin en þiggja mun eg boð þitt þar til er bóndi kemur heim. En þess væntir mig að þér megið sofa í náðum fyrir berserkjunum.”
Grettir drakk lítið um kveldið og lá með vopnum sínum um nóttina. Um morguninn þegar lýsa tók var mönnum saman stefnt um eyna. Var þá farið að leita berserkjanna, þeirra sem undan höfðu komist um kveldið. Þeir fundust að áliðnum degi undir einum steini og voru þá dauðir af kulda og sárum. Síðan voru þeir færðir í flæðarurð eina og dysjaðir þar. Eftir það fóru þeir heim og þóttust eyjarskeggjar í frið þegnir.
Grettir kvað vísu þessa er hann kom heim til húsfreyju:
Tólf höfum gröf hjá gjálfri
gunnelds búið runnum.
Einn nam eg öllum vinna
ótrauðr beran dauða.
Hver munu gild um gjörvast,
gulls vel borin selja,
verk, þau er einn fær orkað,
ítr, ef slík eru lítil.
Húsfreyja mælti: “Víst ertu fárra manna líki, þeirra sem nú eru til.”
Setur hún hann í öndugi og gerði til hans alla hluti vel. Leið nú svo fram uns Þorfinns var heim von.
20. kafli
Eftir jólin býst Þorfinnur til heimferðar og leysti marga með góðum gjöfum burt er hann hafði til sín boðið. Síðan fór hann með sínu föruneyti þar til er hann kemur mjög að naustum sínum. Þeir sjá að skip lá á sandinum og bera brátt kennsli á að það var karfi hans hinn stóri. Ekki hafði Þorfinnur þá spurt til víkinganna.
Hann bað þá flýta sér að landi “því að mig grunar,” segir hann, “að hér hafi eigi vinir um vélt.”
Þorfinnur gekk fyrst á land sinna manna og þegar að naustinu. Hann sá þar skip standa og kenndi að það var skip berserkja.
Hann mælti þá til sinna manna: “Það grunar mig,” segir hann, “að þeir atburðir munu hér orðið hafa að eg vildi gefa til eyna og allt það sem hér stendur saman að eigi hefði orðið.”
Þeir spurðu hví svo væri.
Hann mælti þá: “Hér hafa komið þeir víkingar er eg veit versta í öllum Noregi sem eru Þórir þömb og Ögmundur illi. Munu þeir hafa ekki búið heppilega fyrir oss en eg treysti ekki vel Íslendingi.”
Talaði hann hér til mart við félaga sína.
Grettir var heima og olli hann því er seint var til strandar gengið. Kvaðst hann eigi hirða þótt bónda blikraði nokkuð til hvað fyrir væri. En húsfreyja bað hann leyfis. Sagði hann að hún skyldi ráða ferðum sínum en hvergi lést hann fara mundu.
Hún gekk skjótt til fundar við Þorfinn og fagnaði honum vel.
Hann varð glaður við það og mælti: “Guð hafi lof fyrir er eg sé þig heila og svo dóttur mína. Eða hversu hefir ykkur til gengið síðan er eg fór heiman?”
Hún segir: “Vel hefir úr ráðist en lá oss við svo mikilli svívirðingu að vér hefðum aldrei bót fengið ef eigi hefði veturtaksmaður þinn hjálpað oss.”
Þorfinnur mælti þá: “Nú skal setjast niður en þú seg frá tíðindum.”
Hún segir þá greinilega alla atburði sem þar höfðu gerst og lofaði mjög hreysti Grettis og framgöngu.
Þorfinnur þagði á meðan og er hún hafði úti söguna svarar hann svo: “Satt er það mælt er, lengi skal manninn reyna. Eða hvar er Grettir nú?”
Húsfreyja segir: “Hann er heima í stofu.”
Síðan gengu þeir heim á bæinn. Þorfinnur gekk til Grettis og hvarf til hans og þakkar honum með fögrum orðum þann drengskap er hann hafði honum sýnt “og það mun eg til þín mæla,” segir Þorfinnur, “sem fáir menn mæla til vinar síns að eg vildi að þú þyrftir manna við og vissir þú hvort eg gengi þér fyrir nokkurn mann eða eigi. En aldrei fæ eg launað þér þinn velgerning ef þig stendur engi nauður. En vist þín skal standa hér hjá mér nær sem þú þarft að þiggja og þú skalt fremst haldinn af mínum sveinum.”
Grettir bað hann hafa mikla þökk fyrir “og mundi eg þegið hafa þó að þú hefðir fyrr boðið.”
Nú sat Grettir þar um veturinn og var í hinum mestum kærleikum við Þorfinn. Varð hann nú og frægur af verki þessu um allan Noreg og þar mest sem þeir höfðu mestar óspektar gert, berserkirnir.
Um vorið spurði Þorfinnur Gretti hvað hann vildi að hafast. Hann kvaðst ætla að fara norður í Voga meðan þar var stefnutími. Þorfinnur kvað honum til reiðu skyldu peninga sem hann vildi. Grettir kvaðst eigi þurfa að sinni peninga meir en til skotsilfurs. Þorfinnur kvað það skylt og fylgdi honum til skips. Þá gaf hann Gretti saxið góða. Það bar Grettir meðan hann lifði og var hin mesta gersemi. Bað Þorfinnur hann til sín fara þegar hann þyrfti liðs við.
Grettir fór nú norður í Voga og var þar allmikið fjölmenni. Fögnuðu þeir margir honum þar vel sem hann höfðu eigi séð fyrr fyrir sakir þess frægðarverks sem hann hafði unnið þá er hann drap víkingana. Buðu honum margir göfgir menn til sín en hann vildi fara aftur til Þorfinns vinar síns. Réðst hann þá í byrðing er átti sá maður er Þorkell hét. Hann bjó í Sálfti á Hálogalandi og var göfugur maður. En er Grettir kom heim til Þorkels tók hann við honum harðla vel og bað Gretti með sér vera um veturinn og lagði til þess mörg orð. Það þekktist Grettir og var með Þorkeli þenna vetur í góðu yfirlæti.
21. kafli
Björn hét maður er þar var á vist með Þorkeli. Hann var ákafamaður í lyndi og góðrar ættar, skyldur nokkuð Þorkeli. Ekki var hann vinsæll maður af alþýðu því að hann afflutti mjög fyrir þeim mönnum er voru með Þorkatli. Kom hann svo mörgum á burt. Fátt kom á með þeim Gretti. Þótti Birni hann lítils verður hjá sér en Grettir var ótillátssamur og kom til þverúð með þeim. Björn var hávaðamaður mikill og gerði um sig mikið. Fylgdu honum að því margir ungir menn og höfðu þeir oft á kveldum slentur mikið úti.
Það bar til á öndverðum vetri að híðbjörn einn grimmur hljóp úr híði sínu og varð svo grimmur að hann eirði hvorki mönnum né fé. Ætluðu menn að hann mundi vaknað hafa af háreysti því er Björn hafði gert með kumpánum sínum. Gerðist dýrið svo illt viðfangs að það reif niður hjörð fyrir mönnum. Hafði Þorkell af þessu mestan skaða því hann var manna ríkastur í þessu byggðarlagi.
Á nokkurn dag kvaddi Þorkell til fylgdar menn sína að leita hvar híð bjarnarins væri. Þeir fundu það í sjóvarhömrum. Var þar hamarklettur einn og hellisskúti framan í hamrinum einum en einn stígur til að ganga. Bjarg var undir hellinum og urð við sjóinn. Var þar vís bani því er ofan hrapaði. Lá björninn í híðinu á daginn en leitaði á burt jafnan er náttaði. Héldu öngvar grindur fénu fyrir honum. Komu þeir eigi hundum við. Þótti mönnum þetta hið mesta vandræði.
Björn frændi Þorkels kvað vera að gert hið mesta er híðið var fundið “skal eg nú prófa,” sagði hann, “hversu leikur fer með okkur nöfnum.”
Eigi lét Grettir sem hann vissi hvað Björn talaði um þetta.
Jafnan bar svo til á kveldum þá er menn fóru að sofa, þá hvarf Björn út. Það var eina nótt að Björn fór til híðsins. Hann varð var við að dýrið var þar fyrir og grenjaði illilega. Björn lagðist niður við einstigið og hafði með sér skjöldinn og ætlaði að bíða þar til er dýrið leitaði á burt eftir vanda. Bessi hafði veður af manninum og seinkaði heldur ferðinni. Björn syfjaði heldur mjög þar sem hann lá og getur eigi vakað. Og í þessu ræður dýrið úr híðinu, getur nú séð hvar maðurinn liggur, krækir til hramminum og hnykkir af honum skildinum og kastar ofan fyrir bjargið. Björn bregður við hart. En er hann vaknar, tekur til fóta og hleypur heim, var þá búið við að dýrið mundi grípa hann. Vissu þetta félagar hans því að þeir höfðu njósn á um ferðir Bjarnar. Fundu þeir skjöldinn um morguninn og gerðu af þessu hið mesta gabb.
Fór Þorkell sjálfur til híðsins og þeir átta saman. Þar var þá Björn og Grettir og aðrir fylgdarmenn Þorkels. Grettir hafði yfir sér loðkápu og lagði hana af sér meðan þeir sóttu að dýrinu. Þar var óhægt á að sækja því að ekki mátti við koma nema spjótalögum og beit hann þau af sér. Björn eggjaði þá mjög til atsóknar en þó gekk hann eigi svo nær að honum væri við nokkuru hætt. Og er minnst varði þrífur Björn kápu Grettis og kastaði í híðið til bjarnarins. Ekki gátu þeir að gert og hurfu aftur er á leið daginn. En er Grettir bjóst heim að ganga saknar Grettir feldar síns. Hann gat séð að björn hafði drepið undir sig kápuna.
Hann mælti þá: “Hver hefir glest við mig og kastað feld mínum í híðið?”
Björn svarar: “Sá einn mun það gert hafa er þora mun við að ganga.”
Grettir svarar: “Eigi legg eg slíkt langt upp.”
Þá sneru þeir heim á leið. Og er þeir gengið höfðu um hríð slitnaði hosnasterta Grettis. Þorkell bað þá bíða hans. Grettir kvað þess eigi þurfa.
Þá mælti Björn: “Eigi þurfið þér það að ætla að Grettir renni frá kápu sinni. Mun hann vilja hafa frægð af og drepa einn dýrið það er vér höfum frá gengið átta. Þá væri hann slíkur sem hann er sagður en allslælega hefir hann fram gengið í dag.”
“Eigi veit eg,” sagði Þorkell, “hversu þér fer af en eigi munuð þið jafnir hreystimenn vera og legg þú fátt til hans.”
Björn kvað hvorugan þeirra kjósa orð úr munni sér.
Nú ber leiti á milli þeirra. Grettir sneri þá aftur að einstiginu. Var þá ekki að metast við aðra um atgönguna. Hann brá þá sverðinu Jökulsnaut en hann hafði hönk á meðalkaflanum á saxinu og smeygði á hönd sér. Því gerði hann svo að hann þóttist heldur mega taka til þess er hann vildi ef laus væri höndin.
Hann gekk þegar í einstigið. Og er dýrið sá manninn hljóp það með grimmd mikilli og móti Gretti og laust til hans með hramminum þeim er firr var berginu. Grettir hjó í móti með sverðinu og kom á hramminn fyrir ofan klærnar og tók þar af. Þá vildi dýrið ljósta með þeim fætinum sem heill var, skaust á stúfinn og varð hann lægri en hann ætlaði og féll þá dýrið í fang Gretti. Hann þrífur þá meðal hlusta dýrinu og hélt þá frá sér svo það náði eigi að bíta hann. Svo hefir Grettir sagt að hann þóttist þá aflraun mesta gert hafa að halda dýrinu. En með því að dýrið braust um fast en rúmið lítið þá viku þeir báðir ofan fyrir bjargið. Nú var dýrið þyngra og kom það fyrri niður á urðina. Varð Grettir þá efri en dýrið lamdist þá mjög þeim megin sem niður vissi. Grettir þrífur þá til saxins og lagði björninn til hjartans og var það hans bani. Eftir það fór hann heim og tók feld sinn og var hann allur rifinn í sundur. Hann hafði með sér það er hann hafði höggvið af hramminum.
Þorkell sat að drykkju þá er Grettir kom í stofuna. Hlógu þeir að feldarslitrinu er Grettir hafði yfir sér. Hann setur nú upp á borðið það er hafði hann höggvið af hramminum.
Þorkell mælti: “Hvar er nú Björn frændi minn? Aldrei sá eg þér svo bíta járnin og vil eg að þú bætir Gretti sæmd fyrir þessa svívirðing sem þú hefir til hans gert.”
Björn kvað það frestast mundu “og hirði eg aldrei hvort honum líkar vel eða illa.”
Grettir kvað vísu þessa:
Oft kom heim í húmi
hræddr, þá er öngum blæddi,
sá er vetrliða vitja
víg-Njörðr í haust gjörði.
Sá engi mig sitja
síð fyr bjarnar híði.
Þó kom eg ullar otra
út úr hellis skúta.
“Bæði er,” sagði Björn, “að þú hefir vel fram gengið enda berð þú okkur ólíkt söguna. Skil eg að þú munt þykjast mér þessa sneið stinga.”
Þorkell mælti: “Það vildi eg Grettir,” sagði hann, “að þú hefnir þín eigi á Birni en eg mun bæta fyrir hann fullum manngjöldum og séuð þið sáttir.”
Björn kvað hann verja mega betur fé sínu en bæta fyrir þetta “þykir mér það ráð að hér hafi eik það er af annarri skefur er við Grettir eigumst við.”
Grettir kvað sér það allvel líka.
“Þá muntu Grettir,” sagði Þorkell, “gera það fyrir mína skuld að gera ekki á hluta Bjarnar meðan þið eruð hjá mér.”
“Það skal vera,” segir Grettir.
Björn kvaðst óhræddur ganga skyldu fyrir Gretti hvar sem þeir fyndust. Grettir glotti að en vildi ekki þiggja féð fyrir Björn og voru þeir þar um veturinn.
22. kafli
Um vorið fór Grettir norður í Voga með byrðingsmönnum. Skildu þeir Þorkell með vináttu en Björn fór vestur til Englands og var fyrir skipi Þorkels því er þangað fór. Hafðist Björn þar við um sumarið og keypti til handa Þorkeli þá hluti sem hann hafði honum um boðið. Sigldi hann vestan er á leið haustið.
Grettir var í Vogum til þess er flotinn leysti. Síðan sigldi hann norðan með byrðingsmönnum nokkurum þar til er þeir komu í höfn þá er í Görtum heitir, það er fyrir Þrándheimsmynni, og tjölduðu þar yfir sig. Og er þeir höfðu um búist sigldi skip sunnan fyrir land. Þeir kenndu brátt að það var Englandsfar. Þessir lögðu að utar við ströndina, gengu á land.
Grettir og hans félagar viku til móts við þá. En er þeir fundust sér Grettir að Björn er þar í liði og mælti: “Það er vel að við höfum hér fundist. Munum við nú taka til hinna fornu greina okkarra. Vil eg nú reyna hvor okkar meira má.”
Björn kvað sér það fornt vera “en ef það hefir nokkuð verið þá vil eg bæta svo að þú þykist vel haldinn af.”
Grettir kvað þá vísu:
Íugtanna gat eg unnið,
orð lék á því forðum.
Feld reif hart af höldi
hugstríðr meginsíðan.
Baugs olli því bellinn
Baldr en nú skal gjalda.
Oft þykjumst eg ekki
allhælinn kappmælum.
Björn sagði bætt hafa verið stærri sakir fé en þessar.
Grettir kvað fá til hafa orðið að gera sér öfundarbrögð enda lést hann aldrei fé hafa á tekið og sagði að enn mundi svo fara “skulum við báðir eigi héðan heilir ganga ef eg má ráða. Legg eg nú bleyðiorð á bak þér ef þú þorir eigi að berjast.”
Björn sá nú að honum tjáði ekki undan að mælast, tók nú vopn sín og gekk á land. Síðan hlupust þeir að og börðust og ekki lengi áður en Björn varð sár og því næst féll hann dauður niður á jörð en það sáu fylgdarmenn Bjarnar. Gengu þeir á skip sitt, sneru norður með landi til móts við Þorkel og sögðu honum þennan atburð. Hann kvað það eigi fyrr hafa fram komið en von var að.
Brátt eftir þetta fór Þorkell suður til Þrándheims, fann þar Svein jarl.
Grettir fór á Mæri eftir víg Bjarnar og hitti Þorfinn vin sinn og sagði honum þetta sem til hafði borið.
Þorfinnur tók vel við honum “og er það gott,” sagði hann, “að þú ert vinþurfi. Skaltu með mér vera þar til er lýkur þessum málum.”
Grettir þakkaði honum fyrir boð sitt og kvaðst það nú þiggja mundu.
Sveinn jarl sat inn í Þrándheimi að Steinkerum þá er hann spurði víg Bjarnar. Þá var þar með honum Hjarrandi, Bjarnar bróðir. Hann var hirðmaður jarls. Hann varð við reiður mjög er hann spurði víg Bjarnar og beiddi jarl liðveislu til málsins. Jarl hét honum því. Sendi hann þá mann til Þorfinns og stefndi þeim Gretti báðum á sinn fund. Bjóst hann þegar og þeir Grettir báðir eftir boði jarls og fóru inn í Þrándheim á hans fund. Átti jarl þá stefnu að málinu og bað Hjarranda hjá vera.
Hjarrandi kvaðst eigi mundu bera bróður sinn í sjóði. “Skal eg annaðhvort fara slíka fór sem hann ella hefna hans,” segir hann.
Nú er málið var skoðað fannst jarli sem margar sakir hefði Björn gert við Gretti en Þorfinnur bauð fébætur eftir því sem jarli þætti erfingjar sæmdir af og talaði um það langt erindi hvert frelsi að Grettir hefði unnið mönnum norður í landi þá er hann drap berserkina sem áður var sagt.
Jarl svaraði: “Satt segir þú það Þorfinnur. Það var hin mesta landhreinsun og vel samir oss að taka fébætur fyrir þín orð. Er og Grettir frægur maður fyrir sakir afls og hreysti.”
Hjarrandi vildi eigi sættum taka og skildu þeir málstefnuna. Þorfinnur fékk til Arnbjörn, frænda sinn, að ganga með Gretti hvern dag því að hann vissi að Hjarrandi sat um líf hans.
23. kafli
Það var einn dag er Grettir og Arnbjörn gengu úti um stræti að skemmta sér, og er þeir komu fram fyrir garðshlið nokkuð hljóp maður fram úr garðshliðinu með reidda öxi og hjó til Grettis tveim höndum. Hann varði einskis um þetta og gekk undan seint. Arnbjörn gat séð manninn, þreif til Grettis og hratt honum áfram svo hart að hann féll á kné. Öxin kom á herðarblaðið og renndi undir höndina. Var það mikið sár. Grettir snaraðist við fast, brá saxinu. Hann kenndi að þar var kominn Hjarrandi. Öxin stóð föst í strætinu og varð honum seint að sér að kippa. Og í því hjó Grettir til Hjarranda og kom á höndina uppi við öxl svo af tók. Þá hlupu að fylgdarmenn Hjarranda fimm saman. Sló þá í bardaga með þeim. Urðu skjótt umskipti. Drápu þeir Grettir og Arnbjörn þá fimm er með Hjarranda voru en einn komst undan og sá fór þegar á fund jarls og sagði honum þessi tíðindi.
Jarl varð afar reiður er hann frétti þetta og stefndi þing annan dag eftir. Kom Þorfinnur á þingið.
Bar jarl sakir á hendur Gretti um vígin en hann gekk við og sagðist hann hafa átt hendur sínar að verja.
“Mun eg og hafa merki á mér,” sagði Grettir. “Hefði eg bana af fengið ef Arnbjörn hefði eigi borgið mér.”
Jarl segir að það var illa er hann var eigi drepinn “mun það verða margs manns bani ef þú lifir.”
Þá var til jarls kominn Bersi Skáld-Torfuson, félagi Grettis og vin. Gengu þeir Þorfinnur fyrir jarl og báðu griða til handa Gretti og buðu að jarl skyldi einn dæma um þetta mál þegar Grettir hefir grið og landsvist. Jarl var tregur í öllu sáttmáli en lét þó leiðast eftir bænastað þeirra. Var þá komið á griðum til vors fyrir hönd Grettis en þó vildi jarl eigi sættast fyrr en við væri Gunnar, bróðir þeirra Bjarnar og Hjarranda. Gunnar var garðsbóndi í Túnsbergi.
Um vorið stefndi jarl þeim Gretti og Þorfinni austur til Túnsbergs því að hann ætlaði þar að vera meðan mest aðsigling var austur þar. Fóru þeir þá austur þangað. Var jarl þar fyrir í bænum er þeir komu austur.
Grettir fann þar Þorstein drómund bróður sinn. Tók hann við honum allvel og bauð honum til sín. Þorsteinn var þar garðsbóndi í bænum. Sagði Grettir honum af málum sínum og tók Þorsteinn vel undir en bað hann vera varan um sig fyrir Gunnari. Leið nú svo fram á vorið.
24. kafli
Gunnar var í bænum og sat um Gretti nær sem færi gæfi á honum.
Það bar til á einhverjum degi að Grettir sat í búð nokkurri og drakk því að hann vildi eigi verða fyrir Gunnari. Og er hann varði minnst var hlaupið á hurðina svo hart að hún brotnaði í sundur. Þar hlupu inn fjórir menn alvopnaðir. Var þar kominn Gunnar og fylgdarmenn hans. Þeir sóttu að Gretti. Hann þreif vopn sín er héngu uppi yfir honum, opaði hann þá upp í hyrninguna og varðist þaðan. Hann hafði fyrir sér skjöldinn en hjó með saxinu. Sóttist þeim eigi fljótt. Kom hann á höggi einn fylgdarmann Gunnars. Þurfti sá eigi fleiri. Rýmdi Grettir þá fram á gólfið. Hrukku þeir þá utar eftir búðinni. Féll þá annar maður af Gunnari. Þá vildi Gunnar undan leita og hans förunautar. Komst sá til dyranna og drap fótunum í þröskuldinn og lá fallinn og komst seint upp. Gunnar hafði fyrir sér skjöldinn og opaði Gretti undan en hann sótti að með kappi og hljóp upp í þverpallinn við dyrnar. Bar þá hendur Gunnars úr dyrunum inn og svo skjöldinn. Grettir hjó þá niður í milli Gunnars og skjaldarins og af honum báðar hendurnar í úlfliðnum. Féll hann á bak aftur út úr dyrunum. Grettir hjó hann banahögg og því komst sá á fætur er honum hafði fylgt og fór þegar á fund jarls og sagði honum þessi tíðindi.
Sveinn jarl varð ákaflega reiður við þessa sögu og stefndi þegar þing í bænum. En er þeir Þorfinnur og Þorsteinn drómundur vissu þetta heimtu þeir að sér tengdamenn sína og vini og fjölmenntu mjög til þingsins. Jarl var allstyggur og mátti lítt orðum við hann koma.
Þorfinnur gekk fyrst fyrir jarl og mælti: “Því er eg hér kominn að eg vil bjóða yður sátt og sæmdir fyrir víg þessi er Grettir hefir vegið. Skuluð þér einir skera og skapa ef maðurinn hefir grið.”
Jarl svarar reiður mjög: “Seint leiðist þér að biðja griða til handa Gretti en grunar mig að þú hafir þar eigi gott að sök. Hefir hann nú drepið þrjá bræður hvern á fætur öðrum. Voru þeir svo hraustir menn í sér að enginn þeirra vildi í sjóð bera annan. Nú tjáir þér Þorfinnur eigi að biðja fyrir Gretti því að eg vil eigi leiða svo inn rangindi í landið að taka bætur fyrir slík óhæfuverk.”
Þá gekk fram Bersi Skáld-Torfuson, bað jarl taka sættum “vil eg,” sagði hann, “þar til biðja og bjóða mitt góss því Grettir er maður stórættaður og góður vin minn. Megið þér sjá herra að betra er að gefa einum manni grið og hafa í móti margra manna þökk en ráða einn fésektum, heldur en brjótast í móti sæmd sinni og hætta hvort þér náið manninum eða eigi.”
Jarl svarar: “Vel fer þér Bersi þetta og sýnir þú það jafnan að þú ert góður drengur en þó nenni eg eigi að brjóta svo landslögin að gefa þeim grið sem ólífismenn eru.”
Þá gekk fram Þorsteinn drómundur og kvaddi jarl og bauð boð fyrir Gretti og fór þar um mörgum fögrum orðum. Jarlinn spurði hvað honum gengi til að bjóða boð fyrir þenna mann. Þorsteinn sagði að þeir voru bræður.
Jarl kvaðst það eigi vitað hafa “en drengskapur er þér í þó að vildir hjálpa honum. En fyrir því að vér höfum ætlað eigi hér fébætur fyrir þessi mál þá munum vér hér alla jafndýra um gera. Skulum vér hafa líf Grettis, hvað er kostar, þegar vér komumst við.”
Hljóp jarl þá upp og vildi ekki á líta um sættirnar þeirra Þorfinns og gengu þá heim í garð Þorsteins og bjuggust þar um. En er jarl sá þetta lét hann vopnast alla hirð sína, gengu síðan með fylktu liði þangað. Og áður liðið kom að skipuðust þeir til varnar fyrir garðshliðinu. Stóðu þeir fremstir Þorfinnur og Þorsteinn og Grettir og þá Bersi. Hafði hver þeirra mikla sveit manna.
Jarl bað þá selja fram Gretti og halda sig eigi í ófæru. Þeir buðu öll hin sömu boð sem fyrr. Jarl vildi það ekki heyra.
Þeir Þorfinnur og Þorsteinn kváðu jarl skyldu meira fyrir verða að ná lífi Grettis “því eitt skal yfir oss og mun það þá mælt að þér vinnið mikið til eins manns lífs ef vér erum allir við velli lagðir.”
Jarl kvað öngan þeirra spara skyldu. Var þá við sjálfu búið að þeir mundu berjast. Þá gengu að jarli margir góðgjarnir menn og báðu að hann héldi eigi til svo mikils vandræðis, sögðu að þeir mundu mikið afráð gjalda áður þeir væru drepnir. Jarl fann að þetta var heilræði. Lét hann þá heldur sefast. Síðan var dregin saman sættin. Voru þeir Þorfinnur og Þorsteinn þess fúsir þegar Grettir næði griðum.
Jarl mælti: “Það skuluð þér vita,” sagði hann, “þó að eg geri hér mikið miðlunarmál um víg þessi að eg kalla þetta öngva sætt en eigi nenni eg að berjast við menn mína þó að eg sjái að þér metið mig lítils í þessu máli.”
Þá mælti Þorfinnur: “Þetta er yður meiri sæmd herra því að þér skuluð einir ráða fégjöldum.”
Jarl sagði þá að Grettir skyldi fara í friði fyrir honum út til Íslands þegar skip ganga ef þeim líkaði þá vel. Þeir kváðust það þiggja mundu. Luku þeir jarli fé svo honum gast að og skildu með öngum kærleikum. Fór Grettir með Þorfinni. Skildust þeir Þorsteinn bróðir hans með vináttu. Varð Þorfinnur frægur af fylgd þeirri er hafði veitt Gretti, við slíkt ofurefli sem hann átti að eiga. Engi af þeim mönnum komst í kærleika við jarl þaðan frá, þeirra er Gretti hafði lið veitt, nema Bersi einn.
Svo kvað Grettir:
Var Þorfinnr
Þundar sessi
aldar alinn
oss til hjálpar
þá er mig víf
í valskorum
lukt og læst
lífs um kvaddi.
Var stórskip
stallgoðs bana
Rauðahafs
og Regins skáli
er Býleists
bróðurdóttur
manna mest
mér varnaði.
Og enn þessa:
Þótti þá
þengils mönnum
ekki dælt
oss að stríða
er hlébarðr
hlífar eldi
bragða borg
brenna vildi.
Grettir fór með Þorfinni norður aftur og er með honum þar er hann kom honum í skip með kaupmönnum þeim að ætluðu til Íslands og gaf honum mörg góð þing í klæðum og söðul steindan og bitul með. Skildu þeir með vináttu. Bað Þorfinnur hann sín vitja ef hann kæmi aftur til Noregs.
25. kafli
Ásmundur hærulangur bjó á Bjargi meðan Grettir var utan og þótti hann þá gildur bóndi í Miðfirði. Þorkell krafla andaðist á þeim tímum er Grettir var eigi á Íslandi. Þorvaldur Ásgeirsson bjó þá í Ási í Vatnsdal og gerðist höfðingi mikill. Hann var faðir Döllu er átti Ísleifur er síðan var biskup í Skálholti. Var Ásmundi að Þorvaldi hinn mesti styrkur til málafulltings og margra hluta annarra.
Með Ásmundi óx upp sá maður er Þorgils hét. Hann var kallaður Þorgils Máksson. Hann var náskyldur frændi Ásmundar. Þorgils var sterkur að afli og græddi mikið fé með umsjá Ásmundar. Keypti hann til handa Þorgilsi landið að Lækjamóti og bjó þar. Þorgils var aðdráttarmaður mikill og fór á Strandir hvert ár. Aflaði hann þar hvala og annarra fanga. Þorgils var fullhugi mikill. Hann fór allt á Almenninga hina eystri.
Í þenna tíma var uppgangur þeirra fóstbræðra sem mestur, Þorgeirs Hávarssonar og Þormóðar Kolbrúnarskálds. Þeir áttu ferju og létu víða verða til drepið og þóttu ekki miklir jafnaðarmenn.
Það bar til á einu sumri að Þorgils Máksson fann hval á Almenningum. Gekk hann þegar á skurð og hans félagar. En er þeir fóstbræður fréttu það fóru þeir þangað til og horfðist fyrst líklega á um umtal þeirra. Bauð Þorgils að þeir skyldu hafa að helmingi hvalinn þann er óskorinn var en þeir vildu hafa einir þann er óskorinn var ella skipta í helminga bæði skorinn og óskorinn. Þorgils þverneitti því að leggja þann af er skorinn var. Sló þá í heitan með þeim og því næst vopnuðust hvorirtveggju og börðust eftir það. Þorgeir og Þorgils sóttust lengi svo að engi skakkaði með þeim og var hvortveggi hinn ákafasti. Var þeirra viðskipti bæði hart og langt en sá varð endir á að Þorgils féll dauður fyrir Þorgeiri til jarðar. En Þormóður og aðrir fylgdarmenn Þorgils börðust við í öðrum stað. Sigraði Þormóður í þeirra viðskiptum. Féllu þrír félagar Þorgils fyrir honum.
Eftir víg Þorgils sneru fylgdarmenn hans aftur inn til Miðfjarðar og fluttu lík Þorgils með sér. Þótti mönnum að honum hinn mesti skaði. Þeir fóstbræður tóku þar allan hvalinn til sín. Þeirra fundar getur Þormóður í erfidrápu þeirri er hann orti um Þorgeir.
Ásmundur hærulangur frétti víg Þorgils frænda síns. Hann var aðili að eftirmálinu um víg Þorgils. Fór hann til og nefndi votta að benjum og stefndi málinu til alþingis því að þeim sýndist þá lög er málið hafði til borið í öðrum fjórðungi. Og liðu svo stundir fram.
26. kafli
Maður er nefndur Þorsteinn. Hann var sonur Þorkels kugga, Þórðarsonar gellis, Ólafssonar feilans, Þorsteinssonar rauðs, Auðarsonar djúpauðgu. Móðir Þorsteins Kuggasonar var Þuríður dóttir Ásgeirs æðikolls. Ásgeir var föðurbróðir Ásmundar hærulangs.
Þorsteinn Kuggason átti eftirmál um vígið Þorgils Mákssonar jafnfram Ásmundi hærulangi. Gerði hann nú orðsending til Þorsteins að hann kæmi til móts við hann. Þorsteinn var kappi mikill og ofstopamaður hinn mesti. Fór hann þegar til móts við Ásmund frænda sinn og töluðu þeir um vígsmálið. Var Þorsteinn hinn ákafasti, kvað hér eigi skyldu fébætur fyrir koma, sagði að þeir hefðu nógan frænda afla til þess að annaðhvort kæmi fyrir vígið sekt eða mannhefndir. Ásmundur kvaðst honum mundu að fund fylgja hverju sem hann vildi fram fara. Riðu þeir norður til Þorvalds frænda síns, og beiddi hann liðveislu en hann játaði honum því skjótt. Bjuggu þeir málið til á hendur Þorgeiri og Þormóði. Þorsteinn reið heim til bús síns. Hann bjó þá í Ljárskógum í Hvammssveit.
Skeggi bjó í Hvammi. Hann réðst í málið með Þorsteini. Skeggi var sonur Þórarins fylsennis, Þórðarsonar gellis. Móðir Skeggja var Friðgerður dóttir Þórðar frá Höfða.
Þeir fjölmenntu mjög til alþingis og héldu málum fram með miklu kappi. Riðu þeir Ásmundur og Þorvaldur norðan til með sex tigu manna og sátu í Ljárskógum margar nætur.
27. kafli
Þorgils bjó þá á Reykjahólum. Hann var son Ara Mássonar, Atlasonar hins rauða, Úlfssonar hins skjálga er nam Reykjanes. Móðir Þorgils Arasonar var Þorgerður dóttir Álfs úr Dölum. Önnur dóttir Álfs var Þórelfur, móðir Þorgeirs Hávarssonar. Átti Þorgeir þar traust mikið fyrir frændsemis sakir því að Þorgils var mestur höfðingi í Vestfirðingafjórðungi. Hann var svo mikill þegnskaparmaður að hann gaf hverjum frjálsum manni mat svo lengi sem þiggja vildi. Varð af þessu jafnan fjölmennt á Reykjahólum. Hafði Þorgils rausn mikla af búnaði sínum. Hann var góðgjarn maður og forvitri. Þorgeir var með Þorgilsi á vetrum en fór á Strandir á sumrum.
Eftir víg Þorgils Mákssonar fór Þorgeir á Reykjahóla og sagði Þorgils þessi tíðindi.
Þorgils sagði honum þar vist til reiðu hjá sér “en það hygg eg,” sagði hann, “að þeir verði þungir í eftirmálinu en eg er ófús að auka vandræðum. Nú mun eg senda mann til Þorsteins og bjóða fébætur fyrir víg Þorgils en ef hann vill eigi sættum taka þá mun eg þetta mál ekki með kappi verja.”
Þorgeir kvaðst hans forsjá hlíta mundu.
Um haustið sendi Þorgils mann til Þorsteins Kuggasonar að leita um sættir en hann var þver í því að taka fé fyrir vígsmálið við Þorgils en um önnur víg kvaðst hann gera mundu eftir skynsamra manna tillögum. Og er Þorgils frétti þetta kallar hann Þorgeir á tal við sig og spyr hver liðveisla honum þætti sér þá hallkvæmust. Þorgeir kvaðst helst utan fara ef hann yrði sekur. Þorgils sagði að þessa mundi freistað verða.
Skip stóð uppi í Norðurá í Borgarfirði. Í því skipi keypti Þorgils á laun far til handa þeim fóstbræðrum. Leið svo af veturinn.
Þorgils frétti að þeir Þorsteinn fjölmenntu mjög til alþingis og sátu í Ljárskógum. Því frestaði hann heiman að ríða að hann vildi að þeir Þorsteinn væru undan suður riðnir þá er hann kæmi vestan og svo varð. Reið Þorgils suður og þeir fóstbræður með honum. Í þessi ferð drap Þorgeir Böggul-Torfa að Márskeldu. Þá drap hann þá Skúf og Bjarna í Hundadal.
Svo segir Þormóður í Þorgeirsdrápu:
Kapp lét höldr með heppni,
hríð gerðist þá sverða,
hrátt gat hrafn að slíta
hold, Máks syni goldið.
Enn var vogs að vígi
viggríðandi síðan,
kænn bar greipr að gunni
gjarna, Skúfs og Bjarna.
Þorgils sættist þar þegar á vígin Skúfs og Bjarna þar í dalinum og dvaldist honum lengur en hann hafði áður ætlað. Fór Þorgeir til skips en Þorgils til þings og kom eigi fyrr en gengið var til dóma.
Þá bauð Ásmundur hærulangur til varna um vígsmálið Þorgils Mákssonar. Þorgils gekk að dóminum og bauð fébætur fyrir vígið ef Þorgeir yrði þá sýkn. Hann leitaði til varna í málinu hvort þeir ættu eigi allan veiðiskap frjálsan á almenningum. Var þá lögmaður að spurður hvort þetta væri lögvörn. Skafti var þá lögmaður og fylgdi hann Ásmundi fyrir frændsemis sakir. Sagði hann að það væru lög ef þeir væru jafnir menn en sagði að fyrr ættu að taka bændur en einhleypingar. Ásmundur sagði að Þorgils hefði boðið þeim fóstbræðrum jafnaðarskipti á þeim hvalnum hinum óskorna þá er þeir komu til, og var þá lokið þeirri vörn. Gengu þeir Þorsteinn og frændur hans þá að með kappi og létu sér ekki annað líka en Þorgeir væri sekur ger. Sá Þorgils að þá varð annaðhvort að gera að ganga að með fjölmenni, en þó óvíst hvað í aflaðist, eða láta þá fara fram sem þeim líkaði. Og við það að Þorgeiri var í skip komið leiddi Þorgils hjá sér málið. Var Þorgeir sekur ger en fyrir Þormóð voru teknar fébætur og skyldi hann sýkn vera.
Þeir Ásmundur og Þorsteinn þóttu mikið vaxa af þessu eftirmáli. Riðu menn þá heim af þinginu. Töluðu sumir menn að Þorgils hefði lítt fylgt málinu en hann gaf sér fátt að því og lét hvern tala hér um slíkt er vildi.
En er Þorgeir frétti sekt sína sagði hann svo: “Það mundi eg vilja að þeir er mig hafa sekan gert hefðu þessa full gjöld áður lýkur ef eg mætti ráða.”
Gautur hét maður og var kallaður Sleituson. Hann var frændi Þorgils Mákssonar. Gautur var ráðinn í skip þetta er Þorgeir skyldi sigla í. Hann ýfðist við Þorgeir og lét ófrýnlega. En er kaupmenn fundu það þótti þeim ekki einsætt að þeir færu í einu skipi. Þorgeir sagðist eigi hirða hversu Gautur léti síga brýnnar en þó var það til ráðs tekið að Gautur réðst úr skipinu og fór norður til sveita. Varð eigi að með þeim Þorgeiri að því sinni en þó reis af þessu sundurþykki með þeim sem síðar bar raun á.
28. kafli
Grettir Ásmundarson kom þetta sumar út í Skagafirði. Hann var þá svo frægur maður fyrir sakir afls og hreysti að engi þótti þá slíkur af ungum mönnum. Hann reið brátt heim til Bjargs og tók Ásmundur þá við honum sæmilega. Atli hafði þá búsforráð. Féll vel á með þeim bræðrum. Þá gerðist ofsi Grettis svo mikill að honum þótti sér ekki ófært.
Þá gerðust þeir margir fullhraustir menn er þá voru ungir er Grettir var að leikum á Miðfjarðarvatni með þeim áður en hann fór utan. Einn af þeim var Auðunn er þá bjó á Auðunarstöðum í Víðidal. Hann var Ásgeirsson, Auðunarsonar, Ásgeirssonar æðikolls. Auðunn var góður bóndi og gegn maður. Allra manna var hann sterkastur norður þar. Hann þótti hinn gæfasti í byggðarlagi.
Grettir kom nú það í hug að hann þóttist hafa orðið varhluta fyrir Auðuni að knattleiknum sem áður er sagt og vildi hann prófa hvor þeirra meira hefði við gengist síðan. Af því gerir Grettir heiman ferð sína á Auðunarstaði. Það var um öndverðan sláttutíma. Grettir barst á mikið og reið í steindum söðli mjög vönduðum er Þorfinnur gaf honum. Hann hafði góðan hest og vopn öll hin bestu.
Grettir kom snemma dags á Auðunarstaði og drap á dyr. Fátt var manna heima. Grettir spurði hvort Auðunn væri heima. Menn sögðu að hann væri farinn til sels eftir mat. Grettir hleypti beisli af hesti sínum. Túnið var óslegið og gekk hesturinn þangað sem loðnast var. Grettir gekk til skála og settist niður á setstokkinn og síðan sofnaði hann.
Litlu síðar kom Auðunn heim. Hann sá að hestur var í túninu með steindum söðli. Auðunn bar mat á tveimur hestum og bar skyr á hesti og var það í húðum og var bundið um fyrir ofan. Það kölluðu menn skyrkylla. Auðunn tók af hestum og ber inn skyr í fangi sér. Honum var myrkt fyrir augum. Grettir rétti fótinn fram af stokkinum og féll Auðunn áfram og varð undir honum skyrkyllirinn og gekk af yfirbandið. Auðunn spratt upp og spurði hvað skelmi þar væri. Grettir nefndi sig.
Auðunn mælti: “Þanninn var óspaklega farið eða hvert er erindið þitt?”
“Eg vil berjast við þig,” segir Grettir.
“Sjá mun eg fyrst ráð fyrir mat mínum,” sagði Auðunn.
“Vel má það,” segir Grettir, “ef þú mátt eigi öðrum mönnum að því hlíta.”
Auðunn laut þá niður og þreif upp skyrkyllinn og sletti framan í fang Gretti og bað hann fyrst taka við því er honum var sent. Grettir varð allur skyrugur. Þótti honum það meiri smán en þó Auðunn hefði veitt honum mikinn áverka. Síðan réðust þeir á og glímdu heldur sterklega. Sækir Grettir með ákefð en Auðunn fer undan. Finnur hann þá að Grettir hefir dregið undan honum. Gengur upp allt það er fyrir þeim verður og rekast þeir víða um skálann. Sparði hvorgi af en þó verður Grettir drjúgari og fellur Auðunn að lyktum. Hann hafði slitið öll vopnin af Gretti. Knýjast þeir fast og verður brak mikið um þá og þá kemur dynur mikill undir bæinn og heyrir Grettir að riðið var að húsunum og af baki stigið og inn gengið snúðigt. Sér hann að maður gengur inn þriflegur í rauðum kyrtli og hafði hjálm á höfði. Sjá sneri til skálans því að hann heyrði umfang mikið er þeir áttust við. Hann spurði hvað í skálanum væri.
Grettir nefndi sig “eða hver spyr að?”
“Barði heiti eg,” segir sá er kominn var.
“Ertu Barði Guðmundarson úr Ásbjarnarnesi?”
“Sá er maður hinn sami,” segir Barði. “Eða hvað hefstu að?” sagði hann.
Grettir svarar: “Við Auðunn eigum hér gamanleika.”
“Ekki veit eg um gaman það,” segir Barði. “Er og ekki jafnkomið á með ykkur. Þú ert ójafnaðarmaður og ofurkappsfullur en hann er gæfur og góðfengur og láttu hann upp standa skjótt.”
Grettir svarar: “Margur seilist um hurð til lokunnar. Þætti mér þér nær að hefna Halls bróður þíns en að hlutast til með okkur Auðuni hvað við eigumst við.”
“Jafnan heyri eg það,” segir Barði, “en eigi veit eg hvort þess verður nokkuð hefnt. En þó vil eg að þú látir Auðun vera í náðum því hann er spakur maður.”
Grettir gerði svo fyrir tillögur Barða og líkaði þó illa. Barði spurði hvað til saka væri með þeim.
Grettir kvað vísu:
Eigi veit eg nema utan
Jalfaðr að þér sjalfum
kverkr fyr kapp og orku,
kvelling er það, svelli.
Svo bannaði sinnir
seim-Gauts, þá eg var heima,
ungum endr fyr löngu
ákall þinul fjalla.
Barði kvað það víst vorkunn ef hann ætti sín víst í að hefna.
“Mun eg nú gera með ykkur,” sagði Barði. “Vil eg að þið skiljið að svo gervu og sé nú slitið með ykkur.”
Og það létu þeir haldast því þeir voru skyldir og líkaði Gretti heldur illa við Barða og bræður hans, riðu á burt allir saman.
Og er þeir voru í veg komnir þá mælti Grettir: “Það hefi eg spurt að þú ætlar suður til Borgarfjarðar í sumar. Nú vil eg bjóða þér Barði að fara suður með þér og þykist eg þá gera við þig verðleikum betur.”
Barði varð glaður við þetta og játaði skjótt þessu og bað hann hafa þökk fyrir. Síðan skildu þeir.
Þá veik Barði aftur og mælti: “Það vil eg til skilja,” segir hann, “að þú farir ei nema Þórarinn leyfi því hann skal ráða ferðinni.”
“Vel þætti mér þú mega einhlítur vera að ráðum þínum. Á eg ekki,” sagði Grettir, “ferðir mínar undir öðrum mönnum en illa mun mér þykja ef þú gerir mig liðrækan.”
Nú fara sína leið hvorir og kvaðst Barði skyldu gera Gretti vissu “ef Þórarinn vill að þú farir” en ella skyldi hann sitja um kyrrt.
Grettir reið heim til Bjargs en Barði til bús síns.
29. kafli
Um sumarið var lagið hestaþing fjölmennt á Langafit ofan frá Reykjum. Kom þar margt manna. Atli að Bjargi átti hest góðan, móálóttan, af Kengálu kyni. Höfðu þeir feðgar mætur miklar á hestinum. Þeir bræður Kormákur og Þorgils á Mel áttu brúnan öruggan hest til vígs. Þeir skyldu etja saman og Atli frá Bjargi. Margir voru þar aðrir góðir hestar.
Oddur ómagaskáld frændi Kormáks skyldi fylgja hesti þeirra frænda sinna um daginn. Oddur gerðist sterkur maður og lét um sig mikið, ódæll og ófyrirleitinn. Grettir spurði Atla bróður sinn hver fylgja skyldi hans hesti.
“Eigi er mér það svo glöggt,” sagði hann.
“Viltu að eg standi hjá?” sagði Grettir.
“Vertu vel stilltur þá frændi,” sagði Atli, “því að hér er við metnaðarmenn um að eiga.”
“Gjaldi þeir sjálfir ofstopa síns,” sagði Grettir, “ef þeir hafa hann eigi í hófi.”
Nú eru hestarnir fram leiddir en hrossin stóðu framarlega á árbakkanum og voru bundin saman. Hylur mikill var fyrir framan bakkann. Hestarnir bitust allvel og var það hin mesta skemmtan. Oddur fylgdi með kappi en Grettir lét hefjast við og tók í taglið annarri hendi en hélt með annarri stafnum er hann keyrði með hestinn. Oddur stóð framarlega hjá sínum hesti og eigi traust að hann styngi eigi hest Atla af takinu. Eigi lét Grettir sem hann sæi það. Bárust hestarnir fram að ánni. Þá stingur Oddur stafinum til Grettis og kom á herðarblaðið því að Grettir horfði öxlinni að honum. Það var mikið tilræði svo að undan hljóp holdið en lítt skeindist Grettir. Í því bili risu hestarnir hátt upp. Grettir hljóp undir hömina á hesti sínum en rak stafinn á síðu Oddi svo hart að þrjú rifin brotnuðu í honum en Oddur hraut út á hylinn og svo hestur hans og hrossin öll þau er bundin voru. Var þá lagist til hans og dreginn af ánni.
Þá var óp mikið gert að þessu. Þeir Kormákur hlupu til vopna en Bjargsmenn í öðrum stað. En er það sáu Hrútfirðingar og Vatnsnesmenn gengu þeir í milli og urðu þeir þá skildir og fóru heim og höfðu hvorir ill heit við aðra og sátu þó um kyrrt um hríð. Atli var fátalaður um þetta en Grettir var heldur ósvífur og kvað þá finnast skyldu annan tíma ef hann mætti ráða.
30. kafli
Þorbjörn hét maður er bjó á Þóroddsstöðum í Hrútafirði. Hann var son Arnórs heynefs Þóroddssonar er numið hafði Hrútafjörð þeim megin til móts við Bakka. Þorbjörn var allra manna sterkastur. Hann var kallaður öxnamegin. Þóroddur hét bróðir hans. Hann var kallaður drápustúfur. Móðir þeirra var Gerður dóttir Böðvars úr Böðvarshólum.
Þorbjörn var garpur mikill og hafði mannmargt með sér. Hann var til þess tekinn að honum var verra til hjóna en öðrum mönnum og galt nær öngum manni kaup. Ekki þótti hann dæll maður.
Þorbjörn hét frændi hans og var kallaður ferðalangur. Hann var siglingamaður og áttu þeir nafnar félag saman. Var hann á Þóroddsstöðum jafnan og þótti hann lítið bæta um fyrir Þorbirni. Hann var tilfyndinn og fór með dáruskap til ýmsra manna.
Þórir hét maður, son Þorkels á Borðeyri. Þórir bjó fyrst á Melum í Hrútafirði. Hans dóttir var Helga er Sleitu-Helgi fékk. En eftir vígið á Fagrabrekku réðst Þórir suður í Haukadal og bjó á Skarði en seldi landið á Melum Þórhalli Gamlasyni Vínlendingi. Hans son var Gamli er átti Rannveigu dóttur Ásmundar hærulangs, systur Grettis. Þau bjuggu í þenna tíma á Melum og áttu gott ráð.
Þórir á Skarði átti tvo sonu. Hét annar Gunnar en annar Þorgeir. Þeir voru efnilegir menn og höfðu þeir þá tekið við búi eftir föður sinn en þó voru þeir jafnan með Þorbirni öxnamegin. Þeir gerðust offorsfullir.
Þetta sumar sem nú var frá sagt riðu þeir Kormákur og Þorgils og Narfi frændi þeirra suður til Norðurárdals að erindum sínum. Oddur ómagaskáld var og í ferð með þeim. Var þá batnað stirðleikans er hann hafði fengið á hestaþinginu. Og meðan þeir voru fyrir sunnan heiðina fór Grettir heiman frá Bjargi og með honum tveir húskarlar Atla. Þeir riðu yfir til Búrfells og þaðan yfir hálsinn til Hrútafjarðar og komu til Mela um kveldið. Þrjár nætur voru þeir þar. Þau Rannveig og Gamli tóku allvel við Gretti og buðu honum með sér að vera en hann vildi heim ríða. Þá frétti Grettir að þeir Kormákur voru sunnan komnir og höfðu gist í Tungu um nóttina.
Grettir bjóst snemma frá Melum. Gamli bauð honum menn til fylgdar. Grímur hét bróðir Gamla. Hann var allra manna hvatastur. Hann reið með Gretti við annan mann. Þeir voru fimm saman, riðu uns þar til er þeir komu á Hrútafjarðarháls vestur frá Búrfelli. Þar stendur steinn mikill er kallaður er Grettishaf. Hann fékkst við lengi um daginn að hefja steininn og dvaldi svo þar til er þeir Kormákur komu. Grettir sneri til móts við þá og hlupu af baki hvorirtveggju. Grettir sagði að frjálsmannlegra væri nú að höggva sem stærst heldur en berjast með stöfum sem förumenn. Kormákur bað þá verða við mannlega og duga sem best.
Eftir það hlupust þeir að og börðust. Grettir var fremstur af sínum mönnum og bað þá geyma að eigi væri gengið að baki honum. Sóttust þeir um hríð og urðu hvorirtveggja sárir.
Þorbjörn öxnamegin hafði riðið þenna dag yfir háls til Búrfells og er þeir riðu aftur sér hann fundinn. Þar var þá með honum Þorbjörn ferðalangur og Gunnar og Þorgeir Þórissynir og Þóroddur drápustúfur. Og er þeir komu að heitir Þorbjörn á sína menn til meðalgöngu. Hinir voru svo ákafir að þeir gátu ekki að gert. Grettir ruddist um fast. Þeir voru fyrir honum Þórissynir og féllu báðir senn er hann hratt þeim frá sér. Þeir urðu óðir mjög við það svo að Gunnar hjó húskarl Atla banahögg. Og er Þorbjörn sá það biður hann þá skilja. Kvaðst hann skyldu þeim lið veita er hans orð vildu rækja. Þá voru farnir tveir húskarlar Kormáks. Þá sá Grettir að varla mundi duga ef Þorbjörn réðist í lið með þeim og því lætur hann verða upp gefinn bardagann. Allir voru þeir sárir sem á fundinum höfðu verið. Illa þótti Gretti er þeir voru skildir. Eftir það riðu þeir heim hvorirtveggju. Ekki sættust þeir á mál þessi.
Þorbjörn ferðalangur gerði að þessu mikið kalls. Þá tók að versna með þeim Bjargsmönnum og Þorbirni öxnamegin svo af því gerðist fullur fjandskapur sem síðar kom fram. Öngvar bætur voru Atla boðnar fyrir húskarl sinn. Eigi lét hann sem hann vissi það. Grettir sat á Bjargi fram til tvímánaðar. Ekki er sagt að þeir fyndust Kormákur síðan svo þess sé getið.
31. kafli
Barði Guðmundarson og bræður hans riðu heim í Ásbjarnarnes þá er þeir skildust Grettir. Þeir voru synir Guðmundar Sölmundarsonar. Móðir Sölmundar var Þorlaug dóttir Sæmundar hins suðureyska, fóstbróður Ingimundar hins gamla. Barði var göfugmenni mikið. Hann reið nú brátt að finna Þórarin hinn spaka fóstra sinn. Hann fagnaði Barða vel og spurði hvað hann hefði þá um árnað liðveisluna því að þeir höfðu áður gert ráð um ferð Barða. Barði svarar að hann hefði fengið þann mann til fylgdar við sig er honum þætti betra hans lið en tveggja annarra.
Þórarinn þagnaði við og mælti: “Það mun vera Grettir Ásmundarson.”
“Spá er spaks geta,” sagði Barði, “sá er maður hinn sami fóstri minn.”
Þórarinn svarar: “Satt er það að mikið afbragð er Grettir annarra manna, þeirra er nú er kostur á voru landi, og seint mun hann sóttur vopnum verða ef hann er heill. En grunar mig um hversu heilladrjúgur hann verður og muntu þess þurfa að eigi séu allir ógæfumenn í þinni ferð og nóg mun að gert þó eigi fari hann með. Skal hann hvergi fara ef eg ræð.”
“Eigi varði mig þess fóstri minn,” segir hann, “að þú mundir fyrirmuna mér hins vaskasta manns hvað sem í gerist. Má ekki fyrir öllu sjá þá er menn verða svo neyddir til sem eg þykist vera.”
“Duga mun þér,” segir Þórarinn, “þó að eg sjái fyrir.”
Varð nú svo að vera sem Þórarinn vildi að Gretti voru engi orð send en Barði fór suður til Borgarfjarðar og urðu þá Heiðarvígin.
Grettir var að Bjargi er hann frétti að Barði var suður riðinn. Hann brást við reiður er honum voru engin orð ger og kvað þá eigi svo búið skilja skyldu. Hafði hann þá spurn af nær þeirra væri sunnan von og reið hann þá ofan til Þóreyjargnúps og ætlaði að sitja þar fyrir þeim Barða þá þeir riðu sunnan. Hann fór frá bænum í hlíðina og beið þar.
Þenna sama dag riðu þeir Barði sunnan af Tvídægru frá Heiðarvígum. Þeir voru sex saman og allir sárir mjög.
Og er þeir komu fram fyrir bæinn þá mælti Barði: “Maður er þar uppi í hlíðinni, mikill, með vopnum eða hvern kennið þér þar?”
Þeir sögðust eigi vita hver var.
Barði mælti: “Það hygg eg,” sagði hann, “að þar sé Grettir Ásmundarson og ef svo er þá mun hann vilja oss finna. Get eg honum hafa mislíkað er hann hefir ekki farið með oss en mér þykir vér nú ekki vel við látnir ef hann gerir nokkura óvissu af sér. Mun eg nú senda eftir mönnum heim til Þóreyjargnúps og eiga ekki undir ójafnaði hans.”
Þeir segja það allráðlegt og svo gerðu þeir. Síðan riðu þeir Barði veg sinn. Grettir sá ferð þeirra og sneri þegar fyrir þá og er þeir fundust heilsa hvorir öðrum. Grettir spurði að tíðindum en Barði segir ófelmtlega slík sem voru. Grettir spurði hvað manna væri í ferð með honum. Barði kvað þar vera bræður sína og Eyjólf mág sinn.
“Af þér hefir þú rekið ámælið nú,” sagði Grettir, “enda er nú og næst að við reynum með okkur hvor hér má meira.”
Barði mælti: “Legið hafa mér andvirki nær garði en að berjast við þig fyrir sakleysi og þykist eg nú hafa rekið það af mér.”
Grettir svarar: “Bleyðast þykir mér þú Barði,” sagði Grettir, “ef þú þorir eigi að berjast við mig.”
“Kalla þú það sem vilt,” segir Barði, “en í öðrum stað vildi eg að þú kæmir fram ójafnaði þínum en við mig. Er það eigi ólíklegt því að nú gengur úr hófi offors þitt.”
Gretti þóttu illar spár hans og efar nú fyrir sér hvort hann skyldi ráða til einhvers þeirra og sýnist honum það óforsjálegt er þeir voru sex en hann einn. Og í því bili komu menn heiman frá Þóreyjargnúpi til liðs við þá Barða. Lætur Grettir þá dragast sundur með þeim og snýr til hests síns en Barði og hans félagar fóru leiðar sinnar og varð ekki af kveðjum með þeim að skilnaði. Ekki áttust þeir Barði og Grettir fleira við svo þess sé getið.
Svo hefir Grettir sagt að hann þóttist öruggur til vígs við flesta menn þó að þrír væru saman en hann mundi eigi flýja fyrir fjórum að óreyndu en því að eins berjast við fleiri nema ætti hann hendur sínar að verja sem segir í þessari vísu:
Treysti eg mér við, Mistar
mótkennandi, þrenna,
hvað er í Hildar veðri
heiftminnigt skal vinna.
Vil eg eigi fleiri en fjórum
fársætöndum mæta
að gnýfengnum Gungnis
gráð ef eg skal ráða.
Eftir skilnað þeirra Barða fór Grettir aftur til Bjargs. Þá þótti Gretti mikið mein er hann mátti hvergi prófa afl sitt og fréttist fyrir ef nokkuð væri það er hann mætti við fást.
32. kafli
Þórhallur hét maður er bjó á Þórhallsstöðum í Forsæludal. Forsæludalur er upp af Vatnsdal. Þórhallur var Grímsson, Þórhallarsonar, Friðmundarsonar er nam Forsæludal. Þórhallur átti þá konu er Guðrún hét. Grímur hét son þeirra en Þuríður dóttir er þá var vel á legg komin. Þórhallur var vel auðigur maður og mest að kvikfé svo að engi maður átti jafnmargt ganganda fé sem hann. Ekki var hann höfðingi en þó skilríkur bóndi.
Þar var reimt mjög og fékk hann varla sauðamenn svo að honum þætti duga. Hann leitaði ráðs við marga vitra menn hvað hann skyldi til bragðs taka en engi gat það ráð til gefið er dygði.
Þórhallur reið til þings hvert sumar. Hann átti hesta góða. Það var eitt sumar á alþingi að Þórhallur gekk til búðar Skafta lögmanns Þóroddssonar. Skafti var manna vitrastur og heilráður ef hann var beiddur. Það skildi með þeim feðgum. Þóroddur var forspár og kallaður undirhyggjumaður af sumum mönnum en Skafti lagði það til með hverjum manni sem hann ætlaði að duga skyldi ef eigi væri af því brugðið. Því var hann kallaður beturfeðrungur.
Þórhallur gekk í búð Skafta. Hann fagnaði vel Þórhalli því að hann vissi að hann var ríkur maður að fé og spurði hvað að tíðindum væri.
Þórhallur mælti: “Heilræði vildi eg af yður þiggja.”
“Í litlum færum er eg til þess,” sagði Skafti, “eða hvað stendur þig?”
Þórhallur mælti: “Það er svo háttað að mér helst lítt á sauðamönnum. Verður þeim heldur klaksárt en sumir gera öngvar lyktir á. Vill nú engi til taka sá er kunnigt er til hvað fyrir býr.”
Skafti svarar: “Þar mun liggja meinvættur nokkur er menn eru tregari til að geyma síður þíns fjár en annarra manna. Nú fyrir því að þú hefir að mér ráð sótt þá skal eg fá þér sauðamann þann er Glámur heitir, ættaður úr Svíþjóð úr Sylgsdölum, er út kom í fyrra sumar, mikill er og sterkur og ekki mjög við alþýðuskap.”
Þórhallur kvaðst ekki um það gefa ef hann geymdi vel fjárins.
Skafti sagði öðrum eigi vænt horfa ef hann geymdi eigi fyrir afls sakir og áræðis. Þórhalli gekk þá út. Þetta var að þinglausnum.
Þórhalli var vant hesta tveggja ljósbleikra og fór sjálfur að leita. Af því þykjast menn vita að hann var ekki mikilmenni. Hann gekk upp undir Sleðás og suður með fjalli því er Ármannsfell heitir.
Þá sá hann hvar maður fór ofan úr Goðaskógi og bar hrís á hesti. Brátt bar saman fund þeirra. Þórhallur spurði hann að nafni en hann kveðst Glámur heita. Þessi maður var mikill vexti og undarlegur í yfirbragði, bláeygður og opineygður, úlfgrár á hárslit. Þórhalli brá nokkuð í brún er hann sá þenna mann en þó spurði hann og skildi hann að honum mundi til þessa vísað.
“Hvað er þér best hent að vinna?” segir Þórhallur.
Glámur kvað sér vel hent að geyma sauðfjár á vetrum.
“Viltu geyma sauðfjár míns?” segir Þórhallur. “Gaf Skafti þig á mitt vald.”
“Svo mun þér hentust mín vist að eg fari sjálfráður því eg er skapstyggur ef mér líkar eigi vel,” segir Glámur.
“Ekki mun mér mein að því,” segir Þórhallur, “og vil eg að þú farir til mín.”
“Gera má eg það,” segir Glámur, “eða eru þar nokkur vandhæfi á?”
“Reimt þykir þar vera,” segir Þórhallur.
“Ekki hræðist eg flykur þær,” sagði Glámur, “og þykir mér að ódauflega.”
“Þess muntu við þurfa,” segir Þórhallur, “og hentar þar betur að vera eigi alllítill fyrir sér.”
Eftir það kaupa þeir saman og skal Glámur koma að veturnóttum. Síðan skildu þeir og fann Þórhallur hesta sína. Þar hafði hann nýleitað. Reið Þórhallur heim og þakkaði Skafta velgerning.
Sumar leið af og frétti Þórhallur ekki til sauðamanns og engi kunni skyn á honum en að ánefndum tíma kom hann á Þórhallsstaði. Tekur bóndi við honum vel en öllum öðrum gast ekki að honum en húsfreyju þó minnst. Hann tók við fjárvarðveislu og varð honum lítið fyrir því. Hann var hljóðmikill og dimmraddaður og fé stökk allt saman þegar hann hóaði. Kirkja var á Þórhallsstöðum. Ekki vildi Glámur til hennar koma. Hann var ósöngvinn og trúlaus, stirfinn og viðskotaillur. Öllum var hann hvimleiður.
Nú leið svo þar til er kemur aðfangadagur jóla. Þá stóð Glámur snemma upp og kallaði til matar síns.
Húsfreyja svaraði: “Ekki er það háttur kristinna manna að matast þenna dag því að á morgun er jóladagur hinn fyrsti,” segir hún, “og er því fyrst skylt að fasta í dag.”
Hann svarar: “Marga hindurvitni hafið þér þá er eg sé til einskis koma. Veit eg eigi að mönnum fari nú betur að heldur en þá er menn fóru ekki með slíkt. Þótti mér þá betri siður er menn voru heiðnir kallaðir og vil eg mat minn en öngvar refjar.”
Húsfreyja mælti: “Víst veit eg að þér mun illa farast í dag ef þú tekur þetta illbrigði til.”
Glámur bað hana taka mat í stað, kvað henni annað skyldu vera verra. Hún þorði eigi annað en að gera sem hann vildi. Og er hann var mettur gekk hann út og var heldur gustillur. Veðrið var svo farið að myrkt var um að litast og flögraði úr drífa og gnýmikið og versnaði mikið sem á leið daginn. Heyrðu menn til sauðamanns öndverðan daginn en miður er á leið daginn. Tók þá að fjúka og gerði á hríð um kveldið. Komu menn til tíða og leið svo fram að dagsetri. Ei kom Glámur heim. Var þá um talað hvort hans skyldi eigi leita en fyrir því að hríð var á og niðamyrkur þá varð ekki af leitinni. Kom hann ekki heim jólanóttina. Biðu menn svo fram um tíðir.
Að ærnum degi fóru menn í leitina og fundu féið víða í fönnum, lamið af ofviðri eða hlaupið á fjöll upp. Því næst komu þeir á traðk mikinn ofarlega í dalnum. Þótti þeim því líkt sem þar hefði glímt verið heldur sterklega því að grjótið var víða upp leyst og svo jörðin. Þeir hugðu að vandlega og sáu hvar Glámur lá skammt á burt frá þeim. Hann var dauður og blár sem hel en digur sem naut. Þeim bauð af honum óþekkt mikla og hraus þeim mjög hugur við honum. En þó leituðu þeir við að færa hann til kirkju og gátu ekki komið honum nema á einn gilsþröm þar skammt ofan frá sér og fóru heim við svo búið og sögðu bónda þenna atburð.
Hann spurði hvað Glámi mundi hafa að bana orðið. Þeir kváðust rakið hafa spor svo stór sem keraldsbotni væri niður skellt þaðan frá sem traðkurinn var og upp undir björg þau er þar voru ofarlega í dalnum og fylgdu þar með blóðdrefjar miklar. Það drógu menn saman að sú meinvættur er áður hafði þar verið mundi hafa deytt Glám en hann mundi fengið hafa henni mikinn áverka þann er tekið hafi til fulls því að við þá meinvætti hefir aldrei vart orðið síðan.
Annan dag jóla var farið að leita við enn að færa Glám til kirkju. Voru eykir fyrir beittir og gátu þeir hvergi fært hann þegar sléttlendið var og eigi var forbrekkis að fara. Gengu nú frá við svo búið. Hinn þriðja dag fór prestur með þeim og leituðu allan daginn og Glámur fannst ekki. Ekki vildi prestur oftar til fara en sauðamaður fannst þegar prestur var eigi í ferð. Létu þeir þá fyrir vinnast að færa hann til kirkju og dysjuðu hann þar sem þá var hann kominn.
Litlu síðar urðu menn varir við það að Glámur lá eigi kyrr. Varð mönnum að því mikið mein svo að margir féllu í óvit ef sáu hann en sumir héldu eigi vitinu. Þegar eftir jólin þóttust menn sjá hann heima þar á bænum. Urðu menn ákaflega hræddir. Stukku þá margir menn í burt. Því næst tók Glámur að ríða húsum á nætur svo að lá við brotum. Gekk hann þá nálega nætur og daga. Varla þorðu menn að fara upp í dalinn þó að ættu nóg erindi. Þótti mönnum þar í héraðinu mikið mein að þessu.
33. kafli
Um vorið fékk Þórhalli sér hjón og gerði bú á jörðu sinni. Tók þá að minnka afturgangur meðan sólargangur var mestur. Leið svo fram á miðsumar.
Þetta sumar kom út skip í Húnavatni. Þar var á sá maður er Þorgautur hét. Hann var útlendur að kyni, mikill og sterkur. Hann hafði tveggja manna afl. Hann var laus og einn fyrir sér. Hann vildi fá starfa nokkurn því hann var félaus.
Þórhallur reið til skips og fann Þorgaut, spurði ef hann vildi vinna fyrir honum. Þorgautur kvað það vel mega vera og kveðst eigi vanda það.
“Svo skaltu við búast,” segir Þórhallur, “sem þar sé ekki veslingsmönnum hent að vera fyrir afturgöngum þeim er þar hafa verið um hríð en eg vil ekki þig á tálar draga.”
Þorgautur svarar: “Eigi þykist eg upp gefinn þó að eg sjái smávofur. Mun þá eigi öðrum dælt ef eg hræðist og ekki bregð eg vist minni fyrir það.”
Nú semur þeim vel kaupstefnan og skal Þorgautur gæta sauðfjár að vetri. Leið nú af sumarið. Tók Þorgautur við fénu að veturnóttum. Vel líkaði öllum við hann. Jafnan kom Glámur heim og reið húsum.
Það þótti Þorgauti allkátlegt og kvað þrælinn þurfa mundu nær að ganga “ef eg hræðist.”
Þórhallur bað hann hafa fátt um “er best að þið reynið ekki með ykkur.”
Þorgautur mælti: “Sannlega er skekinn þróttur úr yður og dett eg ekki niður milli dægra við skraf þetta.”
Nú fór svo fram um veturinn allt til jóla. Aðfangakveld jóla fór sauðamaður til fjár.
Þá mælti húsfreyja: “Þurfa þætti mér að nú færi eigi að fornum brögðum.”
Hann svarar: “Ver ekki hrædd um það húsfreyja,” sagði hann. “Verða mun eitthvert sögulegt ef eg kem ekki aftur.”
Síðan gekk hann aftur til fjár síns. Veður var heldur kalt og fjúk mikið. Því var Þorgautur vanur að koma heim þá er hálfrökkvað var en nú kom hann ekki heim í það mund. Komu tíðamenn sem vant var. Þegar þótti mönnum eigi ólíkt á horfast sem fyrr. Bóndi vildi leita láta eftir sauðamanni en tíðamenn töldust undan og sögðust eigi mundu hætta sér út í tröllahendur um nætur og treystist bóndi eigi að fara og varð ekki af leitinni.
Jóladag er menn voru mettir fóru menn til og leituðu sauðamanns. Gengu þeir fyrst til dysjar Gláms því að menn ætluðu af hans völdum mundi orðið um hvarf sauðamanns. En er þeir komu nær dysinni sáu þeir þar mikil tíðindi og þar fundu þeir sauðamann og var hann brotinn á háls og lamið sundur hvert bein í honum. Síðan færðu þeir hann til kirkju og varð öngum manni mein að Þorgauti síðan. En Glámur tók að magnast af nýju. Gerði hann nú svo mikið af sér að menn allir stukku burt af Þórhallsstöðum utan bóndi einn og húsfreyja.
Nautamaður hafði þar verið lengi hinn sami. Vildi Þórhallur hann ekki lausan láta fyrir góðvilja sakir og geymslu. Hann var mikið við aldur og þótti honum mikið að fara á burt. Sá hann og að allt fór að ónytju það er bóndi átti ef engi geymdi.
Og einn tíma eftir miðjan vetur var það einn morgun að húsfreyja fór til fjóss að mjólka kýr eftir tíma. Þá var alljóst því að engi treystist fyrr úti að vera annar en nautamaður. Hann fór út þegar lýsti. Hún heyrði brak mikið í fjósið og beljan öskurlega. Hún hljóp inn æpandi og kvaðst eigi vita hver ódæmi um væru í fjósinu. Bóndi gekk út og kom til nautanna og stangaði hvert annað. Þótti honum þar eigi gott og gekk inn að hlöðunni. Hann sá hvar lá nautamaður og hafði höfuðið í öðrum bási en fætur í öðrum. Hann lá á bak aftur. Bóndi gekk að honum og þreifaði um hann, finnur brátt að hann er dauður og sundur hryggurinn í honum. Var hann brotinn um báshelluna.
Nú þótti bónda eigi vært og fór í burt af bænum með allt það sem hann mátti í burt flytja. En allt kvikfé það sem eftir var deyddi Glámur og þar næst fór hann um allan dalinn og eyddi alla bæi upp frá Tungu.
Var Þórhalli þá með vinum sínum það eftir var vetrarins. Engi maður mátti fara upp í dalinn með hest eða hund því að það var þegar drepið.
En er voraði og sólargangur var sem mestur létti heldur afturgöngunum. Vildi Þórhallur nú fara aftur til lands síns. Urðu honum ekki auðfengin hjón en þó gerði hann bú á Þórhallsstöðum. Fór allt á sama veg sem fyrr. Þegar að haustaði tók að vaxa reimleikar. Var þá mest sótt að bóndadóttur og svo fór að hún lést af því. Margra ráða var í leitað og varð ekki að gert. Þótti mönnum til þess horfast að eyðast mundi allur Vatnsdalur ef eigi yrðu bætur á ráðnar.
34. kafli
Nú er þar til að taka að Grettir Ásmundarson sat heima að Bjargi um haustið síðan þeir Víga-Barði skildu á Þóreyjargnúpi. Og er mjög var komið að veturnóttum reið Grettir heiman norður yfir hálsa til Víðidals og gisti á Auðunarstöðum. Sættust þeir Auðunn til fulls og gaf Grettir honum öxi góða og mæltu til vináttu með sér. Auðunn bjó lengi á Auðunarstöðum og var kynsæll maður. Hans son var Egill er átti Úlfheiði dóttur Eyjólfs Guðmundarsonar og var þeirra son Eyjólfur er veginn var á alþingi. Hann var faðir Orms kapiláns Þorláks biskups.
Grettir reið norður til Vatnsdals og kom á kynnisleit í Tungu. Þar bjó þá Jökull Bárðarson móðurbróðir Grettis. Jökull var mikill maður og sterkur og hinn mesti ofsamaður. Hann var siglingamaður og mjög ódæll en þó mikilhæfur maður. Hann tók vel við Gretti og var hann þar þrjár nætur.
Þá var svo mikið orð á afturgöngum Gláms að mönnum var ekki jafntíðrætt sem það. Grettir spurði innilega að þeim atburðum er höfðu orðið.
Jökull kvað þar ekki meira af sagt en til væri haft “eða er þér forvitni á frændi að koma þar?”
Grettir sagði að það var satt.
Jökull bað hann eigi gera “því það er gæfuraun mikil en frændur þínir eiga mikið í hættu þar sem þú ert,” sagði hann. “Þykir oss nú engi slíkur af ungum mönnum sem þú en illt mun af illum hljóta þar Glámur er. Er og miklu betur að fást við mennska menn en við óvættir slíkar.”
Grettir kvað sér hug að koma á Þórhallsstaði og sjá hversu þar væri um gengið.
Jökull mælti: “Sé eg nú, ekki tjáir að letja þig en satt er það sem mælt er að sitt er hvað, gæfa eða gjörvugleikur.”
“Þá er öðrum vo fyrir dyrum, er öðrum er áður inn um komið, og hygg að hversu þér mun fara sjálfum áður lýkur,” kvað Grettir.
Jökull svarar: “Vera kann að við sjáum báðir nokkuð fram en hvorgi fái við gert.”
Eftir það skildu þeir og líkaði hvorigum annars spár.
35. kafli
Grettir reið á Þórhallsstaði og fagnaði bóndi honum vel. Hann spurði hvert Grettir ætlaði að fara en hann sagðist þar vilja vera um nóttina en bónda líkaði að svo væri.
Þórhallur kvaðst þökk fyrir kunna að hann væri “en fám þykir slægur til að gista hér um tíma. Muntu hafa heyrt getið um hvað hér er að véla en eg vildi gjarna að þú komist heill á brott. Þá veit eg fyrir víst að þú missir hests þíns því engi heldur hér heilum sínum fararskjót sá er kemur.”
Grettir kvað gott til hesta hvað sem af þessum yrði.
Þórhallur varð glaður við er Grettir vildi þar vera og tók við honum báðum höndum. Var hestur Grettis læstur í húsi sterklega. Þeir fóru til svefns og leið svo af nóttin að ekki kom Glámur heim.
Þá mælti Þórhallur: “Vel hefir brugðið við þína komu því að hverja nótt er Glámur vanur að rísa, ríða húsum eða brjóta upp hurðir sem þú mátt merki sjá.”
Grettir mælti: “Þá mun vera annaðhvort að hann mun ekki lengi á sér sitja eða mun af venjast meir en eina nótt. Skal eg vera nótt aðra og sjá hversu fer.”
Síðan gengu þeir til hests Grettis og var ekki við hann glest. Allt þótti bónda að einu fara.
Nú er Grettir þar aðra nótt og kom ekki þrællinn heim. Þá þótti bónda mjög vænkast. Fór hann þá að sjá hest Grettis. Þá var upp brotið húsið er bóndi kom til en hesturinn dreginn til dyra utar og lamið í sundur í honum hvert bein.
Þórhallur sagði Gretti hvar þá var komið og bað hann forða sér “því að vís er dauðinn ef þú bíður Gláms.”
Grettir svarar: “Eigi má eg minna hafa fyrir hest minn en að sjá þrælinn.”
Bóndi sagði að það var ekki bati að sjá hann “því að hann er ólíkur nokkurri mannlegri mynd. En góð þykir mér hver sú stund er þú vilt vera.”
Nú líður dagurinn og er menn skyldu fara til svefns vildi Grettir eigi fara af klæðum og lagðist niður í sætið gegnt lokrekkju bónda. Hann hafði röggvarfeld yfir sér og hneppti annað skautið niður undir fætur sér en annað snaraði hann undir höfuð sér og sá út um höfuðsmáttina. Setstokkur var fyrir framan sætið mjög sterkur og spyrnti hann þar í. Dyraumbúningurinn allur var frá brotinn útidyrunum en nú var þar fyrir bundinn hurðarflaki og óvendilega um búið. Þverþilið var allt brotið frá skálanum, þar fyrir framan hafði verið, bæði fyrir ofan þvertréið og neðan. Sængur allar voru úr stað færðar. Heldur var þar óvistulegt. Ljós brann í skálanum um nóttina.
Og er af mundi þriðjungur af nótt heyrði Grettir út dynur miklar. Var þá farið upp á húsin og riðið skálanum og barið hælunum svo að brakaði í hverju tré. Það gekk lengi. Þá var farið ofan af húsunum og til dyra gengið. Og er upp var lokið hurðunni sá Grettir að þrællinn rétti inn höfuðið og sýndist honum afskræmilega mikið og undarlega stórskorið. Glámur fór seint og réttist upp er hann kom inn í dyrnar. Hann gnæfaði ofarlega við rjáfrinu, snýr að skálanum og lagði handlegginn upp á þvertréið og gægðist innar yfir skálann. Ekki lét bóndi heyra til sín því að honum þótti ærið um er hann heyrði hvað um var úti. Grettir lá kyrr og hrærði sig hvergi. Glámur sá að hrúga nokkur lá í sætinu og ræður nú innar eftir skálanum og þreif í feldinn stundar fast. Grettir spyrnti í stokkinn og gekk því hvergi. Glámur hnykkti annað sinn miklu fastara og bifaðist hvergi feldurinn. Í þriðja sinn þreif hann í með báðum höndum svo fast að hann rétti Gretti upp úr sætinu, kipptu nú í sundur feldinum í millum sín. Glámur leit á slitrið er hann hélt á og undraðist mjög hver svo fast mundi togast við hann. Og í því hljóp Grettir undir hendur honum og þreif um hann miðjan og spennti á honum hrygginn sem fastast gat hann og ætlaði hann að Glámur skyldi kikna við. En þrællinn lagði að handleggjum Grettis svo fast að hann hörfaði allur fyrir orku sakir. Fór Grettir þá undan í ýmis sætin. Gengu þá frá stokkarnir og allt brotnaði það sem fyrir varð. Vildi Glámur leita út en Grettir færði við fætur hvar sem hann mátti en þó gat Glámur dregið hann fram úr skálanum. Áttu þeir þá allharða sókn því að þrællinn ætlaði að koma honum út úr bænum. En svo illt sem að eiga var við Glám inni þá sá Grettir að þó var verra að fást við hann úti og því braust hann í móti af öllu afli að fara út. Glámur færðist í aukana og hneppti hann að sér er þeir komu í anddyrið. Og er Grettir sér að hann fékk eigi við spornað hefir hann allt eitt atriðið að hann hleypur sem harðast í fang þrælnum og spyrnir báðum fótum í jarðfastan stein er stóð í dyrunum. Við þessu bjóst þrællinn eigi. Hann hafði þá togast við að draga Gretti að sér og því kiknaði Glámur á bak aftur og rauk öfugur út á dyrnar svo að herðarnar námu af dyrið og rjáfrið gekk í sundur, bæði viðirnir og þekjan frerin, féll svo opinn og öfugur út úr húsunum en Grettir á hann ofan. Tunglskin var mikið úti og gluggaþykkn. Hratt stundum fyrir en stundum dró frá.
Nú í því er Glámur féll rak skýið frá tunglinu en Glámur hvessti augun upp í móti. Og svo hefir Grettir sagt sjálfur að þá eina sýn hafi hann séð svo að honum brygði við. Þá sigaði svo að honum af öllu saman, mæði og því er hann sá að Glámur gaut sínum sjónum harðlega, að hann gat eigi brugðið saxinu og lá nálega í milli heims og heljar.
En því var meiri ófagnaðarkraftur með Glámi en flestum öðrum afturgöngumönnum að hann mælti þá á þessa leið: “Mikið kapp hefir þú á lagið Grettir,” sagði hann, “að finna mig en það mun eigi undarlegt þykja þó að þú hljótir ekki mikið happ af mér. En það má eg segja þér að þú hefir nú fengið helming afls þess og þroska er þér var ætlaður ef þú hefðir mig ekki fundið. Nú fæ eg það afl eigi af þér tekið er þú hefir áður hreppt en því má eg ráða að þú verður aldrei sterkari en nú ertu og ertu þó nógu sterkur og að því mun mörgum verða. Þú hefir frægur orðið hér til af verkum þínum en héðan af mun falla til þín sektir og vígaferli en flest öll verk þín snúist þér til ógæfu og hamingjuleysis. Þú munt verða útlægur ger og hljóta jafnan úti að búa einn samt. Þá legg eg það á við þig að þessi augu séu þér jafnan fyrir sjónum sem eg ber eftir og mun þér erfitt þykja einum að vera. Og það mun þér til dauða draga.”
Og sem þrællinn hafði þetta mælt þá rann af Gretti ómegin það sem á honum hafði verið. Brá hann þá saxinu og hjó höfuð af Glámi og setti þá við þjó honum. Bóndi kom þá út og hafði klæðst á meðan Glámur lét ganga töluna en hvergi þorði hann nær að koma fyrr en Glámur var fallinn. Þórhallur lofaði guð fyrir og þakkaði vel Gretti er hann hafði unnið þenna óhreina anda. Fóru þeir þá til og brenndu Glám að köldum kolum. Eftir það grófu þeir þar niður sem síst voru fjárhagar eða mannavegir. Gengu heim eftir það og var þá mjög komið að degi. Lagðist Grettir niður því að hann var stirður mjög.
Þórhallur sendi menn á næstu bæi eftir mönnum, sýndi og sagði hversu farið hafði. Öllum þótti mikils um vert um þetta verk þeir er heyrðu. Var það þá almælt að engi væri þvílíkur maður á öllu landinu fyrir afls sakir og hreysti og allrar atgervi sem Grettir Ásmundarson.
Þórhallur leysti Gretti vel af hendi og gaf honum góðan hest og klæði sæmileg því þau voru öll sundur leyst er hann hafði áður borið. Skildu þeir með vináttu. Reið Grettir þaðan í Ás í Vatnsdal og tók Þorvaldur við honum vel og spurði innilega að sameign þeirra Gláms en Grettir segir honum viðskipti þeirra og kvaðst aldrei í þvílíka aflraun komið hafa, svo langa viðureign sem þeir höfðu saman átt.
Þorvaldur bað hann hafa sig spakan “og mun þá vel duga en ella mun þér slysgjarnt verða.”
Grettir kvað ekki batnað hafa um lyndisbragðið og sagðist nú miklu verr stilltur en áður og allar mótgerðir verri þykja. Í því fann hann mikla muni að hann var orðinn maður svo myrkfælinn að hann þorði hvergi að fara einn saman þegar myrkva tók. Sýndist honum þá hvers kyns skrípi. Og það er haft síðan fyrir orðtæki að þeim ljái Glámur augna eða gefi glámsýni er mjög sýnist annan veg en er.
Grettir reið heim til Bjargs er hann hafði gert erindi sín og sat heima um veturinn.
36. kafli
Þorbjörn öxnamegin hafði haustboð mikið og kom þar margt manna. Þetta var meðan að Grettir fór norður til Vatnsdals um haustið.
Þorbjörn ferðalangur var þar að boðinu. Þar varð margt talað. Spurðu þeir Hrútfirðingar að sameign þeirra Grettis á hálsinum um sumarið. Þorbjörn öxnamegin bar Gretti allvel söguna, kvað Kormák verra mundu af hafa fengið ef öngvir hefðu til komið að skilja þá.
Þá mælti Þorbjörn ferðalangur: “Það var bæði,” sagði hann, “að eg sá hann Gretti ekki til frægðar vinna enda hygg eg að honum skyti skelk í bringu er vér komum að og allfús var hann að skilja. Og ekki sá eg hann til hefnda leita er húskarl Atla var drepinn og í því ætla eg aldrei hug í honum ef hann hefir eigi nógan liðsafla.”
Gerði Þorbjörn að þessu hið mesta gabb.
Margir tóku undir að þetta væri þarfleysuglens og Grettir mundi eigi svo búið hafa vilja ef hann frétti þessi orð. Ekki bar þar til tíðinda fleira að boðinu. Fóru menn heim. Voru dylgjur miklar með þeim um veturinn en hvorigir réðu á aðra. Bar þá ekki til tíðinda um veturinn.
37. kafli
Snemma um vorið eftir kom skip út af Noregi. Það var fyrir þing. Þeir kunnu að segja mörg tíðindi. Það fyrst að höfðingjaskipti var orðið í Noregi. Var þá kominn til ríkis Ólafur konungur Haraldsson en Sveinn jarl úr landi stokkinn um vorið eftir Nesjaorustu. Voru margir merkilegir hlutir sagðir frá Ólafi konungi og það með að hann tók þá menn alla best sem voru atgervismenn um nokkura hluti og gerði sér þá handgengna. Við þetta urðu glaðir margir ungir menn og fýstust til utanferðar.
Og svo sem Grettir spurði þessi tíðindi gerist honum hugur á að sigla. Vænti hann sér sæmdar sem aðrir af konunginum. Skip stóð uppi að Gásum í Eyjafirði. Þar tók Grettir sér far og bjóst til utanferðar. Ekki hafði hann enn mikil fararefni.
Ásmundur gerðist nú mjög hrumur af elli og reis nú lítt úr rekkju. Þau Ásdís áttu ungan son er Illugi hét, manna efnilegastur. Atli tók nú við allri búsýslu og fjárvarðveislu. Þótti það mikið batna því að hann var gæfur og forsjáll.
Grettir fór til skips. Í þetta sama skip hafði ráðist Þorbjörn ferðalangur áður en þeir vissu að Grettir mundi þar í sigla. Löttu margir Þorbjörn að sigla samskipa við Gretti en Þorbjörn kveðst fara mundu fyrir allt það. Bjóst hann til utanferðar og varð heldur síðbúinn. Kom hann eigi fyrr norður á Gáseyri en skipið var albúið.
Áður Þorbjörn færi vestan hafði Ásmundur hærulangur tekið krankleika nokkurn og reis þá ekki úr rekkju.
Þorbjörn ferðalangur kom síð dags í sandinn. Voru menn þá búnir til borða og tóku handlaugar úti hjá búðinni. En er Þorbjörn reið fram í búðarsundin var honum heilsað og spurður tíðinda.
Hann lést engin segja kunna “utan þess get eg að kappinn Ásmundur að Bjargi sé nú dauður.”
Margir tóku undir að þar færi gildur af heiminum sem hann var “eða hversu bar það til?” sögðu þeir.
Hann svarar: “Lítið lagðist nú fyrir kappann því að hann kafnaði í stofureyk sem hundur en eigi var skaði að honum því að hann gerðist nú gamalær.”
Þeir svara: “Þú talar undarlega við þvílíkan mann og eigi mundi Gretti vel líka ef hann heyrði.”
“Þola má eg það,” sagði Þorbjörn, “og hærra mun Grettir bera verða saxið en í fyrra sumar á Hrútafjarðarhálsi ef eg hræðist hann.”
Grettir heyrði fullgerla hvað Þorbjörn sagði og gaf sér ekki að meðan Þorbjörn lét ganga söguna.
En er hann hætti þá mælti Grettir: “Það spái eg þér Ferðalangur,” sagði hann, “að þú deyir ekki í stofureyknum og þó má vera að þú verðir ei ellidauður. En það er undarlega gert að tala sneyðilega til saklausra manna.”
Þorbjörn mælti: “Ekki mun eg aftra mér að þessu og eigi þótti mér þú svo snæfurlega láta þá er vér tókum þig undan er þeir Melamenn börðu þig sem nautshöfuð.”
Grettir kvað þá vísu:
Jafnan verðr til orða
of löng boga slöngvi,
því kemr þar tll sumra
þung hefnd fyrir, tunga.
Margr hefir beiðir borgar
benlinns sakir minni,
Ferðalangr, þótt fengir
fjörtjón, en þú gjörvar.
Þorbjörn mælti: “Jafnfeigur þykist eg sem áður þótt þú skjalir slíkt.”
Grettir svarar: “Ekki hafa spár mínar átt langan aldur hér til og enn mun svo fara. Vara þig ef þú vilt. Eigi mun síðar sýnna.”
Síðan hjó Grettir til Þorbjörns en hann bar við hendinni og ætlaði svo að bera af sér höggið. En höggið kom á höndina fyrir ofan úlfliðinn og síðan hljóp saxið á hálsinn svo að af fauk höfuðið. Kaupmenn sögðu hann stórhöggvan og slíkt væru konungsmenn og ekki þótti þeim skaði að þótt Þorbjörn væri drepinn því að hann hafði bæði verið kífinn og köllsugur.
Litlu síðar létu þeir í haf og komu að áliðnu sumri til Noregs suður við Hörðaland. Frétta þeir þá að Ólafur konungur sat norður í Þrándheimi. Fékk Grettir sér far með byrðingsmönnum norður þangað því að hann vildi fara á konungs fund.
38. kafli
Þórir hét maður er bjó í Garði í Aðaldal. Hann var Skeggjason Böðólfssonar. Skeggi hafði numið Kelduhverfi upp til Kelduness. Hann átti Helgu dóttur Þorgeirs á Fiskilæk. Þórir son hans var höfðingi mikill og siglingamaður. Hann átti tvo sonu. Hét Þorgeir annar en annar Skeggi. Þeir voru báðir efnilegir menn og mjög fulltíða er þetta var.
Þórir hafði verið í Noregi um sumarið þá er Ólafur konungur kom vestan af Englandi og kom sér þá í kærleika mikla við konung og svo við Sigurð biskup og það til marks um að Þórir hafði látið gera knörr mikinn í skógi og bað Sigurð biskup vígja og svo gerði hann. Eftir það fór Þórir út til Íslands og lét höggva upp knörrinn þá er honum leiddist siglingar en brandana af knerrinum lét hann setja yfir útidyr sínar og voru þeir þar lengi síðan og svo veðurspáir að í öðrum þaut fyrir sunnanveðri en í öðrum fyrir norðanveðri.
En er Þórir spurði að Ólafur konungur hafði fengið einn vald yfir öllum Noregi þóttist hann nú þar eiga að vitja vináttumála. Þá sendi Þórir syni sína til Noregs á konungs fund og ætlaði að þeir skyldu verða honum handgengnir. Komu þeir að sunnarlega síð um haustið og fengu sér eina róðraskútu og fóru norður með landi og ætluðu að fara á konungs fund. Þeir komu í höfn eina fyrir sunnan Stað og lágu þar nokkrar nætur. Þeir héldu sig vel að vist og drykk og höfðu sig ekki úti er eigi voru góð veður.
Nú er að segja frá er þeir Grettir fóru norður með landi og fengu oft hörð veður því að þetta var öndverðan vetur. Og þá er þeir sóttu norður að Staði fengu þeir illviðri mikið með fjúki og frosti og tóku nauðulega land eitt kveld, allir mjög væstir, og lögðu þar við bala nokkurn og gátu þá borgið fé sínu og föngum. Þeir bárust illa af, kaupmennirnir, því að þeir gátu eigi tekið eldinn. Þeim þótti þar nálega við liggja heilsa sín og líf. Lágu þeir þar um kveldið allilla staddir.
Þá er á leið kveldið sáu þeir að eldur kom upp mikill öðrumegin þess sunds er þeir voru þá við komnir. En er skipverjar Grettis sáu eldinn töluðu þeir til að sá væri heppinn er honum gæti náð og efuðust í hvort þeir leysa skyldu skipið en það sýndist öllum ei hættulaust. Þá höfðu þeir um tal mikið hvort nokkur maður mundi svo vel fær að næði eldinum. Grettir gaf sér fátt að og segir að verið mundu hafa þeir menn er það mundu ekki trauðað hafa.
Kaupmenn sögðu að sér væri ekki að borgnara hvað er verið hafði ef þá væri til einskis að taka “eða treystir þú þér Grettir?” sögðu þeir, “því að þú ert nú mestur atgervismaður af íslenskum mönnum kallaður en þú veist nú gjörla hvað oss liggur á.”
Grettir svarar: “Eigi líst mér mikið þrekvirki að ná eldinum en eigi veit eg hvort þér launið betur en sá fer á leit er það gerir.”
Þeir mæltu: “Því ætlar þú oss þá svívirðingarmenn að vér mundum það eigi góðu launa?”
“Reyna má eg þetta ef það er að yður þykir hér allmikið á liggja en eigi segir mér vænt hugur um að eg hafi gott að sök hér fyrir.”
Þeir kváðu það eigi skyldu vera og kváðu hann mæla drengja heilastan.
Eftir það bjóst Grettir til sunds og kastaði af sér klæðunum. Hann fór í kufl einn klæða og söluvoðarbrækur. Hann stytti upp um sig kuflinn og rak að sér utan basttaug að sér miðjum og hafði með sér kerald. Síðan hljóp hann fyrir borð. Hann lagðist nú yfir þvert sundið og gekk þar á land. Hann sér þar standa eitt hús og heyrði þangað mannamál og glaum mikinn. Grettir sneri að húsinu.
Nú er að segja frá þeim sem fyrir voru að hér voru komnir þeir Þórissynir sem fyrr var getið. Þeir höfðu legið þar margar nætur og beðið þar veðurfalls að þeim gæfi norður fyrir Staði. Þeir höfðu sest til drykkju og voru tólf saman. Þeir lágu í meginhöfninni og var þar gert sæluhús mönnum þeim til ívistar er fara með landi fram og var borinn í húsið hálmur mikill. Eldur var og mikill á gólfinu.
Grettir ræður nú inn í húsið og vissi ekki hverjir fyrir voru. Kuflinn var sýldur allur þegar hann kom á land og var hann furðu mikill tilsýndar sem tröll væri. Þeim sem fyrir voru brá mjög við þetta og hugðu að óvættur mundi vera. Börðu þeir hann með öllu því er þeir fengu til og varð nú brak mikið um þá en Grettir hratt fast af handleggjum. Sumir börðu hann með eldibröndum. Hraut þá eldurinn um allt húsið. Komst hann við það út með eldinn og fór svo aftur til félaga sinna. Lofuðu þeir mjög hans ferð og frækleik og kváðu engvan hans jafningja mundu vera.
Leið nú af nóttin og þóttust þeir þegar hólpnir er þeir fengu eldinn. Um morguninn eftir var gott veður. Vöktu þeir við snemma kaupmennirnir og bjuggust til ferðar, töluðu þá um að þeir skyldu finna þá er fyrir eldinum höfðu ráðið og vita hverjir þeir væru. Leystu þeir nú skipið og fóru yfir sundið. Fundu þeir þá ekki skálann en sáu ösku þar, hrúgu mikla, og þar í fundu þeir mannabein mörg, þóttust nú vita að sæluhúsið mundi hafa brunnið allt upp og þeir menn sem þar höfðu í verið. Þeir spurðu hvort Grettir hefði ollað þessu óhappi og sögðu þetta hið mesta illvirki. Grettir kvað nú það fram komið er hann grunaði að þeir mundu honum illa eldsóknina launa og segir illt ódrengjum lið að veita. Af þessu fékk Grettir svo mikið ólið að kaupmenn sögðu hvar sem þeir komu að Grettir hefði þessa menn inni brennt.
Það fréttist nú brátt að í þessu húsi höfðu þeir látist Þórissynir úr Garði sem fyrr voru nefndir og fylgdarmenn þeirra. Nú ráku þeir Gretti í burt úr skipinu og vildu ekki hafa hann með sér. Varð hann nú svo fyrirlitinn að nær öngvir vildu honum gott gera. Þótti honum nú allóvænt horfa og vildi nú fyrir hvern mun fara á konungs fund og leitaði nú norður til Þrándheims. Þar var konungur fyrir og hafði spurt allt þetta áður Grettir kom. Var hann allmjög affluttur fyrir konunginum. Var Grettir nokkura daga í bænum áður hann næði að ganga á konungs fund.
39. kafli
Það var einn dag þá er konungur sat að málstefnu að Grettir gekk fyrir konunginn og kvaddi hann vel.
Konungur leit við honum og mælti: “Ertu Grettir hinn sterki?”
Hann svarar: “Kallaður hefi eg svo verið og er eg af því hér kominn að eg vænti af yður nokkurrar linunar um það illmæli er mér hefir kennt verið en eg þykist þessa eigi valdur.”
Ólafur konungur mælti: “Ærið ertu gildur en eigi veit eg hverja gæfu þú berð til að hrinda þessu máli af þér. En líkara væri að þú hefðir eigi viljandi mennina inni brennt.”
Grettir kvaðst gjarna vilja af sér koma þessu ámæli ef konungi þætti það vera mega. Konungur bað hann satt frá segja hversu farið hefði með þeim.
Grettir sagði þá allt sem áður var greint og það með að þeir lifðu allir er hann komst út með eldinn “vil eg nú bjóða mig til slíkrar undanfærslu sem yður þykja lög til standa.”
Ólafur konungur mælti þá: “Unna viljum vér þér að bera járn fyrir þetta mál ef þér verður þess auðið.”
Gretti líkaði það allvel. Tók hann nú að fasta til járnsins og leið til þess er sá dagur kom er skírslan skyldi fram fara. Þá gekk konungur til kirkju og biskup og fjöldi fólks því að mörgum var forvitni á að sjá Gretti, svo mikið sem af honum var sagt. Síðan var Grettir til kirkju leiddur. Og er hann kom til kirkjunnar litu þeir margir til hans er fyrir voru og töluðu þeir að hann væri ólíkur flestum mönnum fyrir sakir afls og vaxtar. Gekk Grettir nú innar eftir gólfinu.
Þá hljóp fram piltur einn frumvaxta, heldur sviplegur, og mælti til Grettis: “Undarlegur háttur er nú hér í landi þessu þar sem menn skulu kristnir heita að illvirkjar og ránsmenn og þjófar skulu fara í friði og gera þeim skírslur. En hvað mundi illmenninu fyrir verða nema forða lífinu meðan hann mætti? Hér er nú einn ódáðamaðurinn er sannreyndur er að illvirkjum og hefir brennt inni saklausa menn og skal hann þó enn ná undanfærslu og er þetta allmikill ósiður.”
Hann fór að Gretti og rétti honum fingur og skar honum höfuð og kallaði hann margýgjuson og mörgum öðrum illum nöfnum. Gretti varð skapfátt mjög við þetta og gat þá eigi stöðvað sig. Grettir reiddi þá upp hnefann og sló piltinn undir eyrað svo að hann lá þegar í óviti en sumir segja að hann væri dauður þá þegar. En engi þóttist vita hvaðan sjá piltur kom eða hvað af honum varð en það ætla menn helst að það hafi verið óhreinn andi sendur til óheilla Gretti.
Nú varð hark mikið í kirkjunni og var nú sagt til konunginum að sá barðist um sem járnið skyldi bera.
Ólafur konungur gekk nú fram í kirkjuna og sá hvað um var og mælti: “Mikill ógæfumaður ertu Grettir,” segir konungur, “er nú skyldi eigi skírslan fram fara svo sem nú var allt til búið og mun eigi hægt að gera við ógæfu þinni.”
Grettir svarar: “Það hafði eg ætlað að eg mundi meiri sæmd til yðvar sækja herra en nú horfist á fyrir sakir ættar minnar” og sagði hversu mönnum var farið með þeim Ólafi konungi sem fyrr var talað.
“Vildi eg nú gjarna,” sagði Grettir, “að þér takið við mér. Hafið þér þá marga með yður að ekki mun víglegri þykja en eg.”
“Sé eg það,” sagði konungur, “að fáir menn eru nú slíkir fyrir afls sakir og hreysti sem þú ert en miklu ertu meiri ógæfumaður en þú megir fyrir það með oss vera. Nú skaltu fara í friði fyrir mér hvert er þú vilt vetrarlangt en að sumri far þú út til Íslands því að þar mun þér auðið verða þín bein að bera.”
Grettir svarar: “Eg vildi fyrst færast undan brennumálinu ef eg mætti því að það hefi eg eigi viljandi gert.”
“Það er alllíklegt,” segir konungur, “en fyrir sakir þess að nú ónýttist skírslan fyrir sakir þolleysis þíns þá muntu þessu máli ekki framar fá af þér hrundið en svo sem nú er orðið og hlýtur jafnan illt af athugaleysinu. Og ef nokkrum manni hefir verið fyrirmælt þá mun þér hóti helst.”
Eftir það dvaldist Grettir í bænum nokkra stund og fékk ekki meira af Ólafi konungi en nú var sagt. Síðan fór hann suður í land og ætlaði austur til Túnbergs að finna Þorstein drómund bróður sinn. Og er ekki sagt af hans ferðum fyrr en hann kom austur á Jaðar.
40. kafli
Að jólum kom Grettir til þess bónda er Einar hét. Hann var ríkur maður og kvæntur og átti dóttur gjafvaxta er Gýríður er nefnd. Hún var fríð kona og þótti harla góður kostur. Einar bauð Gretti með sér að vera um jólin og það þá hann.
Það var þá víða í Noregi að markarmenn og illvirkjar hlupu ofan af mörkum og skoruðu á menn til kvenna en tóku á burt fé manna með ofríki ef eigi var liðsfjöldi fyrir.
Svo bar hér til að það var einn dag á jólunum að komu til Einars bónda illvirkjar margir saman. Hét sá Snækollur sem fyrir þeim var. Hann var berserkur mikill. Hann skoraði á Einar bónda að hann skyldi leggja upp við hann dóttur sína eða verja hana ef hann þættist maður til. En bóndi var þá af æskuskeiði og engi styrjaldarmaður.
Þótti honum nú mikill vandi að höndum kominn og spurði Gretti í hljóði hvað hann vildi til leggja “því að þú ert kallaður frægur maður.”
Grettir bað hann því einu játa er honum þætti sér smánarlaust. Berserkurinn sat á hesti og hafði hjálm á höfði og ekki spennt kinnbjörgunum. Hann hafði skjöld járni rendan fyrir sér og lét hann hið ógurlegasta.
Hann mælti við bónda: “Kjós skjótt annan hvorn kostinn. Eða hvað ræður sá þér hinn mikli hrottinn er þar stendur hjá þér eða er ekki það að hann vilji eiga leik við mig?”
Grettir segir: “Jafnkomið er á með okkur bónda því að hér er hvorgi skefjumaður.”
Snækollur mælti: “Heldur mun ykkur ægja við mig að fást ef eg reiðist.”
“Þá veit það er reynt er,” segir Grettir.
Berserkurinn fann nú undandrátt í málinu. Tók hann þá að grenja hátt og beit í skjaldarröndina og setti skjöldinn upp í munn sér og gein yfir hornið skjaldarins og lét allólmlega. Grettir varpaði sér um völlinn. Og er hann kemur jafnfram hesti berserksins slær hann fæti sínum neðan undir skjaldarsporðinn svo hart að skjöldurinn gekk upp í munninn svo að rifnaði kjafturinn en kjálkarnir hlupu ofan á bringuna. Hann hafði þá allt eitt atriðið að hann þreif í hjálminn vinstri hendi og svipti víkinginum af baki en hægri hendi brá hann saxinu er hann var gyrður með og setti á hálsinn svo af tók höfuðið. En er þetta sáu fylgdarmenn Snækolls flýði sinn veg hver þeirra. Ekki nennti Grettir að elta þá því hann sá að engi var hugur í þeim. Þakkaði bóndi honum vel fyrir þetta verk og margir menn aðrir. Þótti þessi atburður bæði vera af hvatleik og harðfengi unninn.
Var Grettir þar um jólin vel haldinn. Leysti bóndi hann vel af garði. Fór Grettir síðan austur til Túnbergs og hitti Þorstein bróður sinn. Tók hann við Gretti með blíðu og spurði að ferðum hans og að hann vann berserkinn.
Grettir kvað vísu:
Snart á snæðings porti
Snækolls þrimu rækis
ímunbukl, það er ökla
áspyrnu fékk þyrnis.
Svo tvískipti tóptum
tanngarðs hinn járnvarði
brodda gangs, að á bringu,
bálkr, rifnuðu kjálkar.
Þorsteinn mælti: “Slyngt yrði þér um margt frændi ef eigi fylgdu slysin með.”
Grettir svarar: “Þess verður þó getið er gert er.”
41. kafli
Nú var Grettir með Þorsteini það sem eftir var vetrarins og fram á vorið.
Það var einn morgun er þeir bræður Þorsteinn og Grettir lágu í svefnlofti sínu að Grettir hafði lagið hendur sínar undan klæðunum. Þorsteinn vakti og sá það. Grettir vaknaði litlu síðar.
Þá mælti Þorsteinn: “Séð hefi eg handleggi þína frændi,” segir hann, “og þykir mér eigi undarlegt þó að mörgum verði þung högg þín því að einskis manns handleggi hefi eg slíka séð.”
“Vita máttir þú það,” sagði Grettir, “að eg mundi ekki slíku til leiðar koma sem eg hefi unnið ef eg væri eigi allknár.”
“Betur þætti mér,” segir Þorsteinn, “þó að væru mjórri og nokkuru gæfusamlegri.”
Grettir segir: “Satt er það sem mælt er að engi maður skapar sig sjálfur. Láttu mig nú sjá þína handleggi,” segir hann.
Þorsteinn gerði svo. Hann var manna lengstur og grannvaxinn.
Grettir brosti að og mælti: “Eigi þarf að horfa á þetta lengur. Krækt er saman rifjum í þér og eigi þykist eg slíkar tengur séð hafa sem þú berð eftir og varla ætla eg þig kvenstyrkan.”
“Vera má það,” sagði Þorsteinn, “en þó skaltu það vita að þessir hinir mjóvu handleggir munu þín hefna, ella mun þín aldrei hefnt verða.”
“Hvað má vita hversu verður um það er lýkur?” sagði Grettir, “en allólíklegt þykir mér það vera.”
Eigi er þá getið fleira um viðurtal þeirra. Leið nú á vorið. Kom Grettir sér í skip og fór út til Íslands um sumarið. Skildu þeir bræður með vináttu og sáust aldrei síðan.
42. kafli
Þar er nú til að taka er áður er frá horfið að Þorbjörn öxnamegin spurði víg Þorbjarnar ferðalangs sem fyrr var sagt. Brást hann reiður mjög og kveðst vilja að ýmsir ættu högg í annars garði.
Ásmundur hærulangur lá lengi sjúkur um sumarið og er honum þótti að sér draga heimti hann til sín frændur sína og sagði að hann vildi að Atli tæki við allri fjárvarðveislu eftir hans dag “en uggir mig,” sagði Ásmundur, “að þú megir varla í kyrrðum sitja fyrir ójafnaði. En það vildi eg að allir mínir tengdamenn sinnuðu honum sem best. En til Grettis kann eg ekki að leggja því að mér þykir á hverfanda hjóli mjög um hans hagi. Og þó hann sé sterkur maður þá uggir mig að hann eigi meir um vandræði að véla en fulltingja frændum sínum. En þótt Illugi sé ungur þá mun hann þó verða þroskamaður ef hann heldur sér heilum.”
Og er Ásmundur hafði skipað með sonum sínum sem hann vildi dró að honum sóttin. Andaðist hann litlu síðar og var jarðaður að Bjargi, því að Ásmundur hafði látið gera þar kirkju, og þótti héraðsmönnum það mikill mannskaði.
Atli gerðist nú gildur bóndi og hafði mannmargt með sér. Hann var aðfangamaður mikill. Að áliðnu sumri fór hann út á Snjófellsnes að fá sér skreið. Hann rak marga hesta og reið heiman til Mela í Hrútafjörð til Gamla mágs síns. Réðst þá til ferðar með Atla Grímur Þórhallsson, bróðir Gamla, við annan mann. Riðu þeir Haukadalsskarð vestur og svo sem liggur út á Nes, keyptu þar skreið mikla og báru á sjö hestum, sneru heimleiðis er þeir voru albúnir.
43. kafli
Þorbjörn öxnamegin spurði að Atli og Grímur voru heiman farnir. Voru hjá honum Þórissynir frá Skarði, Gunnar og Þorgeir. Þorbirni lék öfund á vinsældum Atla og því eggjaði hann þá bræður Þórissonu að þeir skyldu sitja fyrir Atla er þeir færu utan af Nesinu. Riðu þeir þá heim til Skarðs og biðu þar til þess er þeir Atli fóru upp um með lestina. En er þeir komu fram um bæinn á Skarði þá var sén för þeirra. Brugðu þeir bræður þá skjótt við með húskarla sína og riðu eftir þeim.
En er þeir Atli sáu ferð þeirra bað hann þá taka ofan klyfjarnar af hestunum “og munu þeir vilja bjóða mér bætur fyrir húskarl minn er Gunnar drap í fyrra sumar. Orkum ekki á fyrri en verjum hendur vorar ef þeir vekja fyrri við oss.”
Nú koma hinir að og hlaupa þegar af baki. Atli fagnar þeim og spurði að tíðindum “eða viltu bæta mér nokkuru Gunnar fyrir húskarl minn?”
Gunnar svarar: “Annars væruð þér verðir Bjargsmenn en eg bæti það góðu. Væri og meiri bóta vert fyrir víg Þorbjarnar er Grettir vó.”
“Ekki á eg því að svara,” sagði Atli, “enda ertu ekki aðili þess máls.”
Gunnar kvað nú fyrir það ganga mundu “og göngum að þeim og neytum þess nú að Grettir er nú eigi nærri.”
Þeir hlupu að Atla og voru átta saman en þeir Atli sex saman. Atli gekk fram fyrir sína menn og brá sverðinu Jökulsnaut er Grettir hafði gefið honum.
Þá mælti Þorgeir: “Margt er líkt með þeim er góðir þykjast. Ofarlega bar Grettir saxið í fyrra sumar á Hrútafjarðarhálsi.”
Atli svarar: “Hann mun og vanari við stórvirkin en eg.”
Síðan börðust þeir. Gunnar sótti að Atla með ákefð og var hinn óðasti.
Og er þeir höfðu barist um stund mælti Atli: “Engi frami er í því að við drepum verkmenn hvor fyrir öðrum og er það næst að við sjálfir leikumst við því að eg hefi aldrei með vopnum vegið fyrr en nú.”
Gunnar vildi það eigi.
Atli bað húskarla sína að geyma að lestinni “en eg mun sjá hvað þeir gera að” gekk þá svo hart fram að þeir Gunnar hrukku fyrir. Drap Atli þar tvo fylgdarmenn þeirra bræðra. Eftir það sneri hann á móti Gunnari og hjó til hans svo að í sundur tók skjöldinn fyrir neðan mundriða um þvert og kom á fótinn fyrir neðan knéð. Og þegar hjó hann annað högg svo að það varð að banasári.
Nú er að segja frá Grími Þórhallssyni að hann réðst á móti Þorgeiri og áttust þeir lengi við því að hvortveggi þeirra var hraustur maður. Þorgeir sá fall Gunnars bróður síns. Vildi hann þá undan leita. Grímur hljóp eftir honum og elti hann þar til að Þorgeir drap fæti og féll áfram. Þá hjó Grímur með öxi milli herða honum svo stóð á kafi. Þá gáfu þeir grið fylgdarmönnum þeirra þremur sem eftir voru. Eftir það bundu þeir sár sín og hófu upp klyfjar á hestana og fóru síðan heim og lýstu vígum þessum.
Sat Atli þá heima með fjölmenni um haustið. Þorbirni öxnamegin líkaði stórilla og gat þó ekki að gert því að Atli var mjög vinsæll. Grímur var með honum veturinn og svo Gamli mágur hans. Þar var þá og Glúmur Óspaksson, annar mágur hans. Hann bjó þá á Eyri í Bitru. Höfðu þeir setu fjölmenna á Bjargi og var þar glaumur mikill um veturinn.
44. kafli
Þorbjörn öxnamegin tók við eftirmáli um víg Þórissona. Bjó hann málið til á hendur þeim Grími og Atla en þeir bjuggu til varna um aðfarir og frumhlaup til óhelgi þeim bræðrum. Voru málin lögð til Húnavatnsþings og fjölmenntu mjög hvorirtveggju. Varð Atla gott til liðs því að hann átti frændafla mikinn. Gengu þá að beggja vinir, töluðu um sættir og sögðu allir að Atla væri vel um farið, ótilleitinn en þó öruggur í einangri. Þóttist Þorbjörn sjá að eigi mundi annað virðingarvænna en taka sættinni. Skildi Atli það til að hann vildi hafa hvorki héraðssektir né utanferðir.
Voru þá teknir menn til gerðar, Þorvaldur Ásgeirsson fyrir hönd Atla, en af Þorbjarnar hendi var Sölvi hinn prúði. Hann var son Ásbrands Þorbrandssonar, Haraldssonar hrings er numið hafði Vatnsnes allt utan til Ambáttarár fyrir vestan en fyrir austan allt inn til Þverár og þar yfir um þvert til Bjargaóss og allt þeim megin Bjarga út til sjóvar. Sölvi var ofláti mikill og vitur maður og því kjöri Þorbjörn hann fyrir til gerðar fyrir sína hönd.
Og eftir það sögðu þeir upp gerðina, að þá Þórissonu skyldi bæta hálfum bótum en hálfar féllu niður fyrir aðför og frumhlaup og fjörráð við Atla. Víg húskarls Atla þess er var drepinn á Hrútafjarðarhálsi, stóðst það á endum og þeirra tveggja er féllu með Þórissonum. Grímur Þórhallsson skyldi láta héraðsvist sína en Atli vildi einn halda upp fébótum.
Þessi gerð líkaði Atla vel en Þorbirni heldur illa og skildu þó sáttir að kalla en þó hraut það upp fyrir honum Þorbirni að eigi mundi fyrir enda um gert með þeim ef svo færi sem hann vildi. Atli reið heim af þinginu og þakkaði Þorvaldi vel fyrir liðveislu sína. Grímur Þórhallsson réðst þá suður í Borgarfjörð og bjó þá að Gilsbakka og var gildur bóndi.
45. kafli
Sá maður var með Þorbirni öxnamegin er Áli hét. Hann var húskarl og heldur ógæfur og vinnulítill. Þorbjörn bað hann starfa betur ella kveðst hann mundu lemja hann. Áli kvað þess öngan fýst hafa og var hinn kífnasti í móti. Þorbjörn þoldi honum eigi og rak hann niður undir sig og fór með hann illa.
Eftir það fór Áli brott úr vistinni og fór norður yfir háls til Miðfjarðar. Létti eigi fyrr en hann kom til Bjargs. Atli var heima og spurði hvert hann skyldi fara. Hann kvaðst leita sér vistar.
“Ertu eigi vinnumaður Þorbjarnar?” kvað Atli.
“Ei fór það svo keypilega með okkur,” segir Áli. “Eg var þar ekki lengi en mér þótti illt meðan eg var. Skildum við svo að mér þótti hann ekki vel syngja að kverkum mér og mun eg þangað aldrei fara til vistar hvað sem annað verður af mér. Er það og satt að mikill munur er hvorum ykkar verður betur til hjóna sinna. Vildi eg gjarna nú vinna hjá þér ef þess væri kostur.”
Atli svarar: “Nóga hefi eg vinnumenn þó að ekki seilist eg í hendur Þorbirni til þeirra manna er hann hefir ráðið en mér þykir þú þollaus og far aftur til hans.”
Áli mælti: “Þar kem eg eigi ónauðigur.”
Nú dvaldist Áli þar um stund. Einn morgun fór hann til verks með þeim húskörlum Atla og vann svo að hvaðanæva voru á honum hendurnar. Lét Áli svo ganga fram á sumarið. Atli lagði ekki til hans en lét þó gefa honum mat því að honum líkaði starfinn vel.
Þorbjörn fréttir nú að Áli er á Bjargi. Hann reið þá til Bjargs við þriðja mann og kallaði Atla til tals við sig. Atli gekk út og heilsaði þeim.
Þorbjörn mælti: “Enn viltu endurnýja við mig Atli um mótgang og áleitni. Eða því hefir þú tekið vinnumann minn og er slíkt óskilríkilega gert?”
Atli svarar: “Ekki er mér það sýnt að hann sé þinn vinnumaður. En ekki vil eg á honum halda ef þú sýnir skilríki til að hann sé þitt hjón. En ekki nenni eg draga hann úr húsum út.”
“Þú munt ráða að sinni,” sagði Þorbjörn, “en kref eg mannsins og fyrirbýð eg vinnu hans. En koma mun eg annað sinn og er eigi víst að við skiljumst þá betri vinir en nú.”
Atli svarar: “Heima mun eg bíða og taka við því sem að höndum kemur.”
Síðan reið Þorbjörn heim. En er verkmenn komu heim um kveldið segir Atli þá viðurtal þeirra Þorbjarnar og bað Ála fara leið sína og sagðist ekki vildu dvelja vist hans.
Áli svarar: “Satt er hið fornkveðna, ofleyfingarnir bregðast mér mest. Og ætlaði eg það eigi að þú mundir nú reka mig á brottu þar sem eg hefi unnið hér til sprengs í sumar og vonað til þess að þú mundir mér nokkura forstöðu veita en þann veg farið þér þó að þér látið allgóðvættlega. Nú skal mig hér lemja fyrir augum þér ef þú vilt mér öngva forstöðu veita eða hjálp.”
Atla gekkst hugur við um tal hans og nennti nú eigi að reka hann á brottu frá sér. Leið nú þar til er menn tóku til sláttar.
Það var einn dag nokkuru fyrir miðsumar að Þorbjörn öxnamegin reið til Bjargs. Hann var svo búinn að hann hafði hjálm á höfði og gyrður við sverð og spjót í hendi. Það var fjaðraspjót og breið mjög fjöðurin. Væta var úti um daginn. Atli hafði sent húskarla sína til sláttar en menn hans sumir voru norður við Horn til afla. Atli var heima og fáir menn aðrir.
Þorbjörn kom þar nær hádegi um daginn. Hann var einn í ferð og reið að útidyrum. Aftur var hurð en öngvir menn úti. Þorbjörn drap á dyr og fór síðan á bak húsum svo að mátti ekki sjá hann frá dyrunum heiman. Menn heyrðu að barið var og gekk út kona ein. Þorbjörn hafði svip af konunni og lét ekki sjá sig því að hann ætlaði annað að vinna. Hún kom í stofu. Atli spurði hvað komið var. Hún kvaðst ekki hafa séð komið úti. Og er þau töluðu þetta þá laust Þorbjörn mikið högg á dyrnar.
Þá mælti Atli: “Mig vill sjá finna og mun hann eiga erindið við mig hversu þarft sem er.”
Gekk hann þá fram og út í dyrnar. Hann sá öngvan úti. Væta var úti mikil og því gekk hann eigi út og hélt sinni hendi í hvorn dyrastafinn og litast svo um.
Í því bili snaraði Þorbjörn fram fyrir dyrnar og lagði tveim höndum til Atla með spjótinu á honum miðjum svo stóð í gegnum hann.
Atli mælti við er hann fékk lagið: “Þau tíðkast hin breiðu spjótin,” segir hann.
Síðan féll hann fram á þröskuldinn. Þá komu fram konur er í stofunni höfðu verið. Þær sáu að Atli var dauður. Þá var Þorbjörn á bak kominn og lýsti víginu á hendur sér og reið heim eftir það.
Ásdís húsfreyja sendir eftir mönnum og var búið um lík Atla og var hann jarðaður hjá föður sínum.
Hann var mjög harmdauður því hann hafði verið bæði vitur og vinsæll. Engi komu fram fégjöld fyrir víg Atla enda beiddist engi bóta því að Grettir átti eftirmálið ef hann kæmi út. Stóðu þessi mál kyrr um sumarið. Varð Þorbjörn lítt þokkaður af þessu verki og sat þó um kyrrt í búi sínu.
46. kafli
Þetta sumar er nú var frá sagt kom skip út fyrir þing á Gásum. Var þá sagt frá ferðum Grettis. Þar með sögðu þeir um húsbrennuna. Við þessa sögu varð Þórir í Garði afar reiður og þóttist hann þar að sonarhefndum sjá eiga sem Grettir var. Reið Þórir með fjölmenni mikið og reifði á þingi brennumálið en menn þóttust ekki kunna til að leggja meðan enginn var til svara. Þórir kveðst ekki annað vilja en Grettir væri sekur ger um allt landið fyrir slík óverkan.
Þá svarar Skafti lögsögumaður: “Víst er þetta illt verk ef svo er sem þetta er sagt. Jafnan er hálfsögð saga ef einn segir því að fleiri eru þess fúsari að færa þangað sem eigi ber betur ef tvennt er til. Nú mun eg eigi leggja úrskurð á að Grettir sé sekur ger um þetta að svo gervu.”
Þórir var maður héraðsríkur og höfðingi mikill en vinsæll af mörgu stórmenni. Gekk hann að svo fast að öngu kom við um sýkn Grettis. Gerði Þórir Gretti þá sekan um allt landið og var honum síðan þyngstur allra sinna mótstöðumanna sem oft bar raun á. Hann lagði oftlega fé til höfuðs honum sem öðrum skógarmönnum, og reið við það heim. Margir mæltu að þetta væri meir gert af kappi en eftir lögum en þó stóð svo búið. Varð nú tíðindalaust fram yfir miðsumar.
47. kafli
Að áliðnu sumri kom Grettir Ásmundarson út í Hvítá í Borgarfirði. Fóru menn til skips um héraðið. Þessi tíðindi komu öll senn til Grettis, það fyrst að faðir hans var andaður, annað það að bróðir hans var veginn, það þriðja að hann var sekur ger um allt landið.
Þá kvað Grettir vísu þessa:
Allt kom senn að svinnum,
sekt mín, bragar tíni.
Föður skal drengr af dauða
drjúghljóðr og svo bróður.
Þó skal margr í morgun
mótrunnr Héðins snótar,
brjótr, um slíkar sútir,
sverðs, daprari verða.
Svo segja menn að Grettir brygði öngvan veg skapi við þessar fréttir og var jafnglaður sem áður. Nú sat Grettir við skip um hríð því að hann fékk öngvan fararskjót sem honum gast að.
Sveinn hét maður er bjó að Bakka upp frá Þingnesi. Hann var góður bóndi og kátur maður og kvað oft svo að gaman var að. Hann átti merhryssi eitt, brúnt að lit, allra hrossa skjótast. Það kallaði Sveinn Söðulkollu.
Grettir fór eina nótt burt af Völlum því að hann vildi ekki að kaupmenn yrðu varir við. Hann fékk sér svartan kufl og steypti utan yfir klæði og duldist svo. Hann gekk upp hjá Þingnesi og svo upp til Bakka. Var þá ljóst orðið. Hann sá brúnt hross við túnið og fór til og lagði við beisl, steig á bak og reið upp með Hvítá og fyrir neðan Bæ og svo til Flókadalsár og svo upp á götur fyrir ofan Kálfanes. Vinnumenn á Bakka stóðu upp í þann tíma og sögðu til bónda að maðurinn var á bak kominn.
Hann stóð upp og brosti að og kvað þetta:
Héðan reið á burt beiðir
barðéls, nærri garði
þjófr lét hönd um hrífa,
hjálmþollr, Söðulkollu.
Sjá mun Freyr að fleirum
fullsterkr svaðilverkum
Þundar skýs en þessu,
það er heldr að mér belldi.
Síðan tók hann hest sinn og reið eftir. Grettir reið þar til er hann kom upp fyrir bæinn á Kroppi. Þar fann hann mann er nefndist Halli og kvaðst fara skyldu ofan til skips á Völlu.
Grettir kvað vísu:
Segðu í breiðar byggðir,
bráðlyndr, að þú fyndir
uppi allt hjá Kroppi,
álmþollr, Söðulkollu.
Þar var staddr á steddu,
strjúk allmikinn, Halli,
drengr, sá er drýgir löngum
dufl, í svörtum kufli.
Og nú skilja þeir og fór Halli ofan eftir götum og allt ofan að Kálfanesi áður Sveinn kom á móti honum. Þeir kvöddust skjótt.
Þá kvað Sveinn:
Sáttu, hvar reið hinn reitni,
raun er oss mikil, hrossi
slyttimákr, að slíku,
slægr frá næstum bæjum.
Héraðsmenn skulu hvinni
hefning fyrir það nefna.
Bera skal búk að hvoru
blán ef eg nái hánum.
“Máttu það af því,” kvað Halli, “eg fann þann mann er ríða kvaðst Söðulkollu og bað mig það að segja ofan í byggðina og héraðið. Var sá mikill vexti og var í sortum kufli.”
“Eiga þykist hann mikið undir sér,” kvað bóndi, “og skal eg vita hver hann er” og reið síðan eftir honum.
Grettir kom í Deildartungu. Var þar úti kona.
Grettir fann hana að máli og kvað vísu:
Færðu hafloga hirði,
hefir braut gripið lautar
áll, vel borin vella,
vigg, dís, gamanvísu.
Og vildi svo jöldu
Yggs líðgjafi ríða
æst að eg mun gista,
orðrakkr, að Gilsbakka.
Konan nam vísuna. Hann reið eftir það leið sína.
Sveinn kom þar litlu síðar, og var hún eigi inn gengin, og þegar hann kom kvað hann þetta:
Hverr reið hóti fyrri
héðan í róstuveðri
hart á hrossi svörtu
hjörgráðs boði áðan.
Hann mun heldr að sönnu
hundeygr í dag undan,
djarfr er dáðum horfinn
drengr sjá, rekast lengi.
Hún sagði þá slíkt sem henni var kennt.
Hann hugsaði vísuna og mælti: “Ei er ólíklegt að þessi maður sé eigi mín leika en þó skal eg finna hann.”
Reið hann nú eftir byggðinni. Sá jafnan hvor annars ferð. Veður var bæði hvasst og vott. Grettir kom á Gilsbakka um daginn og er Grímur Þórhallsson vissi það fagnaði hann honum harðla vel og bauð honum með sér að vera. Hann þekkist það. Hann lét lausa Söðulkollu og sagði Grími hversu hún var til komin.
Þá kom Sveinn og steig af baki og sá þar hross sitt. Hann kvað þetta:
Hverr reið hryssu vorri?
Hver verðr raun á launum?
Hverr sá hvinn hið stærra?
Hvað mun kuflbúinn dufla?
Grettir var þá farinn af vosklæðum sínum og heyrði stökuna:
Heim reið eg hryssu að Grími.
Hann er gildr hjá kotmanni.
Þat mun eg launa litlu.
Láttu okkr vera sátta.
“Satt skal jafnt vera,” sagði bóndi, “og er fulllaunuð hrossreiðin.”
Eftir það kvað hvor sínar vísur og kvaðst Grettir eigi mundu að finna við það er hann átti eftir sínu að sjá. Var bóndi þar um nóttina og þeir báðir og gerðu að þessu gaman mikið. Þetta kölluðu þeir Söðulkolluvísur. Um morguninn reið bóndi heim og skildust þeir Grettir vel.
Grímur sagði Gretti marga hluti norðan úr Miðfirði þá sem gerst höfðu meðan hann var utan og það að Atli var öngu bættur en uppgangur Þorbjarnar öxnamegins var svo mikill að væri óvíst að Ásdís húsfreyja gæti setið á Bjargi ef svo stæði.
Nú dvaldist Grettir fár nætur með Grími því að hann vildi að engin frétt færi fyrir honum norður um heiðar.
Grímur bað hann vitja sín ef hann þyrfti ásjár við “en forðast mun eg lög, að verða sekur um bjargir við þig.”
Grettir kvað honum vel fara “en það er líkara að síðar muni meir við þurfa.”
Reið Grettir nú norður Tvídægru og svo til Bjargs og kom þar á náttarþeli. Var fólk allt í svefni utan móðir hans. Hann gekk á bak húsum og þær dyr er þar voru því að honum voru þar kunnig göng og svo til skála og að rekkju móður sinnar og þreifaðist fyrst fyrir. Hún spurði hver þar væri. Grettir sagði til sín.
Hún settist þá upp og hvarf til hans og blés við mæðilega og mælti:
“Ver velkominn frændi,” sagði hún, “en svipul verður mér sonaeignin. Er sá nú drepinn er mér var þarfastur en þú útlægur ger og óbótamaður en hinn þriðji er svo ungur að ekki má að hafast.”
“Það er fornt mál”, segir Grettir, “að svo skal böl bæta að bíða annað meira. En fleira er mönnum til hugganar en fébætur einar og er það líkast að hefnt verði Atla. En það er til mín kemur þá munu þar ýmsir sínum hlut fegnir er vér eigumst við.”
Hún kvað það eigi ólíklegt. Var Grettir þar nú um hríð á fárra manna vitorði og fréttist fyrir um atferli héraðsmanna. Höfðu menn ekki spurt til þess að Grettir væri kominn til Miðfjarðar. Hann spurði að Þorbjörn öxnamegin var heima og var fámennt hjá honum. Þetta var eftir túnannir.
48. kafli
Einn veðurdag góðan reið Grettir vestur yfir hálsa til Þóroddsstaða. Hann kom þar nærri hádegi og drap á dyr. Konur gengu út og heilsuðu honum. Þær kenndu hann ekki. Hann spurði að Þorbirni. Þær sögðu hann farinn á engjar að binda hey og með honum son hans sextán vetra gamlan er Arnór hét. Þorbjörn var starfsmaður mikill og var nær aldrei iðjulaus. Og er Grettir hafði þetta spurt bað hann þær vel lifa og reið á burt og fram á veginn til Reykja.
Þar gengur ein mýri ofan úr hálsinum og var þar á slátta mikil og hafði Þorbjörn látið slá þar mikið hey og var þá fullþurrt. Ætlaði hann það heim að binda og sveinninn með honum en kona tók rökin. Grettir reið nú neðan á teiginn en þeir feðgarnir voru ofar og höfðu bundið eina klyf en voru þá að annarri. Þorbjörn hafði sett skjöld sinn og sverð við klyfina en sveinninn hafði handöxi hjá sér.
Þorbjörn sá manninn og mælti við sveininn: “Maður ríður þar að okkur og skulum við hætta að binda heyið og vita hvað hann vill” og svo gerðu þeir.
Grettir steig af baki. Hann hafði hjálm á höfði og gyrður saxinu og spjót mikið í hendi og öngvir krókarnir á og var silfurrekinn falurinn á. Hann settist niður og drap úr geirnaglann því að hann vildi eigi að Þorbjörn mætti aftur senda.
Þá mælti Þorbjörn: “Þetta er mikill maður og eigi kann eg mann á velli að sjá ef það er eigi Grettir Ásmundarson og mun hann eiga ærnar sakir við oss. Og verðum við rösklega og látum öngvan bilbug á okkur sjá. Skulum við fara að með ráðum og mun eg ganga að honum framan og sjá hversu til tekst með okkur því að eg treysti mér við hvern mann ef eg á einum að mæta. En þú gakk á bak honum og högg tveim höndum í milli herða honum með öxinni. Þarftu eigi að varast að hann geri þér mein síðan er hann snýr baki að þér.”
Öngvan hafði Þorbjörn hjálm og hvorgi þeirra. Grettir gekk á mýrina og þegar hann kemur í skotmál við þá skaut hann spjóti að Þorbirni. En það var lausara á skaftinu en hann ætlaði og geigaði á flauginni og hljóp af skaftinu og niður í jörðina. Þorbjörn tók skjöldinn og setti fyrir sig en brá sverðinu og sneri á móti Gretti er hann kenndi hann. Grettir brá þá saxinu og sveipaði því til nokkuð svo að hann sá hvar pilturinn stóð á baki honum og því hafði hann sig lausan við. Er hann sá að pilturinn var kominn í höggfæri við sig þá reiddi hann hátt saxið. Laust hann bakkanum saxins í höfuð Arnóri svo hart að hausinn brotnaði og var það hans bani. Þá hljóp Þorbjörn mót Gretti og hjó til hans en hann brá við buklara hinni vinstri hendi og bar af sér en hann hjó fram saxinu og klauf skjöldinn af Þorbirni og kom saxið í höfuðið honum svo hart að í heilanum stóð og féll hann af þessu dauður niður. Ekki veitti Grettir þeim fleiri áverka. Leitaði hann þá að spjóti sínu og fann eigi. Gekk hann þá til hests síns og reið út til Reykja og lýsti þar vígunum.
Kona sú er var á engiteignum sá á vígin. Hljóp hún þá heim felmsfull og sagði að Þorbjörn var veginn og þeir báðir feðgar. Þetta kom mjög á þá óvara er heima voru því að engi vissi um ferðir Grettis. Var þá sent eftir mönnum á næstu bæi. Kom þar brátt margt manna, færðu líkin til kirkju. Þóroddur drápustúfur tók við eftirmáli um vígin og hafði hann þegar flokk uppi.
Grettir reið heim til Bjargs og fann móður sína og sagði þenna atburð.
Hún varð glöð við þetta og kvað hann nú hafa líkst í ætt Vatnsdæla “en þó mun þetta upphaf og undirrót sekta þinna. Veit eg það víst að þú mátt ekki hér langvistum vera sakir frænda Þorbjarnar en þó mega þeir nú vita að þér kann mikið að þykja.”
Grettir kvað þá vísu:
Varð í Veðrafirði
vopnsóttr í byr Þróttar,
æst fór arfs og gneista
afl, fangvinr Hafla.
Nú er ósjötlað Atla
andrán þegar hánum,
dauðr hné hann fyrr að fríðri
fold, maklega goldið.
Ásdís húsfreyja kvað satt vera “en eigi veit eg hvað er þú ætlar nú til ráða að taka.”
Grettir kvaðst nú mundu leita til vina sinna og frænda vestur til sveita “en engi vandræði skal þér af mér leiða,” segir hann.
Bjóst hann þá til ferðar og skildu þau mæðgin með kærleikum. Fór hann fyrst til Mela í Hrútafjörð og sagði Gamla mági sínum allt það sem til hafði borið um vígið Þorbjörns.
Gamli bað að hann skyldi flýta sér úr Hrútafirði “meðan þeir halda flokkinum, frændur Þorbjarnar. En veita skulum vér þér að eftirmáli um víg Atla slíkt er vér megum.”
Eftir það reið Grettir vestur yfir Laxárdalsheiði og létti eigi fyrri en hann kom í Ljárskóga til Þorsteins Kuggasonar og dvaldist þar lengi um haustið.
49. kafli
Þóroddur drápustúfur fréttist fyrir hver að vegið mundi hafa Þorbjörn og þá feðga. Og er þeir komu til Reykja var þeim sagt að Grettir hefði þar komið og lýst vígunum á hendur sér. Þóroddur þóttist nú sjá hversu farið hafði. Fór hann þá til Bjargs og var þar mart manna fyrir og spurði hvort Grettir væri þar.
Húsfreyja sagði að hann hafði á burt riðið og hún færi hann ekki í fylgsni “ef hann væri hér. Munuð þér nú vel við una að svo búið standi. Var ekki ofhefnt fyrir víg Atla þó að þetta kæmi fyrir. Spurðuð þér ekki að þótt eg hefði skapraun af því. Er nú og vel þó svo standi.”
Riðu þeir þá heim og þótti ekki hægt til aðgerða.
Spjótið það sem Grettir hafði týnt fannst ekki fyrr en í þeirra manna minnum er nú lifa. Það spjót fannst á ofanverðum dögum Sturlu lögmanns Þórðarsonar og í þeirri mýri er Þorbjörn féll og heitir þar nú Spjótsmýri. Og hafa menn það til merkja að Þorbjörn hefði þar drepinn verið þótt í sumum stöðum segi að hann hafi á Miðfitjum drepinn verið.
Þeir frændur spyrja að Grettir var í Ljárskógum. Söfnuðu þeir þá mönnum saman og ætluðu til Ljárskóga. En er Gamli varð þess var frá Melum gerði hann þeim Þorsteini og Gretti vissu um ferðir Hrútfirðinga.
Og er Þorsteinn varð þess var sendi hann Gretti inn í Tungu til Snorra goða því að þá var málfriður með þeim og lagði hann það til ráðs með Gretti að hann beiddi Snorra ásjá. En ef hann yrði eigi við bað hann Gretti fara vestur á Reykjahóla til Þorgils Arasonar “og mun hann við þér taka í vetur. Hafst við í Vestfjörðum þar til sem sjötlast þessi málaferli.”
Grettir kvaðst hans ráðum hlíta mundu. Reið hann þá inn í Tungu og fann Snorra goða að máli og beiddi hann viðtöku.
Snorri svarar: “Eg gerist nú gamall maður og nenni eg nú ekki að halda seka menn ef mig rekur öngva nauðsyn til. Eða hvað bar nú til er öldungurinn vísaði þér nú frá sér?”
Grettir kvað Þorstein oft hafa vel til sín gert “en fleira mun nú við þurfa en hans eins ef duga skal.”
Snorri mælti: “Til mun eg leggja orð mín ef þér mætti lið að verða en annars staðar skaltu til leita um vistaferli þín en hjá mér.”
Skildu þeir að svo mæltu. Sneri Grettir þá vestur til Reykjaness. Hrútfirðingar komust með flokk sinn á Sámsstaði. Þá fréttu þeir að Grettir var burt úr Ljárskógum og hurfu þar aftur.
50. kafli
Grettir kom á Reykjahóla nær veturnóttum og beiddi Þorgils veturvistar.
Þorgils sagði að honum væri til reiðu matur sem öðrum frjálsum mönnum “en ekki er hér vönd vistargerð.”
Grettir kvaðst ekki um það vanda.
“Er hér enn annar hlutur til vandhæfa,” segir Þorgils. “Þeir menn ætla hér til vistar er mikið þykja vanstilltir, sem eru þeir fóstbræður Þorgeir og Þormóður. Veit eg eigi hversu yður hentar saman að vera en þeirra vist skal hér jafnan vera er þeir vilja. Nú máttu vera hér ef þú vilt en öngum yður skal duga að eiga illt við annan.”
Grettir sagði að hann mundi á öngvan mann leita fyrri og einkanlega ef bóndi vildi svo.
Litlu síðar komu þeir fóstbræður heim. Ekki féll blítt á með þeim Þorgeiri og Gretti en Þormóður lét sér vel fara. Þorgils bóndi sagði þeim fóstbræðrum allt slíkt sem hann sagði Gretti en þeir gerðu svo mikil metorð hans að hvorigir lögðu öðrum öfugt orð en þó fóru ekki þykkjur þeirra saman. Leið nú svo öndverður veturinn af.
Það segja menn að Þorgils bóndi átti eyjar þær sem Ólafseyjar heita. Þær liggja út á firðinum, hálfa aðra viku undan Reykjanesi. Þar átti Þorgils bóndi uxa góðan og hafði eigi sóttur orðið um haustið. Talaði Þorgils um jafnan að hann vildi ná honum fyrir jólin.
Það var einn dag er þeir fóstbræður bjuggust til að sækja uxann ef þeim fengist hinn þriðji maðurinn til liðs. Grettir bauð að fara með þeim en þeir létu vel yfir því, fara síðan þrír á teinæringi. Veður var kalt og lék á norðan. Skipið stóð í Hvalshaushólmi. Sigldu þeir út og græddist heldur vindurinn, komu við eyjarnar og tóku uxann.
Þá spurði Grettir hvort þeir vildu heldur leggja út uxann eða halda skipinu því að brim nokkuð var við eyna. Þeir báðu hann halda skipinu. Hann stóð við mitt skipið á það borð er frá landi horfði, tók honum sjórinn undir herðablöðin, og hélt svo að hvergi sveif. Þorgeir tók upp uxann aftan en Þormóður framan og hófu svo út í skipið, settust síðan til róðrar. Reri Þormóður í hálsi en Þorgeir í fyrirrúmi en Grettir í skut og héldu inn á flóann. Og er þeir komu inn fyrir Hafraklett styrmdi þá að þeim.
Þá mælti Þorgeir: “Frýr nú skuturinn skriðar.”
Grettir mælti: “Eigi skal skuturinn eftir liggja ef allvel er róið í fram.”
Þorgeir féll þá svo fast á árar að af gengu báðir háirnir.
Þá mælti hann: “Legg þú til Grettir meðan að eg bæti að háunum.”
Grettir dró þá fast árarnar meðan Þorgeir bætti að háunum. En er Þorgeir tók að róa höfðu svo lúist árarnar að Grettir hristi þær í sundur á borðinu. Þormóður kvað betra að róa minna og brjóta ekki. Grettir þreif erði tvö er lágu í skipinu og rak borur stórar á borðstokkunum og reri svo sterklega að brakaði í hverju tré. En með því að skip var gott en heldur menn í röskvara lagi þá náðu þeir Hvalshaushólm.
Grettir spyr hvort þeir vildu heldur fara heim með uxann eða setja upp skipið. Þeir kjöru heldur að setja upp skipið og settu þeir upp með öllum sjónum þeim sem í var og jöklinum en það var mjög sýlt. En Grettir leiddi uxann og var hann mjög stirður í böndunum en allfeitur. Varð honum mjög mætt. En þá er hann kom neðan hjá Tittlingsstöðum þraut uxann gönguna.
Þeir fóstbræður gengu til húss því að hvorigir vildu veita öðrum að sínu hlutverki. Þorgils spyr að Gretti en þeir sögðu hvar þeir höfðu skilið. Hann sendi þá menn á móti honum og er þeir komu ofan undir Hellishóla sáu þeir hvar maður fór í móti þeim og hafði naut á baki og var þar kominn Grettir og bar þá uxann. Undruðust þá allir hversu mikið hann gat orkað. Lék Þorgeiri næsta öfund á um afl Grettis.
Það var einn dag nokkuð eftir jól að Grettir fór í laug einn saman.
Þorgeir vissi það og mælti við Þormóð: “Förum við til og vitum hversu Gretti bregður við ef eg ræð á hann, þá er hann fer frá lauginni.”
“Ekki er mér um það,” sagði Þormóður, “og muntu ekki gott fá af honum.”
“Fara vil eg þó,” sagði Þorgeir.
Snýr hann nú ofan á brekkuna og bar hátt öxina.
Grettir gekk þá neðan frá lauginni og er þeir fundust mælti Þorgeir: “Er það satt Grettir,” sagði hann, “að þú hefir það mælt að þú skyldir aldrei renna fyrir einum?”
“Eigi veit eg það svo víst,” sagði Grettir, “en skammt hefi eg fyrir þér runnið,” kvað Grettir.
Þorgeir reiddi þá upp öxina. Í því hljóp Grettir undir Þorgeir og færði hann niður allmikið fall.
Þorgeir mælti þá til Þormóðar: “Skaltu standa hjá er fjandi sjá drepur mig undir sér?”
Þormóður þreif þá í fætur Gretti og ætlaði að draga hann ofan af Þorgeiri og fékk ekki að gert. Hann var gyrður saxi og ætlaði að bregða. Þá kom Þorgils bóndi að og bað þá vera spaka og fást ekki við Gretti. Þeir gerðu svo og sneru þessu í gaman. Ekki áttust þeir fleira við svo að getið sé. Þótti mönnum Þorgils mikla gæfu til hafa borið að stilla slíka ofstopamenn. En er vora tók fóru þeir á burt allir.
Grettir fór inn til Þorskafjarðar. Var hann spurður að hversu honum hefði líkað vistargerðin eða veturvistin á Reykjahólum.
Hann svarar: “Þar hefi eg svo verið að eg hefi jafnan mínum mat orðið fegnastur þá er eg náði honum.”
Fór hann síðan vestur yfir heiðar.
51. kafli
Þorgils Arason reið til þings með fjölmenni. Kom þar allt stórmenni um landið. Brátt fundust þeir Skafti lögmaður og tóku tal með sér.
Þá mælti Skafti: “Er það satt Þorgils að þú hefir haldið þá þrjá menn í vetur er mestir ójafnaðarmenn þykja vera og þó allir sekir og stillt þá svo að enginn hefir öðrum mein gert?”
Þorgils segir að það var satt.
Skafti mælti: “Mikill höfðingsskapur er slíkt. Eða hversu þykir hver þeirra skapi farinn eða hver hreystimaður hver þeirra mun vera?”
Þorgils segir: “Alla ætla eg þá fullröskva til hugar en þeir eru tveir að eg ætla hræðast kunna. Er það þó ólíkt því að Þormóður er maður guðhræddur og trúmaður mikill en Grettir er svo myrkfælinn að hann þorir hvergi að fara þegar að myrkva tekur ef hann gerði eftir skapi sínu. En Þorgeir frænda minn hygg eg ekki hræðast kunna.”
“Svo mun hver skapi farinn sem þú segir,” segir Skafti.
Skildu þeir svo talið.
Á þessu alþingi kærði Þóroddur drápustúfur um víg Þorbjarnar öxnamegins því að hann hafði eigi fram komið á Húnavatnsþingi fyrir frændum Atla. Hugði hann að hér mundi hans mál síður fyrir borð borið. Þeir frændur Atla sóttu Skafta að málinu en hann kvaðst sjá lögvörn í því svo að þar mundu fullar fébætur fyrir koma.
Síðan voru málin í gerð lagin og var það flestra ætlan að vígin mundu á standast, Atla og Þorbjarnar. En er Skafti vissi það gekk hann til gerðarmanna og spurði hvaðan þeir tóku það. Þeir kölluðu þá jafna bændur er vegnir voru.
Skafti spyr: “Hvort var fyrr, Grettir sekur ger eða Atli var veginn?”
En er það var reiknað þá varð það viku munur er Grettir var sekur ger á alþingi en hitt varð þegar eftir þingið.
Skafti mælti: “Það grunaði mig að yður mundi yfir sjást um málatilbúnaðinn að þér hélduð þann aðila er sekur var áður og hvorki mátti sín mál verja né sækja. Nú segi eg Gretti ekki eiga að gera með vígsmálinu og taki eftirmál sá sem næstur er að lögum.”
Þá mælti Þóroddur drápustúfur: “Hver skal þá svara víginu Þorbjörns bróður míns?”
“Sjáið þér sjálfir fyrir því,” segir Skafti, “en ekki munu frændur Grettis ausa fé fyrir hann eða verk hans ef honum kaupist enginn friður.”
Og er þess varð var Þorvaldur Ásgeirsson að Grettir var af sagður eftirmálinu leituðu þeir þá eftir hverjir næstir voru. Urðu þá skyldastir þeir Skeggi son Gamla að Melum og Óspakur son Glúms af Eyri úr Bitru. Þeir voru báðir kappsmenn miklir og framgjarnir. Varð Þóroddur nú að lúka bætur fyrir víg Atla. Var það tvö hundruð silfurs.
Þá lagði til Snorri goði: “Viljið þér nú Hrútfirðingar,” sagði hann, “að niður falli fégjald þetta og verði Grettir sýkn því að eg ætla að hann verði sárbeittur í sektinni?”
Þeir frændur Grettis tóku vel undir það og sögðust aldrei hirða um fé ef hann fengi frið og frelsi. Þóroddur kvaðst sjá að hans hlutur varð erfiður og lést þenna mundu upp taka fyrir sína hönd.
Snorri bað þá vita áður hvort Þórir úr Garði vildi leyfi til leggja að Grettir yrði sýkn. En er hann varð þess vís brást hann reiður við og kvað Gretti aldrei skyldu úr sektum ganga eða komast “og að firr að hann verði sýkn,” sagði hann, “að meira fé skyldi leggja til höfuðs honum en nokkurum öðrum skógarmönnum.”
En er hann tók þetta svo þvert varð ekki af sýknuninni. Tóku þeir Gamli féið til sín og varðveittu en Þóroddur drápustúfur fékk öngvar bætur eftir Þorbjörn bróður sinn. Lögðu þeir Þórir þá báðir fé til höfuðs Gretti, þrjár merkur silfurs hvor þeirra. Það þótti mönnum nýlunda því að aldrei hafði verið meira lagt en þrjár merkur. Snorri kvað þetta óviturlegt að bekkjast til að hafa þann mann í sektum er svo miklu illu mætti orka og kvað þess margan gjalda mundu. Skildu menn við það og riðu heim af þinginu.
52. kafli
Þá er Grettir kom yfir Þorskafjarðarheiði í Langadal lét hann sópa greipur um eignir smábænda og hafði af hverjum það er kallaði. Tók hann af hverjum vopn en sumum klæði. Gengu þeir mjög misjafnt af en allir sögðust nauðgir láta þegar hann var á brottu.
Þá bjó í Vatnsfirði Vermundur hinn mjóvi bróðir Víga-Styrs. Hann átti Þorbjörgu dóttur Ólafs pá Höskuldssonar. Hún var kölluð Þorbjörg hin digra.
Vermundur var þenna tíma til þings riðinn er Grettir var í Langadal. Hann fór ofan yfir háls til Laugabóls. Þar bjó sá maður er Helgi hét. Hann var þar helst fyrir bændum. Þaðan hafði Grettir góðan hest er bóndi átti. Þaðan fór hann inn til Gervidals. Þar bjó sá maður er Þorkell hét. Hann var vel birgur að kosti og þó lítilmenni. Hafði Grettir þaðan slíkt er hann vildi og þorði Þorkell ekki að að finna eða á að halda. Þaðan fór Grettir til Eyrar og svo út þeim megin fjarðar og hafði af hverjum bæði vistir og klæði og gerði mörgum harðleikið og þótti flestum þungt undir að búa.
Grettir fór nú djarflega og hafði enginn varðhöld á sér. Hann fór nú uns er hann kom í Vatnsfjarðardal og fór þar til sels. Dvaldist hann þar margar nætur og lá þar í skógum og svaf og hugði ekki að sér.
En er smalamenn vissu það fóru þeir til bæjar og sögðu að sá dólgur væri kominn í byggðina að þeim þótti ekki dæll viðfangs. Söfnuðust þá bændur saman og höfðu þrjá tigu manna. Leyndust þeir í skóginum svo að Grettir vissi ekki til og létu smalamenn halda njósnum nær færi gæfi á Gretti en þó vissu þeir ógjörla hver maðurinn var.
Nú bar svo til einn dag þá er Grettir lá og svaf að bændur komu að honum. Og er þeir sáu hann áttu þeir ráðagerð um hversu þeir skyldu taka hann svo að minnst yrði manntjón í og skipuðu til að tíu skyldu á hann hlaupa en sumir skyldu bera bönd að fótunum. Þeir gerðu nú svo og fleygðu sér ofan á hann en Grettir brá við svo hart að þeir hrutu af honum en hann komst á kné og í því gátu þeir kastað böndum á hann og fætur honum. Þá spyrnti Grettir svo fast við eyrun á tveimur að þeir lágu í roti. Nú hljóp á hann hver að öðrum en hann ruddist um fast og lengi en þó gátu þeir hlaðið honum um síðir og bundu hann.
Eftir það áttu þeir um að tala hversu við hann skyldi gera. Báðu þeir Helga af Laugabóli taka við honum og annast hann þar til að Vermundur kæmi heim af þingi.
Hann svarar að “annað ætla eg mér þarfara en láta húskarla mína sitja yfir honum því að eg á lönd erfið og kemur hann aldrei í mína ferð.”
Þá báðu þeir Þorkel í Gervidal við honum að taka, kváðu hann vera nógtarmann.
Þorkell mælti í móti og kvað öngvan kost á því “þar sem eg ligg einn í húsi og kerling mín en hvar fjarri öðrum mönnum og komið þér ekki þeim kassa á mig,” segir hann.
“Þú, Þórálfur á Eyri,” sögðu þeir, “tak við Gretti og ger til hans vel um þingið ella fær þú hann af þér til næsta bæjar og ábyrgst að hann verði ekki laus. Set hann svo bundinn niður sem nú tekur þú við honum.”
Hann svarar: “Ekki vil eg við Gretti taka því að eg hefi hvorki til föng né fé að halda hann. Hefir hann og ekki á minni jörðu tekinn verið. Líst mér heldur vandræði en virðing við honum að taka eða gera mikið með honum og hann kemur aldrei í mín hús inn.”
Eftir það leituðu þeir við hvern bónda og mæltu allir í móti. Og eftir þessu viðtali þeirra hafa kátir menn sett fræði það er Grettisfærsla hét og aukið þar í kátlegum orðum til gamans mönnum.
En er þeir höfðu þetta talað lengi þá kom það ásamt með þeim að þeir mundu eigi gera happ sitt að óhappi og fóru til og reistu gálga þar þegar í skóginum og ætluðu hengja Gretti og hlömmuðu nú mjög yfir þessu.
Þá sáu þeir ríða þrjá menn neðan eftir dalnum. Var einn í litklæðum. Þeir gátu að mundi Þorbjörg húsfreyja úr Vatnsfirði og svo var. Ætlaði hún til sels. Hún var skörungur mikill og forvitur. Hún hafði héraðsstjórn og skipaði öllum málum þegar Vermundur var eigi heima.
Hún veik þangað að sem mannfundurinn var og var hún af baki tekin. Bændur fögnuðu henni vel.
Hún mælti þá: “Hvað þingi hafið þér eða hver er þessi hinn hálsdigri er hér situr í böndum?”
Grettir nefndi sig og heilsaði henni.
Hún svarar: “Hvað rak þig til þess Grettir,” sagði hún, “að þú vildir gera hér óspektir þingmönnum mínum?”
“Eigi má nú við öllu sjá. Vera varð eg nokkur.”
“Slíkt er mikið gæfuleysi,” segir hún, “að vesalmenni þessi skyldu taka þig svo að ekki lagðist fyrir þig. Eða hvað ætlið þér nú af honum að gera?”
Bændur sögðu henni að þeir ætluðu að festa hann á gálga fyrir óspektir sínar.
Hún svarar: “Vera má að Grettir hafi sakir til þess en ofráð mun það verða yður Ísfirðingum að taka Grettir af lífi því að hann er maður frægur og stórættaður þó að hann sé eigi gæfumaður. Eða hvað viltu nú vinna til lífs þér Grettir ef eg gef þér líf?”
Hann svarar: “Hvað mælir þú til?”
“Þú skalt vinna eið,” sagði hún, “að gera öngvar óspektir hér um Ísafjörð. Öngum skaltu hefna þeim sem í aðför hafa verið að taka þig.”
Grettir kvað hana ráða. Síðan var hann leystur. Og þá kvaðst hann mest bundist hafa að sínu skaplyndi að hann sló þá eigi er þeir hældust við hann. Þorbjörg bað hann fara heim með sér og fékk honum hest til reiðar. Fór hann þá heim í Vatnsfjörð og beið þar til þess er Vermundur kom heim og gerði húsfreyja vel við hann. Varð hún af þessu mjög fræg víða um sveitir.
Vermundur var ófrýnn er hann kom heim og spurði því Grettir væri þar. Þorbjörg sagði allt sem farið hafði með þeim Ísfirðingum.
“Hvers naut hann að því,” sagði Vermundur, “er þú gafst honum líf?”
“Margar greinir voru til þess,” sagði Þorbjörg. “Það fyrst,” segir hún, “að þú munt þykja meiri höfðingi en áður er þú áttir þá konu er slíkt þorði að gera. Þá mundi það og ætla Hrefna frændkona hans að eg mundi eigi láta drepa hann. Það hið þriðja að hann er hinn mesti afreksmaður í mörgum greinum.”
“Vitur kona ertu,” sagði Vermundur, “í flestu og haf þökk fyrir.”
Þá mælti hann til Grettis: “Lítið lagðist nú fyrir þig, þvílíkur garpur sem þú ert, er vesalmenni skyldu taka þig og fer svo jafnan óeirðarmönnum.”
Grettir kvað þá vísu þessa:
Mitt var gilt
gæfuleysi
í marþaks
miðjum firði
er gamlir
grísir skyldu
halda mér
að höfuðbeinum.
“Hvað vildu þeir af þér gera,” kvað Vermundur, “þá er þeir höfðu tekið þig?”
Grettir kvað:
Sögðu mér,
þau er Sigar veitti,
mægða laun
margir hæfa
uns lofgróinn
laufi sæmdar
reynirunn
rekkar fundu.
Vermundur mælti: “Hvort mundu þeir hafa hengt þig ef þeir einir hefðu um vélt?”
Myndi eg sjálfr
í snöru egnda
helsti brátt
höfði stinga
ef Þorbjörg
þessu skáldi,
hún er allsnotr,
eigi byrgi.
Vermundur mælti: “Hvort bauð hún þér til sín?”
Grettir svaraði:
Mig bað hjálp
handa tveggja
Sifjar vers
með sér fara.
Sú, gaf þveng
Þundar beðju
góðan hest,
er mig gæddi friði.
“Mikil mun verða ævi þín og erfið,” segir Vermundur, “og er þér kennt að varast óvini þína. En ekki nenni eg að halda þig og hafa þar fyrir þykkju margra ríkra manna. Er þér enn best að leita til frænda þinna en fáir munu verða til að taka þig ef öðru mega við koma. Ertu og ekki auðkvæður til fylgdar við flesta menn.”
Grettir var í Vatnsfirði nokkura hríð og fór þaðan til Vestfjarða og leitaði til margra göfugra manna og bar jafnan eitthvert við það er engi tók við honum.
53. kafli
Um haustið er á leið sneri Grettir aftur hið syðra og léttir eigi fyrr en hann kom í Ljárskóga til Þorsteins Kuggasonar frænda síns og þar var vel við honum tekið. Bauð Þorsteinn honum með sér að vera um veturinn og það þekktist hann.
Þorsteinn var iðjumaður mikill og smiður og hélt mönnum mjög til starfa. Grettir var lítill verklundarmaður og því fór lítt skap þeirra saman. Þorsteinn hafði látið gera kirkju á bæ sínum. Hann lét brú gera heiman frá bænum. Hún var ger með hagleik miklum. En utan í brúnni, undir ásunum þeim er upp héldu brúnni, var gert með hringum, og dynbjöllur, svo að heyrði yfir til Skarfsstaða, hálfa viku sjóvar, ef gengið var um brúna, svo hristust hringarnir. Hafði Þorsteinn mikinn starfa fyrir þessari smíð því að hann var járngerðarmaður mikill. Grettir var atgangsmikill að drepa járnið en nennti misjafnt en þó var hann spakur um veturinn svo að ekki bar til frásagnar. En er Hrútfirðingar frétta að Grettir var með Þorsteini höfðu þeir flokk uppi er vora tók.
En Þorsteinn frétti það. Sagði hann Gretti að hann leitaði sér annars hælis en vera þar “því að eg sé að þú vilt ekki starfa en mér henta ekki þeir menn sem eigi vinna.”
“Hvert vísar þú mér þá?” segir Grettir.
Þorsteinn bað hann fara suður um land og finna frændur sína “en vitja mín ef þeir duga eigi þér.”
Grettir gerði nú svo að hann fór suður til Borgarfjarðar á fund Gríms Þórhallssonar og dvaldist þar fram yfir þing. Grímur vísaði honum til Skafta lögmanns á Hjalla. Grettir fór suður hinar neðri heiðar og létti eigi fyrr en hann kom í Tungu til Þórhalls Ásgrímssonar Elliða-Grímssonar og fór lítt með byggðum. Þórhallur kenndist við Gretti sakir foreldra sinna og þó var Grettir nafnkunnigur mjög um allt land af atgervi sinni. Þórhallur var vitur maður og gerði vel til Grettis en ekki vildi hann vist hans þar álengdar.
54. kafli
Grettir fór úr Tungu upp til Haukadals og þaðan norður á Kjöl og hafðist þar við um sumarið lengi og var nú eigi traust að hann tæki eigi af mönnum plögg sín, þeim sem fóru norður eða norðan um Kjölinn, því að honum varð illt til féfanga.
Það var einn dag að Grettir var jafnan norður á Dúfunefsskeiði að hann sá að maður reið norðan eftir Kilinum. Sá var mikill á baki og hafði góðan hest og beisl háseymt, vel turnað. Annan hest hafði hann í taumi og á töskur. Þessi maður hafði síðan hatt á höfði og sá óglöggt í andlit honum.
Grettir leist vel á hestinn og þing hans og fór til móts við hann og heilsaði honum og spurði hann að nafni en hann kvaðst Loftur heita “veit eg hvað þú heitir,” segir hann, “þú munt vera Grettir hinn sterki Ásmundarson eða hvert viltu fara?”
“Ekki hefi eg staðnefnt um það,” segir Grettir, “en það er erindi mitt að vita ef þú vilt af leggja nokkurt plagg af því sem þú ferð með.”
Loftur svarar: “Því mun eg fá þér það sem eg á eða hvað viltu við gefa?”
Grettir svarar: “Hefir þú eigi spurt það að eg legg ekki fé í móti og sýnist þó það flestum að eg fái það sem eg vil?”
Loftur mælti: “Bjóð þú þeim þessa kosti er þér þykja góðir. En ekki vil eg svo láta það er eg á og fari hvorir sinn veg” og reið fram hjá Gretti og keyrði hestinn.
Grettir mælti: “Ekki munum við svo skjótt skilja” og þreif í taumana á hesti Lofts fyrir framan hendur honum og hélt báðum höndum.
Loftur mælti: “Far þú veg þinn. Ekki færð þú af mér ef eg get á haldið.”
“Það mun nú reynt verða,” segir Grettir.
Loftur seildist niður með kinnleðrunum og tók taumana milli hringanna og handa Grettis, heimtandi svo fast að hendur Grettis hrukku niður eftir taumunum þar til sem hann dró af honum allt beislið.
Grettir leit eftir í lófana og sá að þessi maður mundi hafa afl í krummum heldur en eigi og leit eftir honum og mælti: “Hvert ætlar þú nú að fara?”
Loftur svarar og kvað:
Ætla eg hreggs
í hrunketil
steypi niðr
frá stórfrerum.
Þar má hængr
hitta grundar
lítinn stein
og land hnefa.
Grettir mælti: “Eigi er víst að leita eftir byggðum þínum ef þú segir eigi ljósara.”
Hann mælti þá og kvað:
Erat mér dælt
að dylja þig
ef þú vilt
vitja þangað.
Það er úr byggð
Borgfirðinga
þar er Balljökul
bragnar kalla.
Síðan skildu þeir. Sér Grettir þá að hann hefir ekki afl við þessum manni. Þá kvað Grettir vísu:
Mér stóð málma skúrar
mundangs hvatr og Atli,
staddr vildi eg svo sjaldan,
snarr Illugi fjarri
þá er ófælinn ólar
endr dró mér úr hendi,
brúðr strýkr horsk, ef hræðumk,
hvarma, Loftr hinn armi.
Eftir þetta fór Grettir suður af Kilinum og reið til Hjalla og fann Skafta og beiddi hann ásjár.
Skafti svarar: “Það er mér sagt að þú farir heldur óspaklega og grípir fyrir mönnum góss sitt og samir þér það illa, svo stórættuðum manni. Nú væri allt betur um að tala ef þú rændir eigi. En með því að eg skal heita lögmaður í landinu þá stendur mér eigi að taka við útlegðarmönnum og brjóta svo lögin. Eg vil að þú leitir þangað nokkur að þú þyrftir eigi að leggjast á fé manna.”
Grettir kvaðst það gjarna vildu en sagði þó að hann þóttist varla einn saman vera mega fyrir myrkfælni.
Skafti kvað hann ekki því einu mundu mega við hlíta er honum þætti best “og trú þú öngum svo vel að þér verði svo sem í Vestfjörðum. Hefir það mörgum að bana orðið að hann hefir oftryggur verið.”
Grettir þakkaði honum fyrir heilræði sín og sneri aftur til Borgarfjarðar um haustið og fann Grím Þórhallsson vin sinn og sagði tillögur Skafta. Grímur bað hann fara norður til Fiskivatna á Arnarvatnsheiði og svo gerði hann.
55. kafli
Grettir fór upp á Arnarvatnsheiði og gerði sér þar skála sem enn sér merki og bjóst þar um því að hann vildi nú hvervetna annað en ræna, fékk sér net og bát og veiddi fiska til matar sér. Honum þótti dauflegt mjög á fjallinu því að hann var mjög myrkfælinn. En er það frétta aðrir skógarmenn að Grettir var þar niður kominn þá var mörgum hugur á að finna hann því að þeim þótti mikið traust að honum.
Grímur hét maður norðlenskur. Hann var sekur. Að þeim manni keyptu Norðlendingar að hann skyldi drepa Gretti og hétu honum frelsi og fégjöfum ef hann kæmi því fram. Hann fór til móts við Gretti og beiddi hann viðtöku.
Grettir svarar: “Eigi þykir mér sem þér sé að hólpnara þó að þú værir hjá mér. Eruð þér og vansénir, skógarmennirnir, en illt þætti mér einum saman að vera ef annars væri kostur. Vil eg og að sá einn sé hjá mér að hann verður að starfa slíkt er til fellst.”
Grímur kvaðst ekki til annars ætla og skoraði á hann fast um vistina. Lét Grettir þá teljast og tók við honum. Hann var þar nú fram á veturinn og sat um Gretti og þótti eigi dælt að honum að ráða. Grettir grunaði hann og hafði vopn sín hjá sér nótt og dag og þorði hann aldrei að honum að ganga þá er hann vakti.
Það var einn morgun er Grímur kom heim af veiði að hann gekk inn í skálann og stappaði fótum og vildi vita hvort Grettir svæfi en hann brá sér hvergi við og lá kyrr. Saxið hékk uppi yfir Gretti. Hugsar Grímur nú að eigi mundi gefast betra færi. Gerir hann nú hark mikið svo að Gretti skyldi orð um finnast en það var ekki. Þóttist hann nú vita að Grettir mundi sofnaður og stillti að rekkjunni hljóðlega og seildist til saxins og tók ofan og brá. Í því hljóp Grettir fram á gólfið og greip saxið í því er hinn reiddi en annarri hendi í herðar Grími og rak hann niður svo mikið fall að hann lá nær í óviti.
“Gafstu svo þó að þú létir góðvættlega.”
Hafði hann af honum þá sannar sögur og drap hann síðan. En nú þóttist Grettir sjá hvað það var að taka við skógarmönnum. Og leið svo veturinn. Að öngu þótti Gretti meira mein en myrkfælni.
56. kafli
Þórir í Garði spyr nú hvar Grettir er niður kominn og vildi setja til eitthvert ráð að hann yrði drepinn.
Maður hét Þórir rauðskeggur. Hann var manna gildastur og vígamaður mikill og fyrir það var hann sekur ger um allt landið. Þórir í Garði sendi honum orð og er þeir fundust beiddi hann Rauðskegg fara sendiferð sína og drepa Gretti hinn sterka. Rauðskeggur kvað það eigi auðveldaverk, sagði að Grettir var vitur maður og var um sig.
Þórir bað hann til ráða “og er slíkt drengilegt svo röskum manni sem þú ert en eg skal koma þér úr sekt og þar með gefa þér nógt fé.”
Við þessu ráði tók Rauðskeggur. Sagði Þórir honum hversu hann skyldi að fara að vinna Gretti. Eftir það fór Rauðskeggur fyrir austan land því að honum þótti gruna mega síður um ferðir sínar. Hann kom að Arnarvatnsheiði þá er Grettir hafði verið þar einn vetur. En er Grettir og Rauðskeggur fundust beiddi hann Gretti viðurtöku.
Hann svarar: “Eigi kann eg að láta fleiri svo oft leika að mér sem sá er hér kom í fyrra haust og lét allskjallkænlega. En þegar hann hafði hér verið litla hríð sat hann um líf mitt. Nú mun eg eigi á það hætta oftar að taka við skógarmönnum.”
Þórir svarar: “Full vorkunn þykir mér þér á vera þó að þú trúir illa skógarmönnum en heyrt muntu mín hafa getið um vígaferli og ójafnað en aldrei um slíkt dáðleysi að svíkja lánardrottin minn. Nú er því illt illum að vera að margur ætlar þar annan eftir vera. Mundi eg og eigi hafa hingað farið ef eg ætti betra kosti en eigi þykir mér við upp gefnir ef við veitumst að. Nú máttu hætta á við mig fyrst hversu þér gest að mér. Lát mig þá fara á burt ef þú finnur ódyggð með mér.”
Grettir svarar: “Hætta má eg enn á við þig en vit það fyrir víst ef eg gruna um svik við þig þá verður það þinn bani.”
Þórir kvað hann svo gera. Eftir það tók Grettir við honum og fann hann það að hann mundi hafa tveggja manna megin til hvers sem hann gekk. Var hann búinn til hvers sem Grettir vildi senda hann. Til einkis þurfti Grettir að víkjast og aldrei hafði honum þótt ævi sín jafngóð síðan hann kom í útlegð en þó var hann svo var um sig að aldrei sá Þórir færi á honum.
Þórir rauðskeggur var tvo vetur hjá Gretti á heiðinni. Tók honum nú að leiðast á heiðinni að vera, hugsar nú um hvert ráð hann skal gera það sem Grettir sæi eigi við.
Eina nótt um vorið kom á stormviðri mikið er þeir voru í svefni. Grettir vaknaði og spurði hvar bátur þeirra væri. Þórir spratt upp og hljóp til bátsins og braut hann allan í sundur og kastaði ýmsa vega brotunum og var því líkt sem veðrið hefði fleygt.
Eftir það gekk hann inn í skálann og mælti hátt: “Eigi hefir nú vel til tekist, vinur minn”, sagði hann, “að bátur okkar er allur brotinn í sundur en netin liggja langt út í vatnið.”
“Sæk þú þau þá,” segir Grettir, “því að mér þykir þér sjálfrátt verið hafa er báturinn er brotinn.”
Þórir svarar: “Það er svo í atgervi að mér er minnst hent er sund er. En flest annað þykist eg reyna mega við hvern annan óbreyttan mann. Máttu það vita að eg hefi eigi þér starf ætlað síðan eg kom til þín. Mundi eg eigi biðja þessa ef eg væri til fær að gera.”
Grettir stóð upp og tók vopn sín og gekk til vatnsins. Þar var svo við vaxið að nes gekk fram í vatnið en víkurhvarf mikið var öðrumegin nessins. Vatnið var djúpt að landinu.
Grettir mælti: “Leggst út eftir netjunum og lát mig sjá hversu fær maður þú ert.”
“Sagði eg þér áðan,” segir Þórir, “að eg er ekki syndur og eigi veit eg hvar nú er garpskapur þinn og áræði.”
“Ná mun eg netunum,” sagði Grettir, “en svík þú mig ekki er eg trúi þér.”
Þórir svarar: “Ætla þú mér eigi slíka svívirðing og dáðleysi.”
Grettir mælti: “Þú munt sjálfur gefa þér raun hver þú ert.”
Síðan kastaði hann klæðunum og vopnunum og lagðist eftir netunum. Sveipar hann þeim saman og fer að landi og kastar þeim upp á bakkann. Og er hann ætlaði á land að ganga þá greip Þórir saxið og brá skjótt. Hann hljóp þá skjótt á móti Gretti er hann sté upp á bakkann og hjó til hans. Grettir kastaði sér á bak aftur ofan í vatnið og sökk sem steinn. Þórir horfði út á vatnið og ætlaði að verja landið ef hann kæmi upp. Kafaði Grettir nú sem næst bakkanum svo að Þórir mátti ekki sjá hann þar til sem hann kom í víkina að baki honum og gekk þar á land. Við þessu gat Þórir eigi séð. Fann hann eigi fyrr en Grettir tók hann upp yfir höfuð sér og færði niður svo hart að saxið hraut úr hendi honum og fékk Grettir tekið það og hafði ekki orða við hann og hjó þegar höfuð af honum og lauk svo hans ævi.
Eftir það vildi Grettir aldrei við skógarmönnum taka en þó mátti hann varla einn saman vera.
57. kafli
Á alþingi frétti Þórir úr Garði dráp Þóris rauðskeggs. Þóttist hann nú sjá að eigi var auðvelt við að eiga. Tók hann þá það til ráðs að hann reið vestur yfir heiðar hinar neðri af þinginu og hafði nær átta tigu manna og ætlaði að fara að taka Gretti af lífi. En er Grímur Þórhallsson vissi það þá gerði hann Gretti orð og bað hann vera varan um sig. Grettir hugði jafnan að mannaferðum.
Það var einn dag að hann sá margra manna reið og stefndi til byggða hans. Hljóp hann þá í hamraskarð eitt og vildi eigi renna því að hann sá eigi liðið allt. Í því kom Þórir að með allt liðið og bað þá nú ganga í milli bols og höfuðs á Gretti og kvað lítið mundu fyrir illmennið leggjast.
Grettir svarar: “Eigi er sopið þó að í ausuna sé komið. Hafið þér og langt til sótt og munu nokkurir fá leiksmark áður en vér skiljum.”
Þórir eggjaði mjög menn til atsóknar. Hamraskarðið var mjótt svo að hann gat vel varið öðrumegin en það undraðist hann að aldrei var að baki honum gengið svo að honum yrði mein að því. Féllu þá menn af Þóri en sumir urðu sárir en þeir gátu ekki að gert.
Þá mælti Þórir: “Það hefi eg spurt,” sagði hann, “að Grettir væri afbragðsmaður fyrir hreysti sakir og hugar en það vissi eg aldrei að hann væri svo fjölkunnigur sem nú sé eg því að þar falla hálfu fleiri sem hann horfir bakinu við. Nú sé eg að hér er við tröll að eiga en ekki við menn.”
Biður hann þá frá hverfa og svo var gert. Grettir undraðist því svo mátti verða en þó var hann ákaflega móður. Þórir sneri á burt og hans menn og riðu norður á sveitir. Þótti mönnum þeirra ferð hin sneypilegasta. Hafði Þórir látið átján menn en margir sárir. Grettir veik nú upp í skarðið og fann þar mann mikinn vexti. Hann sat upp við hamarinn og var sár mjög.
Grettir spurði hann að nafni en hann sagðist Hallmundur heita “en það má eg segja þér til kenningar að þér þótti eg fast taka í taumana á Kili um sumarið er við fundumst. Þykist eg nú það hafa launað þér.”
“Það er víst,” sagði Grettir, “að mér þykir þú hafa sýnt mér mikinn drengskap hvenær sem eg get það launað þér.”
Hallmundur segir: “Það vil eg nú að þú komir til heimkynna minna því að þér mun langt þykja hér á heiðinni.”
Grettir kveðst það gjarnan vildu. Nú fara þeir báðir samt suður undir Balljökul. Þar átti Hallmundur helli stóran og dóttur gilda vexti og skörulega. Þau gerðu vel við Gretti og græddi hún þá báða. Þar dvaldist Grettir lengi um sumarið.
Hann kvað flokk um Hallmund og er þetta þar í:
Hátt stígr höllum fæti
Hallmundr í sal fjalla.
Þessi vísa er þar í:
Varð í Veðrafirði
vígfús á benstíga
naðr í Virfils veðri
vopnhríðar fram skríða.
Kostr mun köppum traustum
Keldhverfinga að erfa.
Olli hvatr úr helli
Hallmundr er eg komst undan.
Svo hafa þeir frá sagt að Grettir dræpi sex menn á fundinum en Hallmundur tólf. Þá er á leið sumarið fýsti Gretti aftur til byggða að finna vini sína og frændur. Hallmundur bað hann sín vitja er hann færi suður um land og hét Grettir því.
Fór hann þá vestur til Borgarfjarðar og þaðan til Breiðafjarðardala og leitaði ráða við Þorstein Kuggason hvert hann skyldi þá á leita.
En Þorsteini þótti nú fjölgast mótstöðumenn hans og kvað fá mundu við honum taka “en fara máttu suður á Mýrar og vita hvar þar býr fyrir.”
Grettir fór nú suður á Mýrar um haustið.
58. kafli
Þá bjó í Hólmi Björn Hítdælakappi. Hann var Arngeirsson, Bersasonar goðlauss, Bálkasonar er nam Hrútafjörð sem fyrr segir. Björn var höfðingi mikill og harðfengur og hélt jafnan seka menn. Grettir kom í Hólm og tók Björn vel við honum því að vinátta hafði verið með hinum fyrrum frændum þeirra. Grettir spurði ef hann vildi honum nokkra ásjá veita.
Björn sagði að hann ætti svo sökótt um allt land að menn mundu forðast bjargir við hann um það er sekt nemur “en heldur skal eg þér gagn gera ef þú lætur þá menn vera í friði sem í minni vernd eru hvers sem þú gerir við aðra menn hér í byggð.”
Grettir játaði því.
Björn mælti: “Að því hefi eg hugað að í því fjalli sem fram gengur fyrir utan Hítará mun vera vígi gott og þó fylgsni ef klóklega er um búið. Er þar bora í gegnum fjallið og sér það neðan af veginum því að þjóðgatan liggur niðri undan en sandbrekka svo brött fyrir ofan að fáir menn munu upp komast ef einn maður röskur er til varnar uppi í bælinu. Nú líst mér það helst ráð og umtalsmál að vera þar því að þaðan er hægt að leita til fanga ofan á Mýrar og út til sjóvar.”
Grettir kvaðst hans forsjá hlíta mundu ef hann vildi nokkuð til leggja. Fór Grettir þá í Fagraskógafjall og bjóst þar um. Hann tjaldaði með grá vaðmáli fyrir boruna á fjallinu og þótti sem þar sæi í gegnum neðan af götunum. Réð hann þá til fanga ofan í byggðina. Þótti Mýramönnum mikill vágestur kominn er Grettir var.
Þórður Kolbeinsson bjó þá á Hítarnesi. Hann var skáld gott. Í þenna tíma var fjandskapur mikill með þeim Birni og Þórði og þótti Birni eigi verr en hálfneytt þó að Grettir gerði óspekt mönnum Þórðar eða fé.
Grettir var jafnan með Birni og reyndu þeir margan frækleik, og vísar svo til í sögu Bjarnar að þeir kölluðust jafnir að íþróttum. En það er flestra manna ætlan að Grettir hafi sterkastur verið á landinu síðan þeir Ormur Stórólfsson og Þórálfur Skólmsson lögðu af aflraunir. Þeir Grettir og Björn lögðust í einu eftir allri Hítará ofan frá vatni og út til sjóvar. Þeir færðu stéttir þær í ána er aldrei síðan hefir úr rekið hvorki með vatnavöxtum né ísalögum eða jöklagangi. Sat Grettir í Fagraskógafjalli svo einn vetur að honum voru öngvar aðfarir gervar en þó misstu þá margir síns fyrir honum og fengu ekki að gert því að hann hafði gott vígi en átti jafnan vingott við þá sem næstir honum voru.
59. kafli
Maður hét Gísli. Hann var sonur Þorsteins sem Snorri goði lét drepa. Gísli var mikill maður og sterkur og afburðarmaður í vopnum og klæðum og gerði um sig mikið og nokkuð sjálfhælinn. Hann var siglingamaður og kom það sumar út í Hvítá er Grettir hafði einn vetur verið í fjallinu. Þórður Kolbeinsson reið til skips. Gísli fagnaði honum vel og bauð honum varning sinn sem hann vildi. Þórður þá það og tóku þeir tal með sér.
Gísli mælti: “Er það satt sem mér er sagt að þér verður ráðfátt að koma í burt skógarmanni þeim er yður gerir margt mein?”
Þórður sagði: “Ekki höfum vér til reynt en mörgum líst hann torsóttlegur vera og hefir að því mörgum orðið.”
“Von þykir mér að yður veiti þungt við Björn er þér rekið eigi þenna af yður. Er því verr að eg mun of fjarri í vetur að eg mætti bæta að þessu ráði.”
“Spyrja mun þér best þykja við hann að eiga.”
“Eigi þarftu að segja mér frá Gretti,” sagði Gísli. “Reynt hefi eg brattara þá er eg var í herförum með Knúti konungi hinum ríka og fyrir vestan haf og þótti eg verja mitt rúm. Og kæmi eg í færi við hann þá treysti eg mér og vopnum mínum.”
Þórður svarar, kvað hann eigi til einskis vinna skyldu ef hann réði Gretti af “er og meira fé lagt til höfuðs honum en nokkrum öðrum skógarmanni og voru áður sex merkur silfurs en í sumar lagði til Þórir úr Garði þrjár merkur og ætla menn að sá muni nóg til vinna er hlýtur.”
“Allt verður til fjárins unnið,” sagði Gísli, “og er oss eigi síst kaupmönnum. En nú skulum við hljótt fara með þessu tali. Kann vera að hann sé varari um sig,” sagði hann, “þegar hann veit að eg er í ráðum með þér og yður. Eg ætla að vera í vetur út á Ölduhrygg eða er nokkuð bæli hans á veginum? Mun hann eigi við þessu sjá. Skal eg ekki fjölmenni draga að honum.”
Þórði líkaði vel þessi ráðagerð. Reið hann heim síðan og lét kyrrt um þetta.
Hér fór sem mælt er að oft er í holti heyrandi nær. Þeir menn höfðu verið hjá viðurtali þeirra Gísla sem voru vinir Bjarnar í Hítardal og sögðu honum innilega frá. En er þeir Grettir fundust gat Björn um fyrir honum, sagði nú reyna mundu hversu hann stæði á móti.
“Væri eigi ógaman,” segir Björn, “þó að þú hrektir fyrir honum en drepir hann eigi ef þú mátt annað.”
Grettir glotti við og gaf sér fátt um.
Nær réttum um haustið fór Grettir ofan í Flysjuhverfi og sótti sér sauði. Hann gat náð fjórum geldingum. Bændur urðu varir við ferð hans og fóru eftir honum. Það var mjög jafnsnemma að hann komst undir hlíðina og hinir komust að og vildu elta frá honum en ekki báru þeir vopn á hann. Þeir voru sex saman og flæktust á veginn fyrir hann. Honum gerði hermt við sauðina og þreif tvo og kastaði forbrekkis svo þeir lágu í óviti. Og er hinir sáu það gengu þeir að ódjarflega. Grettir tók sauðina og krækti saman á hornunum og kastaði um sína öxl sínum tveimur, gekk síðan upp í bæli sitt. Bændur hurfu aftur og þóttust illt hafa af fengið og undu þeir nú verr en áður sínum hlut.
Gísli sat við skip um haustið þar til er því var til hlunns ráðið. Bar honum margt til dvala og var af því síðbúinn og reið litlu fyrir veturnætur. Fór hann þá sunnan og gisti undir Hrauni fyrir sunnan Hítará.
Um morguninn áður Gísli reið þaðan talaði hann til fylgdarmanna sinna: “Nú skulum vér ríða í litklæðum í dag og látum skógarmanninn það sjá að vér erum eigi sem aðrir förumenn er hér rekast daglega.”
Þeir voru þrír saman og gerðu svo. Og er þeir komu út yfir ána þá talaði hann enn til: “Hér er mér sagt til skógarmannsins upp í tindunum þessum og ekki er hér greiðgengt. Eða mun honum eigi vel líka að finna oss og sjá þing vor?”
Þeir kveða hann jafnan vanan þess.
Þenna morgun hafði Grettir snemma upp staðið í bæli sínu. Veður var kalt og frjósanda og fallinn að snjór og þó lítill. Hann sá að þrír menn riðu sunnan yfir Hítará og skein á skrúðklæðin og smelta skjölduna. Gretti kom nú í hug hverjir vera mundu og þykist munu þurfa að fá sér eitthvert plagg af þessum. Var honum forvitni á að finna þá er svo mikið gömbruðu, tekur nú vopn sín og hleypur nú ofan í skriðuna.
Og er Gísli heyrði til að grjótið sarglaði mælti hann svo: “Maður fer þar ofan úr hlíðinni og heldur mikill og sá vill oss finna. Verðum nú við rösklega því að hér ber veiði í hendur.”
Fylgdarmenn hans sögðu þenna eigi mundu hlaupa í hendur þeim ef hann treysti sér eigi “og er vel að sá hafi brek er beiðist.”
Eftir það hlaupa þeir af baki.
Grettir kom að í því og tók til klæðsekks er Gísli hafði fyrir aftan sig við söðul sinn og mælti: “Þetta mun eg hafa. Eg lýt oft að litlu.”
Gísli svarar: “Eigi skal það vera eða veist þú eigi við hvern er þú átt um.”
Grettir svarar: “Eigi er mér það svo glöggt um. Mun eg og ekki að þessu mannamun gera síðan eg mæli til svo lítils.”
“Vera má að þér þyki lítið,” segir hann, “en heldur vil eg láta þrjá tigu hundraða. En ofarlega mun liggja ójafnaður í þér og sækjum að honum piltar og sjáum hvað hann má.”
Þeir gerðu svo. Grettir lét hefjast fyrir og veik að steini þeim er þar stendur við götuna og Grettishaf er kallað og varðist þaðan. Gísli eggjaði fast fylgdarmenn sína. Grettir sá nú að hann var ekki slíkur fullhugi sem hann lést því að hann stóð jafnan á baki mönnum sínum. Gretti leiddist nú þófið og sveipaði til saxinu og hjó annan fylgdarmann Gísla banahögg og hljóp nú frá steininum og sótti svo fast að Gísli hrökk fyrir allt út með fjallinu. Þá féll annar förunautur Gísla.
Grettir mælti þá: “Það sér lítt á að þú hefir víða vel fram gengið og illa skilst þú við þína félaga.”
Gísli svarar: “Sá er eldurinn heitastur er á sjálfum liggur og er illt að fást við heljarmanninn.”
Skiptust þeir þá fám höggum við áður en Gísli kastaði vopnunum og hefir á rás undan út með fjallinu. Grettir gefur honum tóm til að kasta því sem honum líkar og í hvert sinn er Gísli sér ráðrúm til kastaði hann einhverju klæði. Fór Grettir aldrei harðara eftir en sund var í milli þeirra. Allt hljóp Gísli út yfir fjallið og svo um þveran Kaldárdal og svo um Áslaugarhlíð og fyrir ofan Kolbeinsstaði og svo út í Borgarhraun. Þá var Gísli í línklæðum einum og gerðist nú ákaflega móður. Grettir fór eftir og var jafnan í hendingu með þeim. Hann reif þá upp hríslu mikla. En Gísli létti eigi fyrr en hann kom út að Haffjarðará. Hún var gengin upp og ill yfirferðar. Gísli ætlaði þegar út á ána. Grettir snaraði þá eftir honum og greip hann og kenndi þá aflsmunar.
Rak Grettir hann þá niður undir sig og mælti: “Ertu Gísli sá er finna vildir Gretti Ásmundarson?”
Gísli svarar: “Eg hefi nú fundið hann en eigi veit eg hversu við skiljumst og haf nú það sem þú hefir fengið en lát mig fara lausan.”
Grettir mælti: “Ekki mun þér skiljast það sem eg segi þér og verð eg nú að gera þér áminning” rekur síðan skyrtuna fram yfir höfuð honum og lætur ganga límann um bak honum og báðar síðurnar. En Gísla fýsti jafnan að snúa sér undir. Afhýðir Grettir hann með öllu og lét hann síðan lausan. Hugsaði Gísli það að fyrr vildi hann ekki læra af Gretti en hafa slíka flenging aðra. Vann hann og aldrei oftar til slíkrar húðstroku.
En þegar Gísli kom fótum undir sig hljóp hann út á hyl einn mikinn og svimaði þar yfir ána og kom um nóttina á þann bæ er í Hrossholti heitir og var þá mjög þrekaður. Þar lá hann viku og hljóp blástur í búkinn. Eftir það fór hann til vistar sinnar.
Grettir sneri aftur og tók upp þing hans sem Gísli hafði niður kastað og færði heim til sín og fékk Gísli ekki af þeim síðan.
Mörgum þótti þetta maklega gert við Gísla fyrir umfang sitt og raup er hann hafði af sér gert.
Grettir kvað þetta um sameign þeirra:
Rennr, sá er rispar tönnum
raunlítt er skal bítast,
marr, né mæðist fyrri,
mest fyr öðrum hesti.
En fyr mér um Mýrar
margnenninn dag þenna,
fremd er hann firrðr og sæmdum,
físandi rann Gísli.
Eftir um vorið bjóst Gísli til skips og bauð á því mestan varnað að nokkur hlutur færi suður með fjalli, það sem hann ætti, kvað þar sjálfan fjandann fyrir vera. Gísli reið suður með sjó alla leið til skips og fundust þeir Grettir aldrei síðan og þótti öngvum til hans koma upp frá því og er hann úr sögunni.
Enn versnaði með þeim Þórði Kolbeinssyni og Gretti. Setti Þórður nú mörg ráð til að Grettir yrði á burt komið eða drepinn ella.
60. kafli
Nú er Grettir hafði verið tvo vetur í Fagraskógafjalli og er hinn þriðji var kominn þá fór Grettir suður á Mýrar á þann bæ er í Lækjarbug heitir og hafði þaðan sex geldinga að óvilja þess er átti. Þaðan fór hann ofan til Akra og rak á burtu tvö naut til sláturs og marga sauði og fór upp fyrir sunnan Hítará.
En er bændur urðu varir við ferð hans gerðu þeir orð Þórði á Hítarnesi og báðu hann fyrir bindast að ráða Gretti af en hann fór undan. En við bæn manna fékk hann til Arnór son sinn, er síðan var kallaður jarlaskáld, að fara með þeim og bað þá eigi láta Gretti undan reka. Voru þá menn sendir um alla byggðina.
Bjarni hét maður er bjó á Jörva í Flysjuhverfi. Hann safnaði mönnum fyrir utan Hítará. Ætluðu þeir svo til að sínum megin skyldu koma hvorir flokkarnir.
Grettir var við þriðja mann. Hét sá Eyjólfur er fór með honum, son bónda úr Fagraskógum, og var röskur maður og hinn þriðji maður með þeim.
Þeir komu fyrst, Þórarinn frá Ökrum og Þorfinnur úr Lækjarbug og voru nær tuttugu menn saman. Grettir vildi þá leita út yfir ána. Þá komu þeir Þorgeir og Arnór og Bjarni utan að ánni. Nes mjótt gekk fram í ána þeim megin sem Grettir var. Hann rak féið í framanvert nesið þá er hann sá mannaförina því að hann vildi aldrei laust láta það sem hann fékk höndum á komið.
Mýramenn réðu þegar til atgöngu og létu gildlega. Grettir bað fylgdarmenn sína að geyma að þeir gengju eigi að baki honum. Ei máttu í senn allmargir að honum ganga. Varð þar hörð viðureign með þeim. Grettir hjó á tvær hendur með saxinu og varð þeim eigi auðvelt að sækja að honum. Féllu þá sumir Mýramenn en sumir urðu sárir. Þeir urðu seinir utan yfir ána því að vaðið var ei allnær. Ei höfðu þeir lengi barist áður en þeir hurfu frá. Þórarinn frá Ökrum var gamall maður mjög, svo að hann var ekki í atsókninni.
En er úti var bardaginn þá kom að Þrándur son Þórarins og Þorgils Ingjaldsson bróðurson Þórðar og Finnbogi son Þorgeirs Þórhaddssonar úr Hítardal og Steinólfur Þorleifsson úr Hraundal. Þeir eggjuðu menn mjög til atsóknar. Gerðu þeir enn harða hríð.
Grettir sá nú að annaðhvort varð að gera, flýja eða hlífast ekki við. Gengur hann nú svo hart fram að öngvir héldust við því svo var mannmargt að honum þótti ósýnt til undankomunnar utan sem vinna sem mest áður en hann félli, vildi og hafa þann einnhvern fyrir sig er honum þótti manntak í vera. Hljóp hann þá að Steinólfi úr Hraundal og hjó til hans í höfuðið og klauf hann í herðar niður og þegar annað högg hjó hann til Þorgils Ingjaldssonar og kom á hann miðjan og tók nálega í sundur. Þá vildi Þrándur fram hlaupa og hefna frænda síns. Grettir hjó til hans á lærið hægra svo að úr tók allan vöðvann og varð hann þegar óvígur. Eftir það veitti hann Finnboga mikinn áverka.
Þá kallaði Þórarinn og bað þá frá hverfa “því að því verra munuð þér af honum fá sem þér berjist lengur en hann kýs menn úr liði yðru.”
Þeir gerðu svo og sneru frá. Þar voru fallnir fimm menn en fimm sárir til ólífis og örkumla. En flestir höfðu nokkurar skeinur þeir sem á fundinum höfðu verið. Grettir var ákaflega móður en lítt sár. Leituðu Mýramenn við þetta undan og höfðu fengið mikinn mannskaða því að þar féllu margir röskvir menn.
En þeim utan yfir ána fórst seint og komu eigi fyrr en slitið var fundinum. Og er þeir sáu ófarir sinna manna þá vildi Arnór ekki hafa sig í hættu og fékk hann mikið ámæli af föður sínum og mörgum öðrum. Ætla menn að hann hafi engi garpur verið. Það heitir nú Grettisoddi er þeir börðust.
En þeir Grettir tóku sér hross og riðu upp undir fjall því að þeir voru allir sárir. Og er þeir komu í Fagraskóga var Eyjólfur þar eftir. Þar var bóndadóttir úti og spurði að tíðindum.
Grettir sagði af hið ljósasta og kvað vísu:
Hæg munat, hirði-Sága
hornflæðar, nú græða
stór, þótt steyptust fleiri,
Steinólfs höfuðskeina.
Því er um Þorgils ævi
þung von að bein sprungu.
Lýðr segir átta aðra
auðbrjóta þar dauða.
Eftir það fór Grettir í bæli sitt og sat þar um veturinn.
61. kafli
En er þeir Björn fundust sagði hann Gretti að honum þótti nú mikið að orðið “og mun þér ekki hér fært vera álengdar. Hefir þú nú drepið bæði frændur mína og vini en ekki mun eg kasta niður því sem eg hefi játað þér meðan þú ert hér.”
Grettir kvaðst hendur sínar og líf eiga að verja “en illa er það er þér mislíkar.”
Björn kvað nú svo búið vera verða. Litlu síðar komu þeir menn til Bjarnar sem misst höfðu frændur sína fyrir Gretti og báðu að hann léti eigi óeirðarmann þenna vera þar lengur til skapraunar við þá. Björn sagði að svo skyldi vera þegar að vetur létti af.
Þrándur var græddur, sonur Þórarins á Ökrum. Hann var gildur maður fyrir sér. Hann átti Steinunni dóttur Hrúts á Kambsnesi. Þorleifur í Hraundal faðir Steinólfs var mikill maður fyrir sér. Frá honum eru komnir Hraundælir.
Ekki er nú getið um sameign Grettis og þeirra Mýramanna fleira meðan er hann var þar í fjallinu. Hélt Björn og vináttu við hann en þó fækkuðust heldur vinir Bjarnar fyrir þetta er hann lét Gretti þar vera því að menn undu illa við að hafa frændur sína bótalausa.
Um þing leitaði Grettir burt af Mýrum. Fór hann þá enn til Borgarfjarðar og fann Grím Þórhallsson og leitaði hann þá ráðs hversu hann skyldi þá breyta. Grímur kveðst eigi hafa efni til þess að halda hann og því fór Grettir til fundar við Hallmund vin sin og dvaldist þar um sumarið þar til er á leið.
Um haustið fór Grettir í Geitland og beið þar til þess er bjart veður kom. Þá gekk hann upp á Geitlandsjökul og stefndi á landsuður eftir jöklinum og hafði með sér ketil og eldsvirki. Það ætla menn að hann hafi farið að tilvísan Hallmundar því að honum hefir verið víða kunnigt.
Grettir fór þar til er hann fann dal í jöklinum, langan og heldur mjóvan, og lukt að jöklum öllum megin svo að þeir skúttu fram yfir dalinn. Hann komst ofan í einhverjum stað. Hann sá þá fagrar hlíðir grasi vaxnar og smákjörr. Þar voru hverar og þótti honum sem jarðhitar mundu valda er eigi luktust saman jöklarnir yfir dalnum. Á lítil féll eftir dalnum og sléttar eyrar báðum megin. Lítill var þar sólargangur en það þótti honum ótal hve margur sauður þar var í dalnum. Það fé var miklu betra og feitara en hann hefði þvílíkt séð.
Grettir bjóst nú þar um og gerði sér skála af þeim viði sem hann fékk þar til. Tók hann sér nú sauði til matar. Var þar betri einn sauður til niðurlags en tveir annars staðar.
En ær mókollótt var þar með dilki sú er honum þótti mest afbragð í vera fyrir vaxtar sakir. Var honum forvitni á að taka dilkinn og svo gerði hann og skar síðan dilkinn. Hálf vætt mörs var í dilkinum en hann var þó öllu betri. En er Mókolla missti dilks síns fór hún upp á skála Grettis hverja nótt og jarmaði svo að hann mátti öngva nótt sofa. Þess iðraðist hann mest er hann hafði dilkinn skorið fyrir ónáðum hennar.
Hvert kveld er hálfrökkvað var heyrði hann hóað upp í dalnum og þá hljóp féð allt til hins sama bóls hvert kveld.
Svo hefir Grettir sagt að fyrir dalnum hafi ráðið blendingur, þurs einn sá er Þórir hét, og í hans trausti hafði Grettir þar verið. Við hann kenndi Grettir dalinn og kallaði Þórisdal. Dætur kvað hann Þóri eiga og henti Grettir gaman að þeim enda tóku þær því vel því að þar var ekki margkvæmt. En þá er fastað var gerði Grettir þá minning að þá skyldi eta mör og lifrar um langaföstu.
Ekki bar þar til tíðinda um veturinn. Þá þótti Gretti þar svo dauflegt að hann mátti þar eigi lengur vera. Fór hann þá í burt úr dalnum og gekk suður þvers af jöklinum og kom þá að norðan að miðjum Skjaldbreið. Reisti hann upp hellu og klappaði á rauf og sagði svo ef maður legði auga sitt við raufina á hellunni að þá mætti sjá í gil það sem fellur úr Þórisdal.
Síðan fór hann suður um land og svo til Austfjarða. Var hann í þessari ferð um sumarið og veturinn og fann alla hina meiri menn og bægði honum svo við að hvergi fékk hann vist né veru. Svo fór hann aftur hið nyrðra og dvaldist í ýmsum stöðum.
62. kafli
Litlu síðar en Grettir fór af Arnarvatnsheiði kom sá maður á heiðina er Grímur hét. Hann var son ekkjunnar á Kroppi. Hann hafði drepið son Eiðs Skeggjasonar úr Ási og varð fyrir það sekur ger. Hann settist nú þar sem Grettir hafði áður verið og veiddi vel úr vatninu. Hallmundi lék öfund á er Grímur var kominn í stað Grettis og hugsaði að honum skyldi engi árferð í vera þótt hann veiddi mart.
Svo bar til einn dag að Grímur veiddi hundrað fiska og bar heim til skála og bjó um úti. En um morguninn eftir er hann kom til var í burtu hver fiskur.
Þetta þótti honum undarlegt og fór til vatnsins og veiddi nú tvö hundruð fiska, færði heim og bjó um og fór allt á sömu leið að allir voru í burt að morgni. Nú þótti honum eigi að einum brunni bera.
Hinn þriðja dag veiddi hann þrjú hundruð fiska, bar heim og vakti yfir skála sínum. Grímur sá út í hurðarboruna ef nokkur kæmi til skálans. Leið nú svo nokkuð fram á nóttina. Og er eigi var þriðjungur af nótt þá heyrir hann gengið úti hjá og stigið heldur hart. Og er Grímur varð þessa var tók hann öxi er hann átti. Það var allhvasst vopn. Hann vildi vita hvað þessi hafðist að. Komumaðurinn hafði mikinn meis að baki og setti niður og litaðist um og sá öngvan mann úti. Hann baukar til fiskanna og þykir nú gott hönd á að hafa, rótar ofan í meisinn öllum fiskunum. Þá er fullur meisinn. Fiskurinn var svo stór að Grímur ætlaði að hestur mundi eigi bera meira. Hinn tekur nú og ræðst undir byrðina. Og í því er hann vildi upp standa hljóp Grímur út og hjó tveim höndum á hálsinn svo að öxin sökk að hamri. Hinn brá við hart og hefir á rás með meisinn suður á fjall. Grímur sneri eftir honum og vildi vita hvort honum hefði tekið. Þeir fóru allt suður undir Balljökul. Þar gekk þessi maður inn í helli. Eldur var bjartur í hellinum. Þar sat kona við, stór vexti og þó skörugleg. Það heyrir Grímur að hún heilsaði föður sínum og nefndi Hallmund. Hann kastaði niður hart byrðinni og andvarpaði hátt. Hún spurði því hann væri blóðugur.
Hann svarar og kvað þetta:
Það er mér sýnt
að sínu má
engi maðr
afli treysta
því að svo bregst
á banadægri
hölda hugr
sem heill bilar.
Hún spurði þá innilega að atburðum þeirra en hann sagði allt sem farið hafði.
“Skaltu nú heyra til,” segir hann, “en eg mun segja frá athöfnum mínum og mun eg kveða þar um kvæði en þú skalt rísta eftir á kefli.”
Hún gerði svo.
Þá kvað hann Hallmundarkviðu og er þetta þar í:
Þótti eg gildr
er eg Gretti strauk
nógu fast
niðr af taumum.
Sá eg hitt
að horfa gerði
sýna stund
sér í gaupnir.
Það var næst
er Þórir kom
Arnarvatns
upp á heiði
og við tveir
við tigu átta
odda leik
eiga knáttum.
Sýndust gild
Grettis handa
skýlihögg
á skjöldum þeirra.
Þó frá eg mín
miklu stærri
eggja spor
ýtum sýnast.
Eg lét hendr
og höfuð fjúka
brögnum af
er að baki gengu
svo að kappar
Kelduhverfis
átján þar
eftir lágu.
Hefi eg þursa
og þeirra kyn
hart leikið
og hamarsbúa
en meinvætti
marga barði
og blendingum
að bana orðið.
Svo álfa kind
og óvættum
nær hefi eg öllum
óþarfr verið.
Margra athafna sinna gat Hallmundur í kviðunni því að hann hafði farið um allt landið.
Þá mælti dóttir hans: “Ekki hefir sjá maður sleppifengur verið og var það eigi ólíklegt því að þú settir illa á stofn við hann. Eða hver mun nú hefna þín?”
Hallmundur svarar: “Eigi er víst að þess verði auðið. Vita þykist eg að Grettir mundi hefna ef hann mætti sér við koma en ekki mun hægt að ganga í móti gæfu þessa manns því að honum mun mikið lagið verða.”
Eftir það dró svo mikið mætti Hallmundar sem fram leið kvæðinu. Var það nú og jafnskjótt að kviðunni var lokið og Hallmundur dó. Hún bar sig þá lítt og grét allsárt.
Þá gekk Grímur fram og bað hana hreysta sig “og verður hver þá að fara er hann er feigur. Varð þetta mjög af tilstofningu hans. Mátti eg varla sjá að hann rændi mig.”
Hún kvað hann mikið hafa að mæla um það “og gefst illa ójafnaður.”
Gladdist hún þá heldur í viðræðunni. Þar dvaldist Grímur margar nætur í hellinum og nam kviðuna og fór þá laglega með þeim.
Grímur var á Arnarvatnsheiði um veturinn eftir dauða Hallmundar. Eftir það kom Þorkell Eyjólfsson til móts við hann á heiðina og börðust þeir. Lauk svo þeirra viðskipti að Grímur átti vald á lífi Þorkels og vildi eigi drepa hann en Þorkell tók hann til sín og kom honum utan og gaf honum mikið góss og þótti þar hvortveggi vel gera við annan. Grímur varð síðan farmaður og er mikil saga frá honum sögð.
63. kafli
Nú er þar til að taka að Grettir er kominn austan úr fjörðum og fór nú huldu höfði og duldist því að hann vildi ekki finna Þóri og lá úti um sumarið á Möðrudalsheiði og í ýmsum stöðum. Hann var og stundum á Reykjaheiði.
Það frétti Þórir að Grettir var á Reykjaheiði og safnaði mönnum og reið á heiðina og ætlaði nú að hann skyldi eigi undan reka. Grettir varð eigi nálega var við er þeir komu að honum. Hann var þá við sel er þar stóð skammt frá veginum. Þá var hann við annan mann. Og er þeir sáu flokkana, og varð skjótt til ráða að taka, þá bað Grettir að þeir skyldu fella hestana og draga inn í selið og svo gerðu þeir. Þórir reið um fram norður eftir heiðinni og misstu vinar í stað og fundu ekki og hurfu nú aftur.
Og er flokkurinn var vestur um riðinn þá mælti Grettir: “Eigi mun þeim ferðin þykja góð ef vér finnumst eigi. Nú skaltu geyma hesta okkar en eg skal fara móts við þá. Væri þeim það hjáleikur ef þeir kenndu mig eigi.”
Förunautur hans latti þessa en þó fór hann og tók sér annan búning og hafði síðan hött niður fyrir andlitið og hafði staf í hendi, gekk síðan á veginn fyrir þá. Þeir heilsuðu honum og spurðu hvort hann hefði nokkra menn séð ríða um heiðina.
“Séð mun eg hafa þá sem þér leitið að. Skorti yður nú alllítið að finna þá því að þeir voru hér fyrir sunnan mýrarnar þær sem eru til vinstri handar.”
En er þeir heyrðu þetta þeystu þeir út á mýrarnar. Þar voru svo mikil fen að þeir komust hvergi fram og urðu að draga úr hestana og hröktust þar í lengi dags. Báðu þeir illa fyrir honum, þessum förumanni er þá hafði svo dárað.
Grettir sneri skjótt aftur til móts við félaga sinn og er þeir fundust kvað Grettir vísu:
Ríðkat rækimeiðum
randar hóts á móti.
Sköpuð er þessum þegni
þraut, fer eg einn á brautu.
Vilkat Viðris bálkar
vinnendr snara finna.
Hnekki eg frá þar er flokkar
fara Þóris mjög stórir.
Þeir riðu nú sem hvatast vestur af og fram um bæinn í Garði áður en Þórir kom af fjallinu með flokk sinn. Og er þeir komu nærri bænum kom maður í för þeirra. Sá kenndi þá ekki. Þeir sjá að kona stóð úti, ung og skrautbúin. Grettir spurði hver kona sú mundi vera. Sá hinn nýkomni maður sagði að það væri dóttir Þóris.
Þá kvað Grettir vísu:
Svinn mun segja kunna
Sól gullinna stóla,
opt þótt eigi skipti
orð mín, föður þínum
hvar eg ríð um bæ breiðan,
barðjós, og nær garði,
láðskreytis er lítið
lið, með dreng hinn þriðja.
Af þessu þóttist sjá vita hinn nýkomni maður hverjir vera mundu og reið til byggðar og sagði að Grettir væri um riðinn.
En er Þórir kom heim þótti mörgum Grettir hafa vafið héðin að höfði þeim. Setti Þórir þá gíslingar fyrir Gretti hvar sem hann kæmi. Tók Grettir það til ráðs að hann sendi fylgdarmann sinn vestur á sveitir með hestana en hann fór upp til fjalla og var í dularkufli og fór svo norður þar öndverðan vetur svo að hann kenndist ekki.
Öllum þótti Þórir nú hafa fengið af slíkt eða verra en fyrr í þeirra viðskiptum.
64. kafli
Steinn hét prestur er bjó að Eyjardalsá í Bárðardal. Hann var búþegn góður og ríkur að fé. Kjartan hét son hans, röskur maður og vel á legg kominn.
Þorsteinn hvíti hét maður er bjó að Sandhaugum, suður frá Eyjardalsá. Steinvör hét kona hans, ung og glaðlát. Þau áttu börn og voru þau ung í þenna tíma. Þar þótti mönnum reimt mjög sakir tröllagangs.
Það bar til tveim vetrum fyrr en Grettir kom norður í sveitir að Steinvör húsfreyja að Sandhaugum fór til jólatíða til Eyjardalsár eftir vana en bóndi var heima. Lögðust menn niður til svefns um kveldið. Og um nóttina heyrðu menn brak mikið í skálann og til sængur bónda. Engi þorði upp að standa að forvitnast um því að þar var fámennt mjög. Húsfreyja kom heim um morguninn og var bóndi horfinn og vissi enginn hvað af honum varð orðið. Liðu svo hin næstu misseri.
En annan vetur eftir vildi húsfreyja fara til tíða. Bað hún húskarl sinn heima vera. Hann var tregur til en bað hana ráða. Fór þar allt á sömu leið sem fyrr að húskarl var horfinn. Þetta þótti mönnum undarlegt. Sáu menn þá blóðdrefjar nokkurar í útidyrum. Þóttust menn það vita að óvættir mundu hafa tekið þá báða. Þetta fréttist víða um sveitir.
Grettir hafði spurn af þessu og með því að honum var mjög lagið að koma af reimleikum eða afturgöngum þá gerði hann ferð sína til Bárðardals og kom aðfangadag jóla til Sandhauga. Hann duldist og nefndist Gestur. Húsfreyja sá að hann var furðu mikill vexti en heimafólk var furðu hrætt við hann. Hann beiddist þar gistingar.
Húsfreyja kvað honum mat til reiðu “en ábyrgst þig sjálfur.”
Hann kvað svo vera skyldu “mun eg vera heima,” segir hann, “en þú far til tíða ef þú vilt.”
Hún svarar: “Mér þykir þú hraustur ef þú þorir heima að vera.”
“Ei læt eg mér að einu getið,” sagði hann.
“Illt þykir mér heima að vera,” segir hún, “en ekki kemst eg yfir ána.”
“Eg skal fylgja þér yfir,” segir Gestur.
Síðan bjóst hún til tíða og dóttir hennar með henni, lítil vexti. Hláka mikil var úti og áin í leysingum. Voru á henni jakaför.
Þá mælti húsfreyja: “Ófært er yfir ána bæði mönnum og hestum.”
“Vöð munu á vera,” kvað Gestur, “og verið ekki hræddar.”
“Ber þú fyrst meyna,” kvað húsfreyja, “hún er léttari.”
“Ekki nenni eg að gera tvær ferðir að þessu,” segir Gestur, “og mun eg bera ykkur á handlegg mér.”
Hún signdi sig og mælti: “Þetta er ófæra eða hvað gerir þú þá af meynni?”
“Sjá mun eg ráð til þess,” segir hann og greip þær upp báðar og setti hina yngri í kné móður sinnar og bar þær svo á vinstra armlegg sér en hafði lausa hina hægri hönd og óð svo út á vaðið. Eigi þorðu þær að æpa, svo voru þær hræddar. En áin skall þegar upp á brjósti honum. Þá rak að honum jaka mikinn en hann skaut við hendi þeirri er laus var og hratt frá sér. Gerði þá svo djúpt að strauminn braut á öxlinni. Óð hann sterklega þar til er hann kom að bakkanum öðrumegin og fleygir þeim á land.
Síðan sneri hann aftur og var þá hálfrökkvað er hann kom heim til Sandhauga og kallaði til matar. Og er hann var mettur bað hann heimafólk fara innar í stofu. Hann tók þá borð og lausa viðu og rak um þvera stofuna og gerði bálk mikinn svo að engi heimamaður komst fram yfir. Enginn þorði í móti honum að mæla og í öngum skyldi kretta. Gengið var í hliðvegginn stofunnar inn við gaflhlaðið og þar þverpallur hjá. Þar lagðist Gestur niður og fór ekki af klæðunum. Ljós brann í stofunni gegnt dyrum. Liggur Gestur svo fram á nóttina.
Húsfreyja kom til Eyjardalsár til tíða og undruðu menn um ferðir hennar yfir ána. Hún sagðist eigi vita hvort hana hefði yfir flutt maður eða tröll.
Prestur kvað mann víst vera mundu “þó að fárra maki sé og látum hljótt yfir,” sagði hann. “Má vera að hann sé ætlaður til að vinna bót á vandræðum þínum.”
Var húsfreyja þar um nóttina.
65. kafli
Nú er frá Gretti það að segja að þá er dró að miðri nótt heyrði hann út dynur miklar. Því næst kom inn í stofuna tröllkona mikil. Hún hafði í hendi trog en annarri skálm heldur mikla. Hún litast um er hún kom inn og sá hvar Gestur lá og hljóp að honum en hann upp í móti og réðust á grimmlega og sóttust lengi í stofunni. Hún var sterkari en hann fór undan kænlega en allt það sem fyrir þeim varð brutu þau, jafnvel þverþilið undan stofunni. Hún dró hann fram yfir dyrnar og svo í anddyrið. Þar tók hann fast í móti. Hún vildi draga hann út úr bænum en það varð eigi fyrr en þau leystu frá allan útidyraumbúninginn og báru hann út á herðum sér. Þæfði hún þá ofan til árinnar og allt fram að gljúfrum. Þá var Gestur ákaflega móður en þó varð annaðhvort að gera að herða sig ella mundi hún steypa honum í gljúfrin. Alla nóttina sóttust þau. Eigi þóttist hann hafa fengist við þvílíkan ófagnað fyrir afls sakir. Hún hafði haldið honum svo fast að sér að hann mátti hvorigri hendi taka til nokkurs utan hann hélt um hana miðja, kvinnuna. Og er þau komu á árgljúfrið bregður hann flagðkonunni til sveiflu. Í því varð honum laus hin hægri hendi. Hann þreif þá skjótt til saxins er hann var gyrður með og bregður því, höggur þá á öxl tröllinu svo að af tók höndina hægri og svo varð hann laus en hún steyptist í gljúfrin og svo í fossinn.
Gesturinn var þá bæði stirður og móður og lá þar lengi á hamrinum. Gekk hann þá heim er lýsa tók og lagðist í rekkju. Hann var allur þrútinn og blár.
Og er húsfreyja kom frá tíðum þótti henni heldur raskað um híbýli sín. Gekk hún þá til Gests og spurði hvað til hefði borið er allt var brotið og bælt. Hann sagði allt sem farið hafði. Henni þótti mikils um vert og spurði hver hann var. Hann sagði þá til hið sanna og bað sækja prest og kvaðst vildu finna hann. Var og svo gert.
En er Steinn prestur kom til Sandhauga varð hann brátt þess vís að þar var kominn Grettir Ásmundarson er Gestur nefndist. Prestur spurði hvað hann ætlaði af þeim mönnum mundi vera orðið er þar höfðu horfið. Grettir kvaðst ætla að í gljúfrin mundu þeir hafa horfið. Prestur kvaðst ei kunna að leggja trúnað á sagnir hans ef engi merki mætti til sjá. Grettir segir að síðar vissu þeir það gerr. Fór prestur heim. Grettir lá í rekkju margar nætur. Húsfreyja gerði við hann harðla vel. Og leið svo af jólin.
Þetta er sögn Grettis að tröllkonan steyptist í gljúfrin niður er hún fékk sárið, en Bárðardalsmenn segja að hana dagaði uppi þá er þau glímdu, sprungið þá að hann hjó af henni höndina og standi þar enn í konulíking á bjarginu. Þeir dalbúarnir leyndu þar Gretti um veturinn.
Eftir jól var það einn dag að Grettir fór til Eyjardalsár og er þeir Grettir fundust og prestur mælti Grettir: “Sé eg það prestur,” segir hann, “að þú leggur lítinn trúnað á sagnir mínar. Nú vil eg að þú farir með mér til árinnar og sjáir hver líkindi þér þykir á vera.”
Prestur gerði svo. En er þeir komu til fossins sáu þeir skúta upp undir bergið. Það var meitilberg svo mikið að hvergi mátti upp komast og nær tíu faðma ofan að vatninu. Þeir höfðu festi með sér.
Þá mælti prestur: “Langt um ófært sýnist mér þér niður að fara.”
Grettir svarar: “Fært er víst en þeim mun best, þeir sem ágætismenn eru. Mun eg forvitnast hvað í fossinum er en þú skalt geyma festar.”
Prestur bað hann ráða og keyrði niður hæl á berginu og bar að grjót.
66. kafli
Nú er frá Gretti að segja að hann lætur stein í festaraugað og lét svo síga ofan að vatninu.
“Hvern veg ætlar þú nú,” segir prestur, “að fara?”
“Ekki vil eg vera bundinn,” segir Grettir, “þá er eg kem í fossinn. Svo boðar mér hugur um.”
Eftir það bjó hann sig til ferðar og var fáklæddur og gyrti sig með saxinu en hafði ekki fleiri vopn. Síðan hljóp hann af bjarginu og niður í fossinn. Sá prestur í iljar honum og vissi síðan aldrei hvað af honum varð. Grettir kafaði undir fossinn og var það torvelt því að iða var mikil og varð hann allt til grunns að kafa áður en hann kæmist upp undir fossinn. Þar var forberg mikið og komst hann inn þar upp á. Þar var hellir mikill undir fossinum og féll áin fram af berginu.
Hann gekk þá inn í hellinn og var þar eldur mikill á bröndum. Grettir sá að þar lá jötunn ógurlega mikill. Hann var hræðilegur að sjá. En er Grettir kom að honum hljóp jötunninn upp og greip flein einn og hjó til þess er kominn var því að bæði mátti höggva og leggja með því. Tréskaft var í. Það kölluðu menn þá heftisax er þann veg var gert. Grettir hjó á móti með saxinu og kom á skaftið svo að í sundur tók. Jötunninn vildi þá seilast á bak sér aftur til sverðs er þar hékk í hellinum. Í því hjó Grettir framan á brjóstið svo að nálega tók af alla bringspalina og kviðinn svo að iðrin steyptust úr honum ofan í ána og keyrði þau ofan eftir ánni.
Og er prestur sat við festina sá hann að slyðrur nokkurar rak ofan eftir strengnum, blóðugar allar. Hann varð þá laus á velli og þóttist nú vita að Grettir mundi dauður vera. Hljóp hann þá frá festarhaldinu og fór heim. Var þá komið að kveldi og sagði víslega að Grettir væri dauður og sagði að mikill skaði væri eftir þvílíkan mann.
Nú er frá Gretti að segja. Hann lét skammt höggva í milli þar til er jötunninn dó. Gekk Grettir þá innar eftir hellinum. Hann kveikti ljós og kannaði hellinn. Ekki er frá því sagt hversu mikið fé hann fékk í hellinum en það ætla menn að verið hafi mikið. Dvaldist honum þar fram á nóttina. Hann fann þar tveggja manna bein og bar þau í belg einn. Leitaði hann þá úr hellinum og lagðist til festarinnar og hristi hana og ætlaði að prestur mundi þar vera. En er hann vissi að prestur var heim farinn varð hann þá að handstyrkja sig upp festina og komst hann svo upp á bjargið.
Fór hann þá heim til Eyjardalsár og kom í forkirkju belgnum þeim sem beinin voru í og með rúnakefli því er vísur þessar voru forkunnlega vel á ristnar:
Gekk eg í gljúfr hið dökkva,
gein veltiflug steina
við hjörgæði hríðar
hlunns úrsvölum munni.
Fast lá framan að brjósti
flugstraumr í sal Naumu.
Heldr kom á herðar skáldi
hörð fjón Braga kvonar.
Og enn þessi:
Ljótr kom mér í móti
mellu vinr úr helli.
Hann fékkst heldr að sönnu
harðfengr við mig lengi.
Harðeggjað lét eg höggvið
heptisax af skepti.
Gangs klauf brjóst og bringu
bjartr gunnlogi svarta.
Þar sagði svo að Grettir hafi bein þessi úr hellinum haft. En er prestur kom til kirkju um morguninn fann hann keflið og það sem fylgdi og las rúnirnar. En Grettir hafði farið heim til Sandhauga.
67. kafli
En þá er prestur fann Gretti spurði hann innilega eftir atburðum en hann sagði alla sögu um ferð sína og kvað prest ótrúlega hafa haldið festinni. Prestur lét það á sannast. Þóttust menn það vita að þessar óvættir mundu valdið hafa mannahvörfum þar í dalnum. Varð og aldrei mein af afturgöngum eða reimleikum þar í dalnum síðan. Þótti Grettir þar gert hafa mikla landhreinsan. Prestur jarðaði bein þessi í kirkjugarði.
Grettir var síðan á Sandhaugum um veturinn. og duldist þó fyrir alþýðu manna. En er Þórir í Garði hafði af pata nokkurn að Grettir væri í Bárðardal, þá setti hann menn til höfuðs honum. Réðu menn honum þá að hann skyldi á burt leita og fór hann þá vestur.
En er hann kom á Möðruvöllu til Guðmundar hins ríka, beiddi hann þá Guðmund ásjá en hann kvað sér ekki hent við honum að taka “en sá einn er þér,” sagði Guðmundur, “að koma þér þar nokkur sem þú mættir vera óhræddur um líf þitt.”
Grettir kvaðst eigi vita hvar það væri.
Guðmundur mælti: “Ey sú liggur á Skagafirði er heitir Drangey. Hún er svo gott vígi að hvergi má komast upp á hana nema stigar séu við látnir. Gætir þú þangað komist þá veit eg eigi þess manns von er þig sæki þangað með vopnum eða vélum ef þú gætir vel stigans.”
“Reynt skal þetta vera,” segir Grettir, “en svo gerist eg myrkfælinn að það má eg ekki til lífs vinna mér að vera einn saman.”
Guðmundur mælti: “Vera má að svo sé en trú þú öngum svo vel að þú trúir eigi best sjálfum þér. En vandsénir eru margir.”
Grettir þakkaði honum heilræði. Fór hann þá burt af Möðruvöllum.
Hann létti ei fyrr en hann kom til Bjargs. Móðir hans fagnaði honum vel og þau Illugi bæði. Dvaldist hann þar nokkurar nætur. Þar frétti hann víg Þorsteins Kuggasonar. Hafði það orðið um haustið áður en Grettir fór til Bárðardals. Þótti honum nú taka mjög um að höggast.
Reið Grettir þá suður Holtavörðuheiði og ætlaði að hefna Hallmundar ef hann hitti Grím. En er hann kom í Norðurárdal frétti hann að Grímur var fyrir tveimur vetrum eða þremur á burt þaðan sem fyrr var sagt. En því hafði Grettir svo seint spurt þessi tíðindi að hann fór huldu höfði þá tvo vetur og þann hinn þriðja sem hann var í Þórisdal og hafði öngva menn fundið þá er honum vildu nokkurar fréttir segja.
Sneri hann þá til Breiðafjarðardala og sætti þeim mönnum er fóru yfir Brattabrekku. Lét hann þá enn sópa greipur um eignir smábænda. Það var um hásumarsskeið.
Þetta sumar er á leið fæddi Steinvör að Sandhaugum sveinbarn og hét Skeggi. Hann var fyrst kenndur Kjartani syni Steins prests að Eyjardalsá. Skeggi var ólíkur öðrum systkinum sínum fyrir sakir afls og vaxtar. En þá er hann var fimmtán vetra var hann sterkastur norður þar og var þá eignaður Gretti. Hugðu menn að hann mundi afbragðsmaður verða en hann andaðist sextán vetra og er engi saga af honum.
68. kafli
Eftir víg Þorsteins Kuggasonar lagði Snorri goði fæð mikla á þá Þórodd son sinn og Sám son Barkar hins digra, en það er ei greint hvað þeir höfðu helst til saka utan það að þeir hafi eigi viljað gera eitthvert stórvirki það er Snorri lagði fyrir þá. Og því rak Snorri goði Þórodd burt frá sér og bað hann eigi fyrr aftur koma en hann hefði drepið einnhvern skógarmann og svo varð að vera. Fór Þóroddur þá yfir til Dala.
Þá bjó á Breiðabólstað í Sökkólfsdal ekkja sú er Geirlaug hét. Hún hélt smalamann þann sem sekur var orðinn um áverkamál. Hann var frumvaxta piltungur. Það frétti Þóroddur Snorrason og reið á Breiðabólstað. Hann spurði hvar smalamaður væri.
Húsfreyja kvað hann vera hjá fé “eða hvað viltu honum?”
“Eg skal hafa líf hans,” segir Þóroddur, “því að hann er sekur skógarmaður.”
Hún svarar: “Það er þér engi frami að drepa hann, veslinginn, slíkur ofurgarpur sem þú þykist vera. Mun eg vísa þér til meira þrekvirkis ef þér er mikill hugur á að reyna þig.”
“Hvert er það?” segir hann.
Hún svarar: “Hér upp í fjallinu liggur Grettir Ásmundarson. Fást þú við hann. Það er meir við þitt hæfi.”
Þóroddur tók vel máli þessu “og skal svo vera.”
Keyrði hann þá hestinn sporum og reið upp eftir dalnum. Og er hann kom á hæðirnar fyrir neðan Austurá sá hann hvar var ljósbleikur hestur með söðli. Hann sá þar og mikinn mann með vopnum og sneri þegar til móts við hann. Grettir heilsaði honum og spurði hver hann væri.
Þóroddur nefndi sig og mælti: “Hví spyrð þú mig eigi heldur að erindum mínum en nafni?”
“Því,” sagði Grettir, “að þau ein munu vera að lítið mun til koma eða ertu son Snorra goða?”
“Svo er og víst,” segir Þóroddur, “en þó skal nú reyna hvor okkar meira má.”
“Auðvitað er það,” sagði Grettir. “Eða hefir þú eigi frétt það að eg hefi orðið lítil heillaþúfa um að þreifa flestum mönnum?”
“Veit eg það,” segir Þóroddur, “en þó skal nú nokkuð til voga” og brá sverði og sótti að Gretti með ákefð en hann hlífði sér með skildi en ekki bar hann vopn á Þórodd og fór svo um stund. Ekki varð hann sár.
Grettir mælti þá: “Látum við af þessum leik því að öngan sigur muntu fá í okkrum viðskiptum.”
Þóroddur hjó þá sem tíðast.
Grettir leiddist við hann að fást. Þreif hann til Þórodds og setti hann niður hjá sér og mælti: “Alls á eg kosti við þig gera það sem eg vil og ekki hræðist eg að þú verðir mér að bana en hræðist eg hærukollinn Snorra goða föður þinn og ráð hans. Þau hafa flestum á kné komið. Og skyldir þú ætla þér það er þú gætir orkað. En ekki er það barnafæri að berjast við mig.”
En er Þóroddur sá að hann kom öngu fram sefaðist hann heldur og skildu þeir við það. Reið Þóroddur heim í Tungu og sagði föður sínum sameign þeirra Grettis.
Snorri goði brosti að og mælti: “Margur er dulinn að sér og varð ykkar mikill mannamunur. Þú hjóst upp á hann en hann mátti gera við þig hvað er hann vildi. En þó gerði Grettir viturlega er hann drap þig eigi því að eg mundi eigi nennt hafa að þín væri óhefnt. Skal eg heldur leggja honum til liðs ef eg verð við staddur hans mál.”
Fannst það mjög að Snorra að honum þótti Grettir vel hafa gert við Þórodd og var jafnan vin hans síðan í tillögum sínum.
69. kafli
Grettir reið norður til Bjargs litlu síðar en þeir Þóroddur skildu og duldist þar enn um stundar sakir. Þá gerðist svo mikið bragð að myrkfælni hans að hann þorði hvergi að fara þegar er rökkva tók. Móðir hans bauð honum þar að vera en kvaðst þó sjá að það mundi honum eigi duga fyrir þann skuld að hann átti sökótt um allt landið.
Grettir kvað hana öngvar ónáðir af sér skyldu hafa “en eigi mun eg það lengur til lífs mér vinna,” segir hann, “að vera einn saman.”
Illugi bróðir hans var þá fimmtán vetra gamall og allra manna gervilegastur. Hann var hjá viðtali þeirra. Grettir sagði móður sinni hvað Guðmundur hinn ríki hafði ráðið honum og lést mundu leita ef kostur væri að komast í Drangey en þó kvaðst hann eigi þar vera mega nema hann fengi einnhvern dygðarmann að vera hjá sér.
Þá mælti Illugi: “Eg mun fara með þér bróðir en eigi veit eg að þér sé fylgd í mér utan það að trúr mun eg þér vera og eigi renna frá þér meðan þú stendur uppi og gerr veit eg hvað um þig líður ef eg fylgi þér.”
Grettir svarar: “Þú ert svo manna að mér er mest gleði að og ef móður minni væri ei í móti skapi vildi eg gjarna að þú færir með mér.”
Ásdís mælti þá: “Er svo nú komið að eg sé að tvennum vandræðum gegnir. Eg þykist ekki Illuga missa mega en eg veit að svo mikil atkvæði eru að um hagi Grettis að hann verður eitthvert úr að ráða. En þó að mér þyki mikið fyrir að sjá á bak ykkur báðum sonum mínum þá vil eg það þó til vinna ef Grettir væri þá nær en áður.”
Illugi varð glaður við þetta því að hann hugði gott til að fara með Gretti. Hún fékk þeim lausafé mikið. Bjuggust þeir þá til ferðar.
Leiddi Ásdís þá frá garði og áður en þau skildu mælti hún svo: “Nú farið þið þar synir mínir tveir og mun ykkur samdauði verða tregast og má enginn renna undan því sem honum er skapað. Mun eg hvorigan ykkarn sjá sinni síðan. Látið nú eitt yfir ykkur ganga. En eigi veit eg hverja heill þið sækið þangað í Drangey en þar munuð þið beinin bera og margir munu þar fyrirmuna ykkur þarvistar. Sjáið þið vel fyrir svikum. En vopnbitnir munuð þið verða. En undarlega hafa mér draumar gengið. Gæt ykkar vel við gerningum. Fátt er rammara en forneskjan.”
En er hún hafði þetta mælt grét hún mjög.
Þá mælti Grettir: “Grát þú eigi móðir. Það skal sagt að þú hafir sonu átt en eigi dætur ef við erum með vopnum sóttir. Og lif vel og heil.”
Eftir það skildu þau.
Þeir fóru nú norður um sveitir og hittu frændur sína. Dvöldust svo á haust fram til vetrar. Þá sneru þeir til Skagafjarðar og fóru norður Vatnsskarð og svo til Reykjaskarðs og svo ofan Sæmundarhlíð og svo á Langholt. Þeir komu til Glaumbæjar að áliðnum degi. Grettir hafði kastað hetti sínum á öxl sér. Svo gekk hann jafnan úti hvort sem var betra eða verra.
Þaðan fóru þeir og er þeir komu skammt á veg kom maður til móts við þá, höfuðmikill, hár og mjór og illa klæddur. Hann heilsaði þeim og spurðu hvorir aðra að nafni. Þeir sögðu til sín en hann nefndist Þorbjörn. Hann var einhleypur maður og nennti ekki að vinna og skrumaði mikið og var hent að honum gaman mikið eða dáruskapur af sumum mönnum. Hann gerði sér við þá dælt og sagði mart ofan úr héraði frá byggðarlagsmönnum. Gretti þótti gaman mikið að honum.
Hann spurði hvort þeir þættust ekki þurfa þess manns er starfaði fyrir þeim “vildi eg gjarna fara með ykkur,” segir hann.
Svo fékk hann um talað að þeir létu hann fylgja sér. Var fjúkanda mjög og kalt. En með því að þessi maður var umfangsmikill og hinn mesti gárungur átti hann kenningarnafn og var kallaður glaumur.
“Mikið fannst þeim í Glaumbæ er þú gekkst þar heim hettulaus í því illviðri,” sagði Glaumur, “hvort þú mundir því hraustari sem þú varst ókulvísari. En hér voru bóndasynir tveir, afburðarmenn allmiklir, og kvaddi sauðamaður þá til fjár með sér og þóttust varla geta klætt sig fyrir kulda.”
Grettir sá einn ungan mann inn í dyrum og dró þar á sig vöttur sína en annar gekk á milli fjóss og haugs “og mun eg hvorigan þeirra hræðast.”
Eftir það fóru þeir ofan til Reyniness og voru þar um nóttina. Þaðan fóru þeir út á ströndina til þess bæjar er að Reykjum hét. Þar bjó sá maður er Þorvaldur hét og var góður bóndi. Bað Grettir hann ásjá og sagði honum fyrirætlan sína að hann vildi komast út í Drangey. Bóndi sagði að Skagfirðingum mundi það þykja engi vinsending og taldist undan. Grettir tók þá fésjóð er móðir hans hafði gefið honum og fékk bónda. Hann varð léttbrýnn við féið og fékk til húskarla sína þá að flytja þá um nóttina í tunglsljósi. Frá Reykjum er skemmst til eyjarinnar og er það vika sjós.
En er þeir komu í eyna þótti Gretti þar gott um að litast því að hún var grasi vaxin en sjábrött svo að hvergi mátti upp á komast nema þar sem stigarnir voru við látnir og ef upp var dreginn hinn efri stiginn þá var það einskis manns færleikur að komast á eyna. Þar var þá og fuglberg mikið á sumrum. Þar var þá átta tigir sauða í eynni er bændur áttu. Það voru mest hrútar og ær er þeir ætluðu til skurðar. Settist Grettir þar nú kyrrt. Þá hafði hann fimmtán vetur eða sextán í sekt verið að því sem Sturla Þórðarson hefir sagt.
70. kafli
Þá er Grettir kom í Drangey voru þessir héraðshöfðingjar í Skagafirði.
Hjalti bjó að Hofi í Hjaltadal, son Þórðar Hjaltasonar, Þórðarsonar skálps. Hjalti var höfðingi og göfugmenni mikið og vinsæll. Þorbjörn öngull hét bróðir hans. Hann var mikill maður og sterkur og harðfengur og ódæll. Þórður faðir þeirra hafði kvongast í elli sinni og var sú kona ekki móðir þeirra bræðra. Hún var illa til stjúpbarna sinna og verst til Þorbjarnar því að hann var illfengur og ófyrirleitinn.
Það var eitt sinn að Þorbjörn öngull sat að tafli. Þá gekk stjúpmóðir hans hjá og sá að hann tefldi hnettafl. Það var stórt halatafl. Henni þótti hann óþrifinn og kastaði að honum nokkurum orðum en hann svarar illa. Hún greip þá upp töflina og setti halann á kinnbein Þorbirni og hljóp af í augað svo að úti lá á kinninni. Hann hljóp upp og þreif til hennar óþyrmilega svo að hún lagðist í rekkju af og af því dó hún síðan og sögðu menn að hún hefði verið ólétt. Síðan varð hann mesti óeirðarmaður. Tók hann þá við fé sínu og bjó fyrst í Viðvík.
Halldór Þorgeirsson, Þórðarsonar frá Höfða, bjó að Hofi á Höfðaströnd. Hann átti Þórdísi Þórðardóttur systur þeirra bræðra Hjalta og Þorbjarnar önguls. Halldór var gildur bóndi og ríkur að fé.
Björn hét maður er bjó í Haganesi í Fljótum. Hann var vinur Halldórs að Hofi. Þessir veittust að hverju máli.
Tungu-Steinn hét maður er bjó á Steinsstöðum. Hann var Bjarnarson, Ófeigssonar þunnskeggs, Kráku-Hreiðarssonar, sonar þess er Eiríkur í Goðdölum gaf tunguna niður frá Skálamýri. Steinn var frægur maður.
Eiríkur hét maður son Hólmgöngu-Starra Eiríkssonar úr Goðdölum, Hróaldssonar, Geirmundarsonar örðigskeggja. Hann bjó að Hofi í Goðdölum. Þessir voru allir virðingamenn miklir.
Bræður tveir bjuggu þar sem heitir að Breiðá í Sléttahlíð og hét Þórður hvortveggi. Þeir voru rammir að afli og þó gæfir menn. Þeir áttu allir part í Drangey. Svo segja menn að eigi ættu færri menn í eynni en tuttugu og vildi engi sinn part öðrum selja. Þórðarsynir áttu mest í, því að þeir voru ríkastir.
71. kafli
Nú líður fram að sólhvörfum. Þá bjuggust bændur að sækja sláturfé sitt í eyna.
Þeir skipuðu skútu og fékk hver mann fyrir sig en sumir tvo. En er þeir komu nærri eyjunni sáu þeir þar menn á ferli. Það þótti þeim undarlegt og gátu það til að nokkurir menn mundu hafa brotið þar skip sitt og komist þar á land. Reru nú þar að sem stigarnir voru en hinir sem fyrir voru drógu upp stigana. Þá þótti bændum undarlega við bregða og kölluðu á þá og spurðu hverjir þar væru fyrir. Grettir nefndi sig og svo sína félaga. Bændur spurðu hver hann flutti út í eyna.
Grettir svarar: “Sá flutti mig sem farið átti og hendurnar hafði og meiri var minn vinur en yðvar.”
Bændur svöruðu: “Lát oss ná fé voru og far til lands með oss og haf frjálst það sem þú hefir niður lagt af fé voru.”
Grettir svarar: “Vel er það boðið en þó munu nú hvorir hafa það sem fengið hafa. Og er það skjótt að segja yður að héðan fer eg eigi nema eg sé dauður um dreginn. Ekki læt eg laust það sem eg hefi höndum á komið.”
Nú þögnuðu bændur og þótti mikill vogestur kominn í Drangey. Buðu þeir honum nú marga kosti, bæði með fégjöfum og fögrum heitum, en Grettir neitti öllu og fóru bændur á burt við svo búið og undu illa við sinn hlut. Sögðu þeir héraðsmönnum hver vargur kominn var í eyna. Þetta kom mikið á þá óvara og þótti eigi hægt til aðgerða. Áttu þeir um þetta að tala um veturinn og gátu eigi ráð til séð að koma Gretti úr eyjunni.
72. kafli
Líður nú þar til er menn fara til Hegranessþings um vorið. Kom fjölmenni mikið úr öllum héruðum þeim sem menn áttu þangað að sækja. Sátu menn þar lengi á vorið bæði yfir málum og gleði því að þá var mart gleðimanna í héröðum.
En er Grettir spurði að alþýða manna var farin til þingsins hafði hann gert ráð við vini sína því að hann átti ávallt gott við þá sem næstir honum voru og sparði ekki við þá það sem hann fékk til. Hann sagði að hann vildi fara til lands til aðdrátta en þeir Illugi og Glaumur skyldu eftir vera. Óráðlegt þótti Illuga þetta vera en lét þó svo vera sem Grettir vildi. Hann bað þá geyma stigans og sagði þeim þar á liggja. Eftir það fór hann á land og aflaði það sem hann þóttist þurfa. Hann duldist nú hvar sem hann kom og varði öngvan að hann mundi á land kominn. Nú spurði hann af þinginu að þar var gleði mikil. Var Gretti forvitni á að koma til þingsins og tekur fornan búning, heldur vondan, og kemur svo á þingið að menn gengu frá lögréttu heim til búða.
Þá töluðu til sumir menn ungir að veður væri gott og fagurt og sé gott ungum mönnum að hafa glímur og skemmtan. Þeir kváðu það allráðlegt. Fóru menn þá og settust niður fram frá búðunum. Gengu þeir Þórðarsynir mest fyrir skemmtan.
Þorbjörn öngull var uppvöðslumikill og ruddi fast til gleði. Varð hver til að fara sem hann vildi. Tók hann í herðar hverjum manni og hnykkti fram á völlinn. Nú glímdu fyrst þeir sem ósterkastir voru og þá hver að öðrum og gerðist af þessu gleði mikil.
En er flestir höfðu glímt nema þeir sem sterkastir voru áttu bændur um að tala hver til mundi verða að taka á öðrum hvorum þeirra Þórðanna er fyrr voru nefndir en þar varð enginn til. Þeir gengu þá fyrir ýmsa menn og buðu sig fram en því firr fór sem nær kallaði.
Þorbjörn öngull litast þá um og sá hvar maður sat, mikill vexti, og sá óglöggt í andlit honum. Þorbjörn þreif til hans og kippti honum fast. Hann sat kyrr og bifðist hvergi.
Þá mælti Þorbjörn: “Enginn hefir setið jafnfast fyrir mér í dag sem þú eða hver er þessi maður?”
Hann svarar: “Gestur heiti eg.”
Þorbjörn mælti: “Þú munt vilja skemmta nokkuru og ertu aufúsugestur.”
Hann svarar: “Skjótt þykir mér mart skipast kunna og mun eg ekki hlaupa í leik með yður en mér er allt ókunnigt fyrir.”
Töluðu þá margir að hann væri góðs fyrir verður ef hann vildi skemmta mönnum nokkuru, ókunnur maður. Hann spurði hvers þeir beiddu hann. Þeir báðu hann glíma við einnhvern.
Hann kvaðst niður hafa lagt að rjá “en gaman þótti mér að því um skeið.”
En er hann afneitti eigi með öllu báðu þeir hann því meir.
Hann mælti: “Ef yður þykir undir um að eg sé dreginn þá munuð þér það til vinna að handsala mér grið hér á þinginu og þar til sem eg kem til heimilis míns.”
Þá þutu upp allir og kváðust það gjarna vilja. Hafur hét sá maður er mest fýsti að þessum manni væru grið gefin. Hann var Þórarinsson, Hafurssonar, Þórðarsonar hnapps er land hafði numið upp frá Stíflu í Fljótum til Tunguár. Hann bjó á Hnappsstöðum og var orðamaður mikill. Hann sagði fyrir griðum með mikilli röksemd og er þetta upphaf á:
“Hér set eg grið,” segir hann, “allra manna á millum, einkanlega þeim sama Gest til nefndum er hér situr, og að undir skildum öllum goðorðsmönnum og gildum bændum og allrar alþýðu vígra manna og vopnfærra og allir aðrir héraðsmenn í Hegranessþingi eða hvaðan sem hvorir eru að komnir, nefndra manna eða ónefndra, handsölum grið og fullan frið komumanni hinum ókunna er Gestur nefnist, til gamans, glímu og gleði allrar, til hérvistar og heimferðar hvort er hann þarf að fara á legi eða landi eða flutningi. Skal hann hafa grið í öllum stöðum, nefndum og ónefndum, svo lengi sem hann þarf til heillar heimkomu að höldnum tryggðum. Set eg þessi grið fyrir oss og vora frændur, vini og venslamenn, svo konur sem karla, þýjar og þræla, sveina og sjálfráða menn. Sé sá griðníðingur er griðin rýfur eða tryggðum spillir, rækur og rekinn frá guði og góðum mönnum, úr himinríki og frá öllum helgum mönnum og hvergi hæfur manna í milli, og svo frá öllum út flæmdur sem víðast varga reka eða kristnir menn kirkjur sækja, heiðnir menn hof blóta, eldur brennur, jörð grær, mælt barn móður kallar og móðir mög fæðir, aldir elda kynda, skip skríður, skildir blika, sól skín, snæ leggur, Finnur skríður, fura vex, valur flýgur vorlangan dag og standi honum beinn byr undir báða vængi, himinn hverfur, heimur er byggður og vindur veitir vötn til sjóvar, þrælar korni sá. Hann skal firrast kirkjur og kristna menn, heiðna hölda, hús og hella, heim hvern nema helvíti. Nú skulum vér vera sáttir og sammála hver við annan í huga góðum hvort sem vér finnumst á fjalli eða fjöru, skipi eða skíði, jörðu eða jökli, í hafi eða á hests baki, svo sem vin sinn í vatni finni eða bróður sinn á braut finni, jafnsáttir hver við annan sem sonur við föður eða faðir við son í samförum öllum. Nú leggjum vér hendur saman og allir vér og höldum vel griðin og öll orð töluð í tryggðum þessum að vitni guðs og góðra manna og allra þeirra er orð mín heyra eða nokkurir eru nær staddir.”
Tóku þá margir til orða að mikið var um mælt.
Gestur mælti þá: “Vel hefir þú um mælt og sagt ef þér spillið eigi um síðar. Skal eg nú ekki dvelja það sem eg hefi til fram að láta.”
Eftir það kastaði hann kuflinum og því næst öllum bolklæðum. Þá leit hver til annars og brá mjög vo fyrir grön. Þóttust þeir kenna að þetta var Grettir Ásmundarson því að hann var ólíkur öðrum mönnum fyrir vaxtar sakir og þrekleika og þögnuðu nú allir en Hafur þóttist ósvinnur orðinn. Gengu tveir og tveir saman af héraðsmönnum og ámælti hver öðrum en þeim mest er fyrir griðunum hafði sagt.
Þá mælti Grettir: “Gerið greiðlegt fyrir mér hvað yður býr í skapi því að ekki sit eg lengi klæðlaus. Eigið þér miklu meira í hættu en eg hvort þér haldið grið yður eða eigi.”
Þeir svöruðu fá og settust niður. Þórðarsynir og Halldór mágur þeirra tóku nú tal með sér. Vildu sumir halda griðin en sumir eigi. Hnippaði hver kolli að öðrum.
Grettir kvað vísu:
Dulist hefir margr í morgun
menja runnr við kunnan.
Renna víst á runna
ranns ímu tvær grímur.
Skotið mun heldr fyr hölda
hvassorða leikborði.
Öld bilar orð að halda.
Allt dró slafr af Hafri.
Þá mælti Tungu-Steinn: “Þykir þér svo vera Grettir eða hvað munu þeir af ráða, höfðingjarnir? En satt er það að þú ert afbragðsmaður fyrir hreysti sakir. Eða sérð þú eigi að hver þeirra kjáir nefinu að öðrum?”
Grettir kvað þá vísu:
Héldu Hlakkar tjalda
hefjendr saman nefjum
Hildar veggs og hjuggust
hregg-Nirðir til skeggjum
og geðstrangir gengu,
griða tóku að iðrast,
Sváfnis látrs í sveitir
sviptendr er mig kenndu.
Þá mælti Hjalti Þórðarson: “Ekki skal svo vera, segir hann. ”Halda skulum vér grið vor þó að vor hafi orðið hyggindismunur. Vil eg eigi að menn hafi það til eftirdæma að vér sjálfir höfum gengið á grið þau sem vér höfum sett og seld. Skal Grettir fara liðugur þangað sem hann vill og hafa grið til þess er hann kemur aftur úr þessari ferð. Eru þá úti þessi tryggðamál hvað sem í gerist með oss.“
Allir þökkuðu honum fyrir og þótti hann höfðinglega gera, slíkar sakir sem til voru. Þorbjörn öngull varð hljóður við.
Var þá talað til að annar hvor þeir Þórðanna mundi taka á Gretti en hann bað þá ráða. Nú gekk annar fram þeirra bræðra. Grettir stóð fyrir réttur en hinn hljóp að honum sem snarast og gekk Grettir hvergi úr sporum. Grettir seildist aftur yfir bak Þórði og tók svo í brækurnar og kippti upp fótunum og kastaði honum aftur yfir höfuð sér svo að hann kom að herðum niður og varð það allmikið fall. Þá mæltu menn að þeir skyldu fara til báðir bræðurnir senn og svo var gert. Þá urðu allmiklar sviptingar og máttu ýmsir betur en þó hafði Grettir ávallt annan hvorn undir en ýmsir fóru á kné eða fengu slyðrur fyrir öðrum. Svo tókust þeir fast á að hvervetna var blátt og blóðrisa. Öllum þótti að þessu hin mesta skemmtun.
Og er þeir hættu þökkuðu allir fyrir glímuna þeim og var það dómur þeirra er hjá sátu að þeir væru eigi sterkari tveir en Grettir einn en hvor þeirra hafði tveggja manna megin þeirra sem gildir voru. Þeir voru svo jafnsterkir að hvorgi bar af öðrum ef þeir reyndu með sér.
Grettir var ekki lengi á þinginu. Bændur báðu hann gefa upp eyna en hann neitti því og gátu bændur ekki að gert.
Grettir fór aftur til Drangeyjar og tók Illugi feginsamlega við honum. Settust þeir um kyrrt. Sagði Grettir þeim nú frá ferðum sínum. Leið nú fram á sumarið.
Öllum þótti Skagfirðingar mikinn drengskap sýnt hafa og hversu vel þeir héldu grið sín og má þá af slíku marka hverjir dygðarmenn þá voru, slíkar sakir sem Grettir hafði gert við þá.
Bændur þeir sem óríkari voru töluðu með sér að þeim væri lítið gagn að eiga lítinn part í Drangey og buðu nú að selja Þórðarsonum en Hjalti kvaðst eigi kaupa vilja. En bændur skildu það til að sá er kaupa vildi skyldi annaðhvort drepa Gretti eða koma honum burt. Þorbjörn öngull kvaðst eigi spara að bindast fyrir um atför við Gretti ef þeir vildu gefa honum fé til. Hjalti bróðir hans lagði af við hann sinn part í eyjunni því að Þorbjörn var þeirra harðfengari og óvinsæll. Svo gerðu þá fleiri bændur. Fékk Þorbjörn öngull þá mikinn hlut eyjarinnar með litlu verði en hann bast undir að koma Gretti á burtu.
73. kafli
Að áliðnu sumri fór Þorbjörn öngull með alskipaða skútu til Drangeyjar en þeir gengu fram á bjargið. Töluðust þeir þá við. Bað Þorbjörn Gretti gera fyrir orð sín að fara úr eyjunni. Grettir kvað þess öngva von.
Þorbjörn mælti: ”Vera má að eg megi gera þér þvílíkt liðsinni þótt þú gerðir þetta en nú hafa bændur margir lagt upp við mig það er þeir hafa átt í eynni.“
Grettir svarar: ”Nú kvaðstu það upp að eg er ráðinn enn til að ganga héðan aldrei er þú sagðist eiga mestan hlut eyjarinnar. Er það vel þó að við deilum kálið. En það var satt að mér þótti erfitt að hafa alla Skagfirðinga í móti mér en hér er hvorgi til sparandi því að við munum ekki kafna í vinsældum manna. Máttu vel af leggja ferðir þínar hingað því allt er um gert fyrir mér.“
”Sinnar stundar bíður hvað,“ sagði Þorbjörn, ”og muntu ills bíða.“
”Hætt mun á það verða,“ sagði Grettir og skildu við svo búið.
Fór Þorbjörn heim aftur.
74. kafli
Svo er sagt að þá er Grettir hafði tvo vetur verið í Drangey þá höfðu þeir skorið flest allt sauðfé það sem þar hafði verið. En einn hrút létu þeir lifa svo að getið sé. Hann var hösmögóttur að lit og hyrndur mjög. Að honum hentu þeir mikið gaman því að hann var svo spakur að hann stóð fyrir úti og rann eftir þeim þar sem þeir gengu. Hann gekk heim til skála á kveldin og gneri hornum sínum við hurðina.
Gott þótti þeim í eyjunni því að þar var gott til matar fyrir fugls sakir og eggja. En til eldiviðar var þar hneppst að afla og lét Grettir jafnan þrælinn kanna reka og rak þar oft kefli og bar þau heim til elda. Ekki þurftu þeir bræður að starfa utan að fara í bjarg þá er þeim líkaði.
Þrællinn tók að letjast mjög á starfanum. Gerðist hann nú möglunarsamur og ógeymnari en verið hafði. Hann skyldi geyma um eld hverja nótt og bauð Grettir mikinn varnað á því því að skip var ekki hjá þeim.
Nú bar svo til að eldur slokknaði fyrir þeim á einni nótt. Þá varð Grettir styggur við og kvað það maklegt að Glaumur væri hýddur. En hann, þrællinn, sagði illa ævi sína að liggja hér í útlegð en vera hraktur og barður ef nokkuð mistækist. Grettir spurði Illuga hvað þá væri til ráða. En hann kvaðst eigi annað sjá en þeir mundu þar verða að bíða til þess er skip bæri að.
Grettir sagði að þeim var blint til þess að ætla ”mun eg heldur hætta til hvort eg kemst til lands.“
”Mikið þykir mér það,“ segir Illugi, ”því að við erum upp gefnir ef þér verður nokkuð.“
”Ekki mun eg á sundi drukkna,“ sagði Grettir. ”En þó mun eg verr trúa þrælnum héðan frá svo mikið sem oss lá hér við.“
Það var vika sjóvar sem skemmst var til lands úr eyjunni.
75. kafli
Býst Grettir nú til sunds og hafði söluvoðarkufl og gyrður í brækur. Hann lét fitja saman fingurna. Veður var gott. Hann fór að áliðnum degi úr eyjunni. Allóvænlegt þótti Illuga um hans ferð.
Grettir lagðist nú inn á fjörðinn og var straumur með honum en kyrrt með öllu. Hann sótti fast sundið og kom inn til Reykjaness þá er sett var sólu. Hann gekk til bæjar að Reykjum og fór í laug því honum var orðið nokkuð kalt. Bakaðist hann lengi í lauginni um nóttina og fór síðan í stofu. Þar var mjög heitt því að eldur hafði verið um kveldið og var lítt rokin stofan. Hann var móður mjög og sofnaði fast. Lá hann þar allt á dag fram.
En er á leið morguninn stóðu heimamenn upp og komu konur tvær í stofu fyrst. Það var griðkona og dóttir bónda. Grettir var við svefn og höfðu fötin svarfast af honum ofan á gólfið. Þær sáu hvar maður lá og kenndu hann.
Þá mælti griðkona: ”Svo vil eg heil, systir, hér er kominn Grettir Ásmundarson og þykir mér raunar skammrifjamikill vera og liggur ber. En það þykir mér fádæmi hversu lítt hann er vaxinn niður og fer þetta eigi eftir gildleika hans öðrum.“
Bóndadóttir svarar: ”Því ber þér svo mart á góma? Og ertu eigi meðalfífla og vertu hljóð.“
”Eigi má eg hljóð vera um þetta, sæl systirin,“ segir griðkona, ”því að þessu hefði eg eigi trúað þó að nokkur hefði sagt mér.“
Fór hún nú yfir að honum og gægðist en stundum hljóp hún til bóndadóttur og skellti upp og hló.
Grettir heyrði hvað hún sagði. Og er hún hljóp enn yfir á gólfið greip hann til hennar og kvað vísu:
Váskeytt er far flásu.
Fár kann sverð í hári
æskiruðr fyr öðrum
örveðrs séa görva.
Veðja eg hins að hreðjar
hafit þeir en vér meiri
þótt éldraugar eigi
atgeira sin meiri.
Síðan svipti hann henni upp í pallinn en bóndadóttir hljóp fram. Þá kvað Grettir vísu:
Sverðlítinn kvað sæta,
saumskorða, mig orðinn.
Hrist hefir hreðja kvista
hælin satt að mæla.
Alllengi má ungum,
eyleggjar bíð Freyja,
lágr í læra skógi,
lotu, faxi mér vaxa.
Griðka æpti hástöfum en svo skildu þau að hún frýði eigi á Gretti um það er lauk.
Litlu síðar stóð hann upp og gekk til Þorvalds bónda og sagði honum til vandkvæða sinna og bað hann flytja sig út og gerði hann svo og léði skip og flutti hann út og þakkaði Grettir honum fyrir þenna drengskap.
En er það fréttist að Grettir hafði lagst viku sjóvar þótti öllum frábært, frækleikur hans bæði á sjá og landi.
Skagfirðingar ámæltu mjög Þorbirni öngli fyrir það er hann kom eigi Gretti burt úr Drangey og kváðust mundu aftur taka hver sinn part. Honum þótti sér óhægt um og bað þá vera góða í.
76. kafli
Þetta sumar kom skip út í Gönguskarðsósi. Þar var á sá maður á skipi er Hæringur hét. Hann var ungur maður og fær svo vel að hann kleif hvert bjarg. Hann fór til vistar með Þorbirni öngli og var þar fram á haust. Hann fýsti Þorbjörn mjög til að fara til Drangeyjar og kvaðst vildu sjá hvort hún væri svo mikið bjarg að hvergi mætti upp komast. Þorbjörn kvað hann eigi til einskis vinna skyldu ef hann kæmist upp á eyna og fengi veitt Gretti áverka eða drepið hann. Gerði hann þetta ágengilegt fyrir Hæringi.
Og eftir þetta fóru þeir til Drangeyjar og skutu honum, Austmanninum, upp í einhverjum stað og skyldi hann leynast að ef hann kæmist upp á eyna en þeir lögðu að stiganum og tóku tal við þá Gretti. Spurði Þorbjörn Gretti hvort hann ætlaði ekki úr eyjunni. Hann kveðst í öngu jafnráðinn.
”Mjög hefir þú á oss leikið,“ segir Þorbjörn, ”nær sem vér fáum þess hefnt en eigi uggir þú mart að þér.“
Lengi áttust þeir þetta við og kom ekki ásamt með þeim.
En frá Hæringi er það að segja að hann kleif aftur og fram um bjargið og fékk upp komist í einhverjum stað þar sem hvorki hefir maður farið áður né síðan. En er hann kom upp á bjargið sér hann hvar þeir bræður voru og horfðu baki við honum. Hugðist hann nú á skammri stundu að vinna bæði til fjár og frægðar. Þá varði einskis um hans ferðir því að þeir hugðu að hvergi mátti upp komast nema þar sem stigarnir voru. Grettir fékkst við þá Þorbjörn og skorti þar eigi tygileg orð af hvorumtveggja. Þá varð Illuga litið hjá sér og sá mann kominn mjög að þeim.
Hann mælti þá: ”Maður er hér kominn að okkur með reidda öxi og sýnist mér heldur ófriðlega láta.“
”Snú þú í móti honum þá,“ segir Grettir, ”en eg mun geyma stigans.“
Illugi réðst í móti Hæringi og er Austmaðurinn sá það sneri hann undan einhvers staðar eftir eyjunni. Illugi elti hann meðan eyin vannst og þegar hann kom fram á bjargið hljóp Hæringur þá ofan fyrir og brotnaði í honum hvert bein. Lauk hans ævi svo. Þar heitir Hæringshlaup síðan sem hann týndist.
Illugi kom aftur og spurði Grettir hversu hann hefði við þenna skilið er honum var ætlaður.
”Ekki vildi hann mér að hlíta,“ segir Illugi, ”að sjá ráð fyrir sér og braut hann bekrann ofan fyrir bjargið og biðji bændur fyrir honum sem hann sé dauður.“
Og er Öngull heyrði það bað hann þá burt leggja ”hefi eg nú farið tvær ferðir til móts við Gretti en eg mun eigi fara í þriðja sinn ef eg verð þá einskis vísari. En nú þykir mér meiri von að þeir megi sitja í Drangey fyrir mínum sökum. En það ætla eg að Grettir muni skemur sitja héðan af en hingað til.“
Nú fóru þeir heim. Þótti þessi ferð verri en hin fyrri og sat Grettir þenna vetur í Drangey og hittust þeir Þorbjörn ekki þann vetur.
Á þessum misserum andast Skafti lögmaður Þóroddsson. Var Gretti það skaði mikill því að hann hafði heitið að ganga fyrir um sýknu hans þegar Grettir hefði tuttugu vetur í sekt, en sjá var hinn nítjándi sektar hans er nú var frá sagt um hríð.
Um vorið andaðist Snorri goði og mart bar til tíðinda á þessum misserum það sem ekki kemur við þessa sögu.
77. kafli
Þetta sumar á alþingi töluðu frændur Grettis mart um sekt hans og þótti sumum sem hann hefði úti sekt sína ef hann hefði mikið af hinu tuttugasta ári. En þeir sem sakir áttu við hann vildu það eigi og kölluðu hann margt útlegðarverk gert hafa síðan og þótti sekt hans eiga að vera því lengur. Þá var nýr lögmaður tekinn, Steinn Þorgestsson, Steinssonar mjögsiglanda, Þórissonar haustmyrkurs. Móðir Steins lögmanns var Arnóra dóttir Þórðar gellis. Steinn var vitur maður. Hann var þá beiddur úrskurðar en hann bað þá rannsaka hvort það væri hið tuttugasta sumar síðan hann var sekur ger. En það varð svo.
Þá gekk að Þórir úr Garði og leitaði að færa í alla trega þá er mætti og gat hann fundið að Grettir hafði verið einn vetur út hér svo að hann var ósekur og urðu þá nítján vetur þeir sem hann hafði í sekt verið.
Þá sagði lögsögumaður að engi skyldi lengur í sekt vera en tuttugu vetur alls þó að hann gerði útlegðarverk í þeim tímum ”en fyrr mun eg öngvan úr sekt segja.“
Og af þessu eyddist sýkn að sinni en þótti nú að vísu ganga að hann mundi sýkn vera á öðru sumri.
Þetta líkaði illa Skagfirðingum ef Grettir kæmist úr sektinni, báðu nú Þorbjörn öngul gera annaðhvort, leggja aftur eyjuna eða drepa Gretti. En honum þótti vandi á höndum því að hann kunni eigi ráð til að vinna Gretti en vildi þó halda eyjunni. Leitaði hann allra bragða nú að stíga yfir Gretti, annaðhvort með harðfengi eða brögðum eða á hvern hátt er hann gæti það gert.
78. kafli
Fóstru átti Þorbjörn öngull er Þuríður hét. Hún var mjög gömul og til lítils fær að því er mönnum þótti. Hún hafði verið fjölkunnig mjög og margkunnig mjög þá er hún var ung og menn voru heiðnir. Nú þótti sem hún mundi öllu týnt hafa. En þó að kristni væri á landinu þá voru þó margir gneistar heiðnar eftir. Það hafði verið lög hér á landi að eigi var bannað að blóta á laun eða fremja aðra forneskju en varðaði fjörbaugssök ef opinbert yrði. Nú fór svo mörgum að gjörn var hönd á venju og það varð tamast sem í æskunni hafði numið. Og svo sem Þorbjörn öngull var þrotinn að ráðagerðum leitar hann þangað til trausts sem flestum þótti ólíklegast en það var til fóstru sinnar og spurði hvað þar væri til ráða að taka hjá henni.
Hún svarar: ”Nú þykir mér koma að því sem mælt er að margur fer í geitarhús ullar að biðja. En hvað mundi eg síður en þykjast fyrir héraðsmönnum öðrum en vera til einskis maður þegar að mikið reyndi til? Nú sé eg eigi að mér mætti firr um fara en þér þótt eg rísi varla úr rekkju. Ef þú vilt mín ráð hafa þá vil eg ráða hversu með er farið.“
Hann játaði því og kvað hana sér lengi heilráða verið hafa. Leið nú fram að tvímánuði sumars.
Það var einn veðurdag góðan að kerling mælti við Öngul: ”Nú er kyrrt veður og bjart. Vil eg nú að þú farir til Drangeyjar og troðir illsakir við Gretti. Mun eg fara með yður og vita hversu geymilega honum fara orð. Mun eg hafa eitthvað fyrir satt ef eg sé þá hversu heilladrjúgir þeir munu vera og mun eg þá mæla yfir þeim slíkum orðum sem mér líkar.“
Öngull svarar: ”Lest eg á ferðir til Drangeyjar því að jafnan er mér verra í hug þá eg fer í burt þaðan en þá eg kem.“
Þá mælti kerling: ”Ekki skal eg til leggja með þér ef þú lætur mig öngu ráða.“
”Eigi skal svo vera fóstra mín,“ segir hann, ”en það hefi eg mælt að eg vildi svo koma þar í þriðja sinni að eitthvert skapaðist að með oss.“
”Hætta verður á það,“ segir kerling, ”og muntu margt erfiði verða fyrir að hafa áður Grettir er við jörðu lagður og oft mun þér ósýnt um þykja hver þinn hluti verður og þungt muntu af fá um það er lýkur. En þó ertu svo undir bundinn að eitthvert verður úr að ráða.“
Eftir það lætur Þorbjörn öngull setja fram teinæring og sté þar á við tólfta mann. Kerling var í ferð með þeim. Tóku þeir róðrarleiði út til Drangeyjar. Og er þeir bræður sáu það gengu þeir fram að stiganum og tóku þeir enn að tala um mál sín og sagði Þorbjörn að hann var enn kominn að vitja þeirra mála ef Grettir vildi á burt fara og kvaðst enn leggja í léttan stað um fémissu og þarvist ef þeir skildu slysalaust.
Grettir kvaðst engi miðlunarmál á því hafa eða gera að fara þaðan ”hefi eg þetta oft sagt og þarf þetta eigi við mig að tala,“ segir hann. ”Munuð þér það að gera sem þér viljið en hér mun eg bíða þess sem að höndum kemur.“
Nú þóttist Þorbjörn sjá að hans erindi varð ekki að sinni og mælti: ”Vita þóttist eg við hverja heljarmenn að hér er um að eiga og það er líkast að líði nokkur dagur áður eg kem hér aftur.“
”Eigi tel eg það með skaða mínum þótt þú komir hér aldrei,“ segir Grettir.
Kerling lá aftur í skut og voru borin að henni klæði.
Hún hrærðist þá og mælti: ”Þessir menn munu vera hraustir og hamingjulausir. Verður yðvar mikill mannamunur. Þú býður þeim marga kosti góða en þeir neita öllum og fátt vísara til ills en kunna eiga gott að þiggja. Nú mæli eg það um við þig Grettir að þú sért heillum horfin, allri gift og gæfu, og allri vörn og visku, æ því meir sem þú lifir lengur. Vænti eg að þú eigir hér fá gleðidaga héðan frá en hingað til.“
Og er Grettir heyrði þetta brá honum mjög við og mælti hann: ”Hvað fjanda er á skipi með þeim?“
Illugi svarar: ”Það hygg eg að það sé kerlingin, fóstra Þorbjarnar.“
”Fussum þeirri gerningavætti,“ sagði Grettir, ”og var þar eigi hins verra eftir von og við engin orð hefir mér meir brugðið en þessi er hún mælti. Og það veit eg að af henni og hennar fjölkynngi leiðir mér nokkuð illt. Skal hún og eitthvert til mín hafa er hún hefir okkur heim sótt“ og þreif upp stein stundar mikinn og kastaði ofan á skipið og kom á fatahrúguna.
Það var þó lengra steinkast en Þorbjörn ætlaði að nokkur maður mundi kasta. Við það kom upp skrækur mikill. Hafði steinninn komið á þjólegg kerlingar svo að í sundur gekk.
Þá mælti Illugi: ”Ekki vildi eg að þú hefðir þetta gert.“
”Lasta þú eigi þetta,“ segir Grettir, ”en það uggir mig að of lítt hafi á komið því að eigi væri of goldið fyrir okkur báða þó að ein kerling komi fyrir okkur.“
”Hvað mun hún koma fyrir okkur?“ sagði Illugi, ”og lítið leggst þá fyrir okkur.“
Þorbjörn fór nú heim og varð ekki af kveðjum er þeir skildu.
Hann mælti þá við kerlingu: ”Nú fór sem mig varði að þú mundir litla sæmdarför fara til eyjarinnar. Hefir þú fengið örkuml en vér erum öngri sæmd að nær en áður og verðum að hafa bótalausa hverja svívirðing ofan á aðra.“
Hún svarar: ”Þetta mun upphaf óheilla þeirra og get eg að héðan af fari þeim heldur signanda. Kvíði eg eigi því ef eg lifi að eg geti eigi hefnt þessa atviks sem mér hefir gert verið.“
”Hugstigin þykir mér þú vera fóstra,“ sagði Þorbjörn.
Nú komu þau heim og lagðist kerling í rekkju og lá nær mánuð. Þá var saman runninn leggurinn er verr var. Tók hún þá á fætur að færast.
Mikinn hlátur gerðu menn að ferðum þeirra Þorbjarnar og kerlingar og þótti nú oft áleikur í viðskiptum þeirra Grettis, það fyrst á vorþingi um griðasöluna en í annað sinn þá Hæringur týndist og nú hið þriðja sinni er þjóleggur kerlingar brotnaði og varð hér ekki í móti leikið. Hafði Þorbjörn öngull mikla skapraun af þessum orðum.
79. kafli
Nú líður fram á haustið þar til að voru þrjár vikur til vetrar. Þá beiddi kerling að henni skyldi aka til sjóvar. Þorbjörn spurði hvað hún vildi.
”Lítið er erindið en þó má vera,“ segir hún, ”að það væri fyrirboðan stærri tíðinda.“
Nú var svo gert sem hún beiddi og er hún kom til strandar haltraði hún fram með sjónum svo sem henni væri vísað til. Þar lá fyrir henni rótartré svo mikið sem axlbyrður. Hún leit á tréið og bað þá snúa fyrir sér. Það var sem sviðið og gniðað öðrumegin. Hún lét telgja á lítinn flatveg þar gnúið var. Síðan tók hún hníf sinn og reist rúnir á rótinni og rauð í blóði sínu og kvað yfir galdra. Hún gekk öfug andsælis um tréið og hafði þar yfir mörg römm ummæli. Eftir það lætur hún hrinda trénu á sjó og mælti svo fyrir að það skyldi reka út til Drangeyjar ”og verði Gretti allt mein að.“
Þaðan fór hún heim í Viðvík. Eigi kvaðst Þorbjörn vita til hvers þetta kæmi. Kerling kvað hann vita síðar gerr. Vindur var utan eftir firði og hóf rót kerlingar í móti veðri og þótti fara eigi vonum seinna.
Nú sat Grettir í Drangey sem fyrr segir og þeir allir félagar og létu vel yfir sér. Annan dag eftir en kerling hafði tréið magnað gengu þeir Grettir ofan fyrir bjargið og leituðu að eldiviði. En er þeir komu vestur um eyna fundu þeir rótartré rekið upp.
Þá mælti Illugi: ”Þetta er mikill eldiviður frændi og berum heim.“
Grettir spyrnti við fæti sínum ”illt tré og af illum sent og skulum við annan eldivið hafa“ og kastaði út á sjá og bað hann Illuga varast að bera það heim ”því að það er sent okkur til óheilla.“
Eftir það fóru þeir til skála og gátu ekki um þetta fyrir þrælnum. Annan dag fundu þeir tréið og var þá nær stigunum en hinn fyrra dag. Rak Grettir það á sjá út og kvað það aldregi skyldu heim bera. Leið nú af sú nótt. Þá kom á hvasst veður með vætu og nenntu þeir ekki að hafa sig úti og báðu Glaum leita eldiviðar. Hann varð illa við og kvaðst kvaldur er hann skyldi kveljast úti í hverju illviðri. Hann fór ofan fyrir stigana og fann þar rót kerlingar og þóttist vel hafa gengið, þreif upp og stritaði heim til skála og kastaði niður og varð af dykur mikill. Það heyrði Grettir.
”Aflað hefir Glaumur nokkurs og skal eg fara út og sjá hvað það er“ og tekur upp bolöxi og gengur út.
Glaumur mælti þá: ”Fær þú eigi verr í sundur en eg hefi heim fært.“
Grettir varð skapfátt við þrælinn og tvíhenti öxina til rótarinnar og eigi geymdi hann hvað tré það var. Og jafnskjótt sem öxin kom við tréið snerist hún flöt og stökk af trénu og á fót Grettis hinn hægra fyrir ofan kné og svo að stóð í beini og var það sár mikið.
Þá leit hann á tréið og mælti: ”Sá varð nú drjúgari er verr vildi og mun þetta eigi eitt saman fara. Er hér nú komið það sama tré sem eg hefi út kastað tvo daga. Hefir þig nú Glaumur hent tvö slys, það annað að þú slökktir eld vorn og það að þú barst heim þetta óheillatré, en ef þig hendir hið þriðja slys þá verður það þinn bani og vor allra.“
Þá tók Illugi og batt um skeinu Grettis og blæddi lítt og svaf Grettir vel um nóttina og svo liðu þrjár nætur að engi kom verkur í sárið. En er þeir leystu til var skeinan saman hlaupin svo að nálega var gróin.
Illugi mælti þá: ”Það vil eg ætla að þér verði eigi langt mein að þessu sári.“
”Vel væri þá,“ segir Grettir, ”en undarlega hefir þetta til borið að hverju sem verður en hinn veg segir mér hugur um.“
80. kafli
Nú leggjast þeir niður um kveldið. Og er kom að miðri nótt braust Grettir um fast. Illugi spurði hví hann væri svo ókyrr.
Grettir sagði að honum gerðist illt í fætinum ”og þætti mér líkara að nokkuð litbrigði væri á.“
Kveiktu þeir þá ljós. Og er til var leyst sýndist fóturinn blásinn og kolblár en sárið var hlaupið í sundur og miklu illilegra en í fyrstu. Þar fylgdi mikill verkur svo að hann mátti hvergi kyrr þola og eigi kom honum svefn á augu.
Þá mælti Grettir: ”Svo skulum vér við búast sem krankleiki þessi sem eg hefi fengið mun eigi til einskis gera því að þetta eru gerningar og mun kerling ætla að hefna steinshöggsins.“
Illugi mælti þá: ”Sagði eg þér að eigi mundi gott fá af kerlingu þeirri.“
”Allt mun fyrir eitt koma,“ segir Grettir og kvað vísur fimm:
Oft nam sköpum að skipta
skjóma egg í rómu
þá er berserkja birkis
böð harða sjöt varðag.
Gildvið Hjarrandi handa,
Hristar vörðr, enn missti.
Björn lét brátt og Gunnar
báðir líf og náðir.
Enn kom eg einu sinni
út á breiðri Skútu
í Dyrhólmum, darra
drengir elskuðu lengi.
Bauð Torfi þá þýðum
þegn með stóru megni
þeyti þungra spjóta,
þarfr Vébrands arfi.
Svo varð skildr frá skáldi
skeleggr Mímis veggja
meiðr, þótt margir stæðu
menn að vopna sennu,
svo að ófær varð ára
endr af Grettis hendi
hlynr í hríðum benja.
Hest gaf hann mér að lesti.
Vítt frá eg Þorfinnr þætti
þegn sterkr svaðilsverka.
Aldrs kvaðst odd-bör skyldu,
Arnórs sonr, mér varna.
Áræði brast eyði
einlyndum, þótt mig fyndi
úti, orma setra,
einn, var eg eigi að beinni.
Gat eg fyr geira njótum
gætt því treysti eg mætti
viðr umsátum ýta,
aldrs, en það vara sjaldan.
Nú hefir gild með göldrum
gunnelda bör unnið,
römm eru ráð hin grimmu,
rein afgömul steina.
”Nú skulum vér vera varir um oss,“ segir Grettir, ”því að svo munu þau Þorbjörn öngull til ætla að eigi skuli þetta eitt saman fara. Vil eg Glaumur að þú gætir stiga hvern dag héðan í frá en dragir upp á kveldi og gerir þetta trúlega sem mikið liggi við. En ef þú svíkur okkur þá mun þér skammt til ills.“
Glaumur hét góðu um þetta. Nú tók að harðna veðrátta og gerði á landnyrðing mikinn með kulda. Grettir spurði hvert kveld hvort upp væri dreginn stiginn.
Glaumur mælti: ”Nú væri helst manna von mest. Eða mun nokkurum svo mikill hugur á að ná lífi þínu að það vilji til vinna að drepa sjálf an sig? Því að þessi veður eru langt um ófær. Og lokið ætla eg nú garpskapnum hinum mesta er þér þykir sem allt muni ykkur að bana.“
”Þú munt þig enn verr bera en hvor okkar,“ sagði Grettir, ”til hvers sem taka þarf. En þó skaltu nú geyma stigans þó að þú sért nauðigur.“
Ráku þeir hann út hvern morgun. Þoldi hann það illa.
Verkurinn tók að vaxa í skeinunni svo að blés upp allan fótinn og lærið tók þá að grafa bæði uppi og niðri og snerist um allt sárið svo að Grettir gerðist banvænn. Sat Illugi yfir honum nótt og dag svo að hann gaf að engu öðru gaum. Var þá liðið af annarri viku síðan Grettir skeindi sig.
81. kafli
Þorbjörn öngull sat nú heima í Viðvík og undi illa við er hann gat eigi unnið Gretti. Og þá er liðin var vel vika síðan er kerling hafði magnað rótina þá kemur hún að máli við Þorbjörn og spurði hvort hann ætlaði ekki að vitja Grettis.
Hann sagðist í öngu jafnráðinn sem því ”eða viltu finna hann fóstra?“ segir Þorbjörn.
”Eigi mun eg finna hann,“ segir kerling, ”en sent hefi eg honum kveðju mína og vænti eg þess að komið hafi til hans. Og það þykir mér ráð að þú bregðir við skjótt og farir fljótt í móts við hann ellegar mun þér eigi auðið verða að sigra hann.“
Þorbjörn svarar: ”Svo marga hrakför hefi eg þangað farið að þangað kem eg eigi. Er það ærið eitt að þau stórviðri ganga að hvergi er fært hver nauðsyn sem á er.“
Hún svarar: ”Allráðlaus ertu er þú sérð eigi bragð til þessa. Nú mun eg enn ráð þar til leggja. Far þú fyrst og afla þér til manna og ríð út til Hofs til Halldórs mágs þíns og tak þá ráð af honum. En ef eg ræð nokkuru um heilsufar Grettis, hvað má þá kalla örvænt að eg ráði vindblöku þeirri er á leikur um stundir?“
Þorbirni þótti verða mega að kerling sæi lengra en hann ætlaði og sendi þegar eftir mönnum upp í hérað. Voru þar skjót svör að öngvir þeir sem upp höfðu gefið sinn part vildu nokkurn létta undir leggja, kváðu að Þorbjörn skyldu hafa bæði eyjarhlut og atför við Gretti. Tungu- Steinn fékk honum fylgdarmenn sína tvo, Hjalti bróðir hans sendi honum þrjá menn, Eiríkur í Goðdölum sendi honum einn mann. Þá hafði hann heiman sex menn. Riðu þeir tólf úr Viðvík út til Hofs. Halldór bauð þeim þar að vera og spurði að erindum. Þorbjörn sagði af hið ljósasta. Halldór spurði hver þetta hefði ráðið. Hann sagði að fóstra hans fýsti hann mjög.
”Það mun eigi góðu reifa,“ sagði Halldór, ”því að hún er fjölkunnig en það er nú fyrirboðið.“
”Ekki má fyrir öllu sjá um það,“ segir Þorbjörn, ”en um skal nú lúka á einnhvern hátt ef eg má ráða. Eða hversu skal eg fara þess að eg komist í eyna?“
”Sjá þykist eg það,“ segir Halldór, ”að þú treystir einhverju en ei veit eg hversu gott það er. Nú ef þú vilt áfram halda þá far þú út í Haganes í Fljót til Bjarnar vinar míns. Hann á skútu góða. Seg honum orð mín að hann ljái þér skipið. Þaðan mun sigla mega inn til Drangeyjar, en ósýn líst mér ferð yður ef Grettir er ósjúkur og heill. Vitið þér það og víst, vinnið þér hann eigi með drengskap, að nóga á hann eftirmálsmenn. Drepið eigi Illuga ef þér megið annað. En sjá þykist eg að eigi mun allt kristilegt í þessum ráðum.“
Nú fékk Halldór þeim sex menn til ferðar. Hét einn Kár en annar Þorleifur, þriðji Brandur. Eigi voru nefndir fleiri. En þaðan fóru þeir átján út í Fljót og komu í Haganes og sögðu Birni orðsending Halldórs. Hann kvað það skylt hans vegna en sagðist ekki eiga Þorbirni vanlaunað en honum sýndist þetta óraferð og latti mjög. Ekki létust þeir aftur mundu hverfa, fóru til sjóvar og settu fram skipið og var þar reiðinn hjá í naustinu. Bjuggust þeir nú til siglingar. Öllum sýndist þeim ófært sem á landi stóðu.
Nú vinda þeir á. Tók skipið skjótan skrið og mikinn fram á fjörðinn. En svo sem þeir komu aðallega fram á fjörðinn og á djúpið hægðist veðrið svo að þótti aldrei of hvasst. Komu þeir um kveldið er rökkvað var inn til Drangeyjar.
82. kafli
Nú er frá því að segja að Grettir var svo sjúkur að hann mátti eigi á fætur standa. Sat Illugi yfir honum en Glaumur skyldi halda vörð. Hann hafði þá enn mörg orð í móti og kvað þeim svo þykja sem falla mundi fjör úr þeim þó að ekki bæri til. Nú fór hann út úr skálanum og allnauðigur.
Og er hann kom til stiganna mæltist hann við einn saman og sagði nú að hann skyldi eigi upp draga stigann. Tók hann nú að syfja mjög og lagðist niður og svaf allan daginn og allt þar til er Þorbjörn kom til eyjarinnar. Þeir sáu nú að stiginn var ekki upp dreginn.
Þá mælti Þorbjörn: ”Brugðið er nú lagi,“ segir hann, ”úr því sem vant er að öngvir eru menn á gangi enda stendur stiginn þeirra. Má vera að fleira beri til tíðinda í ferð vorri en vér hugðum fyrir öndverðu. Nú skulum vér flýta oss til skálans og látum nú eigi áræðisskort verða. Vitum það fyrir víst ef þeir eru heilir að vér munum þurfa að hver dugi sem best.“
Síðan gengu þeir upp á eyna og lituðust um og sáu hvar maður lá skammt frá uppgöngunni og hraut fast.
Þorbjörn kenndi Glaum og gekk að honum og rak sverðshjöltin við eyra honum og bað mannfýluna vaka ”og sannlega er sá eigi vel staddur er líf sitt á undir þínum trúnaði.“
Glaumur sest upp og mælti: ”Nú ætla þeir að láta sem vant er. Eða þykir ykkur of mikið frelsi mitt þó að eg liggi hér í kuldanum?“
Öngull mælti: ”Ertu vitlaus er þú skynjar ekki að óvinir yðrir eru komnir og munu drepa yður alla.“
Þá mælti Glaumur ekki en æpti upp sem hann mátti er hann kenndi mennina.
”Gerðu annaðhvort,“ segir hann Öngull, ”að þú þegir í stað og seg oss frá híbýlum yðrum ella drep eg þig.“
Þá þagði Glaumur sem honum væri í vatn drepið.
Þorbjörn mælti: ”Eru þeir að skála bræður eða því eru þeir ekki á ferli?“
”Eigi er það hið hægra,“ segir Glaumur, ”því að Grettir er sjúkur og kominn að bana en Illugi situr yfir honum.“
Öngull spurði að heilsufari hans og hvað til hefði borið. En síðan sagði Glaumur hversu til hafði borið um skeinu Grettis.
Þá hló Öngull og mælti: ”Satt er hið fornkveðna, að langvinirnir rjúfast síst, og hitt annað, illt er að eiga þræl að einkavin, þar sem þú ert Glaumur og hefir þú skemmilega svikið þinn lánardrottin þó að hann væri eigi góður.“
Margir lögðu illt til hans fyrir sína ódyggð og lömdu hann nálega til bótleysis og létu hann þar liggja. En þeir gengu heim til skálans og komu við hurðina stundar fast.
Þá mælti Illugi: ”Knýr Hösmagi hurð bróðir,“ segir hann.
”Og knýr heldur fast,“ sagði Grettir, ”og óþyrmilega“ og í því brast sundur hurðin.
Þá hljóp Illugi til vopna og varði dyrnar svo að þeir náðu eigi inngöngu. Sóttust þeir þá lengi og komu þeir engu við nema spjótalögum og hjó Illugi öll þau af skafti. Og er þeir sáu að þeir gátu ekki að gert hlaupa þeir upp á skálann og rufu. Þá færðist Grettir á fætur og þreif spjót og lagði út á milli viða. Þar varð fyrir Kár heimamaður Halldórs frá Hofi og stóð þegar í gegnum hann.
Öngull mælti og bað þá fara varlega og geyma sín vel ”því að vér megum sigra þá ef vér geymum ráðs að.“
Rufu þeir nú um ásendana og treystu síðan á ásinn þar til er hann brast í sundur. Grettir mátti eigi af knjánum rísa. Greip hann þá saxið Kársnaut. Í því hlupu þeir ofan í tóftina og varð nú hörð svipan með þeim. Grettir hjó með saxinu til Víkars fylgdarmanns Hjalta Þórðarsonar og kom á öxlina vinstri í því er hann hljóp í tóftina og sneið um þverar herðarnar og niður hina hægri síðuna og tók þar sundur þvert manninn og steyptist búkurinn ofan á Gretti í tvo hluti. Gat hann þá ei upp rétt saxið svo skjótt sem hann vildi. Og í því lagði Þorbjörn öngull í milli herða Gretti og var það mikið sár.
Þá mælti Grettir: ”Ber er hver á bakinu nema sér bróður eigi.“
Illugi kastaði skildi þá yfir hann og varði hann svo Gretti rösklega að allir menn ágættu vörn hans.
Grettir mælti þá til Önguls: ”Hver vísaði yður leið í eyna?“
Öngull mælti: ”Kristur vísaði oss leið.“
”En eg get,“ sagði Grettir, ”að hin arma kerlingin fóstra þín hafi vísað þér því að hennar ráðum muntu treyst hafa.“
”Fyrir eitt skal nú yður koma,“ sagði Öngull, ”hverjum sem vér höfum treyst.“
Þeir sóttu að fast en Illugi varði þá báða alldrenglega. En Grettir var með öllu óvígur bæði af sárum og sjúkleika. Þá bað Öngull að þeir skyldu bera skjöldu að Illuga ”því að eg hefi öngvan fundið hans líka, eigi eldra mann.“
Þeir gerðu nú svo og þröngdu að honum með viðum og vopnum svo að hann kom öngri vörn við. Gátu þeir þá handtekið hann og héldu honum. Hann hafði flestum veitt nokkura áverka þeim sem í atsókninni voru en drepið þrjá fylgdarmenn Önguls.
Eftir það gengu þeir að Gretti. Var hann þá fallinn áfram. Varð þá engi vörn af honum því að hann var áður kominn að bana af fótarsárinu. Var lærið allt grafið upp að smáþörmum. Veittu þeir honum þá mörg sár svo að lítt eða ekki blæddi. En er þeir hugðu að hann mundi dauður þreif Öngull til saxins og kvað hann nógu lengi hafa borið það. En Grettir hafði fast hneppt fingur að meðalkaflanum og varð ekki laust. Fóru þeir þá til margir og gátu ekki að gert. Átta tóku þeir til áður en lauk og fengu eigi að gert að heldur.
Þá mælti Öngull: ”Því skulum vér reka sparmælið við skógarmanninn? Og leggið niður höndina við stokkinum.“
Og er það var gert hjuggu þeir af honum höndina í úlfliðnum. Þá réttust fingurnir og losnuðu af meðalkaflanum. Þá tók Öngull saxið tveim höndum og hjó í höfuð Gretti. Varð það allmikið högg svo að saxið stóðst ei og brotnaði skarð í miðri egginni. Og er þeir sáu það spurðu þeir því að hann spillti svo góðum grip.
Öngull svarar: ”Þá er auðkenndara ef að verður spurt.“
Þeir sögðu þessa eigi þurfa þar sem maðurinn var dauður áður.
”Að skal þó meira gera,“ segir Öngull.
Hjó hann þá á háls Gretti tvö högg eða þrjú áður af tæki höfuðið.
”Nú veit eg víst að Grettir er dauður,“ sagði Öngull.
Lét Grettir þann veg líf sitt, hinn vaskasti maður er verið hefir á Íslandi, vetri fátt í hálffimmtugum er hann var veginn. En þá var hann fjórtán vetra er hann vó Skeggja, hið fyrsta víg, og þá gekk honum allt til vegs og frama til þess er hann átti við Glám þræl og var hann þá tuttugu vetra. En er hann féll í útlegð var hann hálfþrítugur. En í sekt var hann vel nítján vetur og kom oft í stórar mannraunir og hélt ávallt vel trú sína úr því sem ráða var. Sá hann flest fyrir þó að hann gæti eigi að gert.
”Hér höfum vér mikinn garp að velli lagt,“ sagði Þorbjörn. ”Skulum vér nú hafa höfuðið með oss til lands því að eg vil eigi missa þess fjár sem lagt hefir verið til höfuðs honum. Mega þeir þá ekki dyljast við að eg hefi drepið Gretti.“
Þeir báðu hann ráða og létu sér þó fátt um finnast því að öllum þótti óprúðlega að unnið.
Þá mælti Öngull við Illuga: ”Mikill skaði er það um svo röskvan mann sem þú ert er þig hefir hent sú óviska að ráðast til illvirkja með útlegðarmanni þessum og verða fyrir það dræpur og ógildur.“
Illugi svarar: ”Svo fremi veistu það sem úti er alþingi í sumar hverjir útlægir verða. En ei muntu né kerling fóstra þín dæma þessi mál því að galdrar ykkrir og forneskja hafa drepið Gretti þó að þér bæruð járn á hann dauðvona og gerðuð svo mikið níðingsverk ofan á fordæðuskap.“
Þá sagði Öngull: ”Rösklega segir þú en eigi mun svo vera. Vil eg sýna það að mér sýnist mannskaði í þér og mun eg gefa þér líf ef þú vilt vinna oss trúnaðareið að hefna öngum þeim er í þessari ferð hafa verið.“
Illugi mælti: ”Það þætti mér umtalsmál ef Grettir hefði mátt verja sig og hefðuð þér unnið hann með drengskap og harðfengi. En nú er þess engi von að eg muni það til lífs mér vinna að vera slíkur ódrengur sem þú. Er það skjótt af að segja að enginn skal yður óþarfari en eg ef eg lifi því að seint mun fyrnast mér hversu þér hafið unnið á Gretti. Kýs eg miklu heldur að deyja.“
Þá átti Þorbjörn tal við förunauta sína hvort þeir skyldu láta Illuga lifa eða eigi. Þeir kváðu hann ráða skyldu aðgerðum því að hann hafði ráðið ferðinni. Öngull kvaðst eigi kunna að eiga þenna mann yfir höfði sér er öngu vildi heita þeim.
Og er Illugi vissi að þeir ætluðu að höggva hann þá hló hann og mælti svo: ”Nú réðuð þér það af er mér var nær skapi.“
Leiddu þeir hann þá er lýsti austur á eyna og hjuggu hann þá og lofuðu allir hans hreysti og þótti hann öllum ólíkur sínum jafnöldrum. Þeir dysjuðu þá bræður báða þar í eyjunni en tóku síðan höfuð Grettis og báru með sér og allt það sem þar var fémætt í vopnum og klæðum. Saxið góða lét Öngull ekki í skipti koma og bar það lengi síðan.
Þeir höfðu Glaum með sér og bar hann sig allilla. Veður féll þegar um nóttina. Reru þeir til lands um morguninn. Fór Öngull þar á land sem honum þótt gegnast en sendi út skipið til Bjarnar.
Og er þeir komu mjög inn til Óslands þá tók Glaumur svo illa að bera sig að þeir nenntu eigi að fara með hann lengra og drápu hann þar og grét hann hástöfum áður en hann var höggvinn.
Öngull fór heim í Viðvík og þóttist vel hafa fram gengið í þessari ferð. Höfuð Grettis lögðu þeir í salt í útihúsi því er Grettisbúr var kallað þar í Viðvík. Lá það þar um veturinn. Öngull var óþokkaður mjög af þessum verkum þegar að menn vissu að Grettir hafði með gerningum unninn verið.
Sat Öngull kyrrt fram yfir jól. Þá reið hann móts við Þóri í Garði og sagði honum af vígum þessum og það með að hann þóttist eiga fé það er lagt var til höfuðs Gretti.
Þórir sagði að hann mundi eigi dylja þess að hann hefði ollað sektum Grettis ”hefi eg og oft fengið hart af honum en ekki vildi eg það til lífs hans vinna að gera mig að ódáðamanni eða fordæðu sem þú hefir gert. Mun eg síður leggja þér fé að mér sýnist þú ólífismaður vera fyrir galdur og fjölkynngi.“
Öngull svarar: ”Meir ætla eg að þér komi til féfesti og vesalmennska en að þú hirðir með hverju að Grettir væri unninn.“
Þórir sagði að skjótur væri vegur með þeim að þeir skyldu bíða alþingis og hafa það er lögmanni sýndist réttast. Skildu þeir með því að þar stóð á illu einu með Þóri og Þorbirni öngli.
83. kafli
Frændum þeirra Grettis og Illuga líkaði stórilla er þeir fréttu vígin og tóku svo að Öngull hefði gert níðingsverk að drepa dauðvona mann, og í annarri grein um fjölkynngi. Sóttu þeir að hinum vitrustu mönnum og mæltist illa fyrir mál Önguls.
Hann reið nú vestur til Miðfjarðar þá fjórar vikur voru af sumri. Og er það fréttist til ferða hans stefndi Ásdís að sér mönnum og voru þar margir hennar vinir, Gamli og Glúmur mágar hennar og synir þeirra, Skeggi er skammhöndungur var kallaður og Óspakur, er fyrr var getið. Ásdís var svo vinsæl að allir Miðfirðingar snerust til liðs með henni og jafnvel þeir sem áður voru óvinir Grettis. Var þar hinn fyrsti maður Þóroddur drápustúfur og flestir Hrútfirðingar.
Öngull kemur nú til Bjargs með tuttugu menn. Þeir höfðu höfuð Grettis með sér. Þá voru enn eigi komnir allir þeir sem henni höfðu liði heitið. Þeir gengu inn í stofu með höfuðið og settu niður á gólf. Húsfreyja var í stofu og margir menn aðrir. Ekki varð að kveðjum við þá.
Öngull kvað þá vísu:
Flutti eg upp úr eyju
ómett höfuð Grettis.
Þann grætr nála Nauma
nauðig hára rauðan.
Hér mátt gjálfrs á gólfi
griðbíts höfuð líta,
það mun, fagrlogs Fríðar,
fúna allt nema salti.
Húsfreyja sat kyrr á meðan hann kvað vísuna. Eftir það kvað hún vísu:
Mundut síðr en sauðir,
Sýrar gráps, fyr dýri,
komið er norðr að Njörðum
nýtt skaup, á sjá hlaupa,
ef styrviðir stæðu,
stála Freyr, í eyju,
verið hef eg lofs um lýði
létt, ósjúkan Gretti.
Þá mæltu margir að eigi væri undarlegt þó að hún ætti hrausta sonu svo hraust sem hún var, þvílík skapraun sem henni var ger.
Óspakur var úti og átti tal við fylgdarmenn Önguls þá sem eigi höfðu inn gengið og spurði að vígunum en allir lofuðu vörn Illuga. Þá sögðu þeir frá hversu Grettir hafði haldið fast saxinu þá er hann var dauður. Það þótti mönnum undarlegt.
Þá var sén margra manna reið vestan að. Voru þar komnir margir vinir húsfreyju og þeir Gamli og Skeggi vestan frá Melum. Öngull hafði þar ætlað að hefja féránsdóm eftir Illuga því að þeir kölluðu sér allt fé hans. En er fjölmennið kom sá Öngull að hann gat ekki að gert. Voru þeir hinir áköfustu, Óspakur og Gamli, og vildu veita Öngli atgöngu en þeir sem vitrari voru báðu þá hafa við ráð Þorvalds frænda síns og annarra höfðingja og sögðu að því verr mundi mál Önguls fyrir mælast sem fleiri vitrir menn sætu yfir.
Varð þá svo á meðal gengið að Öngull reið á burt og hafði með sér höfuð Grettis því að hann ætlaði að hafa það til alþingis. Reið hann nú heim og þótti þunglega á horfast því að flestir allir höfðingjar á landinu voru annaðhvort skyldir eða mægðir við þá Gretti og Illuga.
Þetta sumar fékk Skeggi skammhöndungur dóttur Þórodds drápustúfs. Gekk Þóroddur þá að málum með frændum Grettis.
84. kafli
Nú riðu menn til alþingis og urðu færri liðveislumenn Önguls en hann ætlaði því að málið mæltist illa fyrir. Þá spurði Halldór hvort þeir skyldu hafa höfuð Grettis með sér til alþingis. Öngull lést það ætla að hafa.
”Það er óráðlegt,“ segir Halldór, ”því að nógu margir munu vera mótstöðumenn þínir þó að þú gerir eigi slíkar áminningar til þess að vekja upp harma manna.“
Þá voru þeir komnir á veg og ætluðu að ríða Sand suður. Öngull lét þá taka höfuðið og grafa niður í sandþúfu eina. Er það kölluð Grettisþúfa.
Á alþingi var fjölmennt og bar Öngull fram mál sín og hrósaði mjög verkum sínum að hann hafði drepið þann skógarmann er gildastur hefði verið á landinu og þóttist eiga fé það sem lagið var til höfuðs honum. En Þórir hafði hin sömu svör sem fyrr voru sögð. Þá var lögmaður beiddur úrskurðar. Hann kvaðst heyra vilja ef nokkurar gagnsakir kæmu þar í móti er þar fyrir mætti Öngull missa sektarfjárins, ellegar mundi hann hafa slíkt sem til höfuðs honum var lagið.
Þá kvaddi Þorvaldur Ásgeirsson til Skammhöndung að bera fram sökina og stefndi Þorbirni öngli annarri stefnu um galdur og fjölkynngi þá er Grettir mundi og bana af fengið en annarri um það er þeir vógu að honum hálfdauðum manni og lét varða skóggang.
Nú varð mikill sveitardráttur og urðu þeir fáir er sinnuðu Þorbirni. Varð nú öðruvís en hann hugði því að Þorvaldi og Ísleifi mági hans þótti það ólífsverk að gera manni gerningar til bana. En með tillögum skynsamra manna varð sú lykt á málum þessum að Þorbjörn skyldi sigla samsumars og koma aldrei til Íslands meðan þeir lifðu eftir er mál áttu eftir Illuga og Gretti. Var þá í lög tekið að alla forneskjumenn gerðu þeir útlæga.
Og er hann sá hver hans kostur mundi verða hafði hann sig af þinginu því að þá var búið að frændur Grettis mundu að honum ganga. Fékk hann og ekki af því fé er til höfuðs Gretti var lagið því að Steinn lögsögumaður vildi ei að það gyldist fyrir níðingsverk. Öngu voru þeir menn bættir er fallið höfðu með Þorbirni í Drangey. Skyldi það vera jafnt og víg Illuga. Líkaði það þó frændum hans allilla.
Riðu menn nú heim af þinginu og féllu niður allar þær sakir er menn höfðu á höndum Gretti.
Skeggi, son Gamla en mágur Þórodds drápustúfs en systurson Grettis, fór norður til Skagafjarðar með atgangi Þorvalds Ásgeirssonar og Ísleifs mágs hans, er síðan var biskup í Skálholti, og samþykki alls almúga og fékk sér skip og fór til Drangeyjar að sækja lík þeirra bræðra, Grettis og Illuga, og færðu út til Reykja á Reykjaströnd og grófu þar að kirkju. Og er það til marks að Grettir liggur þar að um daga Sturlunga er kirkja var færð að Reykjum voru grafin upp bein Grettis og þótti þeim geysistór og þó mikil. Bein Illuga voru grafin síðan fyrir norðan kirkju en höfuð Grettis var grafið heima að Bjargi að kirkju.
Sat Ásdís húsfreyja að Bjargi og var svo vinsæl að aldrei voru henni ónáðir gervar og eigi heldur meðan Grettir var í sekt.
Skeggi skammhöndungur tók við búi að Bjargi eftir Ásdísi og var mikill maður fyrir sér. Hans son var Gamli faðir Skeggja á Skarfsstöðum og Ásdísar móðir Odds munks. Margir menn eru frá honum komnir.
85. kafli
Þorbjörn öngull réðst í skip að Gásum með allt það sem hann mátti með komast af fé sínu en Hjalti bróðir hans tók við jörðum. Öngull fékk honum og Drangey. Varð Hjalti síðan höfðingi mikill og er hans ekki getið lengur við þessa sögu.
Öngull fór til Noregs og lét enn mikið um sig. Þóttist hann mikið þrekvirki unnið hafa í drápi Grettis. Virtu og margir svo þeir sem ókunnigt var hversu það hafði til borið en margir vissu hversu frægur maður Grettir hafði verið. Sagði hann það eitt af viðskiptum þeirra sem honum var til frama en lét hitt liggja niðri í sögunni sem minnur var til frægðar.
Þessi saga kom um haustið austur til Túnbergs. Er Þorsteinn drómundur frétti vígin varð hann mjög hljóður við, því að honum var sagt að Öngull væri mjög gildur og harðfengur. Minntist Þorsteinn ummæla þeirra sem hann hafði þá er þeir Grettir töluðust við endur fyrir löngu um handleggina.
Þorsteinn hélt nú fréttum til um ferðir Önguls. Voru þeir báðir í Noregi um veturinn og var Þorbjörn norður í landi en Þorsteinn í Túnbergi og hafði hvorgi séð annan. En þó varð Þorbjörn vís að Grettir átti bróður í Noregi og þótti vanséð við í ókunnu landi og því leitaði hann sér ráðs hvert hann skyldi á leita.
Í þenna tíma fór margt Norðmanna út í Miklagarð og gengu þar á mála. Af því þótti Þorbirni fýsilegt að fara þangað, afla sér svo fjár og frægðar en hafa sig eigi í Norðurlöndum fyrir frændum Grettis. Bjó hann nú ferð sína úr Noregi og fór út í lönd og létti eigi fyrr en hann kom út í Miklagarð og gekk þar á mála.
86. kafli
Hér hefur upp þátt Spesu og Þorsteins.
Þorsteinn drómundur var ríkur maður og hafði hina mestu virðing. Hann spurði nú að Þorbjörn öngull var farinn úr landi og út í Miklagarð. Brá hann skjótt við og seldi frændum sínum eignir sínar í hendur en hann réðst til ferðar og leitaði eftir Öngli og fór jafnan þar eftir sem hinn fór undan. Vissi Öngull ekki til hans ferða.
Þorsteinn drómundur kom út í Miklagarð litlu síðar en Öngull og vildi fyrir hvern mun drepa hann en hvorgi kenndi annan. Nú vildu þeir koma sér í sveit með Væringjum og var því vel tekið þegar þeir vissu að þeir voru Norðmenn. Þá var Mikael katalak konungur yfir Miklagarði.
Þorsteinn drómundur sat nú um Öngul ef hann mætti að nokkuru kenna hann og gat það ekki leikið fyrir fjölmenni. Lá hann þar jafnan vakandi og undi lítt við sinn hag. Þóttist hann mikils hafa misst.
Nú var það þessu næst að Væringjar áttu að fara í herför nokkura að friða landið af hernaði. Og áður en þeir fóru heiman var það siður þeirra og lög að eiga vopnaþing og enn gerðu þeir svo. Og þá er vopnaþingið var sett þá skyldu allir Væringjar þar koma og svo þeir sem þá ætluðu að ráðast til ferðar með þeim og sýna vopn sín. Hér komu þeir báðir, Þorsteinn og Öngull. Bar Þorbjörn fyrr fram sín vopn. Hann hafði þá saxið Grettisnaut. En er hann sýndi það þá dáðust margir að og sögðu að það væri allgott vopn og kváðu það mikið lýti á að skarðið var í miðri egginni og spurðu hann hvað til hefði borið.
Öngull sagði það frásagnarvert ”því að það er þessu næst segjanda að út á Íslandi,“ segir hann, ”að eg drap kappa þann er Grettir hét hinn sterki er þar hefur mestur garpur verið og fullhugi því að hann gat engi unnið fyrr en eg kom til. Og með því að mér varð auðið að vinna hann þá bar eg af honum en þó hafði hann mörg mín öfl. Hjó eg þá í höfuð honum með saxinu og þá brotnaði skarð í egginni.“
Þeir sögðu er næstir stóðu að sá hefði verið harður í haus og sýndi hver öðrum. Af þessu þóttist Þorsteinn vita hver Öngull var og beiddist að sjá saxið sem aðrir. Lét Öngull það til reiðu því að flestir lofuðu hreysti hans og framgöngu. Hann hugði að þessi mundi svo gera en hann vissi öngva von að Þorsteinn væri þar eða frændur Grettis.
Tók Drómundur nú við saxinu og jafnskjótt reiddi hann það upp og hjó til Önguls. Kom það högg í höfuðið og varð svo mikið að í jöxlum nam staðar. Féll Þorbjörn öngull ærulaus dauður til jarðar.
Við þetta urðu menn mjög ókvæða. Greip gjaldkerinn staðarins þegar Þorstein og spurði fyrir hverja sök hann gerði slíkt óhæfuverk þar á heilögu þingi.
Þorsteinn sagðist vera bróðir Grettis hins sterka og það með að hann hefði aldrei hefndinni fram komið fyrr en þar. Og þá tóku margir undir að sjá hinn sterki maður mundi mikill fyrir sér hafa verið þar sem Þorsteinn hefði rekist svo langt út í heim að hefna hans. Ráðsmönnum staðarins þótti þetta líklegt. En fyrir því að engi var sá þar er kynni nokkuð um að bera með Þorsteini þá voru það lög þeirra að hver sá er mann dræpi skyldi öngu fyrir týna nema lífinu. Fékk Þorsteinn skjótan dóm og heldur harðan. Hann skyldi setja í myrkvastofu í dyflissu eina og bíða þar bana ef engi leysti hann út með fé.
En er Þorsteinn kom í dyflissuna var þar maður fyrir. Sá hafði þar lengi verið og kominn að bana af vesöld. Þar var bæði fúlt og kalt.
Þorsteinn mælti við þenna mann: ”Hversu þykir þér ævi þín?“
Hinn svarar: ”Harðla ill því að mér vill engi við hjálpa en eg á öngva frændur til að leysa mig.“
Þorsteinn mælti: ”Mart er fyrir óráðinu um slíkt og verum kátir og gerum okkur nokkuð að gleði.“
Hinn kvað sér að öngu gaman verða.
”Þó skulum við prófa,“ segir Þorsteinn. Tók þá og kvað kvæði. Hann var raddmaður mikill svo að varla fannst hans líki. Sparði hann nú ekki af. Almenningsstræti var skammt fram frá dyflissunni. Kvað Þorsteinn svo hátt að gall í múrnum og hinum er áður var hálfdauður þótti mikið gaman að vera. Lét hann svo ganga fram á kveldið.
87. kafli
Spes hét göfug garðshúsfreyja þar í staðnum, harðla rík og stórættuð. Sigurður hét bóndi hennar. Hann var auðigur og ættsmærri en hún. Hafði hún verið gefin honum til fjár. Ekki varð ástríki mikið með þeim hjónum og þóttist hún næsta vargefin. Hún var stórlynd og svarkur mikill.
Svo bar til að þá er Þorsteinn skemmti um kveldið að Spes gekk um strætið nær dyflissunni að hún heyrði þangað rödd svo fagra að hún kallaðist öngva slíka heyrt hafa. Hún gekk með marga sveina og bað þá víkja þangað og vita hver þessa ágætu rödd hefði. Þeir kölluðu nú og spurðu hver þar væri svo harðlega spenntur. Þorsteinn nefndi sig.
Þá mælti Spes: ”Ertu þvílíkur atgervimaður um annað sem á kveðandi?“
Hann sagði lítið bragð að því.
”Hvað hefir þú til saka,“ segir hún, ”er þig skal kvelja hér til bana?“
Hann sagði að hann hefði drepið mann og hefnt bróður síns ”en eg gat það eigi með vottum sýnt,“ sagði Þorsteinn, ”og því var eg hér settur,“ segir hann, ”nema nokkur vildi mig út leysa. En mér þykir þess engi von því að eg á hér öngvan skyldan mann.“
”Mikill mannskaði mun það ef þú ert drepinn. Eða var bróðir þinn slíkur frægðarmaður sá er þú hefndir?“
Hann sagði að sá var meir en hálfu gildari maður. Hún spurði hvað til merkja væri um það.
Þá kvað Þorsteinn vísu þessa:
Eigi máttu átta
eggþings boðar, hringa
Grund, úr Grettis hendi
geðrakks koma saxi
áðr hvardyggir hjuggu
herðendr fetils gerðar
axlarfót af ýti
unnblakks hugar rökkum.
”Mikil ágæti eru slíkt,“ sögðu þeir er skildu vísuna.
Og sem hún vissi þetta mælti hún svo: ”Viltu þiggja líf að mér ef kostur er?“
”Eg vil gjarna,“ sagði Þorsteinn, ”ef þessi félagi minn er og út leystur með mér sem hér situr. Ella munum við sitja hér báðir.“
Hún svarar: ”Meira mannkaup ætla eg í þér sé en honum.“
”Svo sem það er,“ sagði Þorsteinn, ”þá munum við fylgjast burt héðan annaðhvort báðir eða hvorgi okkar.“
Hún gekk þá þangað sem Væringjar voru og beiddi útlausnar fyrir Þorstein og bauð fé til. Þeir voru þess fúsir. Fékk hún svo um gengið með vinsældum sínum og ríkdómi að þeir voru báðir út leystir. En þegar Þorsteinn komst úr dyflissunni fór hann til móts við Spes. Húsfreyja tók hann til sín og hélt hann á laun en stundum var hann með Væringjum í herferðum og reyndist hinn mesti fullhugi í öllum framgöngum.
88. kafli
Í þenna tíma var Haraldur Sigurðarson í Miklagarði og kom Þorsteinn sér í vináttu við hann. Þótti Þorsteinn nú mikilhæfur því að Spes lét hann ekki fé skorta. Lögðust þau nú á hugi, Þorsteinn og Spes. Fannst henni mikið um atgervi hans. Varð henni féskylft mjög því að hún hélt sér mjög til vinsælda. Bóndi hennar þóttist og finna að hún tók sér háttaskipti, bæði í skaplyndi og margri breytni og einkanlega í fjárauðn. Saknaði hann bæði gulls og gripa er hurfu úr hennar geymslu.
Og eitthvert sinn talaði Sigurður bóndi hennar við hana og segir að hún tæki undarlega breytni upp ”þú gefur eigi gaum að góssi okkru og sukkar því ýmsa vega. En svo er sem eg sjái þig í svefni og viltu aldrei vera þar stödd sem eg er. Nú veit eg fyrir víst að eitthvert ber til.“
Hún svarar: ”Eg sagði þér og svo frændur mínir þá er við komum saman að eg vildi vera sjálfráð og frjáls allra þeirra hluta sem mér stæði vel að veita og af því spara eg ekki fé þitt. Eða viltu nokkuð aðra hluti við mig tala þá sem mér megi blygð í verða?“
Hann svarar: ”Eigi er mér það grunlaust að þú haldir einnhvern þann mann er þér þykir betri en eg.“
”Eigi veit eg,“ segir hún, ”að mikið sé fyrir því en þó vil eg það ætla að þú megir það með öngum sannindum segja. En ekki munum við tvö ein við talast ef þú berð þessa óvissu að mér.“
Hann lét nú falla niður þetta tal að sinni.
Þau Þorsteinn héldu fram hinu sama og voru ekki viðsjál við orði vondra manna því að hún treysti visku og vinsældum. Oft sátu þau á tali og skemmtu sér.
Það var eitt kveld er þau sátu í einu lofti þar sem í voru gripir hennar. Hún bað Þorstein kveða nokkuð því að hún hugði bónda sitja við drykk sem hann átti vanda til. Hún strengdi aftur dyrnar. Og er hann hafði kveðið um stund var brotist á hurðina og kallað að upp skyldi láta. Var þar kominn bóndinn með marga sveina. Húsfreyja hafði lokið upp einni stórri kistu og sýndi Þorsteini gripi sína. En er hún kenndi hver var vildi hún ekki lúka upp dyrnar.
Hún talar við Þorstein: ”Skjót er ráðagerð mín. Hlaup hér niður í kistuna og lát hljótt um þig.“
Hann gerði svo. Hún rak lás fyrir kistuna og settist þar upp á. Í því kom bóndi inn í loftið og höfðu þeir þá brotið upp loftið.
Húsfreyja mælti: ”Því farið þér með svo miklu harki eða fara ófriðarmenn eftir yður?“
Bóndi svarar: ”Nú er vel að þú gefur sjálf raun hver þú ert. Eða hvar er sá maður er mest renndi raustum áðan? Get eg að þér þyki hann fagurhljóðari en eg.“
Hún mælti: ”Enginn er allheimskur ef þegja má. Fer þér og svo. Þú þykist vera slægur og ætlar að þú munir festa á mér lygi þína en hér mun raun á nú. Ef þú hefir satt að mæla þá tak þú hann því að eigi mun hann hlaupa út um veggina eða ræfrið.“
Hann leitaði um húsið og fann ekki.
Hún mælti: ”Hví tekur þú hann ekki nú ef þú þykist þó eftir vísu ganga?“
Hann þagnaði þá og þóttist ekki vita við hver brögð hann var kominn og frétti fylgdarmenn sína hvort þeim heyrðist eigi sem honum. En er þeir sáu að húsfreyju mislíkaði varð ekki af vitnisburði þeirra og sögðu að jafnan heyrði eigi eftir því sem var. Gekk bóndi þá út og þóttist vita með sannindum þó að hann fyndi eigi manninn. Lét hann þá af að forvitnast um húsfreyju og hagi hennar langa stund.
Annan tíma var það enn miklu síðar að þau Þorsteinn og Spes sátu í fatabúri einu. Þar voru inni klæði bæði skorin og óskorin er þau bóndinn áttu. Sýndi hún Þorsteini marga dúka og röktu í sundur. Og er þau uggði minnst kom þar að þeim bóndinn með marga menn og brutu upp loftið. En meðan þeir gerðu það rak hún klæðin ofan á Þorsteinn og studdist við klæðahlaðann er þeir komu inn í húsið.
”Hvort muntu enn þræta,“ segir bóndi, ”að hér væri maður hjá þér? Munu þeir menn vera hér nú er sáu ykkur bæði.“
Hún bað þá vera eigi svo óða ”mun yður nú eigi bresta en látið mig vera kyrra og skýfið mér hvergi.“
Þeir leituðu nú um húsið og fundu ekki, gefa upp um síðir.
Þá mælti húsfreyja: ”Gott er það jafnan að gefa betri raun en margir ætla og var það von að eigi munduð þér það finna sem ekki var til. Eða viltu nú bóndi ganga við heimsku þinni og bera mig undan þessu illmæli?“
Hann mælti: ”Síður ber eg þig undan að eg þykist víst vita að þú ert sönn að þessu sem eg hefi á þig borið. Skaltu og verða þig við að hafa um það mál ef þú getur það af þér fært.“
Hún kvað sér það ekki í móti skapi. Skildu þau að því tal sitt.
Eftir þetta var Þorstein með Væringjum jafnan. Og það segja menn að hann hafi leitað ráða undir Harald Sigurðarson og ætla menn að þau hefðu eigi svo úr ráðið ef þau hefðu eigi hans við notið og hans visku.
Og þá er fram liðu stundir gerði Sigurður bóndi orð á því að hann mundi fara heiman að einhverjum erindum sínum. Ekki latti húsfreyja hann þess. Og er bóndi var á burtu kom Þorsteinn til Spes og voru þau þá jafnan bæði saman. Svo var háttað í garði hennar að hann var húsaður fram yfir sjóinn og voru það nokkur hús er sjórinn gekk upp undir. Þar sátu þau Spes og Þorsteinn jafnan. Þar var lítil hlemmur í gólfinu svo að enginn vissi nema þau tvö. Skyldi hann opinn standa ef skjótt þyrfti til að taka.
Nú er frá bónda að segja að hann fór hvergi á burt nema hann leyndist og vildi speja um húsfreyju. Bar það og svo til að þá er þau varði síst á einu kveldi og þau sátu í sjóvarloftinu og skemmtu sér að þar kom bóndinn að þeim óvörum með fjölda fólks og leiddi nú nokkura menn til gluggs er á var á húsinu og bað þá sjá hvort eftir því væri sem hann sagði. Allir sögðu að hann hefði rétt talað og svo mundi fyrr hafa verið, hlupu nú á loftið.
Og er þau heyrðu brakið mælti hún til Þorsteins: ”Hér verður þú niður að fara hvað sem kostar. Ger mér vísbending ef þú kemst fram undan húsunum.“
Hann kvað já við og steypti sér niður í gólfið en húsfreyja spyrnti fæti sínum á hlemminn, féll síðan aftur í lag og sá þá hvergi nývirki á gólfinu.
Kom bóndi í loftið og hans menn. Þeir fóru nú leitandi og fundu ekki sem von var. Loftið var autt svo að þar var engi hlutur inni nema slétt gólfið og pallar. Sat húsfreyja þar og lék að fingurgullum sínum. Hún gaf sér fátt að þeim og lét sem hún ætti ekki um að vera. Nú þótti bónda allkynlegt og spurði fylgdarmenn sína hvort þeir hefðu eigi séð manninn. Þeir kváðust fyrir víst hafa séð hann.
Þá mælti húsfreyja: ”Hér mun koma að því sem mælt er að þrisvar hefir allt orðið forðum. Hefir þér og svo farið Sigurður,“ sagði hún. ”Þú hefir gert mér þrisvar ónáðir að því sem mér þykir. Eða eruð þér nú nokkuru hyggnari en fyrir öndverðu?“
”Eg var nú ekki einn til frásagnar,“ segir bóndi. ”Skaltu fyrir allt það eiga undanfærslu því að eg vil með engu móti þessa svívirðing hafa óbætta.“
”Eg ætla,“ sagði húsfreyja, ”að þú beiðir þess er eg vil bjóða því að mér þykir allgott að færast undan þessum áburð. Er hann svo á loft kominn að mér verður mikill vanmetnaður í ef eg hrind honum eigi af mér.“
”Einn veg skaltu þess synja,“ segir bóndi, ”að þú hafir eigi gefið góss vort né gripi.“
Hún svarar: ”Þann tíma sem eg færist undan skal eg einn veg hrinda af mér öllum þeim greinum sem þú hefir til mín að tala. En hygg að hvar niður skal koma. Vil eg þegar nú á morgun fara fram fyrir biskup og nefni hann mér fulla undanfærslu fyrir svo fallin orð fyrir þenna áburð.“
Bóndi lét sér þetta vel nægja og gekk í burt með sína menn.
Nú er frá Þorsteini að segja að hann lagðist fram undan húsunum og gekk upp þar sem honum líkaði og tók sér eina skíðu með logandi eldi og hélt upp svo að sjá mátti úr garði húsfreyju. Hún var löngum úti um kveldið og um nóttina því að hún vildi vita ef Þorsteinn kæmi á land. Og er hún sá eldinn þóttist hún vita að hann var á land kominn því að þau höfðu þetta ráð gert með sér.
Eftir um morguninn bauð Spes bónda sínum að þau skyldu við talast fyrir biskupi um sín mál og hann var þess albúinn. Koma þau nú fram fyrir biskup og hefir bóndi hinar sömu sakir við hana sem fyrr var getið. Biskup spurði hvort hún hefði við þetta kennd verið fyrri en enginn sagðist það heyrt hafa. Þá spurði hann með hverjum líkindum hann bæri þetta að henni. Hann leiddi þá fram menn er séð höfðu að hún sat í læstu húsi og þar einn maður hjá henni. Og á því sagði bóndinn sér grun að sá maður mundi glepja hana. Biskup sagði að hún mátti vel færast undan þessum áburð ef hún vildi.
Hún kvað sér nú allvel líka ”trúi eg,“ sagði Spes, ”að mér verði gott til eiðakvenna um þetta mál.“
Var henni nú nefndur eiður og ákveðinn dagur til að fram skyldi koma. Fór hún eftir það heim og lét vel yfir sér. Fundust þau Þorsteinn og Spes og gerðu ráð sín.
89. kafli
Nú leið sá dagur og þar til sá dagur kom sem Spes skyldi vinna eiðinn. Þá býður hún til öllum sínum vinum og frændum og setti sig til með hinum bestum klæðum er hún átti. Margar dýrar konur gengu með henni. Þá voru á votviðri mikil. Vegurinn var votur og ein veisa mikil yfir að fara áður en til kirkju kæmi. Og svo sem Spes og skari hennar kemur fram að veisunni var þar fyrir fjölmenni mikið og fjöldi fátækra manna er sér báðu ölmusu því að þetta var almenningsstræti. Allir þóttust þeir skyldir vera að fagna henni sem kunnu og báðu henni góðs fyrir það er hún hafði þeim oft vel við hjálpað. Þar var einn stafkarl milli annarra fátækra manna, mikill vexti og hafði sítt skegg.
Kvendið nam staðar við fenið því að hoffólkinu þótti fenið óhreint yfirferðar.
Og svo sem þessi hinn mikli stafkarl sá húsfrúna, að hún var betur búin en aðrar konur, mælti hann svo til hennar: ”Góða húsfreyja,“ sagði hann, ”haf til lítillæti að eg beri þig yfir fen þetta því að vér erum skyldir til, stafkarlar, að þjóna þér það sem vér kunnum.“
”Hvað muntu vel bera mig,“ sagði hún, ”er þú getur eigi borið sjálfan þig?“
”Þó væri þér lítillætisraun,“ segir hann, ”og má eg eigi bjóða betur en eg hefi til og mun þér til alls betur takast að þú hafir eigi metnað við fátækan mann.“
”Vit það fyrir víst,“ segir hún, ”berir þú mig eigi vel þá verður það þitt húðlát eða annarrar svívirðingar meiri.“
”Feginn vil eg hætta á það,“ sagði hann og færðist á fætur út á díkið.
Hún lét sem hún hugði allillt til að hann bæri hana en þó fór hún á bak honum. Stumraði hann allseint og gekk við tvær hækjur.
Og er hann kemur á mitt fenið reiðir hann á ýmsar hliðar. Hún bað hann herða sig ”og skaltu aldrei verri för farið hafa en þá ef þú fellir mig hér í niður.“
Leitar nú veslugur áfram og færist nú í aukana, kostar nú alls kapps við og kemst allnær landinu. Og þá drepur hann fæti og rýkur áfram svo að hann kastar henni upp á bakkann en féll sjálfur í díkið upp undir hendur. Og í því er hann liggur þanninn grípur hann til hennar, húsfrúinnar, og festi hvergi á klæðunum. Tekur hann þá saurugri hendi upp á kné henni og allt á lærið bert.
Hún spratt upp og bannaði, sagði að jafnan hlyti illt af vondum förumönnum ”og væri það maklegt að þú lægir dauður ef mér þætti eigi skömm í því sakir vesaldar þinnar.“
Hann mælti þá: ”Missæl er þjóðin. Eg þóttist gera vel við þig og hugði eg til ölmusu af þér en eg hefi af þér heitingar og hrakning en ekki til gagns“ og lét sem honum kæmi í allt skap.
Þótti mörgum hann aumlegur en hún kvað hann vera hinn mesta bragðakarl. En er margir báðu fyrir hann tekur hún til pungs síns og voru þar í margir gullpeningar.
Hún hristir niður peningana og mælti: ”Haf það nú karl. Aldrei mun það gott að þú hafir eigi fullt fyrir það er eg hefi hrakið þig enda er nú við skilist eftir því sem þú vannst til.“
Hann tíndi upp gullið og þakkaði henni fyrir vel gert. Gekk Spes til kirkju og var þar fjölmenni mikið fyrir. Gekk Sigurður að með kappi og bað hana færa sig undan áburði þeim sem hann hefði á hana borið.
Hún svarar: ”Ekki sinni eg þínum áburði. Eða hvern mann kallast þú hafa séð í húsi hjá mér? Því að jafnan verður til einnhver dugandi maður að vera hjá mér og kalla eg það blygðarlaust. En fyrir það vil eg sverja að öngum manni hefi eg gull gefið og af öngum manni hefi eg saurgast líkamlega utan af bónda mínum og þeim vondum stafkarli er tók sinni saurugri hendi á lær mér er eg var borin yfir díkið í dag.“
Nú tóku margir undir að þetta væri fullur eiður og henni væri það ekki mannlýti þó að karl hefði fíflað á henni voveiflega. Hún sagði að það mætti telja sem væri.
Eftir þetta sór hún svo fallinn eið sem nú var greint. Mæltu það margir að hún mundi það sanna sem mælt er að lítið skyldi í eiði ósært. Hún kveðst það ætla að vitrum mönnum skyldi svo lítast sem þetta væri eigi um grun gert.
Þá töluðu til frændur hennar að slíkt væri mikil skapraun burðugum konum að hafa bótalausa þvílíka álygi því að það var þar dauðasök ef kona varð opinber að því að hún hóraðist undir bónda sinn. Spes beiddi þá biskup að hann gerði skilnað þeirra Sigurðar því að hún sagðist eigi vilja þola álygi hans. Fluttu þetta frændur hennar. Varð þá svo með atgangi þeirra og býtingum að þau voru skilin og Sigurður fékk lítið af góssinu. Var hann ger úr landi burt. Fór þar sem víða eru dæmi til að hinir lægri verða að lúta. Gat hann og öngu fram komið þó að hann hefði rétt að mæla.
Spes tók nú við öllum peningum þeirra og þótti hinn mesti kvenskörungur.
Þá er menn hugðu að eiðstaf hennar þótti mönnum sem grunur hefði í verið og ætluðu að vitrir menn mundu hafa diktað fyrir henni þessi atkvæði. Gátu menn þá upp grafið að sá stafkarl sem hana hafði borið var Þorsteinn drómundur en þó fékk Sigurður öngva rétting þessa máls.
90. kafli
Þorsteinn drómundur var með Væringjum meðan mestur orðrómur lék á málum þessum. Verður hann svo frægur að þar þótti varla þvílíkur atgervismaður komið hafa sem hann. Fékk hann af Haraldi Sigurðarsyni hinn mesta heiður því að hann virti frændsemi við hann og hans ráðum hefir Þorstein fram farið að því er menn ætla.
Bráðlega eftir það er Sigurður var úr landi rekinn hóf Þorsteinn bónorð við Spes. Tók hún því sæmilega en veik þó til frænda sinna. Voru þá stefnur að áttar. Kom það ásamt með þeim að hún mundi mestu fyrir ráða. Var þá keypt með þeim með samþykki frænda hennar og urðu þeirra samfarir góðar og höfðu auð fjár. Þótti Þorsteinn mikill gæfumaður hversu hann hafði úr ráðið sínum vandræðum. Voru þau ásamt tvo vetur þar í Miklagarði.
Eftir það sagði Þorsteinn húsfreyju sinni að hann vildi vitja eigna sinna aftur til Noregs. Hún sagði hann skyldi ráða. Seldi hann þá eignir þær er hann átti og höfðu þau af óf lausafjár. Réðust þau þá utan úr löndum með góðu föruneyti og fóru alla leið uns þau komu í Noreg. Tóku frændur Þorsteins harðla vel við þeim báðum og sá það brátt að hún var ör og stórlynd. Gerðist hún brátt harðla vinsæl. Áttu þau börn saman og sátu nú að eignum sínum og undu vel sínu ráði.
Þá var Magnús konungur hinn góði yfir Noregi. Fór Þorsteinn skjótt á fund hans og var þar vel tekinn því að hann var mjög frægur orðinn af því er hann hafði hefnt Grettis hins sterka. Vita menn varla dæmi til að nokkurs manns af Íslandi hafi hefnt verið í Miklagarði annars en Grettis Ásmundarsonar.
Svo er sagt að Þorsteinn yrði hirðmaður Magnúss konungs. Sat Þorsteinn um kyrrt níu vetur síðan hann kom í Noreg og þóttu þau hin mestu sæmdarmenn bæði. Þá kom utan úr Miklagarði Haraldur konungur Sigurðarson og gaf Magnús konungur honum hálfan Noreg við sig. Voru þá báðir konungar í Noregi um hríð.
Eftir andlát Magnúss konungs undu margir lítt þeir sem höfðu verið vinir hans því að allir unnu honum. En mönnum varð vangætt til lyndis Haralds konungs því að hann var harður og refsingasamur.
Þorsteinn drómundur gerðist þá hnignandi og var þó hinn hraustasti maður. Þá var liðið frá drápi Grettis Ásmundarsonar sextán vetur.
91. kafli
Margir eggjuðu Þorstein að fara á fund Haralds konungs og gerast honum handgenginn en hann tók ekki undir það.
Þá mælti Spes: ”Það vil eg Þorsteinn,“ sagði hún, ”að þú farir ekki á fund Haralds konungs því að við eigum öðrum konungi meira vangoldið og þarf fyrir því að hugsa. En við gerumst nú gömul bæði og af æskuskeiði en okkur hefir meir gengið eftir ástundan en kristilegum kenningum eða röksemdum réttinda. Nú veit eg að þessa okkar skuld mega hvorki leysa okkrir frændur né fémunir utan við sjálf gjöldum skyn fyrir. Nú vil eg breyta ráðhag okkrum og fara úr landi og á páfagarð því að eg trúi að þar má mitt mál leysast.“
Þorsteinn svarar: ”Mér eru þessir hlutir jafn kunnigir sem þér er nú talar þú. Er það skylt að þú ráðir þessu er svo gegnir vel er þú lést mig ráða er miklu var óvænlegar á stefnt og svo breyta öllu sem þú segir fyrir.“
Þetta kom mjög á menn óvara. Nú var Þorsteinn tveimur vetrum miður en hálfsjötugur og þó hraustur til allra athafna sinna. Bauð hann nú til sín öllum frændum sínum og tengdamönnum og gerði bera fyrir þeim ráðastofnan sína. Tóku vitrir menn vel undir það og þótti þó hinn mesti skaði að burtför þeirra.
Þorsteinn sagði ekki víst um afturkomu sína ”vil eg nú þakka yður öllum,“ segir Þorsteinn, ”hversu þér genguð um mitt góss meðan eg var úr landi næst. Nú vil eg bjóða yður og biðja að þér takið við fé barna minna og þeim sjálfum og fæðið þau upp eftir því sem yðar er manndómur því að eg er svo til aldurs kominn að jöfn von er á hvort eg kem aftur þó að eg lifi. Skuluð þér svo fyrir öllu sjá því sem eg á hér allt eftir sem eg mun ekki aftur vitja til Noregs.“
Þá svöruðu menn að margt væri gott til ráða ”ef húsfreyja er eftir til umsjár.“
Þá mælti hún: ”Því fór eg utan úr löndum og úr Miklagarði með Þorsteini, og fyrirlét eg bæði frændur og fé, að eg vildi að eitt gengi yfir okkur bæði. Nú hefir mér hér gott þótt. En ekki slægir mig hér til langvista í Noregi eða hér í Norðurlöndum ef hann fer á burt. Hefir og jafnan þokki með okkur verið og ekki að áskilnaði orðið. Nú munum við bæði ásamt fara því að okkur er kunnigast um þá hluti marga er orðið hafa síðan við fundumst.“
Og er þau höfðu þenna veg á gert um hagi sína þá bað Þorsteinn valinkunna menn skipta í sundur fénu í helminga. Tóku frændur Þorsteins þann helming er börnin skyldu eiga og fæddust þau upp með föðurfrændum sínum og urðu síðan hinir mestu þroskamenn og er mikil ætt frá þeim komin þar í Víkinni. En Þorsteinn og þau Spes skiptu í sundur sínum hlut fjárins og gáfu sumt til kirkna fyrir sál sinni en sumt höfðu þau með sér. Réðust þau nú til Rómferðar og báðu margir vel fyrir þeim.
92. kafli
Fóru þau nú allan veg þar til er þau komu til Rómaborgar. Svo sem þau komu fram fyrir þann er til þess var skipaður að heyra skriftamál manna þá sögðu þau sannlega allt hversu farið hafði og með hverjum klókskap þau höfðu sinn hjúskap bundið. Þau gáfu sig auðmjúklega undir þvílíkar skriftir sér til yfirbóta sem hann vildi á þau leggja. En fyrir þann skuld að þau höfðu sjálf orkast hugar á að bæta sína meinbugi án allri þröngvan og hatri af kirkjunnar formönnum þá var þeim létt um allar álögur svo sem fremst mátti vera en beðin með blíðu að þau skipuðu nú sem skynsamlegast fyrir sinni sál og lifðu hreinlega þaðan í frá að fenginni lausn allra sinna mála. Þóttu þau vel og viturlega farið hafa.
Þá mælti Spes: ”Nú þykir mér vel farið hafa og lyktast okkart mál. Höfum við nú eigi ógæfu saman átt eina. Kann vera að heimskir menn dragi sér til eftirdæma okkra hina fyrri ævi. Skulum við nú gera þá endalykt okkars lífs að góðum mönnum sé þar eftir líkjanda. Nú skulum við kaupa að þeim mönnum sem hagir eru á steinsmíði að þeir geri sinn stein hvoru okkru og mættum við svo bæta það sem við höfum brotið við guð."
Nú lét Þorsteinn lagða verða peninga til steinsmíðar báðum þeim og þvílíks annars sem þau þurftu og þau máttu eigi missa til viðurlífis. Og að lyktaðri þessari smíð og á viðurkvæmilegum tíma og öllum hlutum tilbúnum skildu þau sína stundlega samvist að sjálfráði sínu að þau mættu því heldur njótandi verða heilagrar samvistu annars heims. Settist þá í sinn stein hvort þeirra og lifðu svo langan tíma sem guð vildi skipa og entu svo sína ævi.
Hafa það flestir menn sagt að Þorsteinn drómundur og hans kona Spes þykja verið hafa hinir mestu gæfumenn úr því sem ráða var. En ekki hafa börn hans né afkvæmi til Íslands komið svo að saga sé frá ger.
93. kafli
Hefir Sturla lögmaður svo sagt að enginn sekur maður þykir honum jafnmikill fyrir sér hafa verið sem Grettir hinn sterki. Finnur hann til þess þrjár greinir. Þá fyrst að honum þykir hann vitrastur verið hafa því að hann hefir verðið lengst í sekt einnhver manna og varð aldrei unninn meðan hann var heill. Þá aðra að hann var sterkastur á landinu sinna jafnaldra og meir laginn til að koma af afturgöngum og reimleikum en aðrir menn. Sú hin þriðja að hans var hefnt út í Miklagarði sem einskis annars íslensks manns og það með hver giftumaður Þorsteinn drómundur varð á sínum efstum dögum, sá hinn sami er hans hefndi.
Lýkur hér sögu Grettis Ásmundarsonar, vors samlanda. Hafi þeir þökk er hlýddu en sá litla sem krabbað hefir söguna.
Er hér verksins endir
en vér séum allir guði sendir.
Amen.