Köfunarstaðir á Íslandi
Á Íslandi eru einn, ef ekki tveir köfunarstaðir sem eiga heima á topp 10 listanum yfir bestu köfunarstaði heims. Silfra á Þingvöllum er sá staður sem þar ætti að vera að berjast á topp 3 og til að staðfesta þetta þá hef ég persónulega kafað þarna með mörgum reyndum köfurum sem hafa kafað út um allan heim og ber flestum saman um það að þetta sé þeirra besti, eða að minnsta kosti ekki slakari en þeirra besti. Það sem gerir matið kannski svolítið erfitt fyrir suma er að Silfra er svo ólik öllu sem þeir hafa séð.<p>Silfra, Þingvöllum er í raun bara gjá í því sprungusvæði sem liggur frá Melrakkasléttu í norðaustri, yfir landið allt og út frá Reykjanesi í suðvestri. Gjáin Silfra er tengd Þingvallavatninu sjálfu en er full af kristaltæru vatni sem rennur undan hrauninu á leið sinni ut i vatnið sjálft. Vatn þetta er talið hafa verið á ferðalagi undir hrauninu frá jöklum Íslands í áratugi og sumir ganga jafnvel lengra og segja hundruði eða jafnvel þúsundir ára. Víst er að vatnið í Silfru er blanda af jökulvatni og regnvatni sem hefur blandast saman við á leiðinni undir hrauninu. Það sem gerir þetta allt svo sérstakt er að vatnið sem hefur verið að síast í gegnum hraunið er alveg kristaltært eins og áður kom fram og einnig ískalt, sem að veldur því að frekar takmarkað líf þrífst í vatninu, sem er aftur skýring á því hversu tært það er. Það er aðallega tvennt sem gerir þennan stað svo spennandi í augum kafara, það er fyrst áðurnefnt skyggni sem er ekki undir 150 metrum og svo hitt að þarna eru menn í raun að kafa á milli tveggja heimsálfa, þar sem áðurnefd sprunga sem liggur yfir allt Ísland er í raun skil á milli tveggja meginlandsfleka, Evrópuasíuflekans og Ameríkuflekans. Lengd Silfru er u.þ.b. 300 metrar en einnig eru aðrar gjár tengdar Silfru sem gera þetta að kerfi gjáa sem vert er að skoða. Dýpi Silfru er allt að 60 metrar og mikið hellakerfi er á svæðinu sem enn er ófullkannað.<p>Srýtan í Eyjafirði er hinn staðurinn sem sterklega kæmi til greina að setja á topp 10 listann. Strýtan er eins og nafnið bendir til hverastrýta sem rís upp frá botni Eyjafjarðar þar sem mikil heita vatns uppspretta er. Þar sem heita vatnið ber með sér steinefni sem að storknar þegar það kemur í kaldan sjóinn þá hefur í gegnum aldir byggst upp mikill kalksteinsturn sem rís um 55 metra upp frá botni Eyjafjarðar. Vatnið sem þarna streymir upp er um 70-90°heitt þegar það kemur þarna upp og finna má hitann í sjónum í kring. Þetta hefur þau áhrif á lífríkið í Eyjafirðinum að þarna safnast saman mikið líf, bæði smátt og stórt. Oft má sjá þarna miklar Þorsktorfur auk ótal teguna af öðrum sjávardýrum og gróðri. Í raun eru strýturan tvær, þessi stóra sem áður er nefnd og einnig önnur smærri við hlið hennar. Dýpið við strýturnar er um 70 metrar en dýpið niður á þá hærri er um 12-15 metrar.<P>El Grillo sem er flak sem liggur á botni Seyðisfjarðar er enn einn köfunarstaður sem vert er að nefna. El Grillo var 9000 tonna tankskip sem notað var sem birgðaskip hjá bandamönnum í seinni heimstyrjöldinni en var sökkt eftir að þýskar flugvélar höfðu skaðað það illa árið 1944. Hjá þeim sem ekki kafa kemur helst upp í hugann olíuleki þegar minnst er á El Grillo, en fyrir nokkrum árum fór að leka olía úr tönkum skipsins, en þeir hafa nú verið tæmdir, þannig að olíuborinn köfunarbúnaður sem jafnan var fylgifiskur köfunarferða í El Grillo heyrir sögunni til. Dýpið niður á El Grillo er um 30 metrar en rúmlega 40 metra dýpi er á botninn við skipið.<p>Köfunarskólinn Kafarinn.is stendur fyrir ferðum á alla þessa köfunarstaði, en ferðir í Strýtuna og El Grillo eru aðeins á færi vanra kafara með réttindi til djúpköfunar. Leyfi þarf til að kafa í El Grillo. Köfunarskólinn Kafarinn.is er reglulega með námskeið fyrir byrjendur og lengra komna, þannig að hjá skólanum getur þú tekið öll þau námskeið sem til þarf til að vera fær um að heimsækja þessa staði. Endilega kíktu á heimasíðu skólans. <a href="http://www.kafarinn.is“ target=”_blank">Smelltu hér!</a