Þessu hef ég stundum velt fyrir mér, hvað er jaðarsport?
Þegar orðið jaðarsport er nefnt kemur manni kannski helst til hugar klifur, fallhlífastökk, fjallahjólreiðar, kayaksiglingar og köfun. En er eitthvað eitt sem sem tengir þessa hluti saman. Það fer nú bara eftir hversu sértækt við horfum á þetta. Flestir myndu eflaust nefna hluti eins og adrenalín. Ég verð að taka það fram að ég hef hvorki stundað köfun né fallhlífastökk(nema þá í míní útgáfunni, köfun í Sundlaugum og teygjustökk). Klifur getur gefið manni feitt adrenalín kikk, en aðeins viss undirgrein fjallahjólreiðanna gæfi sama kikk og einvörðungu viss undirgrein kayaksiglinganna. Samkvæmt þessu væru jaðarsport það sama og óhefðbundin “sport”.
Á ensku ku þetta heita extreme sports = öfgaíþróttir. En þýðir það að þetta þurfi að snúast um það að fá adrenalínkikk. Eigi hef ég prufað “íþróttina” trials í neinum stórum stíl, ég auðvitað reyni þegar ég er í stuði að komast upp á hlut og annan (;)) á hjólinu mínu en ég fæ ekkert sérstakt adrenalínkikk út úr því.
Seinna orðið sport, bendir til þess að þetta sé eitthvað sem hægt sé að keppa í og hver og einn geti út frá því bætt árangur sinn eða eigi að geta unnið í því. Þetta þar með útilokar kannski ýmsa hluti. T.d. teygjustökk. Hvernig er hægt að verða betri í teygjustökki? Það er svosem hægt að ætla að stökkva af sem fáránlegustum stöðum en stökkið sjálft er ekki hægt að bæta þannig séð.
Þó svo að þetta sé ekki alveg “stefndasta” grein heims þá ætla ég að reyna að setja fram lokaniðurstöðu mína hér. Jaðarsport eru óhefðbundnar íþróttir! Þar sem hver og einn reynir samkvæmt bestu getu framkvæma eitthvað við erfiðar aðstæður eða jafnvel óhefðbundnar. Einstaklingurinn getur staðið sig með ólíkum hætti hverju sinni þannig hægt sé að leggja á það mat hlutlægt en ekki huglægt.
Þetta er einvörðungu sýn mín á þetta, ég hef alla trú á því að þið hafið ykkar sýn á þetta og vonast til að þetta verði nú fjörug umræða :D