Inter Milan og Valencia skyldu jöfn í fyrri viðureign sinni í 8 liða úrslitum UEFA bikarsins í kvöld, 1-1. Nicola Ventola náði forystunni fyrir Milan á 52. mínútu. Skömmu síðar missti Valencia mann útaf, þegar Kily Gonzalez var vísað af velli fyrir brot á Mohamed Kallon. Missirinn kom þó ekki að sök, því á 65. mínútu jafnaði Francisco Rufete fyrir spænska liðið, og urðu það úrslit leiksins. Stórveldið AC Milan reið ekki feitum hesti frá viðureign sinni við Hapoel Tel-Aviv í Nicosíu á Kýpur í kvöld, í fjórðungsúrslitum UEFA-bikarkeppninnar. Sergei Cleschenko skoraði eina mark leiksins fyrir Ísraelsmennina á 32. mínútu. Hapboel ætlar því að reynast stórveldunum í Evrópskri knattspyrnu erfitt, en eins og menn muna urðu þeir Chelsea líka að falli í undankeppninni. PSV Eindhoven og Feyenoord mættust í kvöld í fjórðungsúrlitum UEFA bikarsins í Eindhoven. Fyrri hálfleikur var markalaus þar til komið var fram yfir venjulegan leiktíma, en þá missti PSV boltann í vörninni og var refsað grimmilega, þegar Pierre Van Hooijdonk skilað boltanum í markið í þann mund sem flautað var til hálfleiks. Hollendingarnir voru þó fljótir til jarðar aftur, því strax á fyrstu mínútum seinni hálfleiks jafnaði PSV, og þar við sat. Úrslit leiksins, 1-1. Borussia Dortmund hélt til Prag í kvöld og lék þar við Slovan Liberec í fyrri leik liðanna í 8 liða úrslitum UEFA bikarkeppninnar. Lauk leik liðanna með markalausu jafntefli, eftir fremur tíðindalítinn leik.
Fáir höfðu spáð tékkneska liðinu stórum sigrum í keppninni, en því hafði þó tekist að slá út Lyon frá Frakklandi og spænsku liðin Celta Vigo og Mallorca á leið sinni í fjórðungsúrslitin. Heimamenn höfðu lengst af yfirhöndina í leiknum gegn Dortmund í kvöld, og fengu allnokkur færi framan af í leiknum.
Þjálfari Liberec sagði að leikslokum það eina sem ekki hefði gengið að óskum í leiknum að ekki tókst að koma boltanum í mark. Liðin leika að nýju eftir viku, og ræðst þá hvort þeirra kemst í undanúrslit.