Gamli kókaínlurkurinn Claudio Caniggia heldur sæti sínu í argentínska landsliðinu. Argentínumenn leika vináttuleik við Kamerúna þann 27. mars og hinn 35 ára framherji er í hópnum. Hann spilaði í HM 1990 og 1994 og var svo í liðinu sem gerði jafntefli við Wales í síðasta mánuði. Þá lék hann sinn fyrsta landsleik frá því í júlí 1996.
Markabrókin Gabriel Batistuta er hins vegar enn úti í kuldanum. Segja má að allt hafi gengið á afturfótum hjá þessum marksækna framherja og hann hefur aðeins náð að gera sex mörk fyrir Roma og verið mikið frá vegna meiðsla. Hann spilaði aðeins einn landsleik á síðasta ári, það var gegn Paraguay í undankeppninni og þá skoraði hann reyndar í 2-2 jafntefli. Hann er fullfrískur sem stendur en menn á borð við Hernan Crespo og Claudio Lopez hafa einfaldlega rutt honum úr liðinu.
Batistuta segist ætla að hætta að leika með landsliðinu eftir HM en hann á að baki glæstan feril. Hann er markahæsti leikmaðurinn í argentínskri knattspyrnusögu, hefur skorað 55 mörk í 75 landsleikjum. Hann hefur verið með í tveimur síðustu heimsmeistarakeppnum.
Þjálfarinn Bielsa vildi ekkert tjá sig um valið en þeir leikmenn sem spila í heimalandinu bætast í hópinn í næstu viku. Þessir hafa þegar verið valdir:
Markverðir: German Burgos (Atletico Madrid), Pablo Cavallero (Celta Vigo)
Varnarmenn: Jose Chamot (AC Milan), Walter Samuel (AS Roma), Roberto Fabian Ayala (Valencia), Mauricio Pochettino (Paris St Germain), Diego Placente (Bayer Leverkusen), Juan Pablo Sorin (Cruzeiro)
Miðjumenn: Matias Almeyda (Parma), Javier Zanetti (Inter Milan), Juan Sebastian Veron (Manchester United), Marcelo Gallardo (Monaco), Pablo Aimar (Valencia)
Sóknarmenn: Claudio Lopez (Lazio), Hernan Crespo (Lazio), Gustavo Lopez (Celta Vigo), Kily Gonzalez (Valencia), Claudio Caniggia.