Rigobert Song, leikmaður West Ham sem verið hefur í láni hjá Köln í Þýskalandi, er nú eftirsóttur af þarlendum liðum. Bayern München lýsti fyrir skömmu yfir áhuga á að kaupa hann og nú hafa Leverkusen og Stuttgart bæst í hópinn. Song verður hjá Köln til enda leiktíðar en hann hefur spilað mjög vel í Bundesligunni það sem af er dvölinni.
Framtíð hans hjá West Ham er talin engin og er hann afar ósáttur við framkomu manna á Upton Park í sinn garð. “Mér var aldrei gefið neitt tækifæri hjá West Ham,” segir Song á Planet Football. “Leikmaður sem kostaði fimm milljónir punda gerði mistök á mistök ofan en var alltaf í liðinu. Það er undravert að mér skuli kippt út úr liðinu vegna einna mistaka á meðan aðrir eru áfram inni.” “Ef Bayern Munchen er á eftir þér, ertu ekki sérlega slakur leikmaður,” segir umboðsmaður hans á sama vettvangi.