Ólafur Stefánsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, hlaut fullt hús stiga í kjörinu um íþróttamann ársins 2008. Handknattleiksmaðurinn Snorri Steinn Guðjónsson varð annar í kjörinu og knattspyrnukonan Margrét Lára Viðarsdóttir varð í þriðja sæti en hún var kjörin íþróttamaður ársins í fyrra. Kjörinu var lýst í kvöld á Grand Hótel í Reykjavík. Alls fengu 25 íþróttamenn úr 9 íþróttagreinum atkvæði í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna.
Landsliðsfyrirliðinn í handknattleik lék þar með sama leik og Eiður Smári Guðjohnsen þegar hann var kjörinn íþróttamaður ársins 2005. Þetta er í þriðja sinn sem Ólafur er íþróttamaður ársins en hann var einnig valinn árið 2002 og 2003.
Knattspyrnumennirnir voru flestir, átta talsins, sjö handboltamenn, tveir frjálsíþróttamenn, tveir körfuboltamenn, tveir sundmenn og einn úr golfi, júdó, fimleikum og badminton.
Atkvæðagreiðslan er leynileg og allir 24 félagsmenn í Samtökum íþróttafréttamanna nýttu atkvæðisrétt sinn. Hver og einn raðar tíu íþróttamönnum niður og fær sá sem settur er í fyrsta sæti 20 stig, sá sem kemur næstur 15, sá þriðji 10, sá sem lendir í fjórða sæti fær 7 stig, sá í fimmta 6 og svo koll af kolli þannig að sá sem settur er í tíunda sæti fær 1 stig. Mest var hægt að fá 480 stig.
Þeir sem fengu atkvæði í kjörinu voru:
Ólafur Stefánsson, handknattleikur, 480 stig.
Snorri Steinn Guðjónsson, handknattleikur, 287
Margrét Lára Viðarsdóttir, knattspyrna, 210
Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleikur, 194
Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrna, 124
Hermann Hreiðarsson, knattspyrna, 97
Katrín Jónsdóttir, knattspyrna, 61
Alexander Petersson, handknattleikur, 56
Þormóður Jónsson, júdó, 51
Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleikur, 39
Helena Sverrisdóttir, körfuknattleikur, 33
Veigar Páll Gunnarsson, knattspyrna, 26
Dóra María Lárusdóttir, knattspyrna, 25
Bergur Ingi Pétursson, frjálsar íþróttir, 10
Grétar Rafn Steinsson, knattspyrna, 10
Björgvin Páll Gústavsson, handknattleikur, 10
Hólmfríður Magnúsdóttir, knattspyrna, 9
Viktor Kristmannsson, fimleikar, 7
Róbert Gunnarsson, handknattleikur, 6
Arnór Atlason, handknattleikur, 5
Ragna Ingólfsdóttir, badminton, 4
Örn Arnarson, sund, 4
Ásdís Hjálmsdóttir, frjálsar íþróttir, 2
Ólöf María Jónsdóttir, golf, 1
Eyþór Þrastarson, sund fatlaðra, 1
Hvernig breytir maður um undirskrift?