Knattspyrnufélagið Þróttur var stofnað vestur á Grímsstaðaholti einu sinni endur fyrir löngu. Af einhverjum ástæðum fluttist það með fólkinu - því félag er fólk - inn í Sund. Þar var Þróttur lengi eins konar jaðarklúbbur - í útjaðri Reykjavíkur. Það gildir ekki lengur. Nú hefur Þróttur aðsetur í Laugardalnum - miðstöð útivistar og íþróttastarfs í borginni. Og Þrótturinn er vaxandi. Nú stunda hátt í 400 börn og ungmenni knattspyrnu á vegum Þróttar. Auk knattspyrnudeildar eru blakdeild og tennisdeild starfandi á vegum félagsins en handbolti er stundaður í góðu samstarfi við nágrannafélagið Ármann.
Þróttur varð 50 ára 1999 og af því tilefni var Jón Birgir Pétursson fenginn til að skrifa sögu félagsins. Bókin kom út haustið 2001 og ber nafnið “Lifi Þróttur”.
Þeir stuttu ágripskaflar úr sögu Þróttar, sem birtir verða hér að neðan, eru byggðir á þessari bók, en áhugafólki um sögu þessa baráttufélags er bent á að verða sér úti um bókina, enda er hún bráðskemmtileg aflestrar og m.a. annars að finna í henni allmargar skopsögur.
Tekkið beint af www.trottur.is/trottur/ skjal.asp?skjal=umfelagid