Íslendingar mættu Litháum í knattspyrnuleik á Laugadagsvellinum í gær. Eins og flestir vita unnu okkar menn leikinn með 3 mörkum gegn engu. Leikur liðsins í fyrri hálfleik var eins og einkennt hefur liðið undir stjórn Atla Eðvaldssonar í seinni tíð;lélegur. Menn voru alveg hugmyndasnauðir og komust lítt áfram gegn Litháum þrátt fyrir að vera einum fleiri. Í seinni hálfleik var annað uppi á teningnum. Þá komu strákarnir ferskir og léttir til leiks, lausir við pirringinn sem verið hafði í þeim í fyrr hálfleik. Uppskeran var þrjú glæsileg mörk. Heiðar Helguson skoraði það fyrsta með skalla eftir sendingu Bjarna Guðjónssonar. Eiður Smári skoraði hin tvö, það fyrra eftir snilldar sendingu frá Brynjari bónda á miðjunni. Það var mjög ánægjulegt að sjá Eið í seinni hálfleiknum. Hann lék þá af þeirri getu sem gerir hann að dýrasta knattspyrnumanni okkar. Maður leiksins að mínu mati var þó Heiðar Helguson, hann barðist eins og ljón allan leikinn og virðist geta hlaupið endalaust. Heiðar kemur með mikinn baráttuanda inn í liðið og er til fyrirmyndar.
Þrátt fyrir þennan sigur er ég alls ekki sáttur við störf Atla Eðvaldssonar og vil hann burt. Hann hefur sýnt það að hann er einfaldlega ekki starfi sínu vaxinn. Í viðtölum við fjölmiðla fer hann ítrekað í kring um hlutina og svarar ekki beinum einföldum spurningum á fullnægjandi hátt. Hann hefur til að mynda ekki getað gefið neina rökrétta ástæðu fyrir því að velja ekki Tryggva Guðmundsson í liðið. Ég hef heldur ekki heyrt hann koma með einhver rök fyrir fjarveru Þórðar Guðjónssonar. Atli hefur ekki viljað viðurkenna að gagrýni Þórðar á hann í fjölmiðlum sé ástæðan, þrátt fyrir að flestir telji að svo sé.
Ég er þeirrar skoðunnar að Atli Eðvaldsson eigi ekki eftir að endast lengi enn í starfi sínu, en spurning hvort honum hafi tekist að fresta brotthvarfi sínu með þessum sigurleik?