Sæl öllsömul.
Jæja, núna verð ég bara að tjá mig um sjónvarpsstöðina Sýn, og þeim ótrúlegu brögðum sem þeir beita til að græða aðeins á heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu.
Svo er mál með vexti að ég (fjölskyldan mín, ég bý hjá foreldrum mínum) hef verið með Sýn í fjölda ára. Ég hef látið mig hafa það hversu léleg þjónusta þeirra hefur verið í gegnum árin, en lítið sem ekkert tjáð mig um það vegna þess að þá dagskrá sem þeir hafa rétt á hefur hvergi annars staðar ekki verið hægt að fá, nema með því að kaupa gervihnattardisk, nokkuð sem foreldrar mínir tíma ekki.
Staða mín sem neytandi er þessi: ég er tvítugur námsmaður sem býr hjá foreldrum sínum, og er því mjög ólíklegt að ég væri viðskiptavinur 365 fjölmiðla. Hins vegar hef ég mikil áhrif á ákvarðanatökur foreldra minna hvað varðar sjónvarpsáskriftir, og er (var, réttara sagt) mjög líklegur viðskiptavinur í náinni framtíð. Af efni Sýnar horfi ég aðallega á fótbolta, jafnt evrópskan (ensku bikarkeppnina, meistaradeildina, íslenska boltann og annað slagið á þann spænska) sem amerískan (NFL er í mjög miklum metum hjá mér, enda er ég mikill aðdáandi). Einnig hef ég fylgst nokkuð með úrslitakeppni NBA á ári hverju.
Það var ekki fyrr en síðasta haust sem ég fór að vera gagnrýninn á atferli Sýnar. Fram að þessum tíma hafi ég lítið hugsað um efni stöðvarinnar og hvernig málum með það væri háttað. Auðvitað hafði allt það mál sem fylgdi flutningi enska boltans af Sýn og yfir á eigin stöð í umsjón Skjás Eins / Símans náð athygli minni, en á þeim tíma stóð mér nokkuð á sama, var bara nokkuð ánægður með að enski boltinn fengi sína eigin stöð og að fjöldi leikja í útsendingu hverja helgi myndi aukast til muna.
Hins vegar voru það öll mál sem tengdust Sýn, NFL og NASN í vetur sem náðu athygli minni. Fyrir þá sem ekki þekkja til eiga Sýn réttinn á útsendingum á efni NFL á Íslandi, og hafa átt í einhver ár (ég er því ekki miður viss um hvenær Sýn hóf útsendingu á NFL, held að þrjú keppnistímabil hafi verið sýnd). Í haust gekk NASN frá samningum við NFL Networks (útsendingar-/dreifingaraðili NFL) um sýningar á leikjum og efni tengdu NFL í Evrópu. Það var Evrópuhluti NASN sem gekk frá þessum samningi (til eru tvær aðskildar NASN rásir, ein fyrir Bretlandseyjar og önnur sem næst í öðrum Evrópuþjóðum), og hóf stöðin sýningar á leikjum þegar tímabilið hófst.
Og þar með var ég kominn í Paradís.
Í upphafi tímabilsins sýndi NASN 4 leiki beint á viku (3 á sunnudegi og einn á mánudegi), daglegan fréttaþátt, vikulega þætti um það sem fram fer á bak við tjöldin hjá liðum í deildinni og ýmsa þætti sem greindu frá sögu NFL. Að auki var einn leikur valinn “leikur vikunnar” (ekki endilega einn af þeim sem sýndir voru beint) og farið nánar út í atvik hans, ásamt því að tveir til þrír leikir voru sýndir að leikdegi loknum sem ekki höfðu verið sýndir beint.
Sýn var hins vegar með eina útsendingu á sunnudagskvöldi, sem féll oft út vegna sýninga frá PGA mótaröðinni í golfi, eða öðrum ótilgreindum ástæðum.
Líkt og með mál enska boltans, þar sem Síminn lét loka fyrir útsendingar/áskriftir Íslendinga hjá SKY (notendur kunna þessu örugglega betri skil en ég, veit ekki hvernig Síminn/Skjár Einn stóðu að málunum), vildi Sýn vernda það efni sem stöðin átti útsendingarrétt á hér á landi. Var Símanum gert að loka fyrir NASN á tímum útsendinga stöðvarinnar á efni frá NFL Networks, ellegar skyldu þeir lögsóttir. Sýn fékk sínu fram, en í stað þess að leyfa NFL útsendingum að blómstra, líkt og enski boltinn gerði hjá Símanum, vanræktur þeir efnið. Útsendingum var frestað, eða þær jafnvel duttu niður, vegna þess að PGA mótaröðin í golfi fékk forgang hjá stöðinni. Einnig voru margir sunnudagarnir NFL lausir, jafnvel þótt einungis væru í umferð endursýningar á gömlu efni. Þetta versnaði bara með hverri vikunni sem leið, og var því þannig háttað að undir lok hins venjulega leiktímabils liðu gjarnan tvær vikur á milli útsendinga frá leikjum. Þetta líkaði mér ekki par, sérstaklega þar sem að á þessu tímabili (síðasta haust, fram að janúar) var NFL það eina sem ég horfði reglulega á, eða af einhverjum áhuga, á Sýn. Allar sýningar frá áhugaverðum fótbolta á stöðinni voru það strjálar að engu breytti þótt ég horfði á þær annars staðar (á Players / hjá vinunum). Ekki einungis þótti mér Sýn sýna NFL mikla vanvirðingu með þessarri framkomu sinni, heldur einnig áskrifendum sínum og hinum ýmsu áhugamönnum NFL á Íslandi með því að hefta aðgang þeirra að efninu.
Þetta þótti mér, eins og áður kom fram, einstaklega lélegt af Sýn, en þó þótti mér Síminn eiga nokkurn hlut að með því að kaupa ekki einfaldlega réttindin af útsendingum á NFL efni af Sýn. Nú hefur botninum þó verið náð.
Fyrir einhverjum þremur dögum vildi svo til að útsendingar Sýnar komu fram truflaðar hjá okkur. Í fyrstu töldum við þetta vera einhverja handahófskennda, einfalda bilun, en í dag kom í ljós að svo var ekki. Það kom í ljós að Sýn sagði upp áskrift okkar, án nokkurs fyrirvara eða tilkynningar. Það var ekki fyrr en hringt var í þjónustudeild 365 að í ljós kom að við vorum ekki lengur áskrifendur, enginn greiðsluseðill hafði verið sendur út til okkar og, þar sem að áskriftin hafði ekki verið borguð, gátum við ekki notið HM í fótbolta án þess að ganga að hinum almennum áskriftartilboðum, sem annað hvort bjóða upp á þrjá mánuði í áskrift fyrir 14.898 kr., þ.e. 4.966 kr. á mánuði, eða sex mánuði í M12 áskrift. Sýn er því að neyða okkur til að borga meira en við höfum verið að borga ef við skildum vilja sjá HM í heimahúsi.
Það skal tekið fram að við höfum ekki verið meðlimir M12 síðan síðustu áramót, en við gerðumst undir lok síðasta árs áskrifendur að Stöð 2 í eina tvo mánuði.
Við höfðum þegar í stað samband við markaðsdeild Sýnar/365, til að reyna að koma áskriftinni aftur á. Við fengum það lágkúrulega svar að okkur stæðu til boða hin tvö fyrrnefndu tilboð, eða “sérstakt” eins mánaðar HM tilboð; sjónvarpsstöðin Sýn, í einn mánuð, fyrir einar 13.990 kr., með þeim möguleika að gerast einnig áskrifendur Stöðvar 2 fyrir 7.776 kr. aukalega.
Nú höfum við fengið nóg af atferli stjórnarmanna Sýnar, og þar sem að tiltölulegar ódýrar leiðir eru nú til boða til að komast hjá því sýningarbanni sem 365 hefur sett á norrænar stöðvar Símans höfum við nú ákveðið að fjárfesta í gervihnattardisk. Jafnvel þótt það reynist dýrara en áskrift að Sýn, sem er nokkuð ólíklegt til lengri tíma litið, mun það án nokkurs vafa verða ómaksins vert til þess eins að losna undan því veseni sem fylgir stöðinni.
Að sama skapi get ég ekki annað en vorkennt þeim sem einungis eru áskrifendur Sýnar til að geta horft á úrslitakeppni NBA. Þar sem að þetta er skrifað einungis þremur tímum áður en fyrsti leikur úrslitarimmunnar hefst er það ljóst að þeir hinu sömu standa frammi fyrir þó nokkrum vandræðum, þar sem að ekki geta verið meira en tvær vikur til loka keppninnar. Einnig get ég ekki ímyndað mér að þetta atferli Sýnar/365 komi vel út fyrir styrktaraðila HM, þá sérstaklega fyrir Landsbankann sem er helsti styrktaraðili keppninnar. Því hvet ég alla til að láta í ljós skoðun sína á sjónvarpsstöðinni, og að andmæla slíkri hegðun sem tekur græðgi fram yfir hollustu við viðskiptavini.