Tony Knapp skoraði sjálfsmark eftir 35 sek.



Terry Paine, hinn gamalkunni markahrókur Southampton, mun aldrei gleyma viðureign liðsins við Úlfana fyrir 38 árum. Úrslit leiksins eru skráð í metabók Southampton - 9:3!
Paine skoraði tvö mörk í leiknum og lagði önnur tvö upp. “Við gáfum Úlfunum eitt mark í forskot,” sagði Paine og brosti, er hann rifjaði upp leikinn. “Tony Knapp, miðvörðurinn okkar (seinna landsliðsþjálfari Íslands), skoraði mark fyrir Úlfana eftir aðeins þrjátíu og fimm sekúndur, sem betur fer kom það ekki að sök. Ég gleymi aldrei þessum leik - við vorum búnir að skora níu mörk á sextíu mínútum. Við gátum skorað miklu fleiri mörk en níu í þessum leik. Dave MacLaren, markvörður Úlfanna, fór á kostum í markinu og sýndi oft snillarmarkvöslu. Hann lék svo vel að hann var keyptur til okkar skömmu síðar,” sagði Paine, sem lék yfir 700 leiki á 20 árum fyrir Southampton.

MacLaren var fyrsti markvörðurinn til að leika fyrir bæði Úlfana og Southampton, en síðan hafa nokkrir gert það - eins og Tim Flowers, Dave Beasant, John Burridge, Eric Nixon og Paul Jones.

Martin Chivers, sem fór frá Southampton til Tottenham og lék gegn Keflavík í Evrópukeppninni á árum áður, skoraði fjögur mörk í leiknum títtnefnda.