Ef þú vilt þjálfa upp vöðvana er fátt heimskulegra en að nota munntóbak. Þér gæti hugsanlega fundist þú verða hressari en ástæðan er sú að nikótínið hefur tímabundin örvandi áhrif. Staðreyndin er hins vegar sú að árangur af þjálfuninni verður mun lakari vegna minnkaðs blóðflæðis til vöðvanna.
Allir íþróttamenn, ekki síst þeir sem eru í fremstu röð, vilja forðast meiðsli. Rannsóknir sýna að fólk sem er í erfiðri þjálfun er mun líklegra til að meiðast ef það notar munntóbak. Að þessu leyti er munntóbak jafnvel verra en reykingar. Þar að auki eiga menn lengur við meiðsli að stríða ef þeir nota munntóbak vegna þess að blóðflæðið til skaðaða svæðisins er skert og þannig seinkar það bata.
Ef þú notar munntóbak að staðaldri slær hjartað 15 þúsund aukaslög á dag eða meira en 5 milljón aukaslög á ári. Hjartavöðvinn er mikilvægasti vöðvi líkamans og er þetta mikil viðbótaáreynsla. Um leið dragast æðarnar saman þannig að blóðið spýtist í gegnum þröngar æðar og blóðþrýstingur eykst. Hár blóðþrýstingur er einn af helstu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Hjarta- og æðasjúkdómar eru t.d. kransæðastífla, æðakölkun og heilablóðfall. Afleiðingar á æðakerfi líkamans geta verið mjög alvarlegar og leitt til kransæðastíflu, útlimamissis, getuleysis, blindu og í versta falli dauða.
Þegar æðarnar þrengjast minnkar blóðflæðið til vöðva og beina. Vöðvar og bein þurfa eðlilegt blóðflæði til að vera heilbrigð og standast álag, ekki síst hjá þeim sem stunda íþróttir. Hjartað verður líka fyrir skertu blóðflæði við munntóbaksnotkun.