Hinn íslenzki Þursaflokkur - Hinn íslenzki Þursaflokkur Hérna kemur fyrsta plötugagnrýnin mín á þetta áhugamál. Hún verður að þessu sinni um fyrstu plötu Hins íslenzka Þursaflokks, sem ber sama heiti og hljómsveitin.

Þessi diskur kom út árið 1978. Þá ríkti ákveðin lognmolla í íslensku tónlistarlífi, allar þær hljómsveitir sem störfuðu rembdust við að syngja á ensku og allar vildu þær “meika það” í útlöndum. Þess vegna kom þessi plata eins og skrattinn úr sauðarleggnum og breiddi rólega úr sér í því tómarúmi sem íslensk plötuútgáfa gekk í gegnum á þessum tíma. Fólki fannst fyrst fyndið að einhverjur ungir strákar tækju aldagömul ljóð og þjóðlög og léku sér með þau fram og til baka.
Plötugagnrýnendur tóku henni þó almennt vel. Og það gerði almenningur líka þegar á leið, enda má segja að þetta verk hafi verið nokkuð á undan sinni samtíð.

Nú, rétt er að telja upp meðlimina í Þursaflokknum:

Ásgeir Óskarsson
Egill Ólafsson
Tómas Tómasson
Þórdur Árnason
Karl Sighvatsson
Rúnar Vilbergsson

Þeir Ásgeir, Egill og Þórður voru í Stuðmönnum ásamt fleirum. Sú hljómsveit er eins og flestir vita enn starfandi.

Lögin á þessar plötu eru átta talsins:

Einsetumaður einu sinni
Sólnes
Stóðum tvö í túni
Hættu að gráta Hringaná
Nútíminn
Búnaðarbálkur
Vera mátt góður
Grafskrift

Það er mikið um taktbreytingar á þessari plötu, að sjálfsögðu í anda gömlu þjóðlaganna þar sem mikið var um skrýtna takta á borð við sjö áttundu, fimm fjórðu, níu áttundu o.s.frv.(Þeir sem kunna ekkert í tónfræði ættu ekki að pæla meira í þessu).
Egill hreifst mjög af þjóðlegum, gömlum lögum og á plötunni er mjög fjölbreytt hljóðfæraskipan. Rúnar Vilbergsson leikur á fagott í velflestum lögunum sem gefur plötunni þennan þjóðlega, forna blæ sem er einmitt einkennandi fyrir þessa hljómsveit. Lögin eru virkilega vel samin þótt textarnir séu tyrfnir á köflum.

Þau lög sem ég mæli sérstaklega með er Einsetumaður einu sinni, Hættu að gráta Hringaná, Búnaðarbálkur og Vera mátt góður.

Þrátt fyrir að ég taki til einstök lög þýðir það alls ekki að einhverjir veikir punktar séu á disknum. Heildarsvipurinn er mjög góður og mín kenning er sú að það sé einmitt það sem hafi fleytt honum svo langt sem raunin er.

Þetta er plata sem allir ættu að kynna sér. Það hafa allir gott af því að víkka sinn tónlistarlega sjónarhring örlítið, og þessi diskur er einmitt kjörinn til þess. Fjórar stjörnur af fimm.

Takk fyrir mig

Hvurslags.