Alice in Chains-heiðurstónleikar
Í tilefni þess að rokksveitin Alice in Chains gefur út breiðskífu eftir langþráða bið verður blásið til Alice in Chains-heiðurstónleika á fimmtudaginn á Sódómu, Reykjavík. Slíkir tónleikar voru haldnir í fyrra og var þá húsfyllir og vel það.
Í þessari viku kemur út platan Black Gives Way To Blue, fyrsta plata sveitarinnar í fjórtán ár. Á sínum tíma var forsöngvari sveitarinnar Layne nokkur Staley, en hann lést árið 2002 eftir fíkniefnamisferli. Saga hans var mikil sorgarsaga og nýtur Staley svokallaðrar költstöðu í rokkheimum í dag.
Um flutning sjá Jens Ólafsson söngvari (Brain Police) Kristófer Jensson söngvari (Lights on the Highway), Franz Gunnarsson gítarleikari (Dr. Spock), Bjarni Þór Jensson gítarleikari (Cliff Clavin), Þórhallur Stefánsson trommuleikari (Lights on the Highway) og Jón Svanur Sveinsson bassaleikari (Númer Núll).
Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 og er aðgangseyrir 1000 kr.
Tekið af mbl.is - linkur á upprunalega frétt: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1302412