Já ég skrifaði ritgerð í skólanum um hljómsveitina Sigur Rós. Gæti verið margt þarna rangt hjá mér samt…
Í þessari ritgerð ætla ég að skrifa um íslensku hljómsveitina Sigur Rós. Ég skrifa um hana vegna þess að hún er ein uppáhalds hljómsveitin mín og líklega frægasta hljómsveit Íslands. Í þessari ritgerð ætla ég að fjalla um hljómsveitina og breiðskífur hennar.
Hljómsveitin var stofnuð í ágúst árið 1994 af Jóni Þór Birgissyni oftast kallaður Jónsi (Hann spilar á gítar og syngur), Georg Hólm (bassaleikari) og Ágústi Ævari Gunnarssyni (trommari). Hljómsveitin fékk nafnið Sigur Rós frá nýfæddri systur Jónsa sem fæddist sama dag og hljómsveitin var stofnuð.
Árið 1997 gaf hljómsveitin út sína fyrstu breiðskífu. Hún ber nafnið Von. Sú plata var mjög svona „öðruvísi“ heldur en nýju Sigur Rós plöturnar. Árið 1998 kom síðan út platan Von Brigði sem innihélt endurhljóðblandanir ýmissa tónlistarmanna á lögunum af Von. Kjartan Sveinsson píanóleikari gekk til liðs við sveitina árið 1998. Hann er eini meðlimur hljómsveitarinnar sem er lærður hljóðfæraleikari og eftir að hann byrjaði fóru að koma útsetningar með strengjahljóðfærum.
Næsta plata sveitarinnar,
Ágætis byrjun kom út árið 1999 og sló algjörlega í gegn um allan heim og margir gagnrýnendur töldu þessa plötu besta geisladisk ársins. Á þessum tíma hitaði Sigur Rós upp fyrir eina frægustu hljómsveit heims í dag, Radiohead. Einnig birtust 3 lög með sveitinni í kvikmyndinni Vanilla Sky og líka öðrum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum eins og Life Aquatic og CSI svo eitthvað sé nefnt. Eftir plötuna Ágætis byrjun varð Jónsi þekktur fyrir sinn sérstæða stíl, að spila á rafmagnsgítar með sellóboga. Ágúst Ævar Gunnarson trommari sveitarinnar hætti í hljómsveitinni eftir Ágætis byrjun og Orri Páll Dýrason leysti hann af.
Þriðja plata sveitarinnar, sem allir höfðu beðið eftir, hét ( ) og einnig hétu lögin ekki neitt en sveitin gaf út nöfnin á heimasíðu sinni skömmu seinna. Öll lögin eru sungin á vonlensku sem eru hljóð sem líkjast íslensku en hafa enga þýðingu. Sú plata var fyrsta plata sem að Sigur Rós tóku upp sjálfir en upptökur áttu sér stað í gamalli sundlaug.
Fjórða plata þeirra, Takk kom út í september 2005. Lagið Hoppípolla sem er á plötunni var notað í þáttunum Planet Earth sem voru á dagsskrá á ríkissjónvarpinu um daginn. Eftir plötuna ferðuðust þeir um allan heim með íslensku stúlknahljómsveitinni Amiinu og fóru til landa eins og Ástralíu, Nýja Sjálands, Canada, Hong Kong í Kína og ýmissa annara landa og svo enduðu þeir á því að fara hringinn í kringum Ísland og spiluðu ókeypis allsstaðar. Þessi tónleikaferð var tekin upp og var gefin út á dvd í kringum jólin árið 2007. Kvikmyndin sló í gegn og varð uppseld á mörgum stöðum út um allan heim.
Næsta og nýjasta plata sveitarinnar Hvarf/Heim var gefin út 5. Nóvember 2007. Diskurinn er tvöfaldur og inniheldur bæði ný lög og tónleikaupptökur. Nú vinnur sveitin að nýrri plötu sem er væntanleg einhverntímann í ár.
Þá er umfjöllunin um hljómsveitina búin og ég vona að þú hafir lært mikið um hana. Mér fannst mjög gaman að fá að skrifa um eitthvað sem að mér finnst skemmtilegt. Ég lærði sjálfur mjög mikið um hljómsveitina á meðan að ég skrifaði þessa ritgerð og hlustaði á lögin þeirra um leið og ég sannfærðist enn meira um að þessi uppáhalds hljómsveit mín er með þeim bestu í heimi í dag.