Annar hluti af þremur um tónlistarmanninn Megas. Fyrsta hlutann má finna hérhttp://www.hugi.is/islensk/articles.php?page=view&contentId=5484864


Komdu og skoðaðu kistuna mína

Sama ár og barnaplatan kom út gerði Megas aðra plötu og nefndist hún Drög að sjálfsmorði. Platan var tekin upp á tvennum tónleikum í hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð, en það var gert vegna þess að of mikið hefði kostað að gera plötuna í stúdíói með þeim hætti sem Megas vildi. Platan var tekin upp á einum degi og hún fékk misjafnar viðtökur og sagði Megas sjálfur að platan væri líklega hans slakasta á ferlinum. Ástæðan var annars vegar að Megas var djúpt sokkinn í sukklíferni sínu,en hann hafði misnotað bæði áfengi og spítt. Hin ástæðan var hins vegar þreyta, bæði þreyta sem kom fram í rödd hans á tónleikunum og þreyta á tónlistarbransanum. Megas ákvað eftir tónleikana að draga sig í hlé og þá fóru háværar kjaftasögur á kreik um að hann hafi framið sjálfsmorð, fólk virtist hafa misskilið þessa tónleika allrækilega. Megas dreif sig í meðferð eftir að hafa lent í fangelsi fyrir einhvern óskunda, fyrst fór hann á Klepp og síðar á meðferðarheimilið Sogn sem var þá nýstofnað. Eftir meðferðina hóf Megas svo störf sem lagermaður og tók sinn tíma í að byggja sig upp og koma undir sig fótunum. Megas byrjaði einnig að stunda nám við Myndlistar og Handíðaskóla Íslands. Þar lærði hann í fjögur ár og útskrifaðist úr grafíkdeild skólans.


Drög að upprisu

Ekkert heyrðist frá Megasi á tónlistarsviðinu í heil fimm ár, eða allt til ársins 1983, en þá kom hann fram á plötu Bubba Morthens, Fingraför. Megas átti þar lögin Heilræðavísur II og Fatlafól, en það lag varð geysivinsælt og er einn vinsælasti útilegusöngur síðari tíma. Megas spilaði einnig á plötunni The boys from Chicago, með Þorláki Kristinssyni, Tolla bróður Bubba. Sama ár kom Megas fram í útvarpsþættinum Áföngum, og söng þar meðal annars með Björk Guðmundsdóttir. Björk átti svo síðar eftir að syngja meira með Megasi.
Það var svo loks árið 1986 sem Megas gaf út plötu á ný undir eigin nafni. Það var platan Í góðri trú. Fögnuðu margir endurkomu meistarans og á plötunni sannaði Megas að hann hafði engu gleymt. Nokkrir meðspilara hans á plötunni áttu síðar eftir að gera það gott með hljómsveitinni Sykurmolunum. Í bókinni Rokksaga Íslands, eftir Gest Guðmundsson, kemur fram að þarna sé á ferðinni ,,ein af klassískum plötum íslenskrar dægurlagasögu”.
Platan Loftmynd kom svo út ári síðar og þar sungu þær systur Björk og Inga Guðmundsdóttir inn á nokkur lög. Platan var hálfgerð Reykjavíkurplata enda kom hún út stuttu eftir 200 ára afmæli borgarinnar. Á plötunni eru dregnar upp misfallegar myndir af borginni við sundin, utangarðsmenn fá einhverja umfjöllun, þeirra á meðal Jóhannes Birkiland sem var höfundur Harmsögu æfi minnar, en hún er talin ein fyrsta bersöglisævisaga á Íslandi,og Hvassaleitisdóninn, sem mörgum stóð uggur af á sínum tíma. Í lokalagi Loftmyndar var sögð saga af fílahirðinum frá Súrín, en honum hafði Megas kynnst þegar hann var á ferð um Tælandi.


Til hamingju með fallið

Tæland átti svo eftir að koma mikið við sögu á næstu plötu hans sem nefndist Höfuðlausnir. Platan var undir greinilegum áhrifum frá Tælandi, bæði hvað lög og texta varðar. Megas hneykslaði enn og aftur með textum sínum og var það sérstaklega textinn í laginu Drengirnir í Bangkok sem fólk tók eftir. Í textanum var talað um hve gott það væri að koma við og strjúka drengina frá Bangkok, og fór það fyrir brjóstið á mörgum ekki síst eftir að þeim var litið aftan á plötuumslagið. Þar mátti sjá Megas ásamt fólki sem hann kynntist í Tælandi og fannst fólki hann halda full vinalega utan um ungan dreng. Megas kom svo með þennan dreng til Íslands og þá fóru kjaftasögurnar á fullt, meðal annars um að Megas væri að leigja drenginn út og stunda mansal. Megas sjálfur segir þetta þó algjöra fjarstæðu, hann hafi einungis verið að veita honum og móður drengsins fjárhagslegan stuðning, svo hún gæti komist á spítala og hann á námskeið. Það er svo önnur saga að sennilega hefur þetta fólk brugðist trúnaði skáldsins og ef til vill stundað einhverja þá iðju sem ekki var ætlast til af þeim.
Það var svo árið 1988 að Megas að fór aftur að vinna með Bubba Morthens og nú í meiri mæli en áður. Þeir gáfu saman út plötuna Bláir draumar og seldist platan í 6000 eintökum. Það hefði þótt fínt fyrir sólóplötu frá Megasi en hins vegar hálfgerður skandall fyrir Bubba sem var heitur á þessum tíma og var hann vanur að selja a.m.k. helmingi fleiri eintök. Ástæðan fyrir þessari slöku sölu mun hafa verið að á plötunni var að finna lagið Litlir sætir strákar, en textinn fjallaði um hvað litlir sætir strákar væru langtum betra val en kvenkynið. Í textanum kom einnig fram að stelpur væru “tælandi frá aldrinum tólf og niðrí átta” og það fór sérstaklega fyrir brjóstið á mönnum. Lagið var bannað í útvarpinu því að Barnaverndarstofa fór fram á það. Eftir þetta var Megas svotil þaggaður í hel og næstu plötur hans fóru ekki hátt.