Stórtónleikar Ný-ung Annað kvöld klukkan 22:00 á skemmtistaðnum Lídó munu skemmtilegir hlutir eiga sér stað. Þar ætla listamennirnir KK, Helgi Valur & The Shemales, Kenya, Sniglabandið, Ljótu Hálfvitarnir og Sprengjuhöllin að skemmta landanum fram eftir kvöld. Kostar 1500kr. inn og er 20 ára aldurstakmark.

Ástæðan fyrir þessum tónleikum er einföld, þetta verða einna stærstu styrktartónleikar á þessu ári og gefa allir listamennirnir vinnuna sína fyrir Ný-ung.

Ný-ung er ungliðahreyfing Sjálfsbjargar lsf. (landssamband fatlaðra). Hreyfingin er opin bæði hreyfihömluðum og ófötluðum á aldrinum 18 - 30 ára sem hafa áhuga á málefnum ungs hreyfihamlaðs fólks.

Markmið hreyfingarinnar er að vekja athygli á því að í þjóðfélaginu er hópur ungs hreyfihamlaðs fólks. Ný-ung beinir sjónum sínum að hverju því sem snertir þennan hóp, bæði jákvæðu og neikvæðu. Þau verkefni sem hreyfingin tekur sér fyrir hendur eiga iðulega upphaf sitt í einhverju sem snertir meðlimahópinn persónulega. Verkefnin taka síðan á sig stærri mynd og afrakstur þeirra nýtist mun fleirum en þeim hópi sem virkur er í Ný-ung. Jákvæðni, bjartsýni og húmor eru sterkustu vopnin sem Ný-ung á og eru þau óspart notuð í hinum ýmsu verkefnum.

Ný-ung er til dæmis móðurfélag Götuhernaðarins (www.oryrki.is, Öryrkjans ósigrandi og fjölda annarra verkefna.


Vona ég að flestir sjái sér fært að mæta til að styrkja þetta frábæra starf og missa ekki af þessari frábæru skemmtun.
"Choose a job you love, and you will never have to work a day in your life." -Confucius