Endurvinnslukjaftæðið
Síðustu árin hefur færst mjög í vöxt að popptónlist sé endurunnin, þ.e. að lappað er upp á gömul lög og þau gefin út í “nýjum” útgáfum. Þetta á auðvitað ekki eingöngu við um Ísland heldur um allan heim en nú er svo komið að meirihluti íslenskrar popptónlistar, a.m.k. meðal vinsælla hljómsveita og flytjenda, er orðinn endurvinnsla. Í gegnum tíðina hafa popparar (og auðvitað aðrir líka þótt í minna mæli sé) tekið erlend lög og “íslenskað” þau að sínum hætti, fyrr á árum var m.a.s. keypt erlent undirspil því það þótti ódýrara og flottara en á síðari árum hefur þetta orðið frekar að reglu fremur en undantekningu, reyndar með þeirri breytingu að nú eru íslensk lög tekin og endurunnin. Það má segja að þetta hafi byrjað af alvöru þegar Bítlavinafélagið gaf út plötuna 12 íslensk bítlalög 1988 en þar var á ferðinni plata eingöngu með slíkt efni. Margt tónlistarfólk hefur fylgt í kjölfarið og farið alla leið, og má þar nefna Sixties, Pál Rósinkrans, Papana, Ragnheiði Gröndal og nú síðast Á móti sól, sem nú um þessar mundir er að gefa út sína aðra plötu eingöngu með endurunnu efni (ég gæti nefnt miklu fleiri). Auðvitað hafa hljómsveitir og tónlistarmenn tekið eitt og eitt gamalt lag til að vekja á sér athygli, jafnvel tvö og tvö en nú er svo komið að fólk sem hlustar á Bylgjuna, FM957 og aðrar álíka síbyljustöðvar (sem reyndar er drjúgur hluti landsmanna), heyrir aldrei neitt nýtt og er heilaþvegið af gömlu efni í nýjum búningum. Það endist jafnvel ekki orðið til að hlusta á nýja íslenska tónlist og skapandi tónlistarmenn eru þ.a.l. á undanhaldi. Sumir tónlistarmenn bera reyndar það mikla virðingu fyrir upprunalegu útgáfunum að þeir hunskast þó til að setja lögin í nýjan búning og gera eitthvað nýtt við þau (eins og t.d. á tribute plötunum Megasarlög og Með allt á hreinu) en oftast eru þetta sömu gömlu lummurnar sem oftast eru betri í upprunalegum útgáfum. Nú er kominn tími til að íslenskir tónlistarmenn setjist niður og fari að skapa og leyfa almenningi að heyra eitthvað nýtt, alltof margir eru gegnumsýrðir af “Þólíðiárogöldsyndrominu” og halda að þetta eigi að vera svona. Sjáiði Bubba, Mugison, Írafár, Stuðmenn, Sálina hans Jóns míns og Scandinaviu, ég er viss um að ég tala við hönd margra þegar ég segi að það er borin miklu meiri virðingu fyrir þessu tónlistarfólki, þó ekki sé nema bara fyrir að þau skapa sína tónlist sjálf þótt auðvitað sé hún æði misjöfn.