Lada Sport Snemma sumars, við skulum segja seint í maí árið 2002 komu saman tveir drengir sem höfðu verið saman í hljómsveit áður og sömdu saman lag. Þetta voru þeir Haraldur Leví Gunnarsson á trommum og Stefnir Gunnarsson á gítar. Þeir spiluðu þetta eina lag oft og mikið og þetta var eiginlega eina lagið sem þeir áttu. Þeir fengu fljótlega leið á þessu eina lagi og hljómsveitin gaf upp öndina á endanum. Seinna komu þeir aftur saman með sama lag. Þá gáfu þeir hljómsveitinni nafnið Lada Sport, upprunalega gert í gríni en á endanum var þetta bara flott. Eftir smá tíma fengu þeir til sín bassaleikara að nafni Robbi, seint sumars 2002. Stuttu seinna bættist gítarleikari að nafni Þröstur við. Lögin sem þeir áttu þá voru Bleikir Tindátar, Playmo og Lúr. Svo hætti Þröstur, og Stefnir var mjög lengi eini gítarleikarinn. Stuttu seinna viðurkenndi Robbi að hann fílaði tónlistina ekki og hætti.

Eftir smá leit fannst nýr bassaleikari, eða í byrjun árs 2003, það var Friðrik S. Friðriksson, betur þekktur sem Frikki. Þeir voru ennþá bara instrumental og helstu lögin sem þeir spiluðu þá voru Apparatus, Klemens, NN, Rauðir Bananar, Sæla og Týpískt. Það má eiginlega segja að bandið hafi byrjað fyrir alvöru á þessum tíma. Lítið gerðist hjá hljómsveitinni lengi, lítið heyrðist nýtt frá hljómsveitinni og tónleikar voru sjaldan. Nánast ekkert gerðist fyrrenn í október 2003 þegar að Heimir gekk til liðs við hljómsveitina. Þá uppgvötuðust sönghæfileikar Stefnirs og hljómsveitin breytti nánast bara um stefnu. Þeir fóru að æfa stíft og sömdu ný lög í tonnatali. En ekkert nýtt heyrðist frá þeim fyrrenn í janúar 2004 þegar Blame It On The Dead Guy kom á Rokk.is. Það rauk upp vinsældalistann og fólk gjörsamlega trylltist yfir því. Það var byrjað aftur að spila á tónleikum mun meir en áður fyrr og hljómsveitin blómstraði.

Í mars 2004 var svo tekið þátt í Músíktilraunum. Hljómsveitin lenti í 2. sæti þar og þykir sú frammistaða prýðileg. Þrátt fyrir tæknilega örðuleika (asnalegt orð) þá gekk þeim bara allt í haginn. Eftir Músíktilraunir fengu þeir þá hugmynd að gefa út svokallaða EP plötu. Fyrst var tekið upp lagið Looks Like She's Feeding Flies Again í Studio Eastpole, sem fór beinustu leið á rokk.is og það hefur verið á topp 10 listanum þar síðan í apríl. Svo var byrjað að taka upp. Fyrsta lagið sem var tekið upp á plötuna var Play With Your Playboy Playmate. Þeim leist svo vel á það að þeir ákváðu að henda því strax á netið. Og eins og með öll lögin sem þeir láta á netið lenti það í fyrsta sæti á topp 10 listanum á Rokk.is og er þar ennþá. Áætlaður útgáfudagur á EP plötuna er 12. júlí.