Ég ætla að fjalla aðeins um Músíktilraunir árið 2004 - eða þann part sem ég fékk að upplifa af þeim.

Á öðru undankvöldi Músíktilrauna voru eftirfarandi hljómsveitir að keppa: Zither, Hugsun, Phantom, Screaming Glory, Copy Of The Clones, Mammút, Ómíkrón, Baath, Somniferum, The Lumskies. Ég og tveir félagar mínir fórum á kvöld nr. 2 og 3. Kvöld númer 2 var skemmtilegt, þar voru fjórar hljómsveitir sem mér fannst góðar. Þær heita Zither, Screaming Glory, Ómíkrón og The Lumskies. Þær hljómsveitir sem komust áfram voru Zither og svo Mammút - Zither var kosin áfram af dómnefnd en Mammút af áhorfendum, sem voru c.a. 140 talsins. Kvöld nr. 2 var á föstudegi og skemmti ég mér vel.

Ég hef lengi hlustað á hljómsveitirnar Betlehem/Tony The Pony og Nögl, sem eru báðar utan af landi og því ekki beint mörg tækifæri sem maður fær til að sjá þær spila live. Betlehem er frá Húsavík en Nögl frá Grundarfirði og Keflavík. Þessar báðar hljómsveitir voru að spila á kvöldi nr. 3, sem var á mánudeginum eftir, fór ég á það kvöld. Það kvöld var mjög skemmtilegt og fróðlegt að sjá þessar hljómsveitir spila. Ég vildi sjá Nögl og Betlehem komast áfram, en dómnefndin var ekki sama sinnis. Hljómsveitirnar sem spiluðu á þriðja kvöldinu heita Spastískur Raunveruleiki, Nögl, Betlehem/Tony The Pony, Út-Exit, Húgó, Brothers Majere, Mors, Kingstone, Gauntlet og Jack Star Of Fire. Mér fannst Nögl spila vel, alveg til fyrirmyndar og einnig Tony The Pony. Brother Majere voru líka góðir, það eina sem stoppaði mig í því að velja þá var söngurinn, hann hentaði mér ekki þó hann hafi hentað þessari hljómsveit og þessari tegund af tónlist. Lögin voru samt vel spiluð og vel útfærð. Mors voru líka góðir. Ég setti hljómsveitirnar í eftirfarandi sæti : 1. Nögl - 2. Betlehem/Tony The Pony og 3. Mors - skilaði síðan atkvæðaseðlinum. Dómnefndin valdi hljómsveitirnar Kingstone og Brothers Majere - áhorfendur völdu hljómsveitina Tony The Pony. Ég var afar ósáttur með að Nögl hafi ekki komist áfram.

Í gær var svo úrslitakvöldið haldið með glæsibrag. Þær hljómsveitir sem kepptu voru : The Royal Fanclub, Form Áttanna, Tony The Pony, Brothers Majere, Zither, Bertel, Manía, Lada Sport, Kingstone, Driver Dave og loks Mammút. Dáðadrengir, sigurvegarar Músíktilrauna árið 2003, hófu kvöldið með góðum lögum gömlum og nýjum. Fyrir kvöldið hafði ég bara hlustað á Tony The Pony, Brother Majere, Zither, Bertel, Lada Sport og Mammút - og fór ég því inn á úrslitin með opnu hugarfari. The Royal Fanclub voru fyrstir á svið, spiluðu gott og flott rokk sem ég hafði mjög gaman af. Form Áttanna voru góðir, og Tony The Pony sérstaklega góðir og ótrúlega flott þessi tvö nýju lög sem þeir spiluðu. Þær hljómsveitir sem mér fannst einstaklega góðar á kvöldinu voru The Royal Fanclub, Tony The Pony, Zither, Manía og Lada Sport. Ég reiknaði því með að The Royal Fanclub, Lada Sport, Manía eða Tony The Pony myndu sigra Músíktilraunir árið 2004.

Þetta var mjög spennandi og áður en Leaves tóku nokkur lög, voru ‘auka’verðlaun kvöldsins kynnt. Þau voru:

Efnilegasti hljómbroðsleikarinn/forritarinn : Andri Pétursson hljómborðsleikari, gítarleikari og söngvari Hinna Eðalbornu

Efnilegasti Trommarinn : Haraldur Leví Gunnarsson trommari Lödu Sport

Efnilegasti gítarleikarinn : ?

Efnilegasti Bassaleikarinn : ?

Efnilegasti Söngvarinn/Rapparinn : Katrína Mogensen söngkona Mammút.

Það var einnig tilkynnt hvaða hljómsveit var kosin athyglisverðasta hljómsveitin og það var hljómsveitin Mammút.

Úrslit kvöldins voru þannig að Tony The Pony lenti í 3. sæti, Lada Sport í 2. sæti og Mammút í því 1.

Ég og félagar mínir erum ekki hrifnir af Mammút, okkur finnst þetta nú bara vera einhver lásí tilraun til þess að vera frumleg - en hver má dæma fyrir sig. Mér persónulega fannst þetta ekki vera ‘sanngjörn’ úrslit gagnvart þeim hljómsveitum sem kepptu. Það voru 11 hljómsveitir að keppa og fannst mér 9 af þeim eiga meira skilið að vinna heldur en Mammút.

Ég vil samt sem áður óska Mammút, sigurvegurum Músíktilrauna árið 2004, til hamingju með sigurinn.

Ég öfunda Mammút nú aðeins, sú hljómsveit sem kosin var ‘athyglisverðasta hljómsveitin’ fær að taka upp og fullgera eitt lag í hljóðveri sem Biggi í Maus á..djöfull væri ég til í að vinna þann vinning.

Kveðja,
Hrannar Már.