Jæja þá er árið að renna sitt skeið á enda og nýtt að taka við. Fleiri plötur verða væntanlega ekki gefnar út á árinu og því ekki úr vegi að renna yfir þær bestu á þessu ári (að mínu mati auðvitað).
5. Dr. Gunni - Stóri Hvellur
Þessi plata kom mér mjög á óvart. Ég bjóst ekkert við of miklu en raunin var önnur. Þessi plata er kannski ekki allra en ef þú hefur gaman af Pixies eða jafnvel Sum41 þá er þessi plata snilld. Dæmi um lög sem eru áhugaverð eru hið margfræga “Snakk fyrir pakk” lag, “Ímelda Markos” og “Stillansar” algjör snilld.
4. Skytturnar - Illgresið
Hver man ekki eftir laginu “Ég geri það sem ég vil” sem var eitt vinsælasta lagið á muzik.is? Það er ekki hér. En enginn verður svikinn af þessari plötu sem er að mínu mati besta hip hop plata sem Ísland hefur alið af sér. Erfitt að taka einhver lög út úr en bendi þó á “Lognið á undan storminum”, “Ólíklegur líflegur” og “Guðlast”.
3. Mínus - Halldór Laxness
Hvað getur maður sagt, ekki átti ég von á svona plötu en ég hef reyndar ekki fylgst vel með Mínus í gegnum tíðina. En ef framhaldið verður eitthvað líkt þessu er ekki von á nema góðu. Þetta er keyrsla út í gegn og þeir sem voru að kvarta yfir þeim á Muse tónleikunum ættu að hlusta betur á plötuna. Textarnir eru oft á tíðum ansi svakalegir og ætti fólk að gefa þeim gaum. Lykillög eru “Romantic exorcism”, “Here comes the night”, “My name is cocaine” og “Who's Hobo” en það síðasnefnda er með ansi athyglisverðum texta svo ekki sé meira sagt.
2. Maus - Musick
Já þeir komu sáu og sigruðu…mig. Alveg hreint brilljant plata með rokki sem er mun rólegra en hjá Mínus en samt er stemmarinn engu minni. Ég held að með þessari plötu hafi Maus tryggt sér sæti sem besta rokksveitin á Íslandi (þá er Mínus í metalflokki). Platan er 95% á ensku og kemur það ekki að sök, nema þá helst að mér finnst hreimurinn hjá Bigga söngvara vera full íslenskur en röddin bætir fyrir það. Það á að vera til eitt stykki af þessari plötu á hverju íslensku heimili það er ekkert flóknara. Lögin sem heilla mig mest eru “A selfish need”, “Musick”, “If you Stay”, “My favourite excuse” og svo má lengi telja. Biðin eftir þessari plötu var 4 ár (minnir mig) og var biðin þess virði.
1. Bang Gang - Something Wrong
Það eru eflaust ekki allir sammála mér hér en örugglega einhverjir. Barði Jóhannsson er snillingur, það er ekkert meira um það að segja. Á þessari plötu fær hann til liðs við sig m.a. Daníel Ágúst, Ester Talíu(sem eitt sinn tilheyrði hljómsveitinni), Pheobe Tolmer, Nicolette og marga fleiri. Flestir hafa heyrt endurgerðina á laginu “Stop in the name of love”. Ef það lag var ekki að heilla ykkur, örvæntið ei því hin lögin eru jafn ólík og þau eru mörg. Tónlistin svipar að einhverju leiri til Air enda er platan hljómblönduð af Stephanie Briat sem hefur einmitt unnið með Air. Þetta er þó á engan hátt stæling á Air eða nokkru öðru, ég held því fram að orðið frumleiki hafið verið fundin upp við gerð þessarar plötu. Ég held svei mér þá að ég hafi ekki orðið fyrir annarri eins upplifun síðan Flaming Lips sendu frá sér Yoshimi Battles the Pink Robots. Mér er hreinlega illa við að nefna einhver lög sem skara fram úr en nefni þess í stað þau tvö lög sem eru slök á plötuni en það eru “Stop in the name of love” og “There was a wisper”. Þessi plata á erindi til allra hverra þjóðar sem þeir eru. Þetta er plata ársins 2003.
Endilega komið með ykkar lista, jafnvel rökstuddan, en ekki skjóta á aðra fyrir þeirra skoðannir.