Tengsl er fyrsta poppplata sem ég eignast í mörg ár og hún kveikir á mörgum góðum og gömlum tilfinningum. Stundum finnst mér ég vera orðin tólf ára ástsjúk hrein mey að hlusta á rólegt og rómantískt en fatta svo að ég er 26 ára ástsjúk ekki svo hrein mey að hlusta á rólegt og rómantískt. Í svörtum fötum hafa gengið í stað rokkballaða tíunda áratugarins eins og ég upplifði hann. Ég ætla aðeins að fá að röfla mig í gegnum plötuna…
<b>Svíf</b> er kraftmikil byrjun á plötunni og ég spóla alltaf yfir það og byrja á númer tvö. En ef maður reynir að gleyma Jónsa í rólunni á útgáfutónleikunum þá er þetta ekkert vont lag. Unglingarnir elska það en ég nýt þess betur að spóla yfir það.
<b>Þrá</b> er besta lagið á plötunni. Það er búið að vera á vinsældarlistunum sem betur fer og ég stóð mig tvisvar að því að keyra aukarúnt ef það var í útvarpinu. Þó ég sé núna búin að hlusta á það svona hundrað sinnum finnst mér það ennþá æði. Laglínan er falleg, bassalínan heillandi og gístónninn hjá gítarnum er töff í viðlaginu. Hljómsveitin ýtir skemmtilega undir Jónsa en uppáhalds mitt í þessu lagi er þegar Jónsi syngur læðist inn í hugann og syngur tvær nótur á hvert atkvæði í síðasta orðinu. Fyrsta sem ég tók eftir þegar ég heyrði þetta og fíla alltaf jafn vel að syngja með.
<b>Engin orð</b> er líka besta lagið á plötunni. Uppáhalds lagið mitt í dag.
<i>því að húúúúúúún mína leyndardóma
felur í sér
húúúúúún mína leyndardóma
geymir í sér</i>
Uppáhalds er þegar Jónsi syngur húúúúúúún og óúóúóú í enda lagsins.
<b>Þú sem ert mér allt</b> er lagið sem flestir kannast við að ég held. Gullfallegt og alveg einstaklega rómantískt. Uppbyggingin er fullkomin, byrjar í rólegheita rómantík en endar í brennheitri ást og gæsahúðið lætur alltaf kræla á sér ef maður hlustar vel.
<b>Inn og út</b> er vont lag. Takturinn afleitur og minnir mig á Madonnulögin á Dick Tracy- tímabilinu og ég tengi bara ekkert við þetta lag. Skil ekki einu sinni í hvaða kapphlaupi menn eru í og finnst söngurinn of rembingslegur í viðlaginu. Brúin er líka soldið takkí og ég sé fyrir mér einhvern barnasöngleik með brúðum. Ekki mjög töff og setningin um nesti og nýja skó er alveg off.
<b>Í sérhvert sinn</b> er besta lag plötunnar. Orgelspilið er æðislegt í byrjun og svo birtir í laginu en sungið er um dimma nótt. Skemmtilegar andstæður og lagið fellur vel að röddu Jónsa en ég er ekki frá því að Einar [Örn Jónsson á hljómborði] sé besti lagasmiður bandsins.
<b>Langar til að lifa</b> er líka mjög vont lag. Ég er búin að spá mikið í það og ég er viss um að það höfði til barna sem hafa aldrei heyrt um rapp því það er svo gaman að syngja með. En ég náði ekki tengslum og viðlagið er vægast sagt vont. Ljót laglína og rembingssöngur. Svo meika ég ekki setninguna langar til að lifa/ segi það og skrifa. Segi það og skrifa? Það minnir mig bara á bombubrandarann B O B A eða brandarann úr Zoolander: “Uhh Earth to Matilda, I was at a day spa. Day, D-A-I-Y-E. Okay?” [Hahahhaa.] En já…passar engan veginn í æðislega reitt rapplag á poppplötu en svo fór ég að pæla að auðvitað þarf þessi hljómsveit ekki að sanna sig fyrir neinum. Hvað þá þessum skítasnobbhipphoppheimi hérna á Íslandi. Ég er bara ennþá með einhverja helvítis fordóma sem ég þoli ekki en eitt var ég ánægð með þegar ég hlustaði á þetta lag á plötunni og það var að ekki var sungið jump, jump eins og á tónleikunum. Kjánahrollurinn nísti mig inn að beini þá. En hei… fólkið í salnum fílaðetta og það er það sem skiptir máli.
<b>Ekkert að fela</b> er lag sem allir þekkja og tala mikið um. Smá pæling. Jónsi hefur þurft að segja í hverju einasta viðtali hversu ástfangin er af konunni sinni en samt heyrir maður vikulega um sanna og sannaða samkynhneigð hans. Ég er komin með leið á þessu og heyrist á öllu að Jónsi hafi fengið leið á þessu fyrir fimm árum. Þegar ég hef farið á böll með þeim er hann karlmennskan uppmáluð og er bara ekkert element sem ég finn sem tengja má við þessa kynhneigð kennda við sam. Þess vegna var ég mjög hissa á útgáfutónleikunum þegar þeir spiluðu þetta lag því þá dönsuðu Keli og Jónsi í kringum hvorn annan eins og ástfangnir svanir, horfandi stíft á hvorn annan og ég hugsaði með mér hvort öll umræðan væri í raun bara auglýsingatrikk svo fólk hefði eitthvað að tala um. Ég trúði því svo varla en þegar Jónsi lagðist á gólfið og Keli labbaði yfir hann og stoppaði standandi klofvega yfir klofinu á Jónsa. Í laginu þar sem þeir hafa ekkert að fela og koma bara til dyranna klæddir eins og þeir eru er performansinn troðfullur af geitáknum. Af hverju? Þetta hlýtur að vera plott. Almannarómur er svo rosalega sterkur og ég held að ef Jónsi væri með einhverja alvöru tendensa þá myndi hann ekki vera með þessar vísanir á sviði. Smá pæling.
<b>Fullkomin ást</b> er besta lag plötunnar. Gítarlínan yndisleg og allt svo ísí og fallegt. Fullkomið ástarlag og Jónsi sýnir í átjánda skiptið hversu hann er megnugur í tjáningu söngsins. Maður trúir öllu sem hann syngur. Ljúfleiki lífsins felst í Fullkominni ást.
Úr ljúfleika lífsins í <b>Lofa</b> en það er lag sem ég á eftir að spila yfir hátíðarnar. Þetta er annað lag sem Einar semur og er með kristinlegum, fallegum og hátíðlegum blæ og rödd Jónsa breiðist yfir orgeltónana sem flauel. Ég var búin að hlusta á þetta lag oft áður en ég tengdi það við dauðann og núna fæ ég tár í augun við hlustun og hugsa um fallna vini. Besta lag plötunnar.
Þriðja plata Í svörtum fötum er allt of stutt, aðeins rúmar 36 mínútur að lengd. Af tíu lögum eru tvö vond, tvö fín en 6 best. Alveg best og ég get ekki hætt að hlusta á þau. Get ekki hætt. Tengsl er besta poppplata sem ég hef heyrt síðan ég var 12 ára. Besta besta besta!!!