<b>Hvað er gott að gera áður en mætt er</b>
Gott er að vera viss um að tölvan sé í góðu standi og forðast skal að uppfæra rekla og annað rétt fyrir mót. Gott er að finna til geisladiskinn með stýrikerfinu þínu, og að sjálfsögðu diskinn/diskana fyrir þá leiki sem á að spila.
Athugaðu netkortið í vélinni, vertu viss um að það virki rétt og prófaðu að tengjast öðrum vélum ef hægt er. Finndu til 3 - 4 metra langa Twisted Pair netsnúru (þessar sem líkjast símatengjum) og grafðu upp eyrnatólin, því hátalarar eru bannaðir á Skjálfta. Svo skaltu finna gott fjöltengi fyrir rafmagnið.
Þrífðu músina þína vel (ef þess þarf) og ef þú notar everglide þá skaltu skrúbba hann í vaski með sápu og svo skaltu þrífa skjáinn þinn svo að engin fingraför séu að flækjast fyrir þér í leikjum.
Tilkynntu svo nánustu aðstandendum hvert þú sért að fara svo að þau fari ekki að óttast um þig, láttu þau skrifa fyrir þig miða um að þú megir koma ef þú ert í yngri kantinum og spurðu þau í leiðinni hver kennitalan þín er. :)
Að lokum skal taka til GSM símann sinn (fullhlaðinn) ef þú átt svoleiðis, fara í bað/sturtu (ekki er mikill tími til þess þessa helgina) og farðu í þægileg föt (þetta er ekki tískusýning, jogging gallar og þessháttar eru alveg viðeigandi) og jafnvel að finna góða inniskó (hrikaleg táfýla getur komið annars) og hreina sokka.
Svo skal finna peninga fyrir Pizzum, kók og nammi sem eru óhjákvæmilegir fylgifiskar skjálftamóta og að sjálfsögðu fyrir mótsgjaldinu sem er lágmark 3000 kr, en við erum alltaf tilbúnir að taka við hærri upphæðum ef það er boðið. :)
Nú skal pakka tölvunni saman í kassa, poka eða stóra og góða tösku og muna eftir öllum snúrum og tengjum og í guðanna bænum beygið ykkur rétt þegar að þið meðhöndlið skjáina.
<b>Þegar mætt er á mótið</b>
Mótið er haldið í Breiðablikshúsinu, Dalsmára 5 í Kópavogi. Ekki leggja fyrir framan inganginn nema kannski rétt til að ferja tölvur og annað inn, notið annars merkt bílastæði.
Þegar inn er komið skal stoppa hjá skráningarborðinu og greiða mótsgjald og þar færðu í hendurnar blað þar sem kemur fram hvar þitt borð er (ekki frjálst sætaval) og hvaða IP tala þér hefur verið úthlutað (notaðar eru fastar iptölur núna). Aftan á því blaði eru leiðbeiningar um hvernig á að stilla það í Windows 98. Öll borð verða númeruð þannig að það ætti ekki að fara á milli mála hvar réttur staður er. Svo byrjarðu að setja saman tölvuna en það má ekki stinga henni í samband við net og rafmagn fyrr en P1mpar gefa leyfi.
Þegar það leyfi er komið þá má byrja á þvi að kíkja á vefsíður mótsins og tengjast IRC þjóninum en slóðirnar verða gefnar upp á staðnum.
Þegar að deginum lýkur þá eiga allir að yfirgefa staðinn þegar að það er tilkynnt, ekki að hanga í hálftíma eins og þurs.
Einnig ber að taka það fram að sá sem að gefur skipanir í hátalarakerfið er sá sem ræður og skal taka orðum hans sem skipun
frá Guði og þeir sem eru í p1mpabolum ganga næstir honum að völdum og þeim skal hlýtt eins og skot.Hlýðið reglunum og allt mun fara vel. Ef þið eruð í vafa þá er bara að hafa samband við næsta p1mp sem mun reyna að aðstoða þig ef hægt er.
Þá er það bara að njóta þess að spila á staðarneti með fullt af fólki og skemmta sér vel og kynnast hver öðrum og eiga ánægjulega helgi.
JReykdal