Tjáningafrelsi - frelsi til að stuðla að þjáningum
Ég þekki nú ekkert sérstaklega þetta mál með hann Örvar. Það eina sem ég veit er að hann hefur oft verið erfiður eins og reyndar fleiri.
Það er alltaf að færast í vöxt að fólk verji sig á bakvið tjáningafrelsi. Svona eins og kaninn ver sig á bak við stjórnarskránna. Semsagt, fólk heldur að tjáningafrelsi sé heilagt og til marks um hið góða í heiminum á meðan að ritskoðun komi frá mönnum eins og Mao, Stalin og Vigdísi Finnboga. Þetta er nú eins og með margt annað; ef hlutirnir virðast vera skemmtilega einfaldir þá er það vegna þess að þú ert vitleysingur. (Svo einfalt er það!?!?) :)
Fólk er sífellt að ganga lengra og lengra í að misnota tjáningafrelsi með það að yfirskyni að öll umræða sé af hinu góða og að upplýst fólk eigi að geta dæmt á milli rugls og visku.
Ég fór um daginn inn á vef Þjóðernissinnabjánanna til að reyna að ná af þeim tali í sambandi við málefni sem tengjast þjóðernishyggju (í þeirra tilfelli rasisma) ekki á nokkurn hátt. Þar blöstu við mér greinar, allar heimskulegar, en sumar vel skrifaðar. Og svo virðist sem að viti borið fólk hafi skrifað sumar þeirra. Þetta segir manni einfaldlega að ekki er allt, og eiginlega fæst, svo einfalt að hægt sé að gera út um það með einni setningu eins og “Tjáningafrelsi er mannréttindi”. Ef að viti borið fólk telur að fóstursonur vinafólks míns sé að menga kynstofninn af því að hann er svartur, eða að Araz, kunningi minn frá Iraq sé að gera út um menningu okkar, þá afsannast þar með kenningin að fólk geti greint á milli visku og vitleysu.
Það sem ég er að reyna að segja er; tjáningafrelsi er mikilvægur hluti af vestrænni menningu og stuðlar að frelsi og réttlæti. En sagan hefur kennt okkur að suma hluti verður að taka með fyrirvara. Það sama gildir um tjáningafrelsi.
Hugsum okkur um.
p.s. ég er ekki bendla Örvari við að vera nasisti eða að hafa misnotað tjáningafrelsið, ég þekki það bara ekki. Ég er einfaldlega að benda á að stundum þarf maður að vera rökhygginn en ekki bara að taka því sem sagt er.