Mikið rosalega er leiðinlegt að lesa greinar eftir fólk sem virðist ekki geta látið það eiga sig að skrifa greinar í einhverju æðiskasti og fylgja þá svo ótrúlegar svívirðingar um fólk að það hálfa væri nóg. Ég er sjálfur hundaeigandi þykir afar vænt um hann en undanfarið hafa greinarskrif hér gengið út á það hver geti komið með hástemmdari lýsingar á ákveðum bónda sem skaut hund sem hann taldi hafa drepið fyrir sér kindur. Að skjóta hund svona á færi og það innan bæjarmarka er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál en mér finnst fullmikið að sjá lýsingar eins og “þroskaheftur morðingi” og “geðsjúkur fáviti” steininn tekur úr þegar segir að það ætti að skjóta viðkomandi og svo framvegis. Ég tek það fram að ég þekki þennan bónda ekki neitt en mér finnst að umræða eigi að fara fram á hærra plani en þetta því þetta fer orðið í taugarnar á fleirum en mér. Það er alveg ljóst að maðurinn verður dæmdur fyrir það sem hann gerði ef yfirvöld telja það ólöglegt en mig langar að biðja fólk um að róa sig aðeins áður en það lætur frá sér svona barnalegar athugasemdir.