Ég á yndislegan Beagle hund, en ég mæli ekki með þeim við hvern sem er.
Beagle hundar eru afskaplega þrjóskir og það þarf mikla þolinmæði og vinnu til að ala þá upp. Þeir eru jafnframt óskaplega skemmtilegir, glaðlyndir, barngóðir og umframt allt fallegir.
Þetta eru að mínu mati ein skemmtilegasta hundategundin, en það er mjög mikil vinna að eiga einn slíkan.
Þeirra helstu ókostir eru þrjóskan og nefið. Það er ekki nóg að kenna Beagle hundi einu sinni að hann megi ekki fara upp á eldhúsborðið, það er ekki nóg að kenna honum það 10 sinnum, það er kannski nóg að kenna honum það 100 sinnum.
Þeir eru miklir þefhundar og nefið getur leitt þá í miklar ógöngur. Ef þeim er sleppt lausum í náttúrunni og þeir finna lykt sem er spennandi þá er stokkið af stað og öll önnur skynfæri slökkva á sér. Þegar þeir eru að elta skemmtilega lykt, heyra þeir ekki í eiganda sínum, þeir verða ekki varir við bíla sem eru að keyra rétt hjá, þeir eiga það til að stíga í gjótur eða þessháttar og misstíga sig en hirða ekki um það og hlaupa bara áfram osvfrv.
Þetta held ég reyndar að sé misjafnt á milli hunda, minn er nú eitthvað að læra að koma til mín aftur þegar ég kalla, en ég treysti ekki á það ennþá.
Beagle eigendum er ráðlagt að sleppa þeim aldrei einum út nema á öruggan stað sem þeir komast ekki út af, því að ef nefið tekur við sér þá koma þeir ekkert endilega aftur heim.
Að mínu mati eru þessir ókostir talsvert minna virði en kostirnir og þar sem fjölskyldan mín er með þeim þrjóskari í landinu, þá passaði beagle hundur vel inn á heimilið. En ég ráðlegg þér að hugsa málið vel áður en að þú velur tegundina. Margar síður á netinu segja vel frá tegundum, bæði á íslensku og ensku, þó reyndar meira á ensku. Fínt að fara á google.com og slá inn tegundarheitið og sjá hvað kemur upp.
Gangi þér vel
Kveðja
Tzipporah