Mér datt í hug að póst hérna grein af vísindavefnum um þetta. Ég veit að copy-paste er bannað en ég gat ekki náð linknum. ;(
_________________________________________________

Er einhver munur á gáfum katta og hunda? Hvort þeirra má skilgreina sem gáfaðra dýr?

Eflaust er hér um að ræða eitt allra mesta þrætuefni gæludýraeigenda í dag. Í könnun sem gerð var í Bandaríkjunum fyrir skömmu var spurt hvert fólk telji vera greindasta húsdýrið og svöruðu flestir að hundar væru það en næst í röðinni komu kettir.

En spurningin er ekki aðeins líffræðileg heldur líka heimspekileg, samanber svar Sigurðar J. Grétarssonar sálfræðings við spurningunni Hvað er greind? Sumir atferlisfræðingar hafa skilgreint greind sem hæfileikann til óhlutbundinnar hugsunar. Er þá einhver leið fyrir okkur mannfólkið að meta þetta hjá öðrum dýrum fyrst við höfum ekki neitt tæki til að mæla hugsanir? Engu að síður gæti hæfileikinn til að læra með eftirhermun (imitation) verið vísir að hæfileika til óhlutbundinnar hugsunar að mati atferlisfræðinga. Sýnt hefur verið fram á þennan hæfileika hjá öpum og köttum en ekki hjá hundum.

Önnur hugsanleg aðferð til að meta greind dýra er að meta hlutfall þyngdar heilans af heildarþyngd viðkomandi dýrategundar. Þetta hlutfall er hæst hjá okkur mannfólkinu, okkur næst koma apar og skammt á eftir þeim hvalir og höfrungar, og síðan kettir. Hundar komu nokkuð á eftir.

Ef við skilgreinum greind einfaldlega sem hæfileikann til að læra þá eru það tveir þættir sem kalla fram námshæfni. Sá fyrri er getan til að læra og sá síðari hvötin til að læra. Hjá köttum og flestum öðrum kattardýrum (að ljónum undanskildum) er hvötin ekki til staðar. Ástæðan fyrir því er sú að kettir eru einfarar og einu stefnumörkin í lífi þeirra eru tími og rúm. Einu nánu félagslegu samskiptin sem kettir hafa við aðra meðlimi sömu tegundar er á mökunartímanum og þau sem kvendýr hafa við afkvæmi sín. Kettir hafa talsverða hæfileika til náms en þeir hafa ekki félagslega hvatningu til að læra sem gerir þjálfun kattardýra einstaklega erfiða.

Hlutunum er öfugt farið hjá hundum. Þeirra aðal þáttur í lífinu eru samskiptin við einstaklinga sömu tegundar. Langflestir villihundar og úlfar eyða mestum sínum tíma í einhvers konar samskipti við aðra meðlimi ættbálksins. Þar veltur hæfni einstaklingsins á því hversu vel hann aðlagast veiðiskipulagi hópsins og samskiptum innan hans. Þessi hæfileiki sem þróast hefur meðal hunda, það er að segja hin félagslega hvatning til náms, gerir þá mjög auðvelda til þjálfunar.

Það er ekki auðvelt mál að svara spurningu sem þessari en af þeim athugunum sem gerðar hafa verið á greind dýra, meðal annars þeim sem vitnað er hér að ofan, þá virðast þær benda til þess að kettir standi hundum ofar í þessu tilliti. Samt sem áður hafa menn heilmikið svigrúm til að deila um þetta atriði enda eru hér ekki um óyggjandi sannanir að ræða heldur aðeins grófar vísbendingar.

Jón Már Halldórsson,
líffræðingur