Já, Kátur er loksins kominn heim. :) Það var ég sem átti hann áður en hann var gefinn fyrir um tveimur árum. Eins og pank sagði frá, þá var hann í pössun hjá frænda mínum og ömmu minni því ég lenti í smá húsnæðisvandræðum en vildi alls ekki láta hundinn frá mér. Því bað ég hann að hafa hann fyrir mig á meðan ég fyndi húsnæði þar sem ég mætti hafa Kát hjá mér. Svo var mér sagt seinna að Kátur væri farinn, hefði verið auglýstur í gefins dálkinum í DV og fengið gott heimili.
Það var nú aldeilis ekki ætlunin hjá mér, en það varð einhver misskilningur sem varð til þess að hann var gefinn. Ég reyndi að hafa uppi á honum án árangurs og því fór sem fór. Seinna meir sá ég hann í fréttunum með litla fuglinum sem þið sjáið á myndinni. Ég hafði samband við fréttastofuna til að reyna fá heimilisfangið svo að ég gæti allavega hitt hann og séð að vel væri hugsað um hann.. en án árangurs :( það var eitthvað lítið um svör þar, kannski mega þau ekki gefa upp heimilsföng eða eitthvað, veit það ekki.
Kátur er búinn að vera efst í huga mér síðan hann fór, í hvert skipti sem ég sá íslenskan hund sem svipaði eitthvað til hans fékk ég hnút í magann en aldrei var það hann.
Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað mér brá þegar ég sá greinina hér á huga með myndina af Kát! Ég gat ekki einu sinni hringt sjálf út af stressi um að hann væri farinn, og því hringdi kærastinn minn fyrir mig. Svo kom hann hingað heim og nú er eins og hann hafi alltaf verið hér. Hann þekkir mig enn og fylgir mér um alla íbúð. Eitt er víst að hann mun vera hér hjá mér þar til yfir lýkur :) Ég á aðra hunda og fyrst voru þeir ekkert of hrifnir af að fá nýjan meðlim í fjölskylduna en núna er allt í fínu lagi og þeir leika sér saman og eru allir orðnir vinir :)
Fyrir þá sem voru forvitnir um hvaðan hann er, þá heitir ræktandinn Guðný Halla Gunnlaugsdóttir, Búlandi Hvolsvelli.
Hann er fæddur 13.07.1998 og er undan Rosa frá Húsatóftum 97-4568 og Prúð 90-1989.
Ræktunarnafn hans er Gerplu-Reykur en ég held að Kátur henti honum best :)
Ég vil sérstaklega þakka pank fyrir að setja inn þessa grein hér um Kát. Án þín hefði hann ekki komist aftur heim. Ég get ekki lýst því hversu ánægð ég er að fá hann aftur og ég mun hugsa vel um hann það sem eftir er :))
Bestu þakkir fyrir mig og mína,
kveðja, T.