Hundakyn vikunnar: Dalmatian Ég ætla að gera heiðarlega tilraun til að kynna hérna Dalmatian hunda, og vona að mér takist það skammarlaust úr hendi.

Flestir hafa séð svona hund, í bíómyndunum hundalíf, eða 101 dalmatians, og er ég oft stoppuð af börnum þegar ég er úti að labba með hund tengdamóður minnar, sem er af þessu kyni (hundurinn sko, ekki tengdó) og spurð hvort að þetta sé Pongo eða Perla út Hundalífi :)

Þetta kyn er talið eiga rætur sínar að rekja aftur til uþb. 1600, voru þá til hundar sem hétu Bengal Pointer í Englandi, sem taldir eru vera forfeður dalmatíuhundsins eins og hann er í dag.
En uppruni þeirra er mjög umdeildur og ég nenni ekki að fara út í það hérna.
Á miðöldunum voru þeir notaðir sem veiðihundar, en upp úr 1800 var farið að nota þá sem varðhunda. Þá hlupu þeir meðfram hestvögnum og vöruðu ekilinn við hættum, svosem ræningjum sem oft lágu í leyni við veginn til að ræna vagninn.
Þá pössuðu hundarnir einnig vagninn og hestana á meðan eigandinn brá sér frá.
Þeir voru rómaðir á þessum tíma umfram önnur hundakyn fyrir það hvað þeir héldu vel í við eiganda sinn, hvort sem hann var fótgangandi, á hestbaki eða í hestvagni.

Þetta hundakyn hefur geysilegt úthald, og finnst gaman að hlaupa, og þeir kunna ekki vel við að sitja og gera ekkert.
Það er hægt að þjálfa þá þónokkuð mikið, og hafa þeir meðal annars verið notaðir sem sirkushundar, og voru á sínum tíma lukkudýr slökkviliðsmanna.
Þeir hafa sterkt varðeðli, og það er auðvelt að þjálfa þá sem fínustu varðhunda.
Þeir þurfa einnig mikinn félagsskap, annars er hætt við að þeir verði hreinlega þunglyndir, því þetta er skapmikið, fjörugt og tilfinningaríkt hundakyn.
Flestir hundar af þessu kyni finnst gaman að börnum, en þeir eru þó of fjörugir til að vera í kringum ungabörn, þó að það fari vitanlega eftir hverjum hundi fyrir sig.
Þeim kemur einnig vel saman við flest önnur gæludýr, en eiga það til að vera grimmir í garð annara hunda, sérstaklega þá karlhundarnir.
Þeir þurfa þónokkuð strangann aga, til að þeim líði vel, en þeir hafa einnig frábært minni, muna eftir því að ævilöngu hverjir hafa farið illa með þá.
Þeir eru taldir vera meðalgreindir miðað við allar hinar hundategundirnar í heiminum.

Þeir fara þónokkuð mikið úr hárum, og það þarf að kemba þeim daglega til að hafa stjórn á hárlosinu hjá þeim.
2 sinnum á ári eru hárskipti hjá þeim, og þá er oft rosalega mikið hárlos (það þekki ég af eigin reynslu)
Það er engin “hundalykt” af þessu kyni, og þeir eru svona frekar snobbaðir, td forðast oft að stíga í polla og þessháttar.
Dýralæknar hafa mælt með próteinlitlum mat fyrir þetta kyn til að koma í veg fyrir þvagsteina, og hafa stjórn á hárlosinu.

Þetta kyn er ekki talið hentugt fyrir þá sem eiga heima í blokk eða lítilli íbúð, þeir þurfa frekar mikið pláss, og helst garð til að leika sér í.
Þeir þurfa líka að hlaupa helst á hverjum degi, ef ekki, þá þarf að labba með þá í langa hressilega gönguferð.

10-12 % af hvolpum sem fæðast af þessu kyni fæðast með heyrnarvandamál, og þurfa væntanlegir kaupendur að hafa augun opin fyrir því, og láta dýralækni skoða þá áður en kaupin fara fram.
Dalmatíuhundar eignast líka stór got, allt uppundir 15 hvolpa, það er því oft mikið fjör þegar Dalmaratík gýtur.
Það þarf að ala þá vel upp til að þeir verði ekki grimmir í garð annara en heimilisfólks, þeir eru ekki grimmir í eðli sínu, en þónokkuð eigingjarnir og krefjandi á eigendur sína, þannig að það þarf að setja þeim skýrar línur frá upphafi til að forðast vandræði í framtíðinni.

Meðalstærð hunda er 50-60 cm á herðakamb og meðalstærð tíkanna er 50-55 cm á herðakamb.
Þeir eru oftast í kringum 25 kílóin fullvaxnir.
Lífslíkur þessa kyns eru í kringum 10-12 ár, þó dæmi séu um að þeir hafi orðið 20 ára.


Þá læt ég þessari stuttlegu kynningu á Dalmatíu hundum lokið.
Ég þigg allar viðbætur og leiðréttingar ef þeirra er þörf, ég er því miður ekki alvitur um þetta kyn, og vel verið að það leynist einhverjar villur þarna inn á milli.

Þessi grein er að mestu unnin upp á www.dogbreedinfo.com en einnig frá því sem ég þekki af þessu kyni, og öðrum heimasíðum sem ég læt vera að telja hér upp.

Vona að þið hafið haft gaman að.

Kær kveðja,
Zallý
———————————————–