Þegar ég var 10 ára gamall ákvað ég og fjölskylda mín að fá okkur hund. Við leituðum í dagblöðum og hvaðeina að einhverjum hvolpi og loks fundum við einn. Við fórum til eigandans og hann afhenti okkur hvolpinn.

Seinna reyndum við að finna nafn á hvolpinn og var það mikil raun að finna nafn á veslings greyið.
Fundum við loks nafnið “Tína” og vorum nokk ánægð með það.

Núna sl. vikur þegar ég er 16 að verða 17 ára gamall hefur Tína verið eitthvað veik (haltrandi, titrandi ofl.) og ákváðum við að fara með hana til dýralæknis og láta athuga hvað væri að henni.
Fór ég í vinnuna mína og pabbi fór með Tínu til dýralæknis.

Þegar ég kem heim úr vinnunni ágætlega glaður og í góðu skapi er pabbi kominn heim.
Ég geng inn og spyr hann hvað hafi verið að Tínu og hann segir mér að hún hafi verið blind og hafi nýlega fengið heilablóðfall og hann varð að láta lóga henni, annars myndi hún bara kveljast þangað til hennar tími væri kominn að deyja.

Þetta er hundur sem ég er búinn að eiga í 6-7 ár og var að frétta núna áðan að það væri búið að lóga henni.

Ég á það ekki til í orðum hvað mér líður illa.
Gaui