Já en fáum við ekki einhverja góða sögu af hundinum?
Svo ég segi smá af hundinum mínum þá var hann alltaf á lóðaríi af því hann var ekki geldur. Í fyrsta skipti sem hann fann lykt af tík þá grét hann alla nóttina af því hann fékk ekki að komast út. Svo lærði hann að opna hurðir og ef það var ekki læst, þá var hann farinn. Líka mjög duglegur að skjóta sér út ef einhver opnaði og hlýddi þá engu. Stundum gerði hann sér upp æluhljóð til þess að fá einhvern til að opna strax af því maður vildi ekki að hann myndi æla á gólfið, svo þegar maður var kominn í skó og bjóst við að finna hann ælandi úti í garði eða að éta gras þá var minn bara farinn.
Alla vega þá hvarf hann einu sinni í 3 daga. Við vissum ekkert hvar hann var, leituðum út um allt hverfi. Svo er hringt heim og beðið um að ná í hundinn. Bróðir minn fór og þá frétti hann það að litli voffinn okkar hefði haft umsátur um húsið þar sem tík var á lóðaríi. Hann hafði rekið burtu hunda sem voru miklu stærri. Tíkareigandinn hafði reynt að veiða hann í net með félaga sínum en þeim tókst það ekki og eftir það var ekki viðlit að koma með netið nálægt honum. Þá hringdi hann í lögguna og hann sagðist hafa grátið af hlátri við að horfa á lögguna reyna að ná honum en alltaf slapp hann. Þeir komu með mat og þeir reyndu að ná honum með tíkinni en allt kom fyrir ekki. Á þriðja degi voru þeir farnir að tala um að skjóta hann en þá kom strákurinn með DV og þekkti voffa, enda bar hann út líka í okkar götu. Þá var hringt heim. Þegar bróðir minn mætti á svæðið þá kom hundurinn strax til hans og þó honum væri hótað sekt fyrir að hann hefði sloppið þá gerðist það ekki. Ég hugsa að þeir hafi bara ekki haft forsendur fyrir að sekta okkur fyrst þeir náðu honum ekki sjálfir.
Annað skipti kom fólk með hann heim og var frekar fúlt. Hann hafði þá komið að húsi þar sem tík var inni og prófað að opna hurðirnar. Ein var opin svo hann labbaði inn og settist þar og urraði á alla sem komu nálægt honum. Þetta var því miður ekki íbúðin sem tíkin átti heima í þannig að hann missti af fjörinu. Fólkið sem átti íbúðina kom á hann böndum að lokum og skilaði honum heim og fannst mér það bara hefði lært ágæta lexíu að hafa útidyrnar læstar. Þetta var alla vega bara hundur sem kom inn, hefði alveg eins getað verið ofbeldishneigður dópisti. Alla vega hljóta þau ekki að hafa verið mjög ill yfir þessu, annars hefðu þau látið lögguna hirða hann.
Svo var svolítið sorglegt að horfa upp á þegar hann fór að eldast og fór að tapa bardögum um tíkur og koma bitinn heim en svona er lífið. Ég þurfti síðan að lóga honum fyrir nokkrum árum þar sem hann var orðinn gamall og veikur. Hann var þá um 14 og hálfs árs.
Alla vega finnst mér hundurinn minn hafa verið það klár að hann nær ábyggilega að verða maður í næsta lífi. Ábyggilega einhver slyngur bisnessmaður, góður í að plata fólk ;) Eða kannski innbrotsþjófur, hver veit.