Ég er sammála því að allir eigi að merkja hundana sína. En ég týndi hundinum mínum, fyrir stuttu síðan og þá gerðist margt sem ég hafði ekki reiknað með.
Ég var að viðra hundinn minn í hundahólfinu í Öskjuhlíðinni. Ég missi hundinn þegar ég er að setja hann inn í bílinn og hann þýtur í burtu og gegnir engu. Ég elti hann upp í Fossvogskirkjugarð en missi þar sjónar á honum. Ég leitaði að honum langt fram á kvöld en ekkert sást til hundsins. Við vorum orðin ansi mörg að leita að honum. En svo var komið niðamyrkur og ég held heim. Og þá hringdi ég á alla staði sem mér kom til hugar, til að tilkynna að hann væri týndur. Ég hringdi á Hundahótelið á Leirum, lögregluna, reyndi að ná í hundaeftirlitsmennina í Reykjavík og Kópavogi ( án árangurs ), og í Dýralæknastofuna í Garðabæ. Ég vil taka það fram að hundurinn er bæði örmerktur og er með leyfisspjald með númerinu hans á, á hálsólinni.
Hundurinn týndist á föstudegi og ég var alla helgina að reyna að ná í hundaeftirlitsmennina. Loksins á sunnudeginum næ ég sambandi við hundaeftirlitsmanninn í Reykjavík, en hann hafði ekkert heyrt. Hann sagði mér að halda áfram að reyna að ná í hundaeftirlitsmanninn sem sér um Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Og á mánudagsmorgninum næ ég loks í hann og viti menn - hundurinn minn var hjá honum. Ég spyr auðvitað um leið af hverju hann hafi ekki kíkt á númeraplötuna á ólinni á hundinum eða látið skanna hundinn til að athuga með örmerkingu??? Og hann svarar því að það sé bara ekki í hans verkahring og að hann hefði sko lógað hundinum innan viku, ef ég hefði ekki vitjað hans!!! Ég varð að sjálfsögðu kjaftstopp og spurði hvers vegna í ósköpunum ég væri þá að láta örmerkja hundinn og skrá hann - úr því að hann kanni ekki þessa hluti og ætli bara að lóga merktum hundi??? Og hann endurtók að þetta væri bara ekki í hans verkahring - það væri á mína ábyrgð að finna hundinn minn.
Ég er mjög á móti lausum hundum, en það getur alltaf komið fyrir að maður missi og týni hundinum sínum. Guð hjálpi fólki sem týnir hundinum sínum og kannski dettur ekki í hug að hringja á hundaeftirlitsmanninn í Kópavogi.
Ég hef sjaldan orðið eins undrandi og á vinnubrögðum þessa manns. Ég auðvitað hvet alla til að merkja hundana sína og gæta þeirra vel. En ef þið týnið honum - ekki reikna með að það verði hringt í ykkur þó að hundurinn sé merktur!!
Kv,
Baski.