Ég bauðst til að passa hund fyrir ættingja. Þar sem við erum mikið að pæla í að fá okkur hund fannst okkur þetta kjörið tækifæri til að sjá hvernig þetta kæmi út, auk þess sem enginn annar var tilbúinn að taka hundinn í 3 vikur (jafnvel lengur).
Ættinginn þurfti að fara frá vegna veikinda og það var lítill tími til að leyfa hundinum að aðlagast. Nú er hann búinn að vera hjá okkur í 5 daga og ég er farin að hafa miklar áhyggjur af honum. Hann borðar varla og rétt fær sér sopa og sopa að drekka. Hann situr fyrir framan útidyrnar og fæst ekki til að koma lengra inn. Ef við svo ætlum út með hann þá virðist hann bara vera að leita að leiðinni heim til sín. Í dag var hann að vísu búinn að gefast upp á því og drattaðist bara á eftir manni. Svo þegar maður ætlar inn með hann aftur þarf maður að ýta á eftir honum inn. Á nóttuni er hann ýlfrandi (samt mjög hljóðlega) svona eins og hann sé að væla. Það er eins og hann sé gjörsamlega búinn að gefast upp á biðinni og á lífinu.
Í gær hringdi ég svo í son eigandans (býr úti á landi) til að athuga hvort hann ætti einhver ráð handa mér. Hann þekkir því miður hundinn sama sem ekkert þar sem hann var fluttur að heiman áður en pabbi hans fékk sér hundinn. Hann sagði að þetta væri í fyrsta skiptið sem þeir væru aðskyldir í meira en heilann dag, þrátt fyrir að hundurinn væri orðinn 11 ára. Hundurinn fer alltaf með eigandanum í vinnuna og er svo heima hjá honum á kvöldin. Um helgar fara þeir svo að veiða eða í sumarbústað. Sem sagt bestu vinir. Einnig sagði hann að hundurinn væri óvenju hændur að pabba sínum og að það væri stundum erfitt að koma með barnabörnin í heimsókn þar sem hundurinn ætti það til að vera mjög erfiður vegna afbrýðisemi út í þau og eigandan.
Sem sagt þetta virðist vera mjög svo erfiður aðskylnaður fyrir hundinn. Svo ég var að velta fyrir mér hvað væri hægt að gera til þess að auðvelda hundinum biðina og að minsta kosti fá hann til að borða meira og aðeins að gleyma þessari miklu sorg..
Fyrst var ég að vona að tíminn mundi lækna sárin, en mér finnst hann ekki skána neitt með tímanum.. Hef einnig verið að reyna að spjalla við hann en hann vill bara ekki sjá mig (skrítið)…
Einhverjar uppástungur?
kveðja telma
ps. þetta er Golden og hann er að verða 11 ára að ég held.