Mamma var þá kasólétt af litla bróður mínum, komin 7 mánuði á leið og var ekki alveg á því að taka að sér hund líka en viti menn, mamma kom með mér, kíkti á hvolpanna og féll. Sérstaklega fyrir einum þó ekki þeim sama og ég féll fyrir og guð hvað ég er feginn að hún valdi sjálf hundinn því annars hefðum við ekki eignast þennan frábæra og yndislega Labrador hund sem Basli var.
Basli var bestur, við rúlluðum oft um í grasinu og snjónum meðan við slógumst, hann beit aldrei heldur bara ýtti manni til og frá og ég honum, þannig gátum við leikið okkur heil lengi. Basli var einnig mjög klár og fann alltaf á sér hvernig manni leið. Hann tók þátt í gleði okkar og sorg. Alltaf var hann til staðar tilbúinn að knúsa mann og hugga, hlaupa með manni, stela ísnum manns eða slást um tóma kók flösku. Öllum börnum var hann góður og fengu þau að skoða hann eins og þau vildu, Basli lagðist þá niður og horfði á mann með svip sem sagði allt: “Take them away, please take them away”.
Kisur elskuðu hundinn minn og á síðustu 2 árum flutti 2 kettir heim, ég held því fram að þær hafa flutt inn til Basla því þær sváfu alltaf ofan á hundinum og núna síðustu mánuðina dúlluðu þær sér við að snyrta eyrun hans og reyna að halda honum fínum því greyið var komin með svo mikla gigt að hann átti erfitt með það sjálfur.
Basli var voða duglegur að reka á eftir mér í rúmið, hann kom þá fram, ýtti í mig með trýninu og gekk af stað að svefnherberginu mínu, stoppaði og leit við eins og hann vildi segja: “Hey, ertu ekki að fara að koma?” og svona gat hann látið alveg þangað til að ég drattaðist inn í herbergi, þá skriðum við bæði upp í litla einbreiða rúmið mitt, hann upp við vegginn með bakið í mig. Og oftar en ekki vaknaði ég við það að Basli væri að spyrna fótunum í vegginn og ýtti mér þannig hægt og rólega niðrá gólf.
Við áttum margar góðar stundir kall, allir göngutúrarnir sem þú fórst með mig í, fjallgöngurnar okkar, hundafimi tímarnir, mér fannst svo leiðinlegt að geta ekki farið með þig í fjallgöngur þegar þú fórst að fá gigtina og sjónin fór að hraka, guð minn góður hvað síðasti göngutúr var erfiður, þú heyrðir ekki neitt gamli heyrnaleysinginn minn og svo daginn eftir ertu bara farinn. Hver á að sofa upp í hjá mér núna og vekja mig til að fara út að pissa? Hver á að henda mér fram úr og horfa á mig svo skilnings sljóum og svefn drukknum augum þegar ég bölva því að þú hafir stolið koddanum og sænginni? Hver á eiginlega að stela koddanum? Basli hvernig á ég að fara að því að fela kjötið sem mamma eldar núna þegar þú ert ekki undir stólnum mínum til að éta það? Jesús minn hvað ég sakna þín elsku höfðinginn minn.
Basli kvaddi í kvöld, þann 25 júlí. Dýralæknirinn í Mosfellsbæ kom heim og gaf honum sprautu. Hann stóð upp, pissaði fékk sér aðeins að drekka og lagðist svo á teppið sitt fyrir framan sjónvarpið þar sem hann sofnaði svefninum langa. Við komum honum fyrir í kistunni sem við létum sér smíða fyrir hann og keyrðum með hann upp í Borgarfjörð þar sem hann hvílir nú í sumarbústaðarlandi fjölskyldunnar.
Hvíl í friði elsku kall.
Við sjáumst svo seinna.
Að hafa skoðun er réttur allra. Ég á mínar og þú átt þínar, þú mátt tjá þig um þínar skoðanir en ekki þröngva þeim upp á mig