Sagan hans Patta hefst í Grafarvoginum en hann er sonur Perlu; blöndu af Border Collie,Labrador og Íslenskum fjárhundi: og Kols sem er einnig af sömu blöndu og Perla. Þetta gerir Patta að einskonar “hreinræktuðum” blendingi. Hann kom í heiminn þann 7.júlí 2002 ásamt bróður sínum Gola og systur sinni sem lést í goti.
Ég hitti Patta fyrst heima hjá vinkonu minni sem átti Perlu þegar hann var þriggja daga gamall og ég mun aldrei gleyma þeim degi. Hann var svo lítill og varnalaus greyið. Ég þurfti að sannfæra foreldra mína um að taka hann að okkur en eftir smá tíma með hann í höndunum var málið ákveðið. Ég horfði á hann byrja að labba og smám saman fá sjónina og svo þegar hann var 6 vikna gamall kom hann til okkar að búa (við tókum hann snemma vegna vandræða í uppeldinu hjá Perlu, en hún var mjög ung þegar hún átti þá).
Í fyrstu svaf hann uppí hjá mér því hann vældi alltaf á gólfinu og svo þegar hann vandist nýja heimilinu lærði hann að lúra í bælinu sínu. Hann hefur alltaf verið mjög þrjóskur og tók það svolítið á að venja hann af því að gera þarfir sínar á gólfið og færa slíkt út fyrir hússins dyr.
Þeim áfanga var náð á endanum en allan tímann sem hann var hjá mér var hann mjög sjálfstæður og var ekkert mjög hrifinn af því að hlýða kalli okkar. Prakkarinn í honum var aldrei langt í burtu og fannst honum rosalega gaman þegar hann slapp út. Svona gekk lífið í 2 ár í blíðu og stríðu vorum við vinir og alltaf svaf hann til lappa hjá mér og yljaði mér á tánum þegar ég kom upp í rúm á köldum vetrarkvöldum. . Og ég hlustaði á hann hrjóta og ímyndaði mér hvaða draumar væru að fljúga í gegnum hausinn á honum. Hann var alltaf duglegur að leggja hausinn á sér á kjöltuna mína þegar ég var að borða og slefa hressilega. Það endaði yfirleitt með að ég horfði í grátbiðjandi augun hans og lét undan. Hann kom með okkur í útilegu um Verslunarmannahelgina þar sem hann fékk að hlaupa laus og ekki fannst honum það leiðinlegt.
Svo um haustið árið 2004 ákváðum við að flytja. Varð blokk fyrir valinu svo að við tókum ákvörðun um að finna betra heimili fyrir hann Patta minn. Mér fannst þetta mjög leiðinlegt en samt var þetta rétt ákvörðun. Ég hefði ekki viljað horfa upp á hann í blokk og ég á leiðinni í menntaskóla. Hann fékk fínt heimili á bóndabæ rétt hjá Höfn í Hornafirði hjá eldri konu. Þar fær hann að hlaupa laus um og leika sér við hinn hundinn á bænum.
Ég fór svo í heimsókn til hans sumarið eftir að hann fór frá mér og það var æðislegt að hitta hann. Hann hoppaði upp um okkur öll og gat ekki setið kyrr. Ég var glöð að sjá hvað hann var ánægður þarna, konan virtist blíð og góð og mér leið betur með ákvörðun okkar. Þetta er hundur sem ég mun aldrei gleyma og ég er þakklát fyrir að hafa átt hann að í þessi tvö ár sem hann var hjá mér.
Takk fyrir
Thelmia :)