Jólin ’05 voru sennilega þau skemmtilegustu hingað til en þá fengum við Labrador hvolpinn Týru til okkar. Hún var allt sem við hefðum getað óskað okkur, blíð, góð, félagslynd og alltaf kát. Eftir því sem vikurnar liðu urðum við hændari henni og hún hændari okkur, hún varð fjölskyldumeðlimur. Myndirnar af okkur með henni tala sínu máli, við vorum svo stolt af þessu litla dýri.
Hún var ung og lofaði góðu, hún mjög fljót að hlaupa og þótti ekkert skemmtilegra en að sækja bolta og annað dót sem við hentum eins langt og við gátum. Hún var vel synd og fannst svo gaman að fá að synda smá, enda var hún farin útí næstu á eða næsta vatn ef hún mögulega gat.
Henni fannst gott að láta klappa sér og láta kjassast með sig og ef maður hætti bað hún alltaf um meira. Hún var þó oft óþekk, svona eins og gengur og gerist, en varð alltaf mjög skömmustuleg ef maður skammaði hana eða þegar hún gerði eitthvað sem hún mátti ekki gera. Hún var dugleg við að stinga af ef hún fékk að vera smá laus fyrir utan húsið en kom þó alltaf stuttu seinna til baka hálfskömmustuleg.
1. júní er sorglegasti dagur sem ég hef upplifað þessi tæp 18 ár sem ég hef lifað. Ég kom heim í góðu skapi með ostborgara í annarri og bragðaref í hinni. Þegar ég kem heim sé ég tvo vinnumenn hjá henni Týru minni þar sem hún liggur alveg kyrr og litla systir mín er hágrátandi inná gangi. Ég skil ekki neitt í neinu og held fyrst að hún hafi gleypt eitthvað og að þeir hafi verið að hjálpa henni. Ég fer og hugga litlu systur mína sem segir við mig með ekka “Ég held hún sé dáin!” og svo grætur hún meira. Ég fer þá fram til Týru og mannanna og horfi á lífvana hundinn minn. Annar lítur á mig og segir “Ég held hún sé bara farinn.” Hann hlýtur að vera að plata, hugsa ég og krýp yfir Týru minni. Ég klappa henni, hún er enn heit, en hún andar ekki. Augun eru opin og munnurinn hálfopinn og tungan lafir út. Pabbi kemur svo heim og sendir vinnumennina aftur í vinnu, hann krýpur við hlið Týru nuddar á henni hausinn og hvíslar “Af hverju gerði hún okkur þetta?”.
Týru var skutlað uppá Keldu þar sem hún verður krufin. Við vitum ekki hvað gerðist eða hvers vegna hún hætti að anda. Hún var aðeins 7 mánaða og það sást ekkert utan á henni sem gaf til kynna af hverju hún dó. Spurningarnar hringsnnúast í kollinum á okkur og við veltum því fyrir okkur hvort við hefðum geta gert eitthvað, hvort við hefðum geta komið í veg fyrir þennan ótímabæra dauða hennar.
Við leitum núna af öðrum ljósum labrador hvolpi til að fylla skarð hennar. Ef einhver veit um lausa hvolpa má hann endilega láta mig vita.
Hvíld í friði Týra mín. Fædd 7. nóvember 2005. Dáin 1. júní 2006.
Meðfylgjandi mynd er frá því á jólunum, þegar við vorum nýbúin að fá hana.