Margir hundaeigendur kannast við þá sjón að hundur
(í flestum tilfellum karlhundur, en þó sést slík
hegðun hjá einstaka tíkum) stekkur uppá aðra hunda
og riðlast á þeim einsog um pörun sé að ræða. Þegar
slíkt skeður fara sumir hundaeigendur hjá sér og grípa
inní, en aðrir standa bara og brosa og stæra sig af því
að hundurinn þeirra hafi svo sterka kynhvöt og láti
þess vegna svona. Það er rétt að slík hegðun getur í
sumum tilfellum verið tengd kynhvöt, en ástæðurnar
geta verið fleiri, og sumar eru með öllu ótengdar
kynhvöt. Hundur sem stundar þessa hegðun mikið,
jafnvel í hvert sinn sem hann mætir öðrum hundi,
er talinn hafa mjög afbrigðilega hegðun, og hún
orsakast af sálrænum truflunum.
Raunhæfasta skýringin er sú að hundinum finnst hann á
einhvern hátt vera bældur, eða hann vil með slíkri
hegðun sýna yfirburði sína og drottnunargirni. Sumir
hundar ráðast einnig á mannfólk og fara að riðlast á
fótum. Það sýnir einnig drottnunargirni og virðingarleysi
við manninn. Í þeim tilfellum á maðurinn hins vegar
alla sökina og verður að gera hundinum skiljanlegt að
hegðunin er óæskileg og ekki við hæfi. Til er einnig
mannfólk sem reynir að ýta undir þessa hegðun hjá
hundinum með því að reyna að örva kynfæri hundsins með
fótunum, og finnst þessu fólki það sniðugt og hlær af
öllu saman. Varla er hægt að telja að slíkt fólk hafi
heilbrigða skynsemi.
Önnur kenning er sú, að hundar, sem hegða sér á þennann
hátt hafi verið teknir of snemma frá móðurinni. Til að
sanna þessa kenningu hafa verið gerðar tilraunir með tvo
hópa af hvolpum, annar hópurinn var tekin frá móðurinni
fljótlega eftir got og alinn af mannahöndum, en hvolparnir
í hinum hópnum ekki teknir frá móðurinni fyrr en þeir voru
hættir á spena. En það er talið að þessi tilraun hafi
ekkert sannað í þessu máli. Því að hegðunin kom upp hjá
hvolpun úr báðum hópunum. Þó voru öllu fleiri tilfelli hjá
hópnum, sem var strax tekin frá móðurinni. Hefur því verið
talið að slík “ranghegðun” stafi af of litlum samskiptum
hunda á milli á unga aldri.
En hver sem ástæðan kann að vera ætti að banna hundinum
slíkt riðl. Það eina sem hægt er að gera í slíkum tilfellum
er að grípa stöðugt inní og stöðva þessa hegðun hundsins,
en það er talið nánast útilokað að venja hann algerlega af
henni.
Tekið orðrétt úr bókinni “Hundalíf” eftir Guðrúnu Petersen