Dobermann - bara hundar! Kæru lesendur.

Við hundaeigendur af hundakyninu Dobermann höfum átt í höggi við fordóma í garð tegundarinnar sem jaða við ofsóknum. Hundar eru yfirleitt ekki fréttaefni hér á landi, nema þegar þeir eru af kynjum á við Dobermann og hafa gert eitthvað af sér. Þá er þeim umsvifalaust slegið upp sem æsifrétt og fólk hrópar “úlfur, úlfur” eða í okkar tilfellum “vígahundur”. Fréttamenn keppast um að gera fordómana hjá almenningi enn verri og pólitíkusar sjá sér leik í því að krækja í fleiri atkvæði með því að fordæma tegundina. Þetta eru hundarnir okkar sem leika við börnin okkar og börn nágranna, hundarnir sem ylja okkur á tánum á kvöldin þegar við sitjum við sjónvarpið. Okkar bestu vinir.

Við höfum fengið nóg. Við viljum fá víga- forskeytið af tegundinni okkar og hafa þá sem bara hunda. Við viljum geta farið í göngutúr um hverfið okkar án þess að á okkur sé hrækt. Sitja við sama borð og aðrir hundaeigendur og þurfa ekki að vera í felum með fjölskyldumeðlimi okkar.

Í þessu skyni var sett upp heimasíða sem er að mestu byggð á myndum af Dobermann hundum í sinni réttu mynd – sem fjölskyldu dýr. Þar eru myndir af Dobermann með börnum og öðrum dýrum og við leiki. Myndir sem sýna að Dobermann eru bara hundar! Ósk okkar er sú að fá viðurkenningu á vinum okkar í þjóðfélaginu og fólk fari að líta á hundana okkar öðrum augum en það hefur gert hingað til. Vonandi sjá einhverjir það sem þeir hefðu ekki ímyndað sér áður og gefi okkur örlítið meira svigrúm til að vera bara eins og hverjir aðrir hundaeigendur.

Dobermann, bara hundar! www.bara-hundar.tk

Fyrir hönd Dobermann eigenda,
Begga
- www.dobermann.name -